Saturday, October 30, 2004

Laugardagsmorgunn

Það er laugardagsmorgunn í búð Tóna og klukkan er að vera opnunartími. Er enn með eyrnaverk frá í gærkvöldi er ég fór upp í æfingarhúsnæði til Árna unglings og félaga. Þeir voru búnir að versla 1000 watta hljóðkerfi sem þeim fannst ekki nógu kröftugt í æfingarhúsnæðið.
Ég bauðst til að líta á dótið og mitt fyrsta verk var jú að lækka allt um 80%, því styrkurinn var álíka og hjá meðal kjarnorkusprengju. Eftir lækkun hljómuðu þeir reyndar fínt og verða eflaust ágætis hevírokkband eftir ekki of langan tíma. Í næsta herbergi æfir rokksveitin Mínus og voru þar Bjarni gítarleikari og trymbillinn, sem mér er fullkomlega fyrirmunað að muna nafnið á, að taka upp trommur. Mikið svaðalega er bévítans kvikindið góður trymbill, hann grúvar eins og muða!
Hef ekki séð Mínus læv síðan þeir voru leiðinleg harðkjarnasveit, núna eru þeir hinsvegar skemmtilegt rokkband og mig dauðlangar að sjá þá læv, bara alltaf að jukka einhversstaðar sjálfur þegar þeir eru á klakanum.
Talandi um það, þá erum við Stebbi, Kiddi og Egill að leika undir nafninu Swiss á hinum virta samkomustað Amsterdam í kvöld og mælumst til að þið drullist á staðinn. Þar má þessa dagana sjá gjarnan DV-innrásarmennina klappa hverjum öðrum á bakið ásamt öðrum leðurhommum, illa lyktandi og illa drukknum. Svo er allskonar fólk þarna, alveg frá rónum niður í þingmenn. Yfirleitt opið til klukkan hádegi.
Mætið hress, ekkert stress.
Ekkert mas, ekkert þras og étiði gras.
Ingvar von Hannes Hólmsteinn.

Friday, October 29, 2004

Villi Góði

Langar að segja öllum heiminum frá því að Vilhjálmur Goði Friðriksson Brekkan og konan hans, Sigrún í R-listanum, eignuðust stúlkukind í gær. Munaði sumsé einu degi að ég fengi hana í afmælisgjöf.
Ég vil fá útskýringu á því.

Wednesday, October 27, 2004

Góðan dag!

Halló, kæru lesendur nær og fjær, til sjávar og sveita!
Biðst innilega vélmyrðingar á hvursu lengi (með Síðan skein sól) ég hef verið fjarverandi. Ástæðan er ekki ritstífla heldur allheiftarleg hægðartregða.
Síðan ég bloggaði síðast hefur ýmislegt gerst. Ekki raðað í mikilvægisröð, nema það fyrsta.
1. Karen Ylfa Jóadóttir er hressari í Boston og er það mikið gleðiefni.
2. Airwaves gekk yfir og ég sá ENGA hljómsveit. Rétt náði í bláendann á einhverjum kvartandi blökkumönnum með plötuspilara. Spilaði sjálfur bara á Döbblíner og var hress.
3. T-Rex effektarnir mínir eru komnir til landsins. Hlakka mikið til að fá þá í hendur.
4. Ég hrundi í það á ammæli Péturs og kom heim um miðja nótt blindfullur, sem er ekki sniðugt þegar maður skildi vakna með barni klukkan sjö og fara svo hress í vinnuna.
5. Ég átti brúðkaupsafmæli í fyrradag og bauð kerlu út að éta og svo fórum við pínu niður í bæ. Verður að fóðra hana og viðra annað veifið.
6. ÉG Á AMMÆLI Í DAG!!!

Thursday, October 21, 2004

Hann á ammmælídag

Pétur í Buff og Fjallkonunni á ammælídag. Hann er 337 ára gamall og verður að segjast að það virðist hafa borgað sig hjá honum að selja Satan sál sína og drekka mannablóð dagsdaglega, auk þess sem ungbarnafórninrnar hans hjálpa til.
Til hamingju, hjartans súkkulaðisneiðin mín, og ég vona að þú fáir ekki stiku í gegnum hjartað á þessum gullfallega degi.
Abraham Van Helsing (eða Van Halen).

