Friday, December 31, 2004

Nú fokkings árið er liðið

Margt gerðist á árinu. Vinir og vandræðamenn í kringum mig eignuðust börn og sjálfur var ég bissí við að ala míns eigins upp. Kennarar fóru í verkfall og hösluðu smá launahækkun. Forsetinn neitaði að skrifa undir fjölmiðlalöginþví hann sagði að þau ljót. Hann sagði víst líka að það væri aumt að hlutur kvenna í ráðherrastöðum væri of lítill en gerði ekkert í því. Forsetinn skipar nefnilega ráðherra skv. lögum. Hann hinsvegar á náttúrulega að skipa þá ráðherra sem flokkarnir tilnefna - rétt eins og mannandskotinn á að skrifa undir þau lög sem þingið réttir honum. Menn voru drepnir um allan bæ og jafnvel að líkum manna væri sökkt í sæ í sjálfum heimabæ Einar Ágústs. Minnst á hann, hann komst á forsíður blaða og ekki fyrir tónlistarflutning. Ísland tapaði í Júróvisjón með einu leiðinlegasta lagi sem ég hef heyrt. Hreimur fór að vinna í búð. Neðansjávarjarðskjálftar sökktu fleiri tugum þúsunda manna í Asíu. Svo dó Jerry Orbach, sem lék Lenny Briscoe í Law and Order. Forsetafíbblið var endurkjörið hér á landi. Tom Cruise lék vondan kall í Collateral. Ég sá Duran í London, Deep Purple í Reykjavík og Stranglers í Kópavogi. Ég keypti mér Music Man Steve Morse gítar, Garrison kassagítar (í gær bara) og 5150 magnara. Ég klessti bílinn minn og skemmdi stuðarann. Eldri sonur minn varð unglingur - sá yngri eins árs. Ég fékk síma með myndavél í jólagjöf. Ég fór til Denmark með familíunni. Jói vinur minn fór til Ameríku með nýfædda tvíburana sína því önnur þeirra var veik. Fór allt skár en á horfðist. Jólalag Baggalúts var æði. Hansi kom tvisvar heim frá Kína. Ég dansaði við konuna mína í fyrsta og síðasta skipti. Pabbi varð sjötugur. Ég lærði að það á aldrei að kaupa mat af enskumælandi fólki í Englandi, bara innflytjendum, helst ólöglegum.
Man ekki fleira. Gleðilegt ár. Lifi íhaldið - dauði yfir kommana!

Wednesday, December 29, 2004

Feiti kaddlinn að röfla enn einu sinni

Gleðileg, allesammen.
Ég áttaði mig á því á allraversta tíma - aðfangadagskvöld - að ég er orðinn viðurstyggilega feitur. Ég er spikklessa með bumbu og komst ekki í sparibuxurnar eða jakkafötin með góðu móti og eyddi því aðfangadagskvöldi í gallabuxum, kvinnu minni til óblandinnar gremju.
Ég er sumsé lítil, loðin tólgarklessa og nú skal eitthvað gert í málunum. Kaupa strigaskó og stuttbuxur og stökkva í ræktina, því mér virðist lífsins ómögulegt að láta minna ofan í mig en gott getur talist. Því skal brenna meira. Ég er líka ógeðslega gamall því eldri sveppurinn er orðinn löggiltur unglingur, þrettán vetra.
Ég fékk, talandi um aðfangadagskvöld, síma með myndavél frá áðurnefndri eiginkonu minni í jólagjöf. Þegar ég er búinn að læra á hann og læra að setja myndir inn á bloggið verður gaman. Gefið mér náðarsamlegast tólf ár.
Annars, skellti mér í leikhús á norðurhjara veraldar (Akureyri, lítill bær suður af Hrísey) og sá í félagi við eldri son minn söngleikinn Ólíver Twist. Var þetta allt hið besta mál, hljómsveit góð og leikarar og allt eins fagmannlega unnið og hægt er að búast við af leikfélagi á Akureyri. Eitt stakk mig þó aðeins. Í leikhúsinu eru 200 sæti og miðinn kostar 3,500-kall. Miðað við að uppselt sé - sem er þó varla alltaf - er þá innkoman per sýningu 700,000 íslenskar nýkrónur. Hljómsveitin telur um eða yfir tylft manna og leikaraskarinn er væntanlega rúmlega sú tala. Þá eru ljósamenn allavega tveir, hljóðmaður (Gunni Sigurbjörns, snillingur), miðasölustúlka og eitthvað fólk sem vinnur þarna á svæðinu. Gefum okkur að við sýninguna starfi þrír tugir manna, sem er varlega áætlað, þá er innkoma á hverja sýningu 23,333 krónur og 33 aurar á haus. Þá er ótalinn kostnaður við húsið, sem er talsverður, laun leikara og annarra á æfingartíma og bladíbla.
Það er sumsé ekki fokkings glæta að þetta standi undir sér! Í stað þess að hækka miðaverð, sem væri í góðu lagi þar sem sýningin er þess virði, er stykkið eflaust sýnt með bullandi tapi sem greitt er af bæjarbúum á Akureyri. Sumsé, maður greiðir þrjú og fimm fyrir miðann og svo borga allir eitthvað með skattpeningunum sínum, fullkomlega óháð því hvort þeir sjá stykkið eður ei og algerlega án þess að vera spurðir. Pæliði aðeins íðí.
Einnig er verið að reisa tónlistarhús fyrir milljarða á milljarða ofan þegar hvert mannsbarn sér að nauðsynlegri hlutir eru látnir liggja úti í horni. Súrt. Pæliði í því. Kommentið. Rífumst nú, krakkar.

