Monday, February 28, 2005

Aaaaaarrrrgh!

Mikið er ég þreyttur, svaf lítið um helgina. Var nebblega að spila á bar Satans og vinna á laugardagsmorguninn í búð Tóna. Hressandi.
Oft gaman að fullu fólki sem telur sig eiga eitthvað erindi við músíkantinn sem er að spila. Fólk verður svo skrýtið með víni oft. Um helgina var til dæmis talsvert af fólki sem fór að fletta í möppunni minni, sem ég er yfirleitt síður en svo límdur við. Hvað er það, eitthvað?
Svo var einn sem reif í míkrófóninn minn - þannig að minnns hætti að spila, kippti veskinu hans upp úr rassvasanum og sagði honum að ef hann léti ekki dótið mitt í friði léti ég dótið hans ekki í friði. Hann sá að sér, baðst afsökunar og allt í góðu.
Svo er það fólkið sem vill endilega fara að tala við mann í miðju lagi og byrjar að blaðra í eyrað á manni - reynir einnig oft að leggja handlegginn yfir öxlina og draga mann til sín. Það er illþolanlegt. Þá tekur maður trikkið hans Stebba Stuð, hættir að spila og segir hátt og snjallt í míkrófóninn, svo ekki fari framhjá neinum í salnum:
"Fyrirgefðu, en ég hef ekki tíma til að liggja á einhverju spjalli við þig, ég er nefnilega að spila núna. Tala við þig á eftir".
Virkar það oftast nær þannig að viðkomandi verður skömmustulegur - en þó ekki alltaf. Sumir eru nefnilega ansi hreint tregir.
Svo er það nýlegt dæmi um konuna sem fór að tala voða mikið við okkur Stebba Stuð um það leiti sem við vorum að ljúka skildustörfum á Döflíneri. Hún labbaði inn á sviðið eins og það væri hennar eigið eldhús og bað ég hana kurteisislega að færa sig út af sviðinu aftur. Gekk það erfiðlega mjög að koma henni út, en hafðist á endanum. Óð hún þá beint inn á sviðið aftur og varð ég öllu ákveðnari að koma henni þaðan burt í það skiptið. Varð hún trítilóð, svo ekki sé meira sagt og gerði tilraun til að troða sér inn á sviðið í þriðja skiptið og hlustaði ekki mikið á mig þegar ég sagði henni að þetta væri okkar vinnusvæði og svaraði hátt og snjallt: "Mér kemur það ekkert við, ég á ekki heima á Íslandi, ég bý í Portúgal!"
Jú, það eru allir í heiminum fífl nema ég og nokkrir aðrir...

Saturday, February 26, 2005

Birta

Hvað er að gerast? Lagið Angel, eða Birta, eftir Einar Borðar er í öðru sæti vansældarlistans í Svíþjóð! Hvað kemur eiginlega næst? Það sem enginn sér á toppi færeyska listans? Þú og þeir á toppi gríska teknólistans? Hinsti dansinn í toppbaráttunni á Bjarnareyjarlistanum? Aaaaarrrrrgh!
Íslendingar hafa samið heila dobíu af gríðargóðum lögum sem ættu alveg skilið að slá í gegn úti, en hvað gerist? BIRTA! Þrátt fyrir að ég geti ekki annað en samglaðst Einari fyrir þetta - þetta eru eflaust ófáar krónur í stefgjöld - sýnir þetta enn og aftur að það er ekkert réttlæti í þessum heimi.
Ekkert.
Þeir íslendingar sem slá í gegn á erlendri grund eru bara eitthvað kerlingarvæl sem enginn gæti mögulega haft gaman af (Björk), eitthvað allsherjarvæl sem bókstaflega enginn skilur (Sigur Rós) eða eitthvað hundleiðinlegt og útvatnað hommafönk með slappbassa sem gæti drepið heilan skógarbjörn úr leiðindum (Mezzoforte).
Og nú Birta.

