Friday, September 30, 2005

Ásgeirs Óskarsverðlaunin

Fyrrum starfsmaður Búðar Tóna er tilnefndur til Óskarsverðlauna. Stuðmannamyndin Í takt við tímann er framlag Íslands og í henni leikur (og gott ef hann er ekki einn framleiðenda líka) sjálfur Ásgeir Óskars, trymbill og fyrrum búðarloka hér í sjoppunni. Vonandi fær hann - eða öllu heldur hans hópur sem slíkur - styttuna.
Best að fjárfesta einnig í eintaki þar sem ég hef ekki séð myndina ennþá. Slíkt gæti flokkast umdir föðurlandssvik.

Thursday, September 29, 2005

Beggi Mix

Vil taka fram að það var ekki einhver sem sagði þetta með Bítlana og Stóns, sem minnst er á í þarsíðustu færzlu. Það var Bergur Geirsson, Bítlaaðdáandi og bullukollur.
Gefum honum gott klapp.

Moss

Kate Moss farin í meðferð. Var dálítið að setja kók í nebbann sinn, sem er jú óhollt að sögn. Ég skil hana samt alveg, hún þurfti náttúrulega að grennast...

Wednesday, September 28, 2005

Bítlarnir vs. Stones

Nú rétt áðan skaut upp kollinum inni í kollinum á mér dulítið sem ég heyrði einhverntíma fyrir löngu síðan. Einhverjir voru að tala um hvort Bítlarnir eða Rolling Stones væru betri. Bítlamaðurinn kvað Bítlana vera mun merkilegri og sæist það best á því að alltaf þegar talað væri um Bítlana væri bara talað um Bítlana, en þegar talað væri um Stones væri alltaf talað um Stones miðað við Bítlana. Mér fannst þetta skemmtileg pæling og held ég sé alveg sammála henni.
Stones eru fínir á köflum,en gróflega ofmetnir, að mínu mati. Fín lög á stöku stað og fjöll og dalir af sorpi þar á milli.

Gömul saga af sjálfum mér:

Eitt sinn, er ég var nýbyrjaður að trúbadúrast, ók ég á lánstojótu frá Akureyri til Raufarhafnar að spila þar á lókalpöbbnum fyrir nokkra seðla. Eigandi Tojótunnar sagði mér ekki að bílgræjurnar væru pínu bilaðar, þ.e.a.s. voljúmtakkinn var fastur í botni og spólan var föst í tækinu. Ekki hægt að spóla áfram eða afturábak. Spólan var Let it Bleed með Stones öðru megin og Geislavirkir með Utanborðsmönnum hinumegin. Hef hvoruga plötuna þolað síðan.
Svo var ég veðurtepptur í fimm daga í geðveiku veðri á þessum útnára, en þorpsbúar voru gríðarlega vinalegir. Fullmikið vinalegir sumir. Var næstum búinn að ráða mig á frystihúsið í vinnu, en ákvað að sleppa því.
Ók heim á afturhjóladrifnu tojunni í blindbyl og fárviðri, stórsjó og leiðindum, búinn að eyða allri hýrunni aftur í barinn eða á vídeóleigu staðarins.

Skömmu seinna flutti ég suður. Svo flutti ég aftur út á land, í Breiðholtið. Það er svo langt úti á landi að maður getur séð jólasveina hérna í miðjum júlí ef í það fer.

Tuesday, September 27, 2005

Aaaaaaaarrrrrrrrrgh!

Mér finnst Baugsmálið æði. Ég, sem les allar fréttir og reyni sem oftast að lesa sem mest um sem flest í fréttum, skil bara ekki rassgat. Meira að segja Davíð, sem vondir menn segja að hafi verið á bak við málið, segir sjálfur að hann skilji þetta ekki, þótt hann sé lögfræðimenntaður.

Mér finnst baggalútur annars með skilmerkustu skýringarnar á málinu.

Sumir hafa sagt að fjölmiðlar hafi farið offari í málinu. Ég sá einmitt í kvöld Stöð 2 slá Íslandsmet í offari innanhúss í fréttum. Einhver Alaskabúi, sem velti skútunni sinni, var bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar. Félagi mannsins var ekki jafn heppinn, lenti í hrímköldum sjónum og er talinn af. Grey Alaskabúinn er varla stiginn út úr þyrlunni, nýbúinn að sjá á eftir vini sínum í hrollkalt Atlantshafið - sem er eflaust óskemmtilegt - þegar fréttamaður Stöðvar 2 stekkur á hann eins og glorsoltinn og amfetamínsjúkur hrægammur með siðblindu á lokastigi og fer að spyrja hann spjörunum úr! How do you like Iceland fyrir eftirlifendur sjóslysa. Fyrr má nú fokkings fyrrvera tillitssemin við þá sem nýbúnir eru að missa vini sína. Alaskabúinn, væntanlega of þrekaður til að berja fréttamanninn duglega á trompetið, dauðsér eftir að hafa ekki boðið honum með í siglinguna í upphafi.