Thursday, December 23, 2004

Jólabloggið

Jú, það eru að koma jól, ekki ber á öðru. Allt er brjálað í búðinni og því algert ábyrgðarleysi af mér að setjast niður og klína línum á skjá.

Jólagetraunin:

Hver syngur línuna "við fáum af því fréttir að hungursneyð ógni heilli þjóð" í laginu "Hjálpum þeim" frá 1986?

Verðlaun er ekki rassgat.

Sá skemmtilegan dóm um Birgittuplötuna áðan. Gagnrýnandi Moggans telur það alveg hræðilegt að helmingur laganna séu karókíútgáfur af hinum lögunum! Það eru tólf lög á plötunni - sem verður að teljast viðunandi magn - og svo útgáfur án söngs svo krakkarnir geti spreytt sig heima í miðju Ædól-æðinu. Þetta telur gagnrýnandinn ekki gott. Mér finnst þetta hinsvegar þrælsniðug hugmynd og veit að krökkunum - sem þessi plata er jú ætluð - líkar vel!

Hvað um það. Samstarfsmenn, ættingjar, vinir, meðspilarar, drykkjufélagar, barþjónar, leigubílstjórar, kunningjar og allir sem mér líkar vel við -

GLEÐILEG JÓL!!!


Nenni ekki að eyða pappír í jólakort svo hafiði það bara gott öll og borðiði mikið.
Jóla-Ingvar.

Wednesday, December 22, 2004

Jólagjöfin mín í ár

Mig langar í svona í jólagjöf:

http://world.guns.ru/assault/as01-e.htm


Takk.

Dónajól

Næztu jól mun ég gefa út plötuna "Dónajól".
Á henni verður hægt að finna lög eins og:

Ég sá mömmu kyssa Jón og Svein
Ég kemst í hátíðarsköp
Jólahjólgröð
Gefðu mér gott í bossann

að ógleymdum hinum stórgóðu

Nei, nei, ekki um jólin og
Jólasveinninn "kemur" í kvöld.

Einhverjar hugmyndir að lögum?

