Thursday, June 30, 2005

Röfl og djetraun, jessindíd

Sælt veri fólkið.
ekki á af bloggurum þessa lands að ganga þessa dagana. Fyrir viku var brotist inn til Einars, félaga míns - slimjimi.tk - og stolið af honum fullt af dóti og kattarkvikindið hans (fyrirgefðu, Einar, en ég er með ofnæmi fyrir köttum, andlegt sem líkamlegt, meðfætt og ólæknandi) hrætt fram úr hófi. Svo núna í fyrradag var farið inn í bílinn minn, veit ei hvort ég hef gleymt að læsa honum eða hvort bófanum tókst að opna með bófatrixum, og stolið innkaupapoka með bleyjum og blautþurrkum, jógúrt og skyri, auk poka af klinki, sem væntanlega hefur verið það sem greip auga glæpónsins gengum rúðuna. Hinsvegar eru glæpamenn yfirleitt glæpamenn vegna þess að þeir hefa ekki gáfur til að fá sér almennilega vinnu og sannaðist það í þessu tilfelli þar sem i-podinn minn lá á mælaborðinu og rafgítar í steisjonríminu og voru þar enn þegar ég kom í bílinn, ca. þremur mínútum eftir að ég yfirgaf hann. Æðislega vondur glæpón, stela klinki og bleyjum, gleyma rafmagnsgítar og i-pod. Lélegur glæpón!

Hvað um það, best að koma með getraun...

Hver er leikarinn?

Minnst er á hann í Quentin Tarantino-mynd.

Okkar maður lék í mynd um teiknumyndasögupersónu, auk þess sem hann lék í sjónvarpsþáttum um aðra teiknimyndasögupersónu. Skiluru?

Hann lék mjög nýlega í sjónvarpsseríu sem byggð er á frægri stórslysamynd.

Hann hefur leikið í myndum með Bruce Willis, Benicio Del Toro, Julia Roberts, Martin Sheen, Donald Sutherland, Michelle Pfeiffer, Dennis Hopper, Elijah Wood, Gary Busey og flestöllum öðrum sem eru eitthvað.

Hver er kallinn, bíósjúklingar eiga ekki að vera í vandræðum með þetta...

Wednesday, June 29, 2005

Jeff Bridges over trouble water

Það var Jeff Bridges, eins og Jóhann Þór elzti vinur minn sá í hendi sér. Til hamingju með það.
Hann lék jú í Big Lebowski, sem nefnd er eftir aðalsöguhetjunni, lék með Beau bróður sínum í Fabulous Baker boys, með Lloyd, pabba sínum í Blown away, en Lloyd lék með Donald S. í Bear Islan og Jeff með Kiefer S. í Vanishing, hvar Jeff lék geðveikan morðingja. Hann lék einnig bróður myrts Bandaríkjaforseta í Winter Kills.

Annars hef ég nú, á gamals aldri, loksins lagt drög að frama mínum í Hollywood og ætla mér mikinn auð og sætti mig ekki við neitt annað en forsíður slúðurblaða og milljónir dollara á mynd. Óskarsverðlaunin eru handan við hornið, handrit í skrifum og ljóst að stjörnuleikur minn í súkkulaðikökuauglýsingunni fyrir jól var aðeins fyrsta skrefið á leið minni til frægðar og frama á hinum grýttu lendum kvikmyndalistarinnar. Næsta skref - sækja um sem stöntkall í Clint Eastwood-myndinni sem taka á hérlendis.
Lág laun, vondur vinnutími, mikil viðvera, örugglega vondur matur, en - ef Dirty Harry kallar á aðstoð mína, þá svíkst ég ekki undan merkjum!
Clint, ég elska þig!

Leikaragetraunin

Hvað er þetta! Enginn búinn að fatta hver leikarinn er í þarsíðustu færslu, eða nennti enginn að lesa gegnum röflið á undan?
Endilega giskið, þetta er ekki Charlie Sheen, ekki Emilio bróðir hans og ekki Michael Douglas.

Enn ein vísbending:

Leikarinn sem spurt er um hefur ekki leikið í Tarantino-mynd, en hann lék eitt sinn mann í æðislegri gamanmynd, en nafn myndarinnar var einmitt dregið af nafni aðalsöguhetjunnar.

Jósi, hvar ertu?

Annars, Duran á morgun, allir að mæta. Sá þá í London í fyrra og það var gaman. Jú, ég sá þá.
Var ég búinn að minnast á að ég sá Duran Duran í London í fyrra? Það var gaman. Vonast til að verði jafngaman annað kvöld, ætla ekki að vera jafn edrú og ég var á Iron Maiden.
Ætlaði annars á Megadeth en fékk ekki pössun. Átti heldur ekki pening, því einhver spiladjobb eru enn ógreidd, leiðinlegt þegar það gerist. Skilst að þetta hafi verið hressir tónleikar.
Kerlingin er búin að vera burtu í viku og kemur í dag, syninum til mikillar gleði - kannski sjálfum mér pínu líka. Ég tók mig því á og henti öllu ruslinu út í morgun þegar ég fór með Svepp til dagmömmunnar og var það fullur, svartur ruslapoki. Nágrannakonan spurði mig af hverju hún hefði ekki séð kerlinguna í marga daga og hvað ég væri með í pokanum...

