Wednesday, December 29, 2004

Feiti kaddlinn að röfla enn einu sinni

Gleðileg, allesammen.
Ég áttaði mig á því á allraversta tíma - aðfangadagskvöld - að ég er orðinn viðurstyggilega feitur. Ég er spikklessa með bumbu og komst ekki í sparibuxurnar eða jakkafötin með góðu móti og eyddi því aðfangadagskvöldi í gallabuxum, kvinnu minni til óblandinnar gremju.
Ég er sumsé lítil, loðin tólgarklessa og nú skal eitthvað gert í málunum. Kaupa strigaskó og stuttbuxur og stökkva í ræktina, því mér virðist lífsins ómögulegt að láta minna ofan í mig en gott getur talist. Því skal brenna meira. Ég er líka ógeðslega gamall því eldri sveppurinn er orðinn löggiltur unglingur, þrettán vetra.
Ég fékk, talandi um aðfangadagskvöld, síma með myndavél frá áðurnefndri eiginkonu minni í jólagjöf. Þegar ég er búinn að læra á hann og læra að setja myndir inn á bloggið verður gaman. Gefið mér náðarsamlegast tólf ár.
Annars, skellti mér í leikhús á norðurhjara veraldar (Akureyri, lítill bær suður af Hrísey) og sá í félagi við eldri son minn söngleikinn Ólíver Twist. Var þetta allt hið besta mál, hljómsveit góð og leikarar og allt eins fagmannlega unnið og hægt er að búast við af leikfélagi á Akureyri. Eitt stakk mig þó aðeins. Í leikhúsinu eru 200 sæti og miðinn kostar 3,500-kall. Miðað við að uppselt sé - sem er þó varla alltaf - er þá innkoman per sýningu 700,000 íslenskar nýkrónur. Hljómsveitin telur um eða yfir tylft manna og leikaraskarinn er væntanlega rúmlega sú tala. Þá eru ljósamenn allavega tveir, hljóðmaður (Gunni Sigurbjörns, snillingur), miðasölustúlka og eitthvað fólk sem vinnur þarna á svæðinu. Gefum okkur að við sýninguna starfi þrír tugir manna, sem er varlega áætlað, þá er innkoma á hverja sýningu 23,333 krónur og 33 aurar á haus. Þá er ótalinn kostnaður við húsið, sem er talsverður, laun leikara og annarra á æfingartíma og bladíbla.
Það er sumsé ekki fokkings glæta að þetta standi undir sér! Í stað þess að hækka miðaverð, sem væri í góðu lagi þar sem sýningin er þess virði, er stykkið eflaust sýnt með bullandi tapi sem greitt er af bæjarbúum á Akureyri. Sumsé, maður greiðir þrjú og fimm fyrir miðann og svo borga allir eitthvað með skattpeningunum sínum, fullkomlega óháð því hvort þeir sjá stykkið eður ei og algerlega án þess að vera spurðir. Pæliði aðeins íðí.
Einnig er verið að reisa tónlistarhús fyrir milljarða á milljarða ofan þegar hvert mannsbarn sér að nauðsynlegri hlutir eru látnir liggja úti í horni. Súrt. Pæliði í því. Kommentið. Rífumst nú, krakkar.

10 Comments:

Anonymous Anonymous said...

Ég rétti ekki feitum kaddli Labelloið í búð Tóna fyrir 2 vikum. Mér fannst þú ekkert hafa breyst í mörg ár. Það getur nú ekki verið mikið lýsi sem þú þarft að sprikla af þér.
Gamall? Vartu ekki sjálfur um fermingu þegar stóri sveppur fæddist?

Mér finnst persónulega í fínu lagu að styrkja list, framúrskarandi íþróttamenn, langveik börn, heilsugæslu og menningu með skattpeningunum mínum. Er meira að segja líka áskrifandi að islamska Lottóinu.
Ég kemst svo sjaldan í bíó - hvað þá leikhús eða tónleika, svo að ég er ekkert fúl yfir að borg og svitarfélög borgi undir svona stykki. Enda oft nauðsynlegt til að halda menningu á lofti til þess að maður gleymi hversdagsleikanum og losi um stress og hlæi/gráti/syngi smá. Ég veit fátt meira endurnærandi en vel heppnuð bíó-/leikhús-/tónleika-ferð. Slíku gleymir maður aldrei.
Ég er á móti því að skattpeningunum mínum sé varið í risnur, fyllerí og óþarfa dagpeninga embættismanna og ýmislegt sem maður hefur Geirmund um hvert þeim er varið í.

Orgelið

3:07 PM  
Anonymous Anonymous said...

þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ólíver fær bara eina slummu á diskinn. Ef allir fengju tvisvar kostaði miðinn yfir 4þúsundkall og enginn tímdi í leikhús.
Til hamingju með táninginn, jólin og gallabuxurnar.
Ég mæli með heimildarmynd ef þú ætlar í ræktina, gæti verið svona sambland af Gauja litla og 70 mín.
Það var samt lélegt að gefa mér ekki tvo kassa af bjór og viskípela í jólagjöf, var alveg innstilltur á það.
Arnmundur.
PS, jólakortakveðjan fylgir fyrir kommúnista og íhaldsplebba:

Eitt sinn forðum daga Sjeikspír heitinn sagði
sú er raunin mest tú bí og not tú bí,
og það má líka sjá á einu augabragði
að íslendingar hafa lifað samkvæmt því.
Þessi myndarþjóð af fornum kappa kjarna
sem kvaddi í fússi Noregs strandar bú
og þó má enn sjá í formanninum Bjarna
hvernig föðurbetrungarnir eru nú.