Saturday, December 18, 2004

Sjónfratið

Aldrei þessu vant var áhugavert efni á Rúv í gærkveldi. Það var þáttur um gerð lagsins "Do they know it´s Christmas?" fyrir einum tuttugu vetrum síðan. Þátturinn hefur eflaust heitið "Bretlandsmeistarakeppnin í síðu að aftan og strípum 1984".
Var þar fjallað um gerð þessa frekar slappa lags og textans einnig, en hann verður að teljast einn sá versti í sögunni. Titill lagsins er til dæmis út úr hverri kúnni af annarri. Hvað kemur það sveltandi Eþíópíubúum við hvort það séu jól? Þeir fá hvort eð er engar rjúpur eða malt og appelsín. Setningin "let them know it´s Christmas time again" er að sama skapi slæm að mínu viti. Endilega látum þau vita meðan þau svelta í hel að við erum að halda jól og erum að drepast úr ofáti. Frábært. "It won´t be snow in Africa this Christmas" er enn annað ágætt dæmi. Jú, það snjóar þar ekki - frekar en venjulega. Væri nú ekki á það bætandi að djúpfrysta greyin líka, ofan á sultinn!
Annað, sem kom fram í þættinum, er að Eþíópía styðst við austurblokkartímatalið, þannig að það eru ekkert jól þar um leið og hjá okkur, heldur í janúar. Skemmtilegt.
Heimildarmyndin var hinsvegar bráðskemmtileg, hefði ekki viljað missa af henni. Kom þar margt skemmtilegt fram sem heillar "uselessinformation"-fíkil eins og sjálfan mig. Midge Ure komst vel frá þessu, en hann var jú sögumaðurinn. Gerði talsvert mikið úr því að hann hafði aldrei verið neitt sérlega ánægður með lagið, heldur afrekið að koma milljón stórstjörnum saman, sumum hverjum í heldur annarlegu ástandi á sunnudagsmorgni. Voru sumir heldur framlágir og jafnvel að vakna alltof seint í öðrum heimsálfum, eins og hinn rammkynvillti Boy George. Ekki að spyrja með þessa aftaníossa, alltaf í sukkinu.
Hvað um það... bæ.

Friday, December 17, 2004

Hux

Var að pæla... Sigur Rós og Stubbarnir - eru þetta ekki sömu pjakkarnir? Tala sama tungumál og líta eins út! Eru örugglega allir úr Mosó líka!
Hvað um það, sorpritið DV bendir á skemmtlegt atriði í dag. Á heimasíðu Írafárs, irafar.is, má sjá hvað Birgittu þykir skemmtilegast að gera. Eitt af því er að eiga rómantíska stund með Hanna...
L8er, dúds.

Thursday, December 16, 2004

Linkur á síðu Péturs í Filmus-i.

Linkur yfir á síðu Péturs í Filmus-i. Hugleiðingar um jólasveininn.


http://donpedro.typepad.com/pedro/2003/11/sannleikurinn_u.html


Gleymist að vísu að þeir eru jú þrettán kvikindin bara hér á landi til að sinna hérlendum krakkaskröttum.

Gránd síróp

Hvernig getur nokkrum manni dottið sú ekkisens vitleysa í hug að tölvuleikir hafi slæm áhrif á námsgetu ungmenna? Lítið bara á eftirfarandi dæmi:

www.groundzero.is

og verið í stuði.

Nú gleðst Sæmi

Sæmi Rokk, pabbi Geira Sæm og Hunangstunglsins, verður nú glaður kall í ljósi nýjustu frétta. Davíð Oddsson, nýbakaður utanríkisráðherra og fyrrverandi borgarstjóri, hefur nefnilega ákveðið að Bobby, vinur Sæma, fái landvistarleyfi hér á klakanum, eins og hann hafði óskað. Bobby þessi kann víst nokkuð fyrir sér í skák, meira en bara landganginn, eins og sagt var um árið. Hann meira að segja malaði einhvern rússaskratta hér um árið og hrundu Sovétríkin af þeim sökum allnokkrum árum síðar.
En Davíð... er ekki nóg af geðsjúklingum hérna heima og því óþarfi að vera að flytja þá inn?
Hvað finnst ykkur, mínir aldásamlegu lesendur, sem ég elska?

Wednesday, December 15, 2004

Samfylkingin strikes again!

Samfylkingarþingkona (langt orð) ein hefur lagt fram þingsályktunartillögu um að allan mat sem er ekki voða voða hollur verði bannað að auglýsa fyrir klukkan seint á kvöldin - til að vernda börnin gegn því að verða of feit. Samfylkingin - ekki bara þingflokkur, heldur hópur af hálfvitum!

Monday, December 13, 2004

Jólagutl 2004

Hin árlega jólagleði mín verður á Dubliner, efri hæð, næztkomandi fös og lau frá klukkan hálfeitt eða eitt til klukka fullseint miðað við að það er vinna daginn eftir.
Ég, Stebbi, Egill Rabbz og Kiddi Gallagaur verðum með hljóðfæri og bjór (ekki endilega í þessari röð) og þið VERÐIÐ að mæta - annars er mér að mæta!
Minni á þetta daglega í vikunni.
Þess utan vil ég óska Heiðu til hamingju með að vera komin í ússlit í Ædól og DV til hamingju með vandaða blaðamennsku.