Áfram Bubbi. Afturábak Eiríkur Au.

Eiríkur Jónsson...

þú ert mesti djö... hálfviti sem ég veit um!

Monday, June 27, 2005

Samiðnarröfl og bíógetraun fyrir lengra komna.

Í dag er heilsíðuauglýsing í einu dagblaðanna frá Samiðn, sem er, eftir því sem ég best veit, eitthvað verkalýðseitthvað iðnaðarmanna. Má geta þess að í verkalýðsfélögum eru nauðungargjöld, sem innheimt eru af verkalýðnum, og hafa þau gjöld væntanlega verið notuð til að borga auglýsinguna að verkalýðnum forspurðum.
Auglýsingin vekur athygli á því að eitthvað á annan tug starfa hafa tapast til útlanda með eihverju skipi, væntanlega er verið að henda dallinum í slipp þarna handan við hafið.
Í auglýsingunni krefjast þeir Samiðnarmenn þess að stjórnvöld hér geri iðnaðarmönnum hér kleift að keppa við iðnaðarmenn erlendis.

Því spyr ég - AF HVERJU STJÓRNVÖLD?

Ef einstaklingar og familíur skulda of mikið eiga stjórnvöld alltaf að gera eitthvað. Ef einstaklingar og familíur fá ekki lán til að skuldsetja sig eiga stjórnvöld að gera eitthvað. Ætíð er veinað í stjórnvöldum að redda hinu og þessu sem stjórnvöldum kemur ekki rassgat við!
Hvað eiga stjórnvöld að gera til að forða því að fyrirtæki og stofnanir leiti til erlendra iðnaðarmanna ef þeir eru ódýrari? Jú, væntanlega er partur af því að setja upp einhverskonar verndartolla eða álika kerfi, sem allir heilvita menn (þ.e.a.s. þeir sem eru ekki vinstra megin við miðju) sjá í hendi sér að er ekki gott til lengdar.
Það sem hérlendir iðnaðarmenn gætu jú gert til að gera sjálfa sig samkeppnishæfari - því boltinn er jú hjá þeim en ekki stjórnvöldum - er að bjóða betri vinnu á lægra verði. Það eina sem stjórnvöld geta gert - og ættu að gera - er að lækka ýmiskonar tolla og skatta af þeirri vöru sem iðnaðarmönnum er nauðsynleg til að stunda vinnu sína, en það er ekkert sem gerist í hvelli. Þegar og ef það gerist verður svo einhver vinstrikommatitturinn sem vælir yfir því að ríkið sé að henda frá sér nauðsynlegum skatttekjum.

Hvað um það - getraun!

Spurt er um leikara - öllum að óvörum!

Hann er sonur leikara og bróðir leikara.

Hann hefur leikið á móti bæði bróður sínum og pabba sínum - ekki í sömu mynd, þó.

Hann hefur leikið bróður Bandaríkjaforseta í umdeildri mynd, sem sækir margt í morðið á JFK.

Hann hefur leikið kol-fokking-geðveikan morðingja.

Pabbi hans lék á móti Donald Sutherland, okkar maður á móti Kiefer Sutherland.

Hann hefur einnig leikið á móti Andy Garcia, Christopher Walken, Clint Eastwood, Benicio Del Toro og Steve Buscemi.

Hvaða mann er ég að spyrja um?

Nú?

Sara litla var að gifta sig í gær, til hamingju með það. Sjálfur er ég rólegur til giggsins þessa dagana vegna þumaleymsla, tók sig upp gamall sársauki síðan ég var brotinn í ársbyrjun. Mun ekki leika næstu vikuna.

Þeim mun meiri tími til að horfa á vídeó, sem er það skemmtilegasta sem ég geri. Búinn að rifja upp aðeins, horfði á True Romance, Orange County og Zero effect, allt saman frábærar myndir, en gerólíkar. Hafði ekki séð þær alltof lengi. Þið þekkið væntanlega ekki Zero effect, en það er sultufín ræma með Bill Pullman og Ben Stiller. Einnig er Ryan O´Neal í veigamiklu hlutverki. Alltof sjaldan sem hann sést þessa dagana, var alltaf svolítið hrifinn af honum (sem leikara, sko) þegar ég var unglingur og sá Driver.

Hey, best að gera lista yfir myndir sem þið verðið að sjá.

Topp fimm, myndir sem ég tel ólíklegt að þið hafið séð:

5. Phantom of the Paradise e. Brian de Palma. Nútímapoppversjón af Óperudraugnum með poppi eftir Paul Williams. Lagið Súperhetjan af plötunni Skot í myrkri m. Eika Haux er einmitt úr myndinni, fínt lag.