Ég fékk annars efnafræðisettið sem mig langaði í. Þarf það sumsé ekki í ammælisgjöf. Ég vil fá svona;

http://world.guns.ru/machine/mg04-e.htm

til að hafa á svölunum.

Lifið hálf.

Ammælis

Ég á ammæli eftir akkúrat mánuð. Tilvalið að láta vita af því með smá fyrirvara að mig langar í Dr. Jekyll & Mr. Hyde efnafræðisett í ammælisgjöf.

Sonur minn á hinsvegar ammæli á morgun. Hann langar að eigin sögn í krókódíl í ammælisjöf.

Monday, September 26, 2005

Rush- aðdáendur...

kíkið báðir á þetta.

http://www.drummerworld.com/Videos/NeilpeartYYZ.html

Verið svo í stuði.

Einkavæddur Landssími sýnir klærnar

Setningin hér að ofan er yfirskrift greinar sem Jón Bjarnason, þingmaður VG, skrifar í Fréttablaðið fyrir helgi. Hann talar þar um samdrátt hjá Símanum nýeinkavædda og fer mikinn. Segir frá því að hinir nýju eigendur Símans hafi farið um landið og sagt upp fólki á báða bóga til að gróðinn megi vera sem mestur. Mætti helst skilja á greininni að hinir nýju eigendur Símans væru vampírur sem lifðu á blóði öreigans og hefði sótt að þeim gríðarlegur þorsti strax við eigendaskiptin.

Þessar uppsagnir vekja hinsvegar hjá mér spurningar. Var Síminn hinn ríkisrekni svo illa rekinn að hann væri með fullt af fólki í vinnu sem engin þörf var á? Sýnir þetta ekki svart á hvítu að einkarekstur er yfirleitt hagkvæmari en ríkisrekstur?

Ekki það að mér finnist skemmtilegt að fólk missi vinnuna, síður en svo. Það er óskemmtilegt og niðurdrepandi að vera atvinnulaus. Enn meira niðurdrepandi er að vera í vinnu þar sem maður veit að maður er óþarfur og er einungis til uppfyllingar.
Eins mætti benda á að við eigendaskipti fyrirtækja er fólki oft sagt upp í massavís til þess eins að ráða það aftur, stundum í önnur störf eða með annan vinnutíma eða á annan hátt á breyttum forsendum. Veit ég fyrir víst að einhverjir þeirra sem sagt var upp var boðin vinna strax aftur.
Jón tók það ekki fram í grein sinni.

Ég held það sé fínt djobb að vera í stjórnarandstöðu. Maður getur rifið kjaft og fundið að öllu sem aðrir gera, en þarf aldrei að koma með neinar lausnir sjálfur. Ég ætla að verða stjórnarandstæðingur þegar ég verð stór. Fín, ábyrgðarlaus og sæmilega launuð innivinna.

Jón tekur einnig fram að VG hafi verið á móti sölu Símans. Alveg hreint sláandi að þeir hafi verið á móti einhverju. Væri þá gott að telja upp nokkra hluti sem ekki væru til ef þeir sem nú sitja á þingi fyrir VG hefðu fengið að ráða:

1. Og Vodafone
2. Stöð 2, Skjár einn og allt sjónvarp nema RUV
3. Bjór í Ríkinu
4. Atvinna fyrir nokkur þúsund Íslendinga.
5. Skattalækkunin sem við fengum nýverið.

Hvað um það, búðin mín (ekki það að ég eigi neitt í henni, bara vinn hérna) er að fara að flytja eins og áður hefur komið fram. Komið endilega og kaupið eitthvað stórt og dýrt svo ég þurfi ekki að halda á því upp í Skipholt.

Enn að horfa á Lost. Sirka hálfnaður. Gaman. Næstum jafnskemmtilegt og nýi leðurjakkinn minn sem ég ætla aldrei úr. Myndi setja inn mynd af honum, en kann það ekki.

Að lokum langar mig að benda á að Kristján Pétur, stórskáld á Akureyri hafði rétt fyrir sér - september er svalur.

Friday, September 23, 2005

Skjár einn

Þrjár hugmyndir fyrir Skjá einn:

Íslenskt selebrittí sörvævor - Geir Ólafs, Vala Matt og Össur Skarphéðins sett út í Surtsey og verða þar úti.

Sleppa innliti útliti - þessi Arnar Gauti er meiri kelling en Vala Matt nokkruntíma. Væri fínn í selebrittí sörvævorið ef fólk myndi viðurkenna að það vissi hver hann væri.

Nýr liður í Popppunkti. Í staðinn fyrir "hljómsveit spreytir sig" kemur "hljómsveit sprautar sig". Hreimur grút-tapar fyrir Love Guru.