Mánudaxmorgun

Hef ekkert að segja, var bara í einkasamkvæmispakkanum um helgina og eitthvað. Lék á Dub í gær, Pétur kom og var það indælt. Lögðum drög að smásagnasafni sem vonandi keur út fyrir jólin 2067 með okkar framkvæmdagleði.
Hvað um það, fyrst ég hef ekkert að segja er hér eilítil heimild úr Baggalútsbókinni. Ég á, eins og menn vita, ekkert í þessu, heldur stal þessu af Baggalútsvefnum. Bara ef þetta hefði farið framhjá einhverjum (einhverfum).
Hér er þetta;

Lesbían í Sandey

Um miðja síðustu öld hreiðraði illskeytt lesbía um sig í Sandey á Þingvallavatni. Tældi hún til sín konur, einkum táningsstúlkur, með seiðandi og angurværum söng. Fórust þær flestar á leiðinni yfir hrollkalt vatnið, en þær sem komust yfir gerði lesbían ýmist að frillum sínum eða át. Var um tíma talið að um nokkurs konar sírenu væri að ræða, en svo var ekki, heldur reyndist hún vera ósköp venjuleg trukkalesbía af gamla skólanum, ættuð úr Mosfellsdal. Lesbíubaninn Böðvar réð niðurlögum Sandeyjarlessunnar í janúarmánuði 1976. Sumarbústaðaeigendur í nágrenninu voru orðnir langþreyttir á að sjá á eftir hverri yngismeynni á fætur annarri öslandi út í vatnið, vitstola af frygð og losta. Var því Böðvar kallaður til, en hann hafði getið sér gott orð fyrir að eyða lesbíugreni sem fundist hafði í miðbæ Kópavogs þá um sumarið. Böðvar óð út í eyjuna og tókst að blekkja lesbíuna með því að látast vera sturluð heimasæta. Hún átti sér því einskis ills von þegar Böðvar svipti sig klæðum og rak ammóníakleginn kóbaltfleyg á kaf í hjarta hennar. Lesbían í Sandey var síðar stoppuð upp og er nú til sýnis á byggðasafni Mosfellinga.

Friday, December 10, 2004

Kjósa Heiðu

Ædól í kveld. Kjósið Heiðu eða ég DREP YKKUR!

Thursday, December 09, 2004

Krónupokinn allur

Berast þær lítt skemmtlegu fréttir utan úr heimi að Dimebag Darrell, gítarsnillingurinn bleikskeggjaði, hafi verið myrtur á konsert í gærkveldi.
Ekki fallega gert að drepa fólk, hvað þá gítarhetjur, þær eru af skornum skammti í dag.
Af hverju stútar enginn Geir Ólafs bara?
Talandi um hann, nú berast sögur að hann sé tekinn saman við fyrrverandi eiginkonu Valdemars Flygering. Er hún að skipta niður eða hvað?

Wednesday, December 08, 2004

Brynky Stinky

Hún á ammælídag, hún á ammælídag, hún á ammælúnbrynka, hún á ammælídag!!!!!
Til hamingju, hjartans snúðlan mín!
Hún er orðin áttræð og aldrei litið betur út.
Lag dagsins er "hún á ammælídag".
Brynhildur ammælisbarn, ju minn...

Gétraun

Hæ. Getraun.

Bíómynd.

Leikstjórinn er einn frægasti Hollywoodleikari fyrr og síðar. Leikur lítið hlutverk í myndinni.
Handritshöfundurinn leikur stærra hlutverk í myndinni, glæpón.
Myndin fjallar um 17 ára dreng.
Handritshöfundurinn byggir söguna á eigin reynslu.
Upphaflega var þetta leikrit.

Hver er myndin?

Verðlaun eru dvd-diskur, en innihald hans er bíómyndin “Shiner” með hinum stórgóða Michael Caine í aðalhlutverki. Fyrir þá sem ekki þekkja hann bendi ég á leið 14 til að stökkva fyrir.
Vil ég einnig benda öðrum vinningshöfum á að ná í draslið sitt heim til mín þegar ég er heima einhverntíma.