4. Zero effect. Sjá hér að ofan.

3. Driver. Sjá einnig að ofan.

2. Black Sunday. Terroristamynd eftir sögu Thomas Harris, sem skóp Hannibal Lecter. Hann hefur einmitt skrifað fjórar bækur, sem orðið hafa að fimm myndum. Red Dragon hefur verið filmuð tvistvar, sem Manhunter ´86 og Red Dragon 2002. Eða 3.

1. Manhunter. Sjá að ofan.

Fást flestar á James Böndum í Skipholti.

Verðykkuraððí.

Friday, June 24, 2005

Madsen

Jú, einsog Gauti vissi var það Michael Madsen, bróðir Virginíu, sem var leikari sá sem ég spurði um. Hann lék einmitt móti hinum íslenska Keikó (eða Sigga) í Free Willy.

Gaman.

Leaves eru að hita upp fyrir Duran. Vonandi að Duran kenni þeim að nota sjampó!

Föstudagur. Jibbí.

Ég reyndi að horfa á Hitcher 2 í gær. Ákvað eftir klukkara að eyða ekki meiri tíma í þetta helv... og fór að horfa á Star Wars. Meira gaman.

Spilaði með Gunna Óla í gær á Hverfisbarnum og það var svakastuð. Var að drepast í brotna þumlinum allan tímann á meðan. Spila ekkert um helgina sökum þess.

Vinka bless.

Thursday, June 23, 2005

Ekkert rétt svar enn...

Ju, minn. Ekkert rétt svar enn. Þá verð ég að koma með vísbendingu Sveins.

Í einni af sínum bestu myndum var okkar maður gataður til bana með silfraðri Smith & Wesson skammbyssu.

Einnig lék hann á móti frægum Íslendingi, sem nú er látinn. Hann lék einnig á móti Val Kilmer og Alec Baldwin.

Ber að ítreka að okkar maður er kúl.

Hver er kallinn?

Annars, svo ég snúi mér að öðru, er frétt í blaðinu í dag, hvar segir að sjálfsmorðum hafi fækkað. Hvernig er það hægt? Lifnuðu einhverjir við? Væri ekki réttaða að segja að færri fremdu sjálfsmorð í ár en í fyrra eða eitthvað svoleiðis?

Ég var að horfa á Freddy vs. Jason (eða Jason vs. Freddy, man ekki). Hún byrjar fínt, en eins og hryllingsmyndir almennt heldur sér illa. Gleðilegt samt að sjá dísent splatteratriði hvar syndugum ungmennum er slett yfir veggi og gólf með sveðjum og öðrum áhöldum. Vantar meira af svoleiðis.

Kajagoogoo er í sjónvarpinu að leika Too Shy. Alveg fyndið.

Tuesday, June 21, 2005

Leikaragetraun, enn einu sinni

Hver er maðurinn?

Hann er afkomandi Íra, indíána og svo er hann mestmegnis ættaður frá Evrópulandi, hvaðan ættarnafn hans er.

Hann hefur gefið út nokkrar ljóðabækur.

Hann er fyrrum mágur Cher.

Hann hefur leikið í myndum með Tom Sizemore, Bruce Willis, Geena Davis, Al Pacino og John Malcovich, auk þess sem hann hefur leikið í Bondmynd og tölvuleikjum.

Hver er kallinn?

Einsi kaldi

Jú, Einar Valur vann bíógetraunina og sá sem spurt var um var enginn annar en ég - Andy Garcia.
Hann lék mann sem ranglega var talin hetja í Hero, glæpaforingja í Godfather 3, innraeftirlitslöggu í Internal Affairs, blaðamann sem gerði músíkant abbó í Dead Again og Dýrlinginn í Things to do in Denver when you´re dead, sem er aldeilis skemmtileg ræma.
Til hamingju, Einar minn.

Var að pæla, ég fór í Hagkaup í gær og þar er krakkahorn sem samanstendur af sjónvarpi með teiknimynd í og nokkrum stólum. Við hornið er skilti sem á stendur "ENGIN ÁBYRGÐ TEKIN Á BÖRNUM Í KRAKKAHORNINU".
Ef það væri ábyrgð, hvað fengi maður ef þau myndu týnast? Nýtt grill? Jakkaföt?

Var að horfa á Batman Begins (eða Bamtan begnis eins og lesblindi kallinn sagði) og hún er alltílæ. Byrjar ógeðslega vel, en dettur aðeins niður í lokin.

Rifjaði upp Grosse Point Blank í nótt, hún er alltaf jafnskemmtileg. Ég og sonur minn eldri sofnuðum svoá sófanum og hrutum í kór.

Yfir og út.

Monday, June 20, 2005

Meir getraun

Nú, jæja, Jói hafði Buscemi á kantinum með lítilli fyrirhöfn. Laglegt hjá gamla.