Ómega

Eitt sem er hálfleiðinlegt stundum við að hafa skoðun er að það eru oft margir aðrir á sömu skoðun, oft er það fólk sem manni hreinlega líkar ekki allskostar vel við. Til dæmis er ég öfgahægriplebbi, en svo leiðinlega vill til að sumir skoðanabræður mínir eru hreint ekki menn að mínu skapi - margir þó, en ekki allir.
Ein trúi ég á Guð og tel hann hreint magnaðan, en það gera líka menn sem ég er ekki alltaf sammála um alla hluti, jafnvel menn sem ég tel að ætti að loka einhversstaðar inni á góðum stað og fleygja lyklinum út í gallfúlasta og fjarlægasta hafsauga.
Einn þeirra er Eiríkur á Ómega.
Myndi ég ekki gráta mjög þótt hann flytti sig um aldur og ævi til Syðri-Fjarskanistan og lifði þar sem einbúi.
Hann var í oggolitlu viðtali í gær í gæðablaðinu DV, hvar hann sagði frá því að Ómega hyggði á landvinninga utan Frónsins. Sendingar yrðu gegnum gerfihnött til austurlanda, yrði væntanlega byrjað á Afganistan. Þó yrðu útsendingar þar að sjálfsögðu ekki á íslensku "heldur á ensku eins og gefur að skilja"... HÁLFVITI!!!
Það er ekki eins og mikið fleiri afganir (svartir?) skilji ensku en íslensku. Það er ekki eins og almenningur þarna hafi alist upp á Hollívúddmyndum, rokktónlist og öðru því sem kenndi okkur molbúunum ensku í æskunni, og ekki hefur almenningur þarna - sérstaklega ekki konur - gengið í háskóla svo neinu nemi.
Svona plebbar...
Annars eru gríðarlegar gleðifréttir af Karen Ylfu Jóa og Kötudóttur, en læknar í Boston voru víst að komast að því að sjúkdómsgreining var kolröng (eða kraftaverk jafnvel hafi átt sér stað - Guð er nú magnaður þó honum þyki vænt um Eirík) svo þetta er jú ekki jafn alvarlegt og menn héldu í fyrstu. Bíð spenntur nánari frétta.
Innslagið með gleðifréttina er seinni partur bloggsins í dag vegna þess að ég var búinn að skrifa hitt þegar ég las gleðifréttina á blogginu hennar Kollu (kovido.blogspot.com).
Takk fyrir það;
Hemmi Gunn

Skoðið...

kerryrocks.com

Tuesday, October 19, 2004

Getraunin

Um leið og ég biðst auðmjúklega afsökunar á gríðarklaufalegri aulavillu í fyrri pósti hvar ég skrifaði "getraun" í staðinn fyrir "verðlaun" vil ég einnig leiðrétta hvað skrifað var í öðrum pósti frá í gær. Ég kvað tónleika Stranglers vera í Smáralind, en þeir verða víst einhversstaðar í Smáranum. Í dag langar mig meira á Stranglers en Whitesnake.
Annars var setningin "She was only the first" úr myndinni JAWS. Robert Shaw sagði þessi fleygu orð um fyrsta fórnarlamb hákarlsins, algerlega grunlaus um að hann sjálfur yrði það síðasta.
Enginn hafði þetta rétt og því kem ég með gersamlega óþekkjanlega setningu úr stórgóðri mynd sem fæstir hafa séð.

"A writer? What do you have to write about? You're not oppressed. You're not gay."

Ef einhver hefur þetta kemur það til með að skjóta mér skelk í bringu.

Leiðindafréttir

Var að fá heldur betur leiðinlegar fréttir áðan frá Bjarna, vini mínum og trúbróður staðföstum. Þannig er að Jói, bróðir hans og aldavinur minn, og Kata, hans ektakvinna og aldavinkona mín, eignuðust tvíbura á dögunum. Fyrir fáum dögum kom svo í ljós að önnur tvíburanna (stelpur, sko... eins og mamma sín og tvíburasystir hennar) er með hjartagalla og þurftu því foreldrarnir, ásamt tvíbbunum spánýju, að rjúka upp í næstu vél til Boston. Þar er víst eitt albesta sjúkrahús í hinum vestræna heimi og því er jú stefnan tekin þangað.
Vona ég og bið að þetta fari nú alltsaman á hinn besta veg svo grey Kolbrún, eldri dóttir þeirra hjóna - sem var skilin eftir hjá afa og ömmu - sjái foreldra og systur aftur sem fyrst.
Þetta er allt hið yndislegasta fólk og hef ég þekkt Bjarna og Jóa og þeirra foreldra síðan ég man eftir mér fyrst og Kötu (og Kollu, tvíburasystur hennar) síðan early 80´s.
Bíð frekari frétta og vona það besta.