Tuesday, December 07, 2004

Konsert

Jæja. Mig langar til að óska ykkur, sem ekki mættuð á Stranglers, til hamingju með að vera FÍBBBL! Bráðskemmtilegir tónleikar, og langar mig að þakka þeim sem ekki mættu fyrir að gera mér kleift að vera alveg fremst í langbesta sándinu og gríðarlegum fílingi. Ég var reyndar efins um að mig langaði framan af. Hafði ekkert hlustað á kappana síðan Hugh Cornwell hætti fyrir einum fjórtán árum. Á reyndar á dvd síðustu tónleikana sem hann kom fram á með sveitinni og þar er óhætt að segja að hann totti feitan, greinilegt að hann nennti þessu ekki lengur. Svo fyrir einhverja hálfgerða tilviljun verzlaði ég nýjustu plötuna þeirra, Norfolk Coast, og er óhætt að segja að öflugri gripur liggur ekki á lausu. Varð ég líka ekki fyrir neitt gríðarlega sárum vonbrigðum þegar þeir einmitt byrjuðu konsertinn á titillaginu, gríðarlega skemmtilegu og kröftugu lagi. Tóku þeir líka einhver fimm lög af nýja disknum, auk eins eða tveggja sem ég þekkti ei, en mest voru þetta náttúrulega gömlu standardarnir, fyrir utan að tilfinnanlega skorti Nice and Sleazy.Rakst þarna á Jakob Smára Magnússon, bassaleikara og Stranglersaðdáanda númer eitt. Hann hafði hitt goðið sitt, JJ Burnel, fyrr um daginn. Gladdi það mig mjög. Nú, er skemmst frá að segja að bandið var feykiskemmtilegt. Þó svo trymbillinn sé ekki jafnöflugur og í gamla daga - enda kominn langt á sjötugsaldurinn - þá er bandið þétt og gott, bössungurinn náttúrulega alæðislegur sem og hljómborðsleikarinn - sem er jú fokkings snillingur -, gítaristinn fínn, þ.e.a.s. gerir ekki of mikið, vinnur af smekkvísi og gerir allt vel, en söngvarinn fannst mér standa upp úr hvað performans varðaði. Hann óð um allt sviðið sem vitlaus væri og er óhætt að segja að hann hafi gefið meira í en Cornwell á þeim upptökum sem ég hef séð með honum.Enda varð ég dýrvitlaus og missti það eins og smástelpa þegar ég rakst á þá tvo "nýju" (búnir að vera í bandinu í 14 ár) á Graut á stöng seinna um kveldið. Gaf þeim íslenskt brennivín í staup og voru þeir hinir vinalegustu við pínulitla íslenska aðdáandann, sem var gersamlega að missa það! Allavega, best að skella Stranglers á fóninn og vera HRESS!Annars, óskilt með öllu... hvað er Stevie Wonder að rífa kjaft yfir Eminem-vídeóinu? Það er ekki eins og hann hafi séð það!

Saturday, December 04, 2004

Meira af Kristjáni og unglingabólum

Jón heitir skrýtinn og skemmtilegur kall, yfirmaður minn í búð Tóna. Hann vann Músíktilraunir ´87 (bara varð að taka það fram).
Hann bloggar sjáldan, en skemmtilega þegar það gerist. Ég hreinlega verð að deila með lesendum því sem hann fann þegar hann leitaði að Kristjáni Vindbelg Jóhanssyni. sem er þokulúður að atvinnu úti á Ítalíu.
Kommentið "I've sure heard worse at the opera (Scotto's final Tosca, Kristjan Johannson in anything) and they got at least polite applause" finnst mér mjög fallegt.
Hér er greinin;

http://listserv.cuny.edu/Scripts/wa.exe?A2=ind9604b&L=opera-l&F=&S=&P=5172

Annars kreisti ég unglingabólu á spegil klukkan átta í morgun og varð mjög glaður. Þrjátíu og veitekkihvað ára og var að kreista unglingabólu á spegil! Ekki nóg með það, heldur sé ég Stranglers í kvöld. Þeir fengu lánaðar græjur úr búðinni, jibbí! Burnell notar nebblega Ashdown bassamagnara, sem við flytjum einmitt inn til klakans.

http://ashdownmusic.com/artists/detail.asp?ID=109

Allir í stuði!