Góða helgi Pé.

Thursday, September 22, 2005

Fullt af peningum og bíógetraun.

Eruði ekkert að grínast með þetta tólf milljarða tónlistar og ráðstefnuhús? Tólf fokkings milljarðar!
Það er alltaf jafn gaman að sjá hversu vel skattfé mínu er varið. Ef það fer ekki í jarðgöng, sem ég keyri aldrei í gegnum, eða fótboltavelli, sem ég fer aldrei á, þá fer það í tónlistarhús, sem virðist eingöngu ætlað fyrir ákveðna tegund tónlistar, sem var heldur betur styrkt með skattpeningnum mínum fyrir, þ.e. klassík.
Það virðist vera svo að ef sérhagsmunahópar eru nógu frekir og háværir geta þeir fengið nær ótakmarkaðan aðgang að sameiginlegum sjóðum okkar landsmanna til að geta sinnt áhugamálum sínum betur. Sívælandi bévítans sérhagsmunapakk.

Svo ég væli nú enn meira - finnst ykkur ekki frábær auglýsingaherferðin hvar Grísli Marteinn og Egill Silfursson eru settir í drag og menntamálaráðherra og fyrrum borgarstýra eru huldar með gerfiskeggi? Þetta er víst gert af Verslunarmannafélagi Reykjavíkur til að vekja athygli á launamun kynjanna.
Um daginn var gerð könnun um launamun kynjanna. Þar sagði í fyrirsögn að við karlar höfum víst 23% hærri laun en konur. Ef menn nenntu að lesa greinina kom reyndar í ljós að ef miðað var við vinnustundir og svoleiðis var munurinn ekki nema 14%. Einnig ber að benda á að mun algengara er að karlar ráði sig til vinnu með fastar yfirvinnustundir inni í grunnlaunum heldur en konur. Því gæti - fræðilega - veri allt að 0% munur á raunverulegum launum karla og kvenna í Verslunarmannafélaginu. Samt eyða þeir múltímilljónum í svona auglýsingabull því þeir eiga nóg af peningum. Þeir nefnilega taka þúsundir króna af laununum mínum í hverjum mánuði án þess að spyrja mig leyfis. Í stað þess að taka til dæmis helmingi minna af laununum MÍNUM í hverjum mánuði eyða þeir þessu í svona bull. Ég veit það fyrir víst að konur í VR fengju kærkomna uppbót ef VR hirti minna af þeim og auglýsti minna - eða ekkert.
Það er ekki þar með sagt að VR geri ekkert fyrir mig. Þeir til dæmis eiga sumarbústaði sem ég nota aldrei og hef engan áhuga á að nota og fyrir þær tugþúsundir sem ég greiði þeim á ári fæ ég orlofsávísun upp á fimm þúsund krónur. Ég að vísu get ekki sólundað þeim peningum hvar sem er, bara hjá Icelandair, Edduhótelum og einhverjum öðrum tilteknum stöðum, sem ég versla í fæstum tilfellum við. Hjá Icelandair gildir þetta víst ekki af tilboðum heldur. Skemmtilegt.
Vil taka fram að ég er alveg til í að greiða til verkalýðsfélags sem tryggir mig ef ég missi vinnuna eða eitthvað þvílíkt, en ég er ekki til í að þeir hirði af mér peninga bara til að styrkja auglýsingastofur úti í bæ. Það er hreint ekkert annað en þjófnaður.

Ronnie Biggs er kominn í hungurverkfall er mér sagt. Hann rændi eitt sinn lest í Englandi, stal fullt af peningum, flúði til S-Ameríku, varð veikur og kom þá aftur heim til Bretaveldis og heimtaði að fá að fara á sjúkrahús. Nú finnst honum fangelsisyfirvöld svo vond við sig að hann er hættur að éta.
Ronnie - vonandi drepstu úr hungri.

Sveinbjörn Landssímaþjófur, sem stal miklu minna en verkalýðsfélögin, er farinn að læra viðskiptafræði í grjótinu. Heldur hann virkilega að hann fái að vinna við bókhald aftur? Hann verður að teljast heppin ef hann fær vinnu við skúringar - hjá Og Vodafone.

Annars er ég hress. Enn að horfa á Lost. Það er skemmtilegt.

Hér sé bíógetraun.

Hver er kallinn?

Hann lék í nokkrum vampírumyndum. Lék til dæmis bæði Dracula og eitt fórnarlamb hans, hvorn í sinni myndinni.

Hann á dóttur sem er leikkona. Gullfalleg kona.

Hann lék í frægri mynd með Clint Eastwood.

Hann er Evrópumaður og lék í fjölda ítalskra mynda.

Hann dó af völdum hjartaslags fyrir vel rúmum áratug.