Monday, October 18, 2004

Getraun Schmetraun, tilraun tvö

Nú verð ég að setja inn aðra getraun, því Filmusar-Pétur rótburstaði hina getraunina.
Úr hvaða bíómynd er þessi ágæta lína;

She was only the first.

Getraun eru engin, nema ást mín og almenn væntumþykja og máske bjúgverpill, ef ég á hann til.

Getraun Schweins

Úr hvaða stórgóðu bíómynd er þessi lína:

What the fella says, in Italy for 30 years under the Borgias they had warfare, terror, murder, and bloodshed, but they produced Michelangelo, Leonardo da Vinci, and the Renaissance. In Switzerland they had brotherly love - they had 500 years of democracy and peace, and what did that produce? The cuckoo clock.

Verðlaun eru út að borða fyrir einn á Svarta Svaninum, pylsa og engin kók ef svar berst i dag. Verðlaun sækist í Tónabúðina, Rauðarárstíg 16, 101 Reykjavík fyrir kl. 18.00.

Ef enginn veit þetta er ég greinilega með blogg sem lesið er af menningarheftum útálandiplebbum fom hell.

Eru ekki allir HRESSIR annars?

Stranglers og Whitesnake

Nú berast þær fréttir að hljómsveitirnar Stranglers og Whitesnake séu báðar á leið til landsins. Það er gott, því báðar hafa verið í miklu uppáhaldi hjá mér á hinum og þessum tímapunktum ævi minnar. Stranglers var meira að segja einu sinni alveg uppáhaldshljómsveitin mín, rétt áður en ég fór að hlusta dolfallinn á Rush. Arnljótur, minn kommúníski eldri bróðir, átti fullt af plötum með þeim og sjálfur verslaði ég hvað uppá vantaði. Svo seinna meir komst Whitesnake í mikið uppáhald og varð ég voðaglaður þegar Steve Vai gekk í bandið því hann var líka uppáhalds. Sá Whitesnake í Reiðhöllinni ´90 en var fullungur til að sjá Stranglers þegar þeir komu, reiknast til að ég hafi verið 6 vetra gamall. Hvað um það...
Líkur eru á að Whitesnake sé að koma og verði í Kaplakrika 4. des. Var svo að heyra að Stranglers spili í - af öllum stöðum - SMÁRALIND! Líka 4. desember! Hvað á þetta að þýða eiginlega, báðir tónleikarnir sama kveldið og ég svo óheppinn að vera ekki Guð og því get ég ei verið á tveimur stöðum í einu. Ætli ég fari ekki á Whitesnake, það vantar náttúrulega aðalkallinn í Stranglers og ég fer helst ekki í Smáralind. Demitt. Fer svo bara út og sé Hugh Cornwell einhverntíma, hann er alltaf að.