Friday, December 03, 2004

Röfl og enn ein heilhveitis getraunin

Guð minn slmáttugur. Kristján Jóhannsson, offitusjúki og loftfyllti þokulúðurinn utan af landi, segir íslendinga alla sem einn vera sveitalubba sem skilji ekki kostnað í DV í dag. Ekki það að ég sé neitt hrifinn af DV sem slíku, bara enn minna hrifinn af Kristjáni. Þótti alveg indælt þegar gamla Pressan (sem var þó jafnvel enn verra blað en DV er í dag) tók sig til og hafði sambandi við ritstjóra allra helstu óperublaða Evrópu fyrir einum tíu árum síðan. Þá hafði Kristján nýverið lýst því yfir að Pavarotti, Domingo og Carreras “hefðu verið frábærir einu sinn en væru orðnir of gamlir”.
Hann væri alveg skýlaust fjórði tenórinn og menn ættu náttúrulega að sjá það í hendi sér.
Áðurnefndir ritstjórar, að EINUM undanskildum, höfðu hinsvegar ekki minnstu hugmynd um hver maðurinn var. Alveg yndislegt.
Hann segir nú í dag landa sína, þ.e. okkur, ekki skilja kostnað og ætlar af landi brott til að fara ekki í taugarnar á fleirum.
Æ, hvað það er gott.
Kostnaðurinn, sem hann talar um, eru þessar ein komma sjö millur sem hann fékk fyrir góðgerðartónleikana margumtöluðu nýverið. Hann tók sumsé tæpar tvær millur eftir að hafa LOGIÐ opinberlega að það eina sem hann bæri úr býtum væri farið heim frá Ítalíu og afnot af jeppa. Honum hefur greinilega líkað svona vel við jeppann að hann hefur ákveðið að verzla hann á eina komma sjö.
Ólafur F. Magnússon, aðstandandi umrædds konserts, segir að kostnaðurinn hafi verið mikill af mörgum ástæðum. “Ég geng ekki um bæinn betlandi og hef aldrei gert” segir hann í áðurnefndu dagblaði í dag.
En er það ekki einmitt forsenda þess að góðgerðartónleikar skili hagnaði? Að maður betli smá?
Einar Borðar, sá ágæti maður, hefur síðustu ár staðið fyrir samskonar konsert ár hvert þar sem hann fær vinsælustu poppsveitir landsins til að leika FYRIR EKKI KRÓNU!
Hljóðkerfiskostnaður er EKKI KRÓNA og fyrir húsið borgar hann EKKI KRÓNU. Hver einasta króna sem er greidd fyrir miða skilar sér til aðstandenda krabbameinssjúkra barna. Kannski af ví að hann þykist ekki of góður til þess einmitt að ganga um bæinn betlandi styrki, ókeypis auglýsingar, frítt hljóðkerfi og annað til þess einmitt að hver króna sem greidd er fyrir miða skili sér á réttan stað.

Hvað um það – GETRRAUN!!!
Engin fokkings verðlaun, búinn að gefa nóg í bili.

Spurt er um hljómsveit.

Hljómsveitin er stofnuð formlega þann 11. september 1974 í London. Meðlimirnir voru þá einn Svíi, lífefnafræðingur, íssölumaður og franskur lögfræðinemi með svarta beltið í karate. Sá starfrækir nú eigin skóla í úthverfi London.
Svíinn hætti bráðlega og englendingur var tekinn inn í staðinn.
Eftir gríðarlega spilamennsku um allt England náði sveitin plötusamningi og varð um tíma vinsæl en ávallt nokkuð virt í sínum geira. Hafa þeir gegnum tíðina átt sín “ups and downs” á vinsældalistum og áttu nýverið lag á breska listanum.
Þeir komu hingað til lands eitt sinn fyrir allnokkru.
Þeir hafa allir setið í fangelsi.
Ein af plötum sveitarinnar inniheldur mikið af textum með tilvísanir í Biblíuna og þá helst að “hinir svartklæddu", þ.e. mennirnir sem reyna að fá fólk til að afneita tilvist geimvera (eins og í bíómyndunum) hafi átt gríðarlegan þátt í ritun hennar til að fá fólk til að trúa ekki á tilvist geimvera, eða eitthvað í þá veruna.
Árið 1980 voru stórtónleikar með sveitinni í Bretaveldi, en rétt fyrir konsertinn var söngvarinn handtekinn með fulla vasa af ólyfjan og stungið í steininn. Voru þá góð ráð dýr, enda löngu uppselt á giggið.
Fengu hinir þá aðra söngvara til að fylla skarð ógæfumannsins. Þeir voru t.d. Ian Dury, Hazel O´Connor og Toyah Wilcox, auk þess sem Robert Fripp tók með þeim lagið. Voru þessi ósköp seinna þrykkt á plast í takmörkuðu upplagi.

