Wednesday, March 07, 2007

Færzla 701

Þetta er færzla nr. 701 hér á bloggernum. Hún er líklegast sú síðasta.

Kíkið á http://ingvarvalgeirs.blog.is/blog/ingvarvalgeirs/ til að lesa meira röfl eða bara klikkið hér.

Blessó.

Röfl og skemmtilegheit

Jú, ekki er í heimi hér eintómt volæði og bull. Margt er alveg frábært.

Eldri-Sveppur var hjá mér um sl. helgi og endaði að sjálfsögðu á því að vera barnapía allan tímann og hitti pabba sinn varla neitt. Við náðum þó að góna á The Departed, sem er jú eðalræma í alla staði og mælum við báðir endalaust með henni.

Á laugardaginn lék ég og söng einn míns liðs á Sportbarnum í Jafnaseli, sem gæti talist vera hverfispöbbinn minn. Það var bara nokkuð gaman, sérstaklega eftir að Svenni barþjónn mætti á svæðið og tók á því. Gott ef kerlingin mín mætti ekki líka ásamt samstarfskonu sinni, alveg á sneplunum. Þannig er hún jú líka skást, híhíhí.

Tuesday, March 06, 2007

Allir í hring!

Ég er farinn að hata Blogger mikið.

Friday, March 02, 2007

Fös

Sit hér heima með Litla-Svepp veikan og er að fara að smíða hakk og spaghettí. Gaman að því. Drullast svo til vinnu á eftir.

Dr. Gunni á það til að komast skemmtilega að orði. T.d. (nú er ég kannski að brjóta einhver höfundarréttarlög, en hann lemur mig þá bara) þegar hann sagði nýverið:

"26.02.07
Í gær var dagurinn sem VG varð aftur að 10% flokki. Það gerðist þegar Agli Helgasyni tókst glottandi og lúmskur að veiða það upp úr foringjanum að hann myndi gjarnan koma upp "netlögreglu". Steingrímur var auðvitað of heyrnarlaus af jarmi jákórs helgarinnar og móðursjúku helgislepjunni síðustu daga til að fatta hvaða fasísku vitleysu hann var að láta út úr sér. Einmitt, netlöggu! Svona eins og í Kína. Og banna svo bara allt klám. Svona eins og í miðausturlöndum. Vei frábært."

Annars er Eldri-Sveppur hjá mér yfir helgina, ég er að spila á hverfisbar í Breiðholtinu annað kvöld, Sportbar eitthvað á efri hæð dekkjaverkstæðis. Vonandi verður gaman að því. Breiðhyltingar fjölmennið. Aðrir geta þambað hægðir.

Hvað um það, lag dagsins er Hliðrænt barn með hljómsveitinni Flýtir. Upptakan er lífs.

Thursday, March 01, 2007

Ammælis

Hann á ammælídag
Hann á ammælídag
Hann á ammæl´ann BJÓ-HÓR
Hann á ammælídag!

Bjórinn er átján vetra hérlendis. Sala hans var leyfð hérlendis 1. mars 1989, þrátt fyrir harða andstöðu þeirra vinstrimanna sem þið eruð að fara að kjósa yfir ykkur bráðlega.

Hugsið ykkur, eftir aðeins tvö ár má bjórinn kaupa sig sjálfur!

Í tilefni dagsins ætla ég að fá mér einn í kvöld. Drekka svo flösku af smjörsýru og fara á tælenska karlhóru á eftir, því eins og allir vita ruglar bjórinn dómgreindina.

Tuesday, February 27, 2007

Vinstri galnir

Mér finnst alveg svakalega fyndið að allir á fjölmennu landþingi Vinstri grænna hafi komið á einkabíl á þingið. Ekki fótgangandi, nú eða með strætó, sem þó er flokknum svo hugleikinn að fulltrúa flokksins í borgarstjórn fannst allt í lagi að ljúga til um kostnað við rekstur SVR til að koma ekki óorði á fyrirtækið.

Annars finnst mér þetta fyndið, þó svo höfundurinn sé ekki ofarlega á jólakortalistanum mínum.
Samt ekki fyndið, eiginlega sorglegt, sökum þess að þetta gæti farið í gang eftir aðeins fáa mánuði.

Eins og einhver sagði - þetta er vatnsmelónupólítík - þetta á kannski að heita grænt að utan, en innvolsið er rautt.

Ég er bara oggolítið fúll vegna þeirrar forsjárhyggju sem nú virðist, illu heilli, vera að komast í tísku. Allir landsins pólítísku lýðskrumarar virtust sammála um að banna fólki að koma til landsins vegna þess að þeim líkaði ekki vinnan þeirra. VG bæta um betur og vilja lög gegn nagladekkjum og vilja internetlögreglu. Boð og bönn við öllu, sem þeim finnst ekki við hæfi. Þú mátt ekki velja sjálfur hvað þú vilt gera, það er valið fyrir þig - og íslenskt samfélag skýst áratugi aftur í tímann.

Vegna þessa er aukalag dagsins hér. Textinn er við hæfi, sérstaklega parturinn:

"They say there are strangers who threaten us,
Our immigrants and infidels.
They say there is strangeness too dangerous
In our theaters and bookstore shelves.
Those who know what's best for us
Must rise and save us from ourselves
".

Gargandi snilld, en illu heilli ekki fjarri raunveruleikanum hérlendis.