Saturday, October 16, 2004

Íþróttir schmíþróttir

Langar aðeins að minnast á landsleikinn, sem ég einmitt horfði ekki á. Ég er nefnilega þess eðlis að mér finnst ekkert gaman að horfa á aðra sprikla. Mig langar að benda á að við skíttöpuðum. Með "við" meina ég íslenka liðið, sem hvorki ég né mitt fólk eigum nokkra aðild að. Þeir létu einhverja sósíalíska og Volvó-akandi undirmálsplebba sem tala óskiljanlegt hrognamál hreinlega þrykkja sig í ósmurðan þarminn. Íslenska liðið var rasskellt og áhorfendur grétu. Þá finnst mér gaman.
Það fékk ekki einhvern bévítans íþróttaálf ofan af því, strax daginn eftir að íslenska liðinu var nauðgað á vellinum, að minnast á það í fréttatíma að það þyrfti að byggja stærri völl svo fleiri gætu sinnt áhugamáli sínu, þ.e. horft á fótbolt á kostnað skattgreiðenda. Það er nebblega uppselt örfáu sinnum á ári og þessir íþróttahálfvitar, sem halda að heimurinn snúist í kringum þeirra áhugamál, vilja meiri hluta af skattpeningunum okkar - sem þeir hafa fullmikinn aðgang að nú þegar - í að stækka fargings völlinn! Til hvers? Svo fleiri geti séð með berum augum þegar gestir utan úr heimi valta yfir "strákana okkar" og sanna fyrir heiminum öllum að íslenskir íþróttamenn á öllum stigum geta ekki rassgat!
Ein tegund er af íslensku íþróttafólki sem virðist geta unnið til einhverra verðlauna og það eru fatlaðir. Vandamálið er að hinir ófötluðu virðast alltaf vera fatlaðir þegar þeir stíga fram og láta útlendinga rótbursta sig.
Ein hugmynd - minnkum framlög ríkis til þessa sprikls og aukum t.d. framlög ríkis til sveitarfélaga svo þau geti hækkað laun kennara og leikskólakennara - sem illu heilli þurfa alltaf að semja rétt á eftir kennurum og því er aldrei neitt eftir handa þeim.
Ef fólk vill eiga hobbí - sem íþróttir jú eru - má það borga fyrir það sjálft ellegar bara skokka í vinnuna og taka þrjátíu armbeygjur fyrir kvöldmatinn. Það kostar ekkert.
Vil að lokum minnast á það sem Barði í Bang Gang sagði þegar hann var spurður hvort hann ætlaði að fylgjast með ópíumleikunum nýverið. Svaraði hann að hann viðurkenndi gildi hreyfingar en sæi ekkert skemmtilegt við að horfa á annarra manna hlaup og sprikl. Það væri álíka gáfulegt að hans mati að fara niður í World Class með bjór og Doritos eins og að horfa á ópíumleikana.
Hananú, takk fyrir það, Hemmi Gunn og allir í stuði, blessóklessó.

Friday, October 15, 2004

Dópsalalistinn góði

Alveg "eitur" snjallt hjá Birni nokkrum Sigurðssyni að birta lista yfir "dópsala" á internetinu nú nýverið. Hann kveður þetta gert af góðum hug og almenningi til upplýsingar, en margt gríðarlega vont hefur verið gert af "góðum hug" gegnum tíðina, til að mynda krossferðirnar og helförin.
Listinn samanstendur af nokkrum nöfnum, ýmist fullum nöfnum eða ekki, fornafni og heimilisfangi eða jafnvel bara fornafni. Listann segist birtandinn hafa unnið með hjálp dópsala og viðskiptavina þeirra (æðislegir heimildamenn) auk þess sem hann birtir fornöfn tveggja lögreglumanna sem hann segist hafa heimildir fyrir að vinni með fíkniefnasölum, eða eins og hann sjálfur orðar það svo snilldarlega "Lögreglumenn sem margir. sögðust fá uppl. hjá. Og bar ég það upp á þá báða". Málfar og stafsetning Björns er nefnilega á svipuðum standard og hjá átta ára misþroska nýbúa.