Nú skulum við getraunast meira.

Hver er leikarinn?

Hann er kúl.

Hann hefur leikið í myndum með Christopher Walken, Steve Buscemi, Laurence Fishburne, Ian Holm, Bruce Willis, Jeff Bridges, Ed Harris og James Coburn.

Hann hefur komið til Íslands ásamt fríðu föruneyti.

Hann hefur leikið mann sem ranglega var talin hetja, glæpaforingja, innra-eftirlits-löggu, blaðamann sem vekur afbrýðisemi hjá tónlistarmanni og mann sem kallaður er "Dýrlingur".

Hver er hann?

Mánudaxröfl og djétraun

Heyrði í pabba mínum í gær. Ekki það að ég væri að tala við hann, heldur var hann í útvarpinu. Viðtal við hann í þætti á Rás 1 hvar gamli sagði frá því þegar hann fór á sjóinn og svo sökk skipið, eins og segir í laginu "Þegar pabbi fór á sjóinn þá hann sökk á bólakaf...".
Allavega, hann var fyrir tæpum 40 árum á síldarbát einum, smíðuðum í Austur-Germaníu. Hann og hans menn sigldu langt norður í rassgat, fylltu bátinn af síld og svo sökk hann. Stuð.
Gamli fór í bátana, við tólfta mann, og þar þurftu þeir að dúsa með vatn og kex í fimm daga áður en Snæfuglinn tók þá upp í og skutlaði þeim heim. Var gaman að heyra hvað gamli notar gríðarsterk lýsingarorð, eða hitt þó heldur, í þessu ágæta viðtali. Vistin í bátnum var "bærileg" og tilfinningin þegar þeim var bjargað var "notanleg". Öfugt við son sinn notar karlinn ekki hæsta stigs lýsingarorð mikið.
Ekki stoppaði þetta hann þó í að fara aftur og aftur á sjóinn að færa björg í bú, móður minni eflaust til óblandinnar óánægju. Jafnvel að hann sé núna á gamals aldri búinn að versla sér trillu ásamt vini sínum. Sjálfur hefði ég eflaust drullað í brók og grenjað allan tímann í gúmmíbatnum og enn meira þegar mér hefði verið bjargað.

Hvað um það - GETRAUN SCWEINS!!!

Hver er leikarinn?

Hann hefur leikstýrt síns eigin myndum.

Hann hefur leikið alkóhólista, glæpamann, löggu, vísindamann, geimfara, Buddy Holly og ráðgjafa í fangelsi.

Hann hefur talaði inn á teiknimyndir.

Hann hefur leikið í myndum með Billy Bob Thornton, Christopher Walken, Sean Connery, Woody Allen, Jeff Goldblum og Danny Trejo.

Hann er töff.

Hver er leikarinn?

Svar óskast.

Sunday, June 19, 2005

HÆ!

Jú, stuð hjá mér.
Var að spila með Binna bassakalli á Dubblíner á fimmtudaxkvöldið, einmitt þar sem Danni trommukall hélt upp á ammælið sitt. Þrítugur, kallinn.
Kom þá ekki bara Ingi Valur og fékk að vera memm. Var það bæði gaman og skemmtilegt, þar sem hann er jú gríðarskemmtilegur mússíkant. Rúnar í 60´s, Ingimundur, líka í 60´s og Kiddi Gallblaðra tóku líka lagið að ótalinni Gunnu dúllu, sem syngur svo vel að Knocking on Heaven´s door verður skemmtilegt ef hún syngur það.

Annars var ég að horfa á Son of the Pink Panther á Skjá einum áðan. Hún er hreinn viðbjóður.

Best að góna á CSI- Miami.
Bið að heilsa, getraun seinna. Langar einnig að þakka Orgelinu hlýleg orð í minn garð hér í kommentunum.

Blezz.

Thursday, June 16, 2005

Fréttir, veður og bíóvísbending

Nú, í fréttum er það helst að ég hitti Jósa í gær og við drukkum smá bjór. Það var gaman, svo gaman að hann hefur ekki ráðið bíógetraunina mína. Jibbí.

Þremenningarnir semslettu skyri eða súrmjólk með grænum lit á ráðstefnugesti Nordica í gær ollu víst múltímilljónatjóni og er það gott á þá. Hvað er þetta djöfulsins pakk eiginlega að pæla? Halda menn virkilega að ef þeir sletti subbi yfir fullt af fína fólkinu þá hætti stjórnvöld við að virkja fyrir austan og atvinnuleysi austfjarða fari aftur upp á við? Fíbbl...

Var annars að horfa á Layer Cake áðan og er hún ógeðslega fín.Svo góndi ég á Dead Man´s shoes, sem er einhever bresk indí-mynd, sultufín og ógeðsleg. Allir dauðir fyrir hlé.

Annars er enginn búinn að finna lausnina í bíógetraun gærdagsins.