Hver er sveitin?
Sem áður segir, engin fokkings verðlaun, en svariði samt!

Thursday, December 02, 2004

Ammæli

Hann á ammælídag
Han á ammælídag
Hann á ammælann Vúddí Allen!
Hann á ammælídag

Erkisnillingurinn og fyrrum kynþokkafyllsti maður heims - Woody Allen - á afmæli í dag.
Óska ég honum þónokkuð til hamingju með afmælið sem og árangurinn sem hann hefur náð gegnum tíðina.
Vissuð þið að hann var eittt sinn bófi í Bond-mynd? Hann var Jimmy Bond, vondi frændi James, í Casino Royale hinni seinni. Var reyndar einnig einn af leikstjórunum. Myndin er gerð 1967 og þykir... ja... sérstök. Fyndnir punktar, en mjög spes.

Hvernig fynnst ykkur Woody?

A. Snillingur
B. Ég er ekki dómbær því ég er menningarlegur óviti sem skil ekki Woody Allen.

Svör óskast.

Wednesday, December 01, 2004

SHINING VAR ÞAÐ, HEILLIN!

Bjarni Randver, sá sem nálgast það manna mest að vera alvitur, tók sig til og vann kvikmyndagetraunina.
Myndin sem spurt var um var Shining, byggð á sögu eftir Steven King, með Jack Nicholson í aðalhlutverki (eins og ég sagði, Olga, þú varst á eilitlum villigötum, ekki algerum), leikstýrt af Stanley Kubrick og Bondinn sem lék í myndinni var enginn annar en fyrsti Bondinn, Barry Nelson. Sá lék Bond í sjónvarpsmynd 1954, en fór með hlutverk hótelstjórans í Shining.
Bjarni hefur nú unnið til eignar hina lítt skemmtilegu mynd The Bunker.
Til hamingju.

Dýrara brennivín

Nú voru vinir vorir á hinu háa alþingi að hækka áfengisskattinn. Það er grábölvað og færir oss enn fjær því að vera samkeppnishæf hvað varðar verð á mat og drykk. Erlendir ferðamenn eru jú alveg nógu hlessa á reikningnum þegar þeir gera vel við sig og er þetta nýja skammarstrik spor í þveröfuga átt.
Sýnir einnig allnokkuð um þingið hvernig atkvæðagreiðslan var. Hún fór fram í þremur umræðum og fór svo:

35 já, 9 greiddu ekki atkv., 19 fjarstaddir.
35 já, 9 greiddu ekki atkv., 19 fjarstaddir.
39 já, 4 greiddu ekki atkv., 20 fjarstaddir.

Enginn, ekki einn einasti þingmaður sagði nei við þessari smávægilegu morðtilraun við túrisma á Íslandi. Tæpur 1/3 þingheims sá sér ekki fært að mæta til atkvæðagreiðslu.
Hækkunin er að vísu ekki há, en eins og áður sagði skref í bandvitlausa átt og þarf aldeilis að snar u-beygja í hina áttina svo við verðum eins mikið túristaland og við bæði ættum og þurfum að vera.

Hvernig er það, veit enginn hvaða mynd ég er að tala um.
Smá vísbending:

Aðalleikari myndarinnar lék í þessari mynd rithöfund. Hann hefur síðan leikið rithöfund í allavega einni annari mynd.
Höfundur bókarinnar, sem umrædd mynd byggir á, hefur skrifað fleiri bækur um rithöfunda sem komast í hann krappan.
Höfundur bókarinnar var ósáttu við myndina.

Nú var ég gersamlega að gefa þetta, þannig að svarið nú, elskurnar mínar.