Þegar menn hafa séð Punisher-myndina eða lesið Mack Bolan bækurnar einum of oft og ætla sér að taka lögin í sínar hendur með þessum hætti er margs að gæta. Mér fannst eittalltaf svo magnað í hvoru tveggja Mack Bolan-bókunum og Punisher-blöðunum. Það var alltaf regla númer eitt að saklausir skyldu aldrei verða fyrir tjóni, því þá væru böðlarnir engu betri glæpamönnunum. Þessu hefur Björn ákveðið að sleppa með öllu eða hreint ekki áttað sig á. Nokkur nöfn eru þarna nefnd sem eru lesendum DV að góðu (eða kannski frekar illu) kunn, eins og t.d. Maitsland-tvíburarnir geðþekku. Hafa þeir hlotið dóma fyrir líkamsárásir og fleiri miður skemmtileg verk. Önnur nöfn, minna kunn, eru einnig talin upp. Tökum dæmi.
Án frekari útskýringa, heimilisfangs, kennitölu eða lýsingar er nefnd Berglind Jónsdóttir. Segjum sem svo að ein þeirra sé að selja fólki ólyfjan, sem er þó ósannað með öllu. Þá held ég að aðrar sem bera þetta nafn, sem eru tæplega sjötíu, séu hest til foj í dag. Önnur nöfn eru nefnd sem gætu átt við mun fleiri en meinta dópsala, séu þeir á annað borð sekir!
Svona vinnubrögð hafa væntanlega ekki önnur áhrif en þessi;
1. Björn þessi fer í djeilið fyrir rógburð og mannorðsmorðstilraun. Vist verður honum þar daufleg, því þar er fullt af alvöru dópsölum, sem hafa verið sakfelldir fyrir rétti og vilja gjarnan rétta honum hjálparhönd - í magann.
2. Netverjar hafa í nokkrum tilfellum heimilisföng sölumanna dauðans og ef einhverjar þessaraa eiga við einhver rök að styðjast er jú verið að auðvelda aðgang ungviðisins að ólyfjan í ómældu magni.
Og hananú og ekki orð um það meir!

Thursday, October 14, 2004

Bleikur heima

Djöugglins, ligg bleikur heima. Ekkert gaman af deginum í dag, með hausverk og kallaði "Evrópa" ofan í klósettið í morgun þegar ég skilaði morgunmatnum þangað út sömu leið og hann kom inn. Samt var ég alveg edrú í gær og allt. Best að vera bara fullur á hverju kvöldi, þá er bara þynnka að manni daginn eftir og maður kann nú allnokkur ráð við henni.
Notaði því daginn vel og góndi á nokkrar vel valdar dvd-ræmur. Njósnarinn sem kom inn úr kuldanum með Richard Burton fór á fóninn og er hún tær schnilld, þrjár stjörnur af fjórum (bara hommar gefa í fimm stjörnu kerfinu). Gömul og svarthvít og svartsýn, Berlínarmúr og njósnarar. Einhvernveginn ekki ósvipuð Funeral in Berlin ef einhver hefur séð hana. Day after tomorrow kláraði ég, en ég gafst upp á henni í gær, einmitt sökum hausverks og almenns aumingjaskaps. Hún sleppur, tvær stjörnur (eftir Megas). Svo var það Wonderland og hún er snilld, þrjár drullukökur af fjórum. Val Kilmer að leika John Holmes. Minnir mig á að smíðakennarinn minn í gaggó hét Jón Hólmgeirs, þið getið ímyndað ykkur hvað við krakkarnir kölluðum hann.
Vona að ég verði hressari á morgun, nenni ekki að vera veikur. Það er hundleiðinlegt, maður kemst ekki í vinnuna og ekkert gaman.
Veriði hress, ekkert stress, fariði í rassgat!

Tuesday, October 12, 2004

Swiss á firði Grundar.