Vísbending:

Okkar maður drap Samuel L. Jackson í ógeðslega góðri mynd. Hann var einnig óþekkjanlegur í einni stærstu mynd ársins 2001, einni af myndunum í frægri seríu. Hann var afskræmdur í þeirri mynd allsvakalega og étinn í lokin.

Annars verslaði ég mér SaturdayNight Live - Best of Tom Hanks. Skemmtilegt. Sérlega gaman að sjá það sem var of gróft til að fara í loftið.

Wednesday, June 15, 2005

Bíógetraun og röfl

Hvað er með þetta útúrsúra og andlega vanheila pakk sem ruddist inn á ráðstefnuna á Nordica? Slettu grænni súrmjólk yfir ráðstefnugesti og tölvur til þess eins að láta gestina halda sér föstum þar til löggan kom og lenda í steininum. Vonandi verða þau sótt til saka og látin borga hvert einasta sokkapar sem skemmdist svo ekki sé talað um tölvurnar.
Jæja, nóg um hálfvita beint í bíógetraun, Jósi vann síðustu, sá sem spurt var um er Terence Stamp og nóg um það!

Bíógetraunin HVER ER KADDLINN???

Hann er þrígiftur - og þrífráskilinn. Greinilega erfiður kaddl.

Hann var eitt sinn gripinn blindfullur undir stýri - með Íslandsvininn Kiefer Sutherland í farþegasætinu - blindfullan líka.

Hann hefur leikið eina frægustu persónu kvikmyndasögunnar, persónu sem margar myndir hafa verið gerðar um.

Hann hefur leikið írskan glæpamann, löggu sem er ekki öll þar sem hún er séð, terrorista og vondan mann sem ætlar að eyða heiminum.

Systir hans er leikkona, en ekki nándar nærri eins fræg og okkar maður.

Hann lék í mynd sem tekin var að hluta til hér á landi.

Er þetta ekki alveg borðliggjandi?

Tuesday, June 14, 2005

Kerlingin farin í sveitina

Kerlingin tók yngri Svepp í sveitina áðan. Eldri Sveppur fór til mömmu sinnar þangqað til á morgun.
Fyllerí í kvöld? Einhver?

Monday, June 13, 2005

Ingvar var það, heillin

Jú, þið höbbðuð þetta, Ingvar Eggert Sigurðsson var það. Hélt þetta væri erfitt, en jæja...

Keddlingin mín útskrifaðist um helgina og er þar með orðinn löggiltur kennari. Ég á sumsé núna keddlingu sem er láglaunakona með háskólamenntun. Þar fór draumur minn um að leggjast út af og setjast í helgan stein um fertugt. Djö...

Hvað um það, til að fagna útskriftinni héldum við partý. Ef þér var ekki boðið er greinilegt að mér er ekkert vel við þig (eða þá að þú ert ekki foreldri, systkin eða mágur/mágkona).
Svo fórum við á ball með Sixtís (sissies) úti í sveit, eða á Klúbbnum við Gullinbrú (Klobbanum við Gyllinæð). Þar er barinn 160 cm. hár, svo maður rétt nær yfir og líður eins og smástrák í sjoppu. Pantaði mér kókómjólk í staðinn fyrir æris.

Hvað um það, menn geta alltaf bíóleikaragetraunirnar mínar án þess að blása úr nös. Hér er ein sem ég vona að sé erfið...


Hver er kvikmyndaleikarinn?

Hann er búinna ð vera heillengi í bransanum, lék í sinni fyrstu mynd 1962.

Hann hefur leikið geimfara, kúabónda (sem var drepinn) og sjálfan Djöfulinn. DJÖÖÖÖÖVULINN!!!

Hann reið Birgitte Bardot. Gott hjá honum. Það var áður en hún varð geðveik tík.

Í einni af myndum hans, þeirri sem hann þykir standa sig einna best í, er sungið fyrir hann lagið "We´ll meet again, don´t know where, don´t know when..." - í réttarsal. Það er rétt eftir að hans karakter vitnar gegn glæpafélögum sínum. Þeir hitta hann svo aftur.

Hann lék í Star Wars.

Ein af nýjustu myndum hans dregur nafn sitt af þjóðerni aðalsöguhetjunnar, sem okkar maður leikur.

Hann bjó á Indlandi í nokkur ár.

Saturday, June 11, 2005

Ein fokkings erfið

Nú, Stebbi Stuð vann síðustu, enda um hans (og eiginlega minn líka) uppáhaldsleikara að ræða, Christopher Walken.

Enn ein kvikmyndaleikaragetraunin:

Hver er maðurinn?

Hann hefur leikið rússneskan hermann, löggu og geðsjúkling.

Hann hefur leikið í myndum með t.d. Alec Baldwin, Sam Neill og Liam Neeson.

Sonur hans hefur einnig leikið í bíó.

Hver er kaddlinn?