Hann var að sögn þeirra sem til þekktu kolgeðveikur og lítill mannvinur. Saug kókaín í nebbann sinn (gæti útskýrt hjartaáfallið) og var vondur við allt og alla, jafnvel dóttur sína, sem aldrei hefur sagt fallegt orð um kallinn. Enginn Hanni Bach þar á ferð.

Í einni mynd lék hann vondan kall sem fór aftur í tímann til að drepa kúreka. Hafði meðferðis .357 magnum sexhleypu. Lék einnig nasista allavega einu sinni.

Hann lék sjaldnast góða kallinn. Var í flestum tilfellum heldur ógeðfelldur á hvíta tjaldinu eins og í raunveruleikanum.

Hver er kallinn?

Tuesday, September 20, 2005

Ég er alveg klukkaður...

Ég hef aldrei heyrt orðið klukk fyrr en fyrir sárafáum dögum. Nú hef ég verið klukkaður af nokkrum sem krefjast þess að ég riti inn fimm staðreyndir um sjálfan mig. Býst ég við að þær eigi að vera lítt þekktar, sem gerir það að verkum að ég get sagt hvað sem er um mig, því ég er lítt þekktur.

1. Ég hata ketti. Þetta er kannski ekki lítt þekkt staðreynd í mínum vinahópi, en ég virkilega hata þessi viðurstyggilegu loðnu afkvæmi Satans. Alger bévítans viðbjóður. Ekkert gagn af þeim, nema þá kannski nothæfir í pottrétti. Kettir eru rottur, sem voru svo heppnar að vera sætar svo einmana kerlingum þyki vænt um þessi meindýr. Ég á ekki ketti, ég á vini. Marga. Talsvert færri en ella vegna skoðana minna á köttum samt...

2. Ég fór í fyrsta skipti til útlanda þegar ég var orðinn 27 ára. Alveg að verða 28. Dreginn til Köben af Adda Fannari, Hebba, Hanna og Ingó Möller. Man ekkert úr ferðinni.

3. Sonur minn, sá eldri, heitir Alexander. Í höfuðið á gítarleikaranum í Rush. Sá yngri heitir Stefán Örn í hausinn á Stebba í Reggae on Ice og Stebba föðurbróður, sem hét jú Stefán og var flugmaður hjá flugfélaginu Ernir. Suddafínn kall. Lést í flugslysi fyrir rúmum átján árum.

4. Ég hef ekki bara einu sinni heldur tvisvar sofnað undir stýri. Í annað skiptið - daginn sem ég fékk bílprófið - keyrði ég niður ljósastaur og hitt skiptið vaknaði ég í þann mund sem ég var að keyra framan á Subaru fullan af fjölskyldu. Ákvað að það væri gáfulegra að fara bara út af og endastakk því bílnum og fór allmargar veltur í engu öryggisbelti. Bíllinn var ca. þriggja tommu þykkur eftir veltuna og fullkomlega óskiljanlegt að ég skildi sleppa ómeiddur. Meira að segja kassettan í tækinu (sólóplata Martin Barre úr Jethro Tull) brotnaði í tvennt. Var samt einna svekktastur yfir að hafa skemmt forláta leðurjakka sem ég var í.

5. Ég tek ekki strætó. Aldrei. Þeir eru ógeð.

Hvernig væri að klukka þá Stebba Stuð, Jón Fjörkálfs og Pétur í Filmusi, en linkar á þeirrra eigins blogg eru hér til hliðar.

Strákar, fimm atriði núna strax og ekki orð um það meir.

Monday, September 19, 2005

Gleði

Vil byrja á að óska Hreimi í Landi og sonum og konu hans, Þorbjörgu, til hamingju með dótturina sem þau eignuðust nýverið. Eflaust er það barn flestum öðrum fegurra og á jafnvel auðveldara með að semja poppsmelli en önnur ungbörn. Skilst að pabbinn sé að drepast úr monti.
Gríðarleg gleði.

Einnig er ég glaður því það er hægt að missa af Popppunkti. Maður horfir bara á hann á netinu á vefsjónvarpi Skjás eins.
Allnokkur gleði.

Einnig var ég að eignast Marshallbox undir Marshallhausinn minn. Það er að vísu pínulítið, þannig að risahausinn er ofan á pínulitlu 1x12" boxi, rétt eins og Albert, vinnufélagi minn hér áður fyrr, hafði það í gamla daga. Skemmtilegt. Nú á ég alveg tíu prósent af þeim mögnurum sem mig langar í. Vantar fleiri Voxa.
Allveruleg gleði.

Var að spila í gær á Döbb. Hætti tíu mínútum fyrr en venjulega, því ég var að spila eitthvað Tom Waits-lag og var hásari en Waits, auk þess að syngja allnokkuð verr. Kominn tími á tveggja vikna frí. Horfa á Lost og vera í fíling. Þá kannski hætti ég að vera hás og þá verður sko gleði.