Það var lán við skyldum losna undan dönum
sem lifa fyrir pulsur bjór og snafs,
og að lenda í slíkum kærleikum með könum
þessu kirkjurækna fólki vestanhafs.
Þú munt Fjalladrottning eins og aðrar skvísur
eflaust njóta þín í bólinu hjá Sam,
þó hann kunni að draga öðruhvoru ýsur
eftir ævintýrið stóra í Víetnam.

Páll Hvítalín úr bókinni hans Ása í Bæ, Korriró.

Bévaðir kanar, hafa nú ekki tíma til að draga ýsur núna þessir **** eftir nýjustu ævintýrin.
Gleðilega hátíð, samt sem áður, allir sem einn.
Arnmundur góði.

4:05 PM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Það er ekki að spyrja að þessum kommaskröttum, alltaf vilja þeir meira. Það er ekki nóg að fá dvd-spilara í jólagjöf, nú viltu ólyfjan einnig!

5:56 PM  
Anonymous Anonymous said...

Eru þetta ekki bara óttalegir 5000kallar þarna fyrir norðan?

10:47 PM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Er ekki skárra að vera 5,000-kall heldur en 500-kall, þ.e. Jón Sigurðsson karókísöngvari?
Annars þykir sjálfsagt að kynna sig, herra anonimus.

11:56 AM  
Blogger Pippi said...

Svona Ingvar minn. Vertu óhræddur að segja okkr hvað þú gerðir um jólin í miklu máli. Skemmtilegt. Annars bara farsælt ár óskir til þín og sjáumst aldrei framar.

7:59 PM  
Anonymous Anonymous said...

Gleðilegt það.
þú ert uppáhalds hlussan mín.
Magnús Geir Þórðarson nýlega ráðinn leikhússtjóri hjá LA leikstýrði Óliver. Það var eimitt sami Magnúsinn sem setti Leikfélag Íslands í Iðnó á hausinn með þvi að setja sjálfur upp sýningar með alltof mörgum leikurum.
Mér er drullusama hversu mikill listamaður hann þykist vera, það er ekki hægt að láta fjölmenna atvinnumanna- sýningu ganga upp í 120 manna húsi eins og Iðnó.
Og mér er ekki sama um að ég skuli vera látinn borga undir einhverja misvitra snobbplebba sem vilja vera listamenn.Ef þið kæru listamenn getið ekki lifað af listinni uppá eigin spýtur drullist þið þá til að fá ykkur vinnu eins og venjulega fólkið.

Gangi þér hreint óskaplega vel í afhlussuninni (mér finnst þú sætastur í heimi með eða án bumbu).

Gasalega kær kveðja
Geir fallegi leikhús listamaður til margra ára.

10:53 PM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Geir. Ég elska þig. Þú talar sem væri blaðrað úr míns eigins hjarta. Árs og friðar.

10:35 AM  
Anonymous Anonymous said...

Mér líkar það alltaf vel að menn standi við orð sín, og á sínum tíma lofaðir þú Ingvar að láta það ekki stöðva þig að hafa ekki hundsvit á hlutunum, og það hefur þú svo sannarlega staðið við :-)
Oliver er samstarfsverkefni L.A og Sinfoníuhljómsveitar Norðurlands, og hefði aldrei getað gengið upp öðruvísi, þeas ef LA hefði þurft að greiða öllum hljóðfæraleikurum laun samkvæmt samningum. Það má segja að hljómsveitin spili upp á hlut, eins og þú og ég og fleiri hafa svo oft gert. Það er auðvitað magnað að bjóða upp á svona stórt og flott dæmi á Akureyri, þó að leiklistarkrítiker Fréttablaðsins finnist reyndar að sveitapakkið eigi bara að halda kjafti og kveða rímur (þótt líklega sé erfitt að gera hvoru tveggja samtímis)
Annars óska ég öllum ómældrar hamingju og gleði á nýju ári og þakka fyrir frábært 2004, sem hjá mér er einkum minnisvert fyrir of margar suðurferðir, sem í restina skiluðu árangri :-) og að á árinu "varð ég eitthvað" eins og sumir orða það.
Haukurinn

11:37 AM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Hjartans Haukur, þó ég viti ekki nákvæmlega hvernig aðstæður bakvið sýninguna eru, þá veit ég þó eitt; það er ekki nokkur leið á himni eða jörðu að hún standi undir sér meðan miðinn kostar 3,500-kall, sama hvort hljóðfæraleikarar eru á hurðinni eður ei. Því er miklu mun heiðarlegra að rukka meira fyrir miðann - því hann er þess virði - fremur en að rukka of lítið fyrir miðann og grípa mismuninn úr sameiginlegum sjóðum okkar skattborgara. Þannig erum við hvort eð er að borga meira fyrir miðann. Væri jafnvel gaman að vita hversu mikið leikhús fá á ársbasis frásveitarfélögum.
Hinsvegar vil ég taka fram aftur að sýningin var stórgóð og mun ég eflaust sjá hana aftur ef leið mín liggur norður bráðlega.
Annars, hjartans frændi til hamingju með nýja árið og allt hitt.

11:55 AM  

Post a Comment

<< Home