Friday, June 10, 2005

Jósi schmósi

Jósi vann bíógetraunina. Drep hann við tækifæri.
Var ða spila í gær á Dubbliner og fékk marga góða gesti. Hreimur, Viggi í Írafári (þessi sem samdi If I had your love, sem tapaði í Eurovision), Pétur og fleiri komu og gestuðu og var ekki vanþörf á því sökum ölvunar trúbadorsins. Svo var farið í partý hvar ég drakk meira og böggaði Jón Ólafs og Hildi Völu Ædolstjörnu.
Ekkert að spila um helgina, nema á sunnudag á Döbb. Ætla að sitja heima í kvöld og horfa á vídeó með eldri svepp. Er ennþá með marbletti á öxlunum eftir að hafa haft hann á öxlunum á Iron Maiden-konsertnum.
Gaman.

Leikaragetraun.

Hver er leikarinn?

Hann byrjaði að leika í sjónvarpi 1954, sem aukaleikari í framhaldsmyndaflokki.

Hann er mest kúl. Mest.

Hann lék í Spielberg-mynd.

Hann fékk Óskarinn eitt sinn.

Hann lék í Woody Allen-mynd.

Hver er kaddlinn?

Ein hress djétraun

Nú ríður á að karlpeningurinn láti ekki sitt eftir liggja að mala næstu bíóleikaragetraun. Kelling vann síðast, reyndar helv... fín kelling, en það má ekki gerast aftur.

Hver er kvikmyndaleikarinn?

Hann lék í sinni fyrstu mynd 1972.

Hann á svarta eiginkonu.

Í einni mynd lét Robert De Niro drepa hann. Í annarri mynd drap okkar maður Robert De Niro.

Hver er kallinn?

Hörkusigur Hammondsins

Helgi Skúlason var það, heillin og Olga Orgel var með það. Því hefur kelling unnið bíógetraunina, eftir því sem ég best man í fyrsta skipti. Er það óviðunandi.
Til hamingju, Orge.
Ný getraun á eftir.

Thursday, June 09, 2005

Síðasta getraun var kannski auðveld, en ég nennti ekki að vera að smíða einhverja voðagetraun því Jósi eða Pétur í Filmusi vinna alltaf... eða oftast.

Hvað um það, hér er ein lauflétt:

Hver er leikarinn?

Hann lést fyrir nokkrum árum úr krabbameini.

Hann var gríðarlega kúl.

Hann lék í allnokkrum myndum, bæði fyrir sjónvarp og bíó.

Bróðir hans komst í fréttir fyrir nokkrum árum vegna meintrar kynferðislegrar áreitni við nokkrar konur. Hann var sýknaður, en málið þótti hið versta vegna starfs hans.

Sonur okkar manns hefur einnig getið sér gott orð m.a. sem fjölmiðlamaður.

Í einni af myndum hans er frægt einvígi. Þar er okkar maður vondi kallinn. Hann háir þar bardaga við góða kallinn. Góði kallinn hefur harma að hefna, en okkar maður hafði m.a. myrt foreldra hans mörgum árum áður í félagi við aðra.

Hver er kaddlinn?

Leikaragetraun númer 67485392

Vegna þess að leikaragetraunin mín er alltaf alltof auðveld og endist sirka tvo tíma er hér ný:


Hver er leikarinn?


John Wayne.Annars óska ég Jóa Sigurvins með að geta upp á Don Johnson í síðustu umferð, glæzilegt. Bið að heilsa keddlingunni.

Wednesday, June 08, 2005

Meiri bíógetraun - Jósi vann hina, sko.

Þetta er agalegt. Þegar maður er handviss um að bíógetraunin sé óleysanleg eru alltaf Jósi og Pétur í Filmusi komnir á bloggið og leysa málið. Glatað.

Því er hér ein enn:

Hver er leikarinn:

Hann hóf frægðarferilinn í geysivinsælum sjónvarpsþáttum.

Hann samdi handrit að bíómynd ásamt Hunter S. Thompson. Það endaði sem sjónvarpsþáttaröð hvar okkar maður fór með titilhlutverkið.

Hann söng lag inn á plötu ásamt Barbra Streisand.

Hann hefur leikið í fjölda bíómynda og meðal hlutverrka hans má nefna löggu, morðingja, golfara og Elvis.

Hver er kaddlinn?

Annars sá ég og heyrði Iron Maiden í gær. Mjög gaman. Þeir tóku m.a.s. Remember tomorrow, sem er mitt uppáhalds-Maidenlag. Er blár og marinn á öxlunum eftir að hafa haft unglinginn minn á herðum mér en það var bara gaman. Hann söng með hástöfum í Run to the Hills svo mig verkjaði í eyrun. Alveg gaman.
Áfram Meiden - klappklapp klapp klapp klapp!

Iron Maiden!!! Meiri bíógetraun!!! Jibbí!!!