Gleði, gleði, gleði, gleði líf mitt er... minnir mig á að ég hló alltaf mikið inni í mér - stundum jafnvel upphátt - þegar þetta lag sungið var á KFUM-samkundum í gamla daga og sumir misstu út úr sér lítið "ó" á undan sökum innlifunar.
Eins er í gömlum sálmi sagt "Ó, friðar Guð..." sem reyndar var breytt í "þú, friðar Guð..." í einhverjum bókum af skiljanlegum ástæðum.
Gleði!

Friday, September 16, 2005

Britney

Hún Britney er orðin mamma. Okkur Britney fæddist fallegur sonur og höfum við ákveðið að hann hljóti nafnið Olgeir Frans Ingvarsson Spears.
Britney, ég kem með blómvönd strax eftir vinnu.

Thursday, September 15, 2005

Hress

Kom alveg óvart af stað hressri trúmálaumræðu. Skemmtilegt.Vil þó taka fram að þó ég trúi á Guð efast ég stórlega um tilvist bróður hans...

http://www.baggalutur.is/frettir.php?id=3125

þó hann sé hress.

Búss

Hví er það svo að flestir vilja halda því fram að ég sé svona voðalega hrifinn af Bush fyrst ég stend eilítið hægra megin við pólítísku línunaog trúi á Guð?
Það er ekki eins og allir sem kjósa VG séu svo voðalega hrifnir af fjöldamorðingjanum Jósep Stalín. Það er ekki eins og allir sem kenna sig við einhvers konar sósíalisma séu fylgjendur Hitlers, sem var reyndar ekki jafn mikill fjöldamorðingi og Stalín, en fjöldamorðingi samt.
Ég hef reyndar orðið svolítið var við að hjá fólki innan kristinna safnaða er viðkvæðið oft "ef þú styður ekki Bush gætirðu eins migið yfir Jesúbarnið í jötunni" - hvað er það?

Einn kunningi minn - nota bene, kunningi, ekki vinur - trúir voða heitt á Jesú og fast að því jafnheitt á Bush. Skrítið. Gríðarlega skrítið.

Þó menn aðhillist einhverja kenningu, trúarbrögð, stjórnmálaskoðun, tónlistarstefnu, fatasmekk eða haldi með einhverju ákveðnu fótboltafélagi er alltaf eitt sem má bóka - flestir sem eru á sömu skoðun eru plebbar. Fólk er nefnilega fífl upp til hópa, eins og frægt er orðið.

Wednesday, September 14, 2005

Alveg týndur

Byrjaði að horfa á Lost í gær. Ég er reyndar aðeins búinn að sjá tvo fyrstu þættina, en ég hef þegar sannfæst um að svona þættir á dvd eru tilvalin leið til að flýja akademískan hugsunarhátt. Tuttuguogeitthvað þættir og ég verð að horfa á þá á nokkrum dögum, eins og ég geri alltaf með 24 og gerði með Band of Brothers einnig, en þeir þættir eru bestu framhaldsþættir í heimi að mínu mati.
Sofnaði svo yfir Day of the Dead, sem er eitís-zombíamynd. Virtist ekkert svo spes. Sá einmitt nýverið Dawn of the dead, nýju útgáfuna, sko, svona endurgerð, hún er miklu betri en gamla. Alger vibbi með zombíaungbarni og svakastuði. Allir dauðir fyrir hlé.

Bjarni, stórvinur minn, benti mér á japönsku spennumyndina Shinkansen daibakuah, en um hana má lesa hér;

http://imdb.com/title/tt0080479/

og pantaði ég mér eintak í gær. Hún skartar Sonny Chiba í aðalhlutverki, en hann er enginn plebbi. Fyrir þá sem ekki vita hver Chiba er, þá lék hann ekki bara sverðsmiðinn í Kill Bill, heldur einnig aðalhlutverkið í öllum þremur myndunum sem Clarence fór að sjá í True Romance, þegar hann hitti Alabama.
Allavega, þessi japanska mynd fjallar um þá skemmtilegu atburði þegar glæpónar setja sprengju um borð í hraðlest. Hún kemur til með að springa ef lestin fer niður fyrir ákveðinn hraða ef rausnarlegt lausnargjald verður ekki innnt af hendi. Má geta þess að myndin var framleidd nítján árum á undan Speed.
Myndin er kölluð Bullet train í hinum vestræna heimi, nema náttúrulega Frakklandi, en þeir neita alltaf að tala ensku - jafnvel þó þeir viti að ef ekki væri fyrir enskumælandi fólk væri núna töluð þar þýska.

Eru ekki allir hressir annars?

Monday, September 12, 2005

Jæja...

Ég efast um að sósíalisminn sé dauður. Ég held hann hafi alltaf lyktað svona.

Jón er veikur!!!