Friday, February 25, 2005

Burt Reynolds

Hann Burt vinur okkar Reynolds hefur aldeilis upplifað tímana tvenna, eins og allir sem orðnir eru eldri en tveggja tíma gamlir. Hann fór frá því að vera stórstjarna i bíógeiranum með Smokey and the Bandit yfir í það að detta alveg úr tísku, svo varð hann aftur vinsæll í sjónvarpsþáttunum Evening shade, landaði rullu í Boogie Nights og svo mætti lengi telja. Til að bæta enn einni rós í hnappagatið lék hann í aldeilis ljómandi vondri - en samt fyndinni - auglýsingu fyrir hraðsendingarfyrirtæki eitt í heimalandi sínu, sem eins og allir vita er BNA, land Dimebag Doubya. Kíkið á auglýsinguna með því að klikka á setninguna hér að neðan:

http://www.awfulcommercials.com/movies/kinkosbowl.mov

og bítiði svo í ykkur.
Ruppur Roðfletti.

W

Skemmtileg frétt sem ég sá um daginn á moggavefnum, varðandi góðvin okkar allra, George W. Bush. Einhverjar gamlar upptökur af samtali hans við annan mann komu upp um kauða, en hann nokkurn veginn viðurkennir þar að hafa reykt marijuana hér áður fyrr í old days. Það er náttúrulega agalegt! Guð minn góður! Aaaaaaaarrrgh! Reykti hann gras!?!?!
Ef það væri hans stærsta vandamál, að hafa fírað í einni feitri á háskólaárum sínum, væri heimurinn - að BNA meðtöldum - betri staður.
Hann kvaðst á áðurnefndum upptökum ekki vilja viðurkenna það opinberlega til að gefa ekki slæmt fordæmi. Hann er eitthvað að misskilja þetta - ef hann viðurkennir opinberlega kannabisneyslu myndi stórdraga úr henni á heimsbasis og hampræktendur um víðan völl verða teknir til gjaldþrotaskipta í stórum stíl. Þessar upplýsingar, að W. hafi notað áðurnefnda ólyfja, hefðu getað fengið jafnvel Bob Marley til að leggja pípuna endanlega á hilluna.
Áður hefur reyndar komið fram að forsetafíflið hafi ofnotað brennivín í allgríðarlegu magni og mokað einhverju af kókaíni í trýnið á sér þannig að þessar nýjustu upplýsingar komu nú ekkert sérstaklega mikið á óvart. Þó getur þessi neysla ekki afsakað hegðun þessa valdamesta manns heims nema að litlu leiti - hann hefði þurft að sjúga hálfa Bólivíu í nefið, reykja Jamaika í heild sinni og drekka eins og eitt Mývatn af eldvatni til þess að verða svona vitlaus.
Nú, víkjum okkur að öðru... en samt ekki. Títtnefndur Dimebag Dobuya er nú til dags alveg æfur því að Norður-Kóreumenn vilji koma sér upp kjarnavopnum. Ekki léttist lund hans heldur neitt að ráði yfir kjarnorkuáætlun Írana. Af hverju mega þeir ekki eiga kjarnavopn? Bandaríkin eiga kjarnavopn og fullt af öðrum löndum líka. Bandaríkjamenn meira að segja fundu hreinlega upp kjarnorkusprengjuna og öfugt við aðra hafa þeir notað hana í stríði. Þeir eru líka ef ég man rétt eina þjóðin sem hefur látið öðrum í té kjarnavopn, en þeir seldu Ísraelum nokkur stykki á hippatímabilinu (ekki það að hippar hafi haft neitt með það að gera, en þetta var samt svona rétt fyrir ´70 að mig minnir).
Því er náttúrulega sjálfsagt að leyfa Írönskum aröbum og Norður-Kóreönskum kommadjöflum að eiga sín kjarnavopn... nema þá ef W væri til í að eyða slatta af kjarnavopnum Bandaríkjanna, er það ekki? Hvað finnst ykkur - kjarnavopn á hvert heimili?

Wednesday, February 23, 2005

CSI

Skemmtilegt. Ég er smá CSI-aðdáandi og á þrjár fyrstu seríurnar í heild sinni á DVD, auk fyrstu seríunnar af CSI Miami. Ég hef nebblega smá gaman af löggumyndum. Því greip auga mitt fyrirsögn á mbl.is hvar stóð:

"Sjónvarpsþættirnir CSI gefa óraunsæa mynd af réttarrannsóknum".