Laugardagurinn var aldeilis fínn. Eftir venjubundin fjölskyldustörf, bleijuskipti og vesen, var lagt af stað með hljómsveitinni til Grundarfjarðar. Brottför tafðist smá, sjálfur var ég á þvælingi og hrynsveitin í óreglu, en allt hafðist þetta. Stebbi beið okkar á vídeóleigu í Mosó og var búinn að bíða svo lengi að okkur hreinlega blöskraði að það væri ekki búið að ráða hann í vinnu á svæðinu.
Rokk og ról var sett á fóninn og brunað sem mest við máttum á svæðið. Eddi, okkar maður á Grundarfirði, tók á móti oss og hjálpaði okkur af miklum móð við að stilla upp og taka sándtest, sem gekk þó ekki vandræðalaust. Á tímabili kom nebblega bara hljómborð gegnum gítarmagnarann, sama hvort hann var á stendbæ eður ei. Ber að taka fram að hljómborðið var hreint allsendis fullkomlega laust við að vera tengt í nokkuð nálægt gítarmagnaranum. Þetta atvik var skrifað á húsdrauginn. Hinsvegar skrifast á mig að hafa eyðilagt forláta Marshall-box sem Bergur lánaði mér. Klaufinn ég.
Okkur var því næst vísað til íbúðar þeirrar sem við gistum í. Leit hún út fyrir að hafa verið innréttuð fyrir Donald Trump, stór og fín og Stöð 2. Við horfðum á Spaugstofuna og stökk ekki bros á vör fremur en endranær.
Svo var haldið til dansleiks, hvar meðalaldur var pínu hærri en ég hafði gert ráð fyrir, en það kom ekki að sök. Menn voru þeim mun yngri í anda og fólk dansaði eins og mófós allan tímann. Eddi tók með oss lagið á trommuddnar og var það stuð og fjör.
Að dansleik loknum var tekið til við ölvun með ótrúlega góðum árangri, miðað við að sjálfur hafði ég þá verið vakandi í tæpan sólarhring. Endaði ásamt Agli trymbli fyrstur í bælinu (ekki það að ég hafi farið á hann neitt, samt) meðan restin af sveitinni ásamt Óskari meðreiðarsveini okkar fóru í gleðskap og létu elda ofan í sig gúrmei og horfðu á formúluna. Aldrei skilið þegar fólk sest niður og horfir á umferð.
Á þunnudaginn var lagt af stað heim á Landkrúsernum með kerruna alltof seint, enda menn sumir hverjir heldur framlágir. Heimferðin var yndisleg vegna þess að ALLIR rifust ALLAN TÍMANN! Æðislegt. Pólítík, dauðarefsingar, trúmál, bændastéttin, sjómenn og dómsvaldið voru rædd ofan í kjölinn og er morgunljóst að Kiddi Gall verður dómsmálaráðherra í ríkisstjórn minni þegar ég verð einræðisherra. Hann vill hreinlega dauðarefsingar í stað stöðumælasekta.
Mikið svakalega var gaman og þakka ég Grundfirðingum fyrir okkur.
Ekki orð um það meir.

Friday, October 08, 2004

Britney

Nú berast fréttir frá westurheimi að hún Britney okkar hafi hellt kóki á ljósmyndara sem gerðist fullnærgengur. Finnst mér það gott hjá henni. Að mínu mati ætti reyndar fræga fólkið að fá veiðileyfi eina viku á ári svo það gæti farið með riffilinn og skotið papparassa. En hvað um það... var hún ekki á samningi hjá pefsí?
Nánar um málið á :
http://mbl.is/mm/folk/frett.html?nid=1106147

Hemmi Gunn

Hemmi er í sjónvarpinu hjá mér núna í Íslandi í bítið (akkuru ekki Ísland í takti?) og er alveg svaka hress að vanda. En mér er alveg sama því Hemmahressleikinn á ekki við hjá mér þennan morguninn. Hinsvegar hlakka ég gríðarlega til að fara til Grundarfjarðar á morgun að leika á balli með strákunum. Þá verð ég sko Hemmahress. Leggjum af stað snemma, eða svona rétt upp úr hádegi því við þurfum að vera búnir að stilla upp klukkan kvöldmatur. Gott ef maður tekur ekki bara Playstationgræjuna með og verður í fíling fram að balli.
Verum annars í fíling og ég vil benda á að Behringersendingin er komin.
Lifið heil.
Tommi Tómatur.

Wednesday, October 06, 2004

Ó, Jókó

Fréttir þessa dagana segja að Yoko Ono vilji reisa friðarsúlu í vorri dásamlegu höfuðborg. Og hverjum er ekki andsk... sama hvað Yoko vill? Fyrir þá sem ekki þekkja er Yoko hæfileikalítil, gömul, sívælandi asísk kerlingarbelja sem eyðilagði Bítlana. Ég hef mjög ákveðna hugmynd um hvar hún getur sett þessa súlu sína...

Tuesday, October 05, 2004

Um hest

Vil bara taka fram að ljóðið um hestinn hér að neðan á ekkert skilt við þær fréttir sem berast austan af landi að maður hefi verið handtekinn fyrir kynferðislega misnotkun á hesti. HVERSU FOKKDÖPP GETUR MAÐUR VERIÐ? Akkuru geturðu ekki bara sagst vera Elvis eins og allir hinir?
Í bræðslu með hann og það strax!
Þetta útálandilið, maður...
Annars kom hér geðlæknir einn í búð Tóna í dag, hann Binni fyrrum sambýlingur minn. Einu sinni bjuggum við saman á Rauðarárstígnum við mikla gleði, enda átti hann flottasta jólatré í heimi. Þá vorum við síðhærðir, aðallega hann. Nú er hann orðinn stuttklipptur geðlæknir og vinnur þá væntanlega við að sitja við hliðina á sófa.
Vorum við sammála um að eldri bróðir minn er pólítískt séð geðveikur.