Jón, yfirmaður minn, er veikur! Það hefur svo sjaldan gerst að hann hefur fyrirgert veikindarétti síum og er því launalaus í dag. Það er engin hefð fyrir því að hann sé veikur.

Annars kemur hér lokahrinan í sjónvarpsþáttagleðinni, því þetta er heldur betur farið að þynnast hjá mér. Er hinsvegar enn gott hjá dyggum lesendum mínum.

Tilbiðjum Allah með Kalla - Kalli Bjarni tekur Múhameðstrú og endar á að ræna Fokker og fljúga inn í stjórnarráðið.

Setjið upp tjald með Kjartani Vald - Kjartan Valdimarsson píanisti fer á þjóðhátíð i Eyjum.

Kökubasar með Baltasar - Baltasar Kormákur gerir kerlingarnar á basarnum alveg spólandi. Ekki þurrt sæti í húsinu. Sullar í hverjum skó.

og að lokum - sá síðasti... WAIT FOR IT...


aðeins neðar...smá niður...


Í bólinu með Steinunni Ólínu - Stefán Karl fer á gömlu.

Þá er því lokið þó svo að uppástungur séu vel þegnar.

Hansi á ammæli. Til hamingju. Hann hinsvegar sér ekki bloggið mitt því hann býr í Kína og þar er ekki hægt að lesa blogspot í tölvum. Bévítans kommar.

Sunday, September 11, 2005

Bræðurnir Valgeirsson grilla lifur

Viddi lillebró kom i bæinn um helgina og í gær duttum við smá í það ásamt Adda stórabró. Ég var reyndar að spila á Döbb, en lét það ekki stoppa mig. Eftir spilerí fórum við bræðurnir yfir á Gauk og hittum þar nokkra góða menn. Þá fæddust þessir;

Holdris með Íris - Íris í Ber segir erótískar sögur fyrir svefninn

Grillum svín og drekkum vín með Yesmine - Yesmine Olsen gerir vel við sig í mat og drykk

Greidd skuld glatað fé með Einsa Bjé - Einar Bjöss hljóðkerfiskall fer í hausinn

Á sjó með Bó - Björgvin syngur vinsælustu lög Þorvaldar Halldórs

Ertu bæ? með Vigni Snæ - Viggi í Írafár fer á Jónsa í svörtum fötum

Skipt um púst með Einari Ágúst - Einar gerir við bílinn minn

og sá versti hingað til;

Þarna er bjór, ég ætla að drekk´ann með Vilhjálmi Goða Friðrikssyni Brekkan - Villi dettur í það.

Svo vil ég óska Dodda frænda, Sigga Killer og Jörgen Jörgensen til hamingju með ammaulin.

Saturday, September 10, 2005

Meira rím

Nú styttist óðum í að menn fái alveg upp í háls ef það hefur ekki nú þegar gerst. Til að stytta biðina eftir að menn selji upp eru hér nokkrir frumsamdir:

Lifrin sprakk í Hanna Bakk - Skímótrommarinn fer í lifrarskiptiaðgerð af illri nauðsyn.

Sitjum og þjórum með Ceres fjórum - pönkmeistarinn dettur í það á Grand Rokk.

Étið E með Helga Pé - Helgi í Ríó tekur inn Ecstacy og fær hjartaáfall í beinni útsendingu.

Beggi safnar skeggi - Bergsveinn í Sóldögg reynir af veikum mætti að safna kleinuhring.

Úti að grilla með Kára og Villa - bræðurnir úr 200,000 naglbítum grilla fyrir fræga fólkið... ha... er búið að nota þetta? Hvað er að gerast? Hefur í alvörunni verið þáttur með poppurum og rími?

Er það bara ég eða er þetta farið að þynnast eitthvað?

Annars var ég að spila á Dubliner í gær. Það var ömurlegt. Það var reyndar fullt af fólki og svakastuð, en eftir fimmtudaginn verða öll gigg leiðinleg. Þetta verður seint toppað.

Friday, September 09, 2005

Lengi er von á einum...

Enn bætist í sarpinn. Hér eru nokkrir verulega slæmir:

Hátíð í bæ með Vigni Snæ - Viggi í Írafári kennir okkur jólalögin.

Úti í móa með Hróa - Hrói mixermann dettur um þúfu.

Lærðu að breika með Eika - Eiríkur Hauks kennir breakdans.

Hengt upp til þerris með Skúla Sverris - djassfrömuðurinn þrífur af sér og svæfir svo landsmenn með sýrudjassi sem er jafnskemmtilegur og bronketis.

Erfitt viðfangs með Önnu Vilhjálms - Anna leysir úr erfiðum vandamálum.

og svo þátturinn sem tekur við af Fólki með Sirrý:

Málefni hjartans með Sigurjónu Kjartans - Sigurjón hlustar á vælandi hálfvita utan úr bæ.

Meira?