Alltaf gaman hvað fólk virðist ekki geta gert sér gein fyrir að sjónvarpið er ekki alveg raunveruleikinn. Fyrir nokkrum dögum var kona gegn klámi í sjónvarpinu að tala um að klámmyndir gæfu ekki raunverulega mynd af kynlífi. Nú? Ég hélt einmitt að allar konur væru til í fjöldamök og brundgleypingar fyrir hádegi með ókunnugum. Var meira að segja alveg 100% viss um að allar konur væru til í að leggjast með kynsystrum sínum ef sá gállinn væri á þeim.
Því varð þessi frétt um CSI-þættina, sem mér finnst almennt skemmtilegri en klámmyndir, til þess að ég fór að hugsa...

1. "Dallas gefur óraunsæa mynd af olíuviðskiptum".
2. "Bachelor gefur óraunsæa mynd af stefnumótamenningu fólks".
3. "Þættirnir um lögregluhundinn Rex gefa óraunsæa mynd starfi lögregluhunda".
4. "Footballer´s wifes-þættirnir gefa óraunsæa mynd af eiginkonum íþróttamanna".

og í síðasta sæti:

5. "Á tali með Hemma Gunn gefur ranga mynd af hressleikastigi íslendinga".

Og ekki fokkings orð um það meir!

Friday, February 18, 2005

Bolungarvík

Skemmtileg fyrirsögn á mbl.is - "Rúta fauk út af veginum til Bolungarvíkur".
Þetta sýnir, svo allan vafa tekur af, að ekki er þörf á neinum ekkisens jarðgöngum til svæðisins. Bílar, og í þessu tilfelli meira að segja langferðabíll, fjúka bara á svæðið. Ekki var þó tekið fram hvaða vegur þetta var.
Tók ei fram í fyrri pistli að ég var eitt sinn veðurtepptur á Bolungarvík í heila viku. Það var ekki gaman þó ég væri í góðu yfirlæti hjá indælu fólki.

Thursday, February 17, 2005

Mogginn er æði

Jú, Mogginn er eini fjölmiðillinn sem ég tek mark á nú til dags. Öllum hinum er nebblega stjórnað af einhverjum bévítans kommúnistum og þeir ættu, eins og allir vita, best heima bak við lás og slá.
Ein frétt á mbl.is í dag segir frá konu nokkurri sem er í hinum danska sósíalíska þjóðarflokki (enn einn kommadjöfullinn). Hún heitir Pernilla Bagge og var í framboði í kosniungunum um daginn. Hún náði kjöri, sér til mikillar furðu. Er talið ljóst að fólk hafi kosið hana vegna þess að hún heitir Bagge og var því efsta konan á listanum, því á kjörseðilinn er raðað í stafrófsröð. Sýnir þetta enn og aftur, svo ekki verður efast um, að konum er skítsama (eða Ósama) um málefni og svoleiðis í jafnréttisbaráttunni svokölluðu, kjósa bara þá konu sem hendi er næst. Sífellt er verið að krefjast þess að konur fái hinar og þessar stöður, en sjaldan tiltekið hvaða konur koma til greina og hvaða kosti þær hafa fram yfir þá karlmenn sem koma til álita.
Mínar uppáhaldskonur þessa dagana eru skúringakonur í Glasgow. Þær sem um ræðir starfa við hreingerningar á menningarmiðstöð þar í bæ og skúruðu burtu nýlistaverk eftir einhverja Angelu Bartram um daginn. Þeim datt ekki í hug, þegar þær komu inn á salernisaðstöðu menningarmiðstöðvarinnar, að þetta væri nýlistaverk, en salernið var svona um það bil í rúst, klessur hér og þar og drasl á gólfum. Því gerðu þær það sem þær fá borgað fyrir - þrifu hátt og lágt, eflaust af miklum myndarskap, enda Skotar ágætisfólk og óskiljanlegt þegar það talar.
Skúringakonurnar eiga að fá verðlaun fyrir vel unnin störf og listakonan, ef listakonu skildi kalla, á að fá sér aðra vinnu. Helst að biðja skúringakonurnar afsökunar líka fyrir að sóða út klósettið.
List schmist.