Monday, October 04, 2004

Hestur

Einu sinni átti ég hest
ofurlítið fjólubláan.
Það var sem mér þóti verst
þegar hann horfði á Falcon Crest.

Rokk og ról á Bar Satans

Nú, mikið var rokkað á Djöflíner um helgina. Flygill Rabbs, nýi maðurinn í hópnum, fór aldeilis hamförum á trommusettinu (og samförum á klósettinu) og rokkaði stórbeinótt. Fiftívonnfiftíinn stóð sig einnig þrátt fyrir tilfinnanlegan skort á klínsándi, en hver þarf svoleiðis?
Skemmtilegt frá að segja að ég horfði á myndina Godsend á fimmtudaginn, en hún fjallar um hjón sem missa barn og klóna það svo með miður skemmtilegum afleiðingum. Varð það til þess að ég lá meira og minna andvaka aðfaranótt föstudags. Var svo að spila til kl. 5 á laugardagsmorgun og vaknaði kl. 7 þegar gamla fór á skauta. Rétt dottaði smá um daginn og fór svo að spila um kvöldið, vopnaður ofsjónum og þreytu. Lékum til kl. að verða 5 og svo beint heim og nái að sofa í smástund áður en kerla mín fór í skólann (sunnudagaskóli í Kennó). Henti svo eldri stráknum í kirkju kl. 11, þeim yngri til afa og ömmu skömmu seinna og lá svo andvaka allan daginn. Tók frí í gær og ætlaði aldeilis að sofa, en eftir að hafa horft á CSI í gær, hvar Grissom og félagar rannsökuðu morð á ungbarni, sem var skilið eftir í bíl í hitabylgju, lá ég andvaka fram á morgun. Er svo að spila í kvöld. Þið finnið mig í niðursprautun á deild 32 C á geðdeildinni á morgun, syngjandi jólalög.
Mynd dagsins er Manhunter eftir Michael Mann, hvar William Peterson (Grissom í CSI) eltist við Rauða Drekann. Var seinna endurgerð sem, jú, Red Dragon. Sjáið hana eða bíðið bana.

Helgi Hjörvar

Rak augun í mynd af Helga Hjörvari í Fréttablaðrinu á laugardag. Undir myndinni stóð að hann hefði gengið á dyr. Þar sem maðurinn er sjóndapur hélt ég að hann hefði kannski labbað á eitthvað og meitt sig, en það var öðru nær. Honum hafði bara leiðst í vinnunni af því honum líkuðu ekki skemmtiatriðin og ákveðið að fara með nokkrum vinum sínum, þ.á.m. Steingrími J. Sigfússyni. Skemmtilegt, því Steingrímur reif kjaft (sem hann er jú alvanur að gera) fyrir fáum árum yfir að forsætisráðherrann þáverandi hafði verið fjarverandi við bókakynningu. Væri ekki sjálfsagt að almenningur gæti gert þá kröfu að þingheimur mætti í vinnuna, fyrst þeir eru jú á launum hjá okkur. Loksins þegar Halldór Blöndal segir eitthvað af viti, sem mér vitandi hefur ekki gerst áður, verður allt dýrvitlaust og menn fara heim.

Friday, October 01, 2004

Föstudagurinn fyrsti okt

Sæl og bless - suð (noise reduction). Mig langar dýrslega til að benda á að hljómsveitin mín er að spila á Dubliner um helgina og með mér verða Kiddi Gallagher, Stebbi Stuð og (Þv)Egill Rafns, sem ég hef aldrei spilað með áður, svo ég muni til.
Mun ég þar vígja nýja 5150 - magnarann minn (http://peavey.com/products/shop_online/browse.cfm/action/details/item/00324010/wc/1A1B221/fam/TA/tcode/1/5150.cfm)
og verður það eflaust gaman.
Komið öll annaðhvort í kvöld eða annað kvöld, annars verð ég BRJÁLAÐUR!!!