Sunday, July 25, 2004

Sunnudagsröflið

Sit heima hálfbúinn að vera eftir erfiða helgarspilamennsku á Döbblíner. Við Stebbi Stuðbolti áttum ei von á miklu í gærkveldi eftir hálfdauft föstudagskvöld, en þegar við byrjuðu að leika um eittleytið fylltist kofinn og er ei ofsögum sagt að borðin hafi dansað ofan á fólkinu og við Stebbi svitnuðum eins og hommar á samkomu hjá Gunnari í Krossinum. Skemmtilegt frá að segja að það voru dálítið fleiri hjá okkur en hjá Landi og sonum (Bændum og búaliði) á Gauknum, sem er svo að segja í næsta húsi. Sýnir að það er gott að vera ekki frægur, þá fer maður aldrei úr tísku.
Enn og aftur lenti ég í smá orðaskaki við konu á "besta" aldri (af hverju er þetta kallaður besti aldur, konan var um fimmtugt, sko, besti aldur er náttúrulega meðan maður býr hjá foreldrum og þarf ekki að borga matinn sjálfur) sem fannst nafnið á dúettnum ekki sniðugt. Mér persónulega finnst Nasistamellurnar alveg frábært nafn og meira að segja kom okkur á forsíðu Fókus hér um árið eins og frægt varð. Sumir vertar hafa þó ekki haft húmor fyrir þessu einhverra hluta vegna. Ekki það að við séum einhverjir rasistar eða neitt, hef aldrei skilið að fólk þurfi að hata annað fólk út af húðlit þegar eru yfirleitt nægar ástæður til að hata fólk á persónulegum basis.
En við spiluðum og spiluðum og spiluðum og spiluðum og svitnuðum og svit... alveg til klukkan fimm í morgun. Þá fór ég heim og gaf Stefáni litla syni mínum pela því hann á við það skemmtilega vandamál að stríða að vakna oft á tíðum þegar pabbi hans er að koma heim örþreyttur úr vinnunni. En það er í lagi því hann er frábær.
Nú er ég þó óðum að vakna til lífs, enda ekki seinna vænna því ég á að byrja að spila á Bar Satans (Djöflíner) eftir hálfan annan tíma. Þarf væntanlega að þrífa gítarinninn minn þar sem hann er á kafi í svita, bjór og drullu eftir gærkveldið.
Sáuði annars hana Sigríði í Kattholti áðan í sjónvarpinu? Stórskrýtin kerling. Kona með ketti sem aðaláhugamál, þori að veðja hverju sem er að hún er einhleyp. Alltaf fundist kattafólk hálfskrýtið, nema einna helst Magga og Einar, þau eru frábær þó þau eigi eitthvað eins og fjörtíu kvikindi. Vil einnig benda á að "hálfskrýtið" þarf ekki að vera slæmt orð. Fullt af góðu fólki er hálfskrýtið. Mér finnst samt skrýtið að vilja eiga kött, hvað þá ketti. Undirförul kvikindi sem koma bara til manns þegar þau vantar eitthvað, oft misskilið sem sjálfstæði. Engin húsbóndahollusta til staðar og ekki hægt að nota þá í neitt nema kannski pottrétt. Sjálfur hef ég samt átt gæludýr, átti páfagaukinn Tomma (í höfuðið á frænda mínum, sem heitir einmitt Tommi) sem dó þegar ég var svona sirka fimm ára. Hann var jarðsettur með viðhöfn í vindlakassa og var ég sorgmæddur mjög. Svo löngu seinna átti ég kyrkislöngu sem fékk nafnið Ernst Stavro Blofeld í höfuðið á samnefndum glæpón. Hún dó líka. Bæði þessi dýr höfðu þó þann ótvíræða kost að vera ekki kettir.
Best að fara að spila, bless í bili.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home