Gef oss í dag vort almennt grenj

Komið sæl, ef einhver er að lesa... eða lessast.
Nú hefur bloggleti mín verið gríðarleg síðustu daga og biðst ég vélmyrðingar á því. Margt hefur þó brunnið á mér eins og heitur eldurinn og byrja ég nú vælið.
Hvern djöv... er þessi Vagnsdóttir (ein af Vagnsbörnunum að vestan) að pæla að heimta margra kílómetra jarðgöng fyrir Bolvíkinga???
Hún sumsé býr á Bolungarvík, eins og nokkur hundruð aðrar hræður, og virðist vera að átta sig á því núna að samgöngur eru þar ekki upp á marga fiska. Þá krefst hún þess núna að skattborgarar, þ.e.a.s. við hin, borgum jarðgöng, margra kílómetra göng, svo hún geti verið í betra sambandi við umheiminn! Bévítans vestfjarðaheimtufrekja alla tíð! Nær væri að losa hausinn af Íslandi og fleyta honum einhver hundruð kílómetra norður fyrir Bjarnarey ásamt öllum sem þar búa. Þar gætu þeir fengið allann þann viðbótarkvóta sem þeir vilja mín vegna og borgað sín farging jarðgöng sjálfir. Reyndar veit ég nákvæmlega hvert þessi Vagnsdóttir getur troðið þessum jarðgöngum sínum!

Hvað um það, ég fór á þorrablót móðurættar minnar sl. laugardag og var það gaman. Borða helst ekki þorramat en lét mig hafa það þegar ég var gabbaður í þorrakappát. Tróð þar í andlit mitt hákarli og sviðasultu, skolaði því niður með brennivíni og lenti í öðru sæti af fjórum. Gauti frændi minn snerti ekki við sínum bakka og neitaði að keppa í kappáti sökum meiðsla. Hann klár.
Hvað um það, þetta kvöld endaði bara í einhverri óreglu af minni hálfu. Drakk allt brennivínið í bænum og fór svo heim. Gaman.

Og að enn öðru... frjálslyndisflokksglæpóninn Gunnar Örlygsson (kalla hann glæpón því hann er glæpón) hefur komið fram með þingsályktunartillögu um að afnema reglur um klæðaburð þingmanna. Finnst það of mikið vesen að setja á sig bindi, girða sig þokkalega og strauja skyrtu til að ljá alþingi virðulegt yfirbragð. Hvað er að? Finnst einhverjum eitthvað athugavert við að þingheimur sé snyrtilega til fara? Viljum við eiga á hættu að sjá þarna inni stussybuxnaplebba ógirta með derhúfur á hlið? Þessi lög um klæðaburð eru bráðnauðsynleg. Meira að segja Össur, sem er ekki í miklum metum hjá þeim sem þetta ritar, er snyrtilegur og með slaufu ætíð og ávallt.
Reyndar myndi hann gera alþingi að virðulegri stað með því að hoppa fyrir lest, en það er önnur saga. Væri reyndar kostur ef hann tæki mestalla stjórnarandstöðuna með sér... og mestallann Framsóknarflokkinn... og jafnvel líka nokkra vel valda Sjálfstæðismenn... og Vagnsdótturina að vestan.
Maður getur látið sig dreyma.

Thursday, February 10, 2005

Gaul

Ég ætla að mælast til þess að verslunin, sem ég vinn hjá, komi með þrælsniðuga nýjung á næsta ári. Það er öskudagsátakið "Syngdu í símann". Hefði viljað nota "Hringdu og syngdu" en Sniglabandið eiginlega var búið að fá siðferðilegt einkaleyfi fyrir því slagorði.
Nú, þetta felst í því að krakkar, í búningi eður ei, hringja í sérstakt öskudagsnúmer verslunarinnar og syngja eitt lag. Svo gefa þau upp nafn og heimilisfang og við sendum lítinn nammipoka í pósti með forgangshrað.
Ekkert vesen, engir krakkar um alla búð, bara einn afleysingastarfsmaður sem sér um þetta meðan aðrir selja hljóðkerfi og rafgítara af miklum móð.
Annars fór þetta vel fram í gær, hópar fulllitlir fyrir minn smekk, en gaman. Jú, maður man hvað var gaman að fá að fara í kábojbúning og plaffa á alla sem voru í indjánabúning. Veiii!
Talandi um káboj og indjána, var að horfa á Missing með Tommy Lee Jones og Cate Blanchett. Hún er fín.