Skemmtilegt frá að segja að Halli Hólm, vinnufélagi minn og jafnvel spilafélagi stundum - ef út í það fer drykkjufélagi einnig - var staddur með einn af bössunum sínum á Dubliner í gærkveldi. Hafði ætlað að spila með trúbador kvöldsins, en tok eftir því að hann var of ölvaður til þess, svo hann sleppti því að mestu.
Þá labba inn 4 af 6 meðlimum þungarokkssveitar þeirrar sem nefnd er hér að ofan og er skemmst frá því að segja að menn misstu sig almennt, staff, músíkantar og fastagestir (eftir því sem heimildir segja, ég var heima að horfa á Jay Leno) og Halli ekki minna en aðrir.
Nú, hann fékk þessa fjóra meðlimi til að árita bassann sinn og ljósgráu bassaólina sína - en hana gaf hann mér og kann ég honum allrabestu þakkir fyrir.

Hvað um það - leikaragetraun.

Það er ljóst að lesendur bloggsins eru með afbrigðum bíóglöggir og fækkar því vísbendingum.

Hver er leikarinn?

Hann hætti í skóla 12 ára.

Hann hefur leikið á móti Arnold, Al Pacino og Russell Crowe - auk flestra annarra.

Hann hefur leikið í gríðarvinsælum myndum sem orðið hafa að framhaldsmyndaseríum, jafnvel leikið þrjá aðila í sömu seríunni!

Hann lék eitt sinn í sjónvarpsþáttaröð sem hét nafni sem í þá tíð var gríðarmikið tískuorð í hinum enskumælandi heimi.

Hann hefur meðal annars leikið vampíru, löggu, bófa og kúreka.

Hann var í bandaríska sjóhernum.

Hann er ógeðslega kúl.

Hver er kaddlinn?

Allir á Iron Maiden í kvöld - yfir og út.

Tuesday, June 07, 2005

Sagan af því þegar bloggarinn missti kúlið endanlega

Í kvöld munu hinir geðþekku Iron Maiden trylla lýðinn í höll Egils. Þeir litu víst við í gær á Dubliner og vöktu mikla lukku og skilst mér að staff og fastagestir - þ.e.a.s. karlkyns - hafi nett misst það endanlega, sem er skiljanlegt.
Enginn hefur þó klúðrar kúlinu jafneftirminnilega og undirritaður gerði hér um árið ásamt Kidda Gallagher og Inga Val.

Hér er sagan...

Ég var ráðinn við þriðja mann til að halda uppi stuði á Dubliner einu sinni sem oftar helgi eina fyrir rúmlega tveimur árum. Með mér voru, sem fyrr segir, Ingi Valur og Kiddi Gallsteinn og var liðsskipanin tveir kassagítarar og bassi. Við vissum fyrir gigg að Kiddi yrði í seinna lagi, enda að spila annarsstaðar áður og bjóst við að eitthvað gæti teygst úr þvík spileríi. Við Ingi byrjuðum með tvo kassagítara að vopni og míkrófóna, tókum mjög takmarkað sándtékk og byrjuðum að spila. SPLOING! Ingi hafði alveg steingleymt því að undirritaður stillir alltaf gítarinn niður um hálftón (svona til að auðvelda U2-lögin) og var því stilltur "normal". Því voru fyrstu tónar kveldsins heldur stríðir og fóru illa í menn, þannig að ég kláraði lagið einn míns liðs meðan Ingi stillti niður.
Í næsta lagi sleit ég streng. Ingi þurfti því að klára það einn meðan ég skipti. Ef ég man rétt náðum við svo í gegnum alveg heilt lag áfallalaust áður en ég rak gítarinn utan í eitthvað þannig að stillingin fór eitthvað út á Skúlatún. Til að bæta gráu ofan á skítabrúnt mætti svo Kiddi - bassamagnaralaus! Hafði orðið einhver misskilningur og hann haldið að svoleiðis græja væri á staðnum, þannig að hann stakk bassanum bara beint í hljóðkerfið - sem er verra - og hóf leik - án þess að stilla niður um hálftón!!!
Þegar þarna var komið við sögu var minn orðinn óhress og hálfstressaður þannig að þegar einhver gargaði utan úr sal "SPILIÐI STÁL OG HNÍF!" var það gert í hvelli, aðeins til þess að enn verri óskalög fylgdu í kjölfarið. Voru þau öll spiluð, sama hvort við kunnum þau eða ekki, bara til að halda fólki inni og frá því að kvarta.
Urðu óskalögin smám saman súrari og súrari og útgáfur okkar af þeim sömuleiðis. Þá gargaði einhver "spiliði Æron Meiden" og ég lék einhvern bút af Number of the Beast í hægri kántrýútgáfu og Ingi fylgdi fast á eftir með pólkaversjón af Run to the Hills.

Þá tók ég eftir því að allir í salnum (meira og minna) voru að drepast úr hlátri...NEMA BRUCE DICKINSON - SEM FANNST ÞETTA EKKERT FYNDIÐ!!!