Lifið heil og ég elska ykkur öll í kór. Drekkiði lakk.

Norður og niður

Fór norður til ma og pa um helgina. Lék svo fyrir almennri drykkju á Café Amour, sem er nokkuð vinalegur staður hvar ekki má reykja. Það er gott ef maður sé að syngja, sko. Gekk bara nokkuð vel, allavega svo vel að ég er að leika þarna aftur helgina fyrir páska. Jibbí. Drykkja var samt fulllítil, reyna að gera betur næst.

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja meira um klámhundaráðstefnuna og það allt, en eitt vil ég segja - Þórhildur Elín, sem oft röflar á baksíðu Fréttablasins, hélt því fram í pistli sínum í síðustu viku að kannanir hefðu sýnt að meirihluti klámmyndaleikkvenna hefði orðið fyrir misnotkun í æsku og væru háðar fíkniefnum. Þetta átti víst að réttlæta fasíska framkomu almennings, stjórnvalda og loks hóteleigenda í garð þessa fólks. Ég hef oft heyrt talað um þessar kannanir þó svo femínasistar verði kjaftstopp (þá sjaldan það gerist) þegar á að sýna þessar kannanir, nú eða bara segja frá hver framkvæmdi þær. Veit það einhver? Eru þessar kannanir raunverulegar eða er þessi Þórhildur sek um fréttafölsun? Gæti hún bent á einhverjar svona kannanir?

Ég bara spyr...

Svo er Youtube að fara að loka á höfundarréttarvarið efni. Það er í sjálfu sér ágætt, þó svo að ég vilji setja samasemmmerki milli tilveru Youtube og aukinna kaupa á tónlistardiskum á mínu heimili. Því hendi ég inn lagi dagsins, kannski í síðasta skipti frá þessari ágætu síðu, hver veit?

Og svo annað, svona fyrir Kidda Sneril og aðra Counterparts-menn.

Hvað um það, ég er að spila á Dubliner í kvöld. Verði gaman, mætið sum.

Thursday, February 22, 2007

Norður

Fer heim í heiðardalinn um helgina, er að spila á Café Amour á laugardaxkveldið.

Kemurðu?

Monday, February 19, 2007

Brúðkaup, Þorrablót, kjaftæði, vesen og allskonar

Nú er margt að frétta og helgin var skemmtileg.

Föstudagskvöldið fór í vídeógláp með Eldri-Svepp, en við horfðum á Flags of our Fathers og er hún alveg hreint ljómandi fín. Sá þó Svein Waage hvergistaðar í myndinni. Skoða hana betur seinna með pásutakkann í yfirvinnu.

Nú, á laugardaginn hélt ég til kirkju til þess að verða vitni að því þegar Gunnar nokkur Ólason, söngspíra og Júróvisjónfari, og hún Þóra, kerlingin hans, gengu í það heilaga. Var reyndar heldur seinn fyrir og var stoppaður af löggunni annaðhvort fyrir of hraðan akstur eða of litla flughæð. Komst þó í kirkju þegar klukkan sló brúðkaup, sveittur og másandi. Rétt sestur þegar Þóra kom inn gólfið og er óhætt að segja að sjaldan hefur annað eins sést í gervallri veröldinni og þó víðar væri leitað. Kristófer Jensson, betur þekktur sem Kristó í Lights on the Highway, söng af lífi og sál og var það tær unaður á að hlýða. Kerlingin hans Gassa (man ekki hvað hún heitir, en hún er ágætiskona og feykigóð söngspíra) söng svo með honum I got you babe í lokin og er þetta í eitt að fáum skiptum sem ég hef heyrt svona mikið klappað í kirkju. Presturinn, sem er furðulegt nokk kvenkyns, er í kolrangri vinnu. Hún ætti að vera uppistandsgrínari að atvinnu. Ég hef sumsé aldrei heyrt jafnmikið hlegið í kirkju, eða bara jafnmikið hlegið almennt. Sumsé, bara gaman.

Eníhjú, svo var veislan og var hún haldin á Þingvöllum. Talsvert hlegið þar líka og mikið gaman. Við hjónin urðum samt að yfirgefa samkvæmið snemma, sökum þess að Þorrablót móðurættar minnar var komið í fullt gang í bænum. Þar var ekki minna gaman og mikið spjallað, hlegið, sungið og drukkið. Hélt svo til bæjar ásamt rjómanum af frændfólkinu og endaði einhverra óskiljanlegra hluta vegna í einhverju Júróvisjónhommapartýi á Nasa. Var hundfúll að Heiða skyldi ekki vinna Júróforkeppnina og enn fúlli að Kristján Hreinsson ætti vinningstextann. Eftir skamma dvöl á Nösu höfðu þreyta og Bakkus dregið úr mér bæði mátt og almenna skynsemi. Því var kallað á taxa og haldið heim i hátt. Svaf svo í einhverja tólf tíma, spratt á lappir og eldaði kjúkling. Horfði á Dexter í gær, en það er einhver sjónvarpsþáttur frá Miami. Fjallar um löggu, sem er einnig fjöldamorðingi. Gaman að því og bráðskemmtilegur þáttur, temmilega sjúkur fyrir minn smekk. Ekki orð um það meir.

Köttur undir stýri, var fullur og ók út í mýri. Úti er ævintýri (þ.e. erlendis).