Tuesday, February 08, 2005

Öskudags

Á morgun er öskurdagur, en þá fara krakkar bæjarins í lélegar múnderingar og hrella starfsfólk fyrirtækja með ýlfri. Ef einhver sem les þetta er kvefaður mjög, vill þá hinn sami koma til mín og koma í sleik svo ég smitist og verði veikur á morgun.
Ég man í gamla daga, þegar ég var ungur, þá voru tíu manna lið sem æfðu söng og leiktilbrigði í tvær vikur fyrir öskurdaginn og voru í móðurhönnuðum búningum frá toppi til táar. Meira að segja, öfugt við ungdóm nútímans, með hvellhettur í byssunum. Foreldrar í dag eru svo politically correct að þeir leyfa gemlingunum ekki að vera með byssur á öskurdag, en svo upptekin að þau aðstoða þau ekkert við æfingar eða búningagerð.
Svo koma krakkarnir, tveir saman í hóp, með gula húfu og yfirvaraskegg, vita ekki einu sinni sjálf hvað þeu eru að þykjast vera, jarma tvær línur úr Írafárslagi og heimta nammi.
Á milli eru svo stöku metnaðargjarnir ungliðar sem nenntu að æfa, syngja heil lög (í undantekningartilfellum raddað og allt), íklædd fínum göllum og redda morgninum. Þeir fá HELLING af nammi.
Og kók.

Sunday, February 06, 2005

Mahna mahna

Ég á gamlan vin sem heitir Bjarni. Hann er Guðfræðingur og kvikmyndavitleysingur mikill, hefur leitt mig yfir grýtt öræfi bíólistarinnar og kynnt mig fyrir ógrynni af allskonar myndum, stefnum, straumum, leikurum, leikstjórum og ég veit ekki hvað og hvað. Skemmtilegt að hann sé Guðfræðingur og ein af uppáhaldsmyndunum hans er Rosemary´s baby - hún er einmitt ekki mjög kristileg.
Hvað um það, hann var að gauka að mér eilitlu upplýsingakorni sem gæti glatt mögulega einhvern, ef menn á annað borð hafa gaman af fullkomlega gagnslausum upplýsingum.
Lagið "Mahna mahna", sem margir muna eftir úr Prúðuleikurunum (mahna mahna dudurururu), er eftir ítalska hryllingsmyndatónskáldið Piero Umiliani og er úr myndinni Svezia Inferno Paradiso (Sænska paradísarhelvítið... eða eitthvað).
Þar hafið þið það.

Saturday, February 05, 2005

Laugardagur í vinnunni

Gaman og stuð og fjör. Nú sé laugardaxmorgunn og ég er í svaka stuði í vinnunni. Var að spila í gær, ennþá þrælputtabrotinn, á Bar Satans - Djöflíner. Við Stebbi Stuð fórum á kostum og gott ef ekki hamförum líka (þó ekki Hamfarir Gunnars Jökuls) og hættum ekki fyrr en Korginn hans Stebba var orðinn alblóðugur. Er óhætt að segja að stuðið hafi verið gríðarlegt og allir í fíling. Mætir menn mættu á svæðið, Jón Frímann af Skaganum, Jón og Magni í Stuðkompaníinu og margir fleiri.
Samt er ég enn pirraður eftir að hafa horft á Idolið ruglað í gær. Heiða litla bara í þriggja manna skömmustuhópnum! Hver djö... er eiginlega að? Bévuð beyglan syngur eins og moðerfokker og fer svo bara í skammarkrókinn!
Dabbi, minn maður í keppninni, rúllaði upp sínu lagi og stóð sig með prýði. Maður er bara ekki lítið ánægður með feita kallinn.
Jú, ég er alger Grafarvogsbolur og horfi á Idol. Styttist í að ég kaupi mér jogging-galla.

Wednesday, February 02, 2005

Allt er frábært

Lífið er yndislegt. Góndi á CSI-þætti á dvd fram á nótt, spilaði á skemmtilegasta þorrablóti í geimnum um síðustu helgi (spilaði reyndar ekki mikið svona puttabrotinn, en aðeins þó) og enn batnar það. Haldiði að í næsta þætti af CSI-Miami fari Horatio Caine ekki bara til New York og þar verða kynntir til sögunnar meðlimir CSI-sveitarinnar þar, Gary Sinise og kó.
Bíð spenntur eftir að morgundagurinn verði að kveldi kominn.
Um næstu helgi fýkur svo gypsið endanlega og við Stefán munum standa fyrir gríðarlegur partýi á Döbblíner. Allir að mæta, enginn helst að puttabrjóta mig samt.
Stuð.