Er skemmst frá því að segja að ég, sem er lítill fyrir, minnkaði talsvert - líkt og meðspilararnir.
Í pásunni gaf ég mig á tal við goðið og reyndi eftir megni að útskýra málið, bauð honum í glas og baðst afsökunar. Létti stórum þegar ég sá að hann var svo fokkings svartölvaður, helvítis kallinn, að ég hef allavega getað huggað mig við það að hann man þetta örugglega ekki vel.

Hvað um það - leikaragetraun!!!

Hver er leikarinn?

Hann þykir stundum erfiður í samstarfi.

Hann hefur leikið í myndum með
Robert De Niro, Johnny Lee Miller, Christopher Walken, Meat Loaf, Jim Carrey og Marlon Brando.

Hann hefur leikið, löggur, bófa, spilltar löggur, teiknimyndasöguhetju, eiturlyfjafíkil, jasstónlistarmann - auk þess að leika Elvis og nokkrar aðrar stórmerkar persónur úr mannkynssögunni og jafnvel tónlistarsögunni.

Er þetta of auðvelt, Jósi?

Hver er sveppurinn?

P.s. Hann var giftur ógeðslega sætri leikkonu og á með henni tvo sveppi.

Friday, June 03, 2005

Skrýtið - en gaman

Skemmtilegt hvað vera mín í Smack um árið hefur skilað af sér. Var að spila í gær á Gauk með Stebba Stuð og Pjésúsi og Gaukurinn keypti rándýrar útvarpsauglýsingar og auglýstu "Ingvar Valgeirs" eða "Ingvar Valgeirs og félaga"!
Stebbi var jú í Reggí onn æs og meira að segja í Skímó um tíma og Pétur var jú sjálfur Jesús mánuðum saman, auk þess sem þeir eru í Buff sem spilar í fokkings Hemma Gunn-þáttunum sem annað hvert mannsbarn horfir á, en hver er auglýstur - moi!
Ekkert frægur, ekki einu sinni vel kynntur - og ekki var ég í Súperstar eins og þeir! Leik bara fyrir ofurölvi útlendinga á Dubliner meðan þeir eru á sjónvarpsskjám landsmanna í einum vinsælasta þættinum í dag með hressasta þáttastjórnandanum, en hver er auglýstur - Trúbadorinn geðþekki!

Gaman að því...

Thursday, June 02, 2005

Gaukurinn

Ég, Stebbi Stuð og Pétur Örn á Gauknum í kvöld, byrjum sirka hálfellefu.
Mætiði öll.
Svarið samt fyrst getrauninni hér að neðan...

Bévítans klippikrumlan

Jósi klippikrumla fer á kostum hér í bíógetraunum Ingvars um þessar mundir - sem allar aðrar mundir. Óska ég honum til lukku með árangurinn og vil benda á að eitt sinn lærði ég á orgel hjá afa hans.

Sveppurinn sem spurt var um var að sjálfsögðu Sylvester Stallone, sem leikstýrði Staying Alive, var tilnefndur til Óskars fyrir Rocky númer eitt og er kominn í sjónvarp með Contender-þættina, auk þess sem hann hefur víst leikið í Las Vegas-þáttunum.

Hvað um það - fleiri getraunir... hver er keddlingin?

Spurt er um leikkonu sem átti eitt sinn eiginmann sem var bitinn af risaeðlu. Já, risaeðlu. Ég segi og skrifa risaeðlu. Sumsé, fræg leikkona, hvers fyrrverandi eiginmaður (þegar þessir atburðir gerðust var hann núverandi) var bitinn af alvöru, lifandi risaeðlu. Í alvöru. Í löppina.

Þessi leikkona lék einu sinni á móti Arnold Schwarzenegger.

Hver er glyðran?

Annars er ég, ásamt fríðu föruneyti, að spila á Gauk á Stöng - efri hæð - í kvöld, allir að mæta og drekka bjór.

Kvenslysafélagið Túban.

Wednesday, June 01, 2005

Enn og aftur bíógetraun

Nú skal reyna að gera getraun sem tekur meira en einn dag að fá svar við. Samt á þetta að vera borðliggjandi fyrir fagmenn.

Spurt er um leikara, sem einnig hefur skrifað handrit, leikstýrt og ýmislegt annað.

Hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir besta leik í aðalhlutverki og besta handrit - sama árið - fyrir sömu mynd. Geri aðrir betur.

Hann leikstýrði frægri dansmynd.

Hann lék í Woody Allen-mynd.

Hann er kominn í sjónvarp.

Hann hefur leikið á móti Kris Kristofferson.

Hann hefur leikið í stríðs, hryllings, spennu, gaman, drama og bara allskonar myndum, auk þess - eins og áður segir - að leikstýra og skrifa handrit.

Hver er sveppurinn?

Ef svar fæst ekki í dag (sem kæmi mér þó ekki á óvart) verða fleiri vísbendingar á morgun.