Tuesday, October 12, 2004

Swiss á firði Grundar.

Laugardagurinn var aldeilis fínn. Eftir venjubundin fjölskyldustörf, bleijuskipti og vesen, var lagt af stað með hljómsveitinni til Grundarfjarðar. Brottför tafðist smá, sjálfur var ég á þvælingi og hrynsveitin í óreglu, en allt hafðist þetta. Stebbi beið okkar á vídeóleigu í Mosó og var búinn að bíða svo lengi að okkur hreinlega blöskraði að það væri ekki búið að ráða hann í vinnu á svæðinu.
Rokk og ról var sett á fóninn og brunað sem mest við máttum á svæðið. Eddi, okkar maður á Grundarfirði, tók á móti oss og hjálpaði okkur af miklum móð við að stilla upp og taka sándtest, sem gekk þó ekki vandræðalaust. Á tímabili kom nebblega bara hljómborð gegnum gítarmagnarann, sama hvort hann var á stendbæ eður ei. Ber að taka fram að hljómborðið var hreint allsendis fullkomlega laust við að vera tengt í nokkuð nálægt gítarmagnaranum. Þetta atvik var skrifað á húsdrauginn. Hinsvegar skrifast á mig að hafa eyðilagt forláta Marshall-box sem Bergur lánaði mér. Klaufinn ég.
Okkur var því næst vísað til íbúðar þeirrar sem við gistum í. Leit hún út fyrir að hafa verið innréttuð fyrir Donald Trump, stór og fín og Stöð 2. Við horfðum á Spaugstofuna og stökk ekki bros á vör fremur en endranær.
Svo var haldið til dansleiks, hvar meðalaldur var pínu hærri en ég hafði gert ráð fyrir, en það kom ekki að sök. Menn voru þeim mun yngri í anda og fólk dansaði eins og mófós allan tímann. Eddi tók með oss lagið á trommuddnar og var það stuð og fjör.
Að dansleik loknum var tekið til við ölvun með ótrúlega góðum árangri, miðað við að sjálfur hafði ég þá verið vakandi í tæpan sólarhring. Endaði ásamt Agli trymbli fyrstur í bælinu (ekki það að ég hafi farið á hann neitt, samt) meðan restin af sveitinni ásamt Óskari meðreiðarsveini okkar fóru í gleðskap og létu elda ofan í sig gúrmei og horfðu á formúluna. Aldrei skilið þegar fólk sest niður og horfir á umferð.
Á þunnudaginn var lagt af stað heim á Landkrúsernum með kerruna alltof seint, enda menn sumir hverjir heldur framlágir. Heimferðin var yndisleg vegna þess að ALLIR rifust ALLAN TÍMANN! Æðislegt. Pólítík, dauðarefsingar, trúmál, bændastéttin, sjómenn og dómsvaldið voru rædd ofan í kjölinn og er morgunljóst að Kiddi Gall verður dómsmálaráðherra í ríkisstjórn minni þegar ég verð einræðisherra. Hann vill hreinlega dauðarefsingar í stað stöðumælasekta.
Mikið svakalega var gaman og þakka ég Grundfirðingum fyrir okkur.
Ekki orð um það meir.

3 Comments:

Blogger Olga Bj� said...

Sammála með formúluna. Skil ekki hvernig hægt er að nenna að horfa á hana. Svo er hún ekkert spennandi því það er alltaf sami skósmiðurinn sem vinnur.

Mér fannst reyndar Spaugstofan fyndin á köflum, eins og 9 ára stjúpdóttur minni og foreldrum mínum reyndar líka. Það er frekar breitt aldursbil. Þykir asnalegt að hafa gaman að henni, eða?


Kveðja
Orgelið

12:20 PM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Já, það þykir asnalegt að hafa gaman af Spaugstofunni. Er Orgelið ekki í sambandi, eða..?

12:35 PM  
Blogger Olga Bj� said...

Ég mæli með að kíkja á þennan link:

http://www.hugi.is/hahradi/bigboxes.php?box_id=51208&f_id=1063

Þarna er maður finnst Spaugstofan fyndin..eins og ég og hitt skrýtna fólkið.

Kveðja,
Orgelið..unplugged

2:53 PM  

Post a Comment

<< Home