Einhver annar en Addi Fannar - í pleimó með Skímó

Ju, hvað ég er þreyttur. Arngrímur Fannar, ryþmagítarleikari Skímó, þurfti að fara til Las Vegas (ekki með Megas þó) og því fór minns niður á Nasa og leysti hann af á skólaballi hjá Borgarholtsskóla. Er óhætt að segja að ég hafi aldrei - og þá meina ég gersamlega aldrei nokkurntíma á minni fulllöngu ævi - séð þvílíka stemningu eins og kom í lokin þegar við renndum í Killing in the name of. Stuðið á dansgólfinu var svo gríðarlegt að jaðraði við ofbeldi og geðveilu á lokastigi. Ég vil endurtaka að ég hef aldrei séð, hvað þá spilað fyrir svona gríðarlega mikilli stemningu og stuði. Kom heim upp úr klukkan þrjú og sofnaði ekki fyrr en um fimm. Vaknaði sjö. Ekki hress.
Allavega, það komu nokkrir punktar í gær varðandi sjónvarpsþættina - hér fara nokkrir þeir helstu:

Sniffið lakk með Steina í Smack og Hanna Bach - Þorsteinn Gunnar Bjarnason, söngvari Smack, tekur hús á trommara Móralsins.

Farið á flakk með Steina í Smack og Hanna Bach - þeir félagarnir sniffa of mikið og vakna á Dalvík.

Sniffið lím með Gulla Briem - trommari GCD bætist í hópinn.

Á þing með Flygenring - Valdimar Flygenring hættir við að stjórna Ástarfleyinu og fer í framboð.
Í fríinu með Jóni í Stuðkompaníinu - Jón Kjartan fer til Spánar og sólbrennur.

Uppi í tré með Kalla C - gítarleikari Dead Sea Apple vaknar á ólíklegum stað eftir gríðarskemmtilegt fyllerí.

Nu skal vi blive fuld með Frissa Stull og Jóa Hjull - ryþmapar Sálarinnar fer á fyllerí í Danaveldi.

Vi blev fuld með Frissa Stull og Jóa Hjull - endurtekið efni - ryþmapar Sálarinnar FÓR á fyllerí í Danaveldi.

Grillið sel með Jóa Fel - Jói Fel fer úr að ofan án þess að nokkur ástæða sé til.

Grillið kola með Óla mola - einn alskemmtilegasti hljóðmaður landsins kveikir óvart í hattinum sínum.

Lærið að kneyfa með Eyfa - Eyjólfur Kristjáns með þátt um vínsmökkun.

Dansið vals með Frissa Karls - gítarleikari Mezzo með dansnámskeið.

Komið með meira elskurnar mínar.

Thursday, September 08, 2005

Fleiri þættir

Nú er allt að verða vitlaust! Jafnvel Jökull, litli frændi minn á Stokkseyrarbakka, er kominn í fúllsvíng og á nokkra góða.

Hér eru fleiri:

Höfuð, herðar, tær og hné með Gumma Pé - gítarsnillingur ruglar í barnalögunum.

Galdratrix með Begga Mix - Bergur Geirs lætur Geir Ólafs hverfa.

Klipið í rassa með Hebba bassa - Hebbi í Skímó dettur í það á Goldfinger.

Hvað er að brenna hjá Tromma og Jenna - Jónbi og Jenni í Brain Police brenna Geir Ólafs á báli.

Komið svo með meira. MEIRA. MEIIIIIRAAA!!! AAAAARGH!!!

Fleiri sjónvarpsþættir

Jens á séns - Jenni í Brain Police fær sér að ríða.

Frá manni til manns með Jenna Hans - Jenni í Sálinni gerist kynvilltur og fer mikinn.

Skjótum rebba með Stebba og Hebba -Stebbi Stuð og Hebbi í Skímo fara á skytterí.

Hattar og knöll með Jóa Hjöll - trymbill Sálarinnar undirbýr áramótin.

Skjótum dverg með Ragnari Sólberg - Sign-fronturinn reynir að ráða undirritaðan af dögum.

Ekki til neins með Siggu Beinteins - söngspíra Stjórnarinnar klúðrar í beinni.

Loðinn um nára með Davíð Smára - Dabbi í Ædol neitar að raka á sér punginn í æsispennandi þætti.

Meira kalk með Gulla Falk - metalhetja drekkur mjólk.

Anyone?

Wednesday, September 07, 2005

ÆÆÆÆÆÆÆÆ!!!

Davíð hættur á þingi. Má það?

Mig langar að benda á að síðan Davíð komst á þing, þá strax í byrjun sem forsætisráðherra, hefur veðurfar batnað talsvert hér á klakanum.

Mér finnst hann æði. Hann er allavega einn af fáum þingmönnum okkar sem talar ekki alltaf eins og hann sé með kandífloss í hausnum.

Óska einnig eftir fleiri hugmyndum í sjónvarpsþáttaröflinu hér að neðan.

Sjónvarpsdagskráin

Þetta með Einsa-mall minnti mig á gamla tíma. Eitt sinn, þegar ég var ungur, einhleypur og ölvaður, kviknuðu í mínum vinahóp hugmyndir að sjónvarpsþáttum hvar popparar landsins ættu að standa við stjórnvölinn. Hér eru nokkur nöfnin sem komu upp:

Eldið hakk með Hanna Bach - matreiðsluþáttur
Reykið krakk með Hanna Bach - fjölskylduþáttur
Úti að hjóla með Gunna Óla - fyrir þá sem misst hafa prófið
Börnin heim með Hreim - hinn ástkæri söngvari kemur Dagbjörtu og Rúnu heim frá Tyrklandi
Út í geim með Hreim - hinn ástkæri söngvari byrjar að dópa í beinni
Ræktið garða með Barða - Barði í Bang Gang kemur skikk á flötina
Pétur Örn étur börn - matreiðsluþáttur að hætti Jeffrey Dahmer
Hættið að djúsa með Fúsa - Fúsi í Rikshaw kynnir undirstöðuatriði edrúmennsku
Lærið að lesa með Pésa- Pétur Örn með þátt fyrir algera tossa

Einhverjar fleiri hugmyndir?

Bíógetraun fyrir Bryndrekann og Orgelið

Nú skal koma með bíógetraun bara fyrir stelpur. Á meðan þær eru að svara mun ég leitast við að finna eitthvað skemmtilegt til að skrifa um.

Spurt er um leikkonu.

Eldri bróðir hennar er leikari og leikur í sjónvarpsáttum sem eru sýndir á einni stöðinni hér heima um þessar mundir. Þau talast ekki við í dag.

Hún á Óskarsstyttu.

Hún lék í einni Dr. Jekyll and Mr. Hyde-mynd, ákaflega sérstakri.

Hún lék eitt sinn aukahlutverk í Law and Order-þætti, löngu eftir að hún varð svakafræg.

Hún var eitt sinn trúlofuð leikara sem leikur í einum af mínum uppáhaldssjónvarpsþáttum.

Hún hefur leikið þjónustustúlku, læknanema, vændiskonu og fræga kvikmyndastjörnu.

Hún hefur leikið á móti Bruce Willis.

Hver er keddlingin?

Annars horfði ég á Interpreter í gær, hún er fín. Sean Penn er alltaf góður og Nicole Kidman er alltaf sæt.

Svo var ég að heyra einn góðan. Einar Bárðar tekur að sér matreiðsluþátt, býður piparsveinum í mat og mallar ofan í þá gúrme-rétti. Þátturinn heitir Einsa-mall.

Tuesday, September 06, 2005

Baldwin

Ber að geta þess að Hjöll giskaði á, þegar spurt var um Dennis Quaid, hvort þetta væri einn Baldwin-bræðra eða annar Bridges-bræðra. Bridges eru bara tveir, en Baldwin eru fleiri.
Baldwin eru sem hér segir:

Alec Baldwin
Daniel Baldwin
William Baldwin
Stephen Baldwin

og svo síðast en ekki síst:

Jón Baldwin.

Bjaddni vinnur bíógetrauni!

Bjarni Randver Sigurvinsson, Guðfræðingur með eyru, er að mala hér tvær bíógetraunir í röð, strax eftir að bróðir hans, Jóhann Þór, tók eina létt. Ber að taka fram að önnur þeirra sem Bjarni snarlagði er sú erfiðasta sem minn hefur snarað fram.

Sú fyrri, og erfiðari, snerist um Robert Shaw. Hann átti níu börn með (að mig minnir) þremur konum. Hann var giftur m.a. Mary Ure, sem lék með Clint í Arnarborginni og drap sig með ólyfjan í ómældu magni.
Robert drakk rauðvín með fiski í From Russia with Love skömmu áður en klukkan sló. Þar var hann vondikallinn eins og oftast nær. Þetta vissi Bjarni. Hann hefur líka grunað að mamma mín, sú dásamlega kona, var alltaf pínu skotin í honum.

Bjarni vissi líka að Dennis Quaid var sá sem spurt var um í seinna skiptið. Hann er flugmenntaður og lék flugmann í endurgerð Flight of the Phoenix. Mér fannst sú fyrri betri. Hann lék með litla bróður sínum i The Big Easy og stóra bróður nokkrum sinnum, maðal annars í Long Riders.
Hann lék í Baretta-þætti í gamla daga og lék Jerry Lee Lewis í Great Balls of Fire. Hann missti af hlutverki í Halloween vegna anna en lék í Jaws 3 seinna.

Svona er nú Bjarni snjall.

Hvað er í gangi annars?

Monday, September 05, 2005

Enn meiri leikaragetraun

Barni Randver virðist vera búinn að átta sig á getrauninni, á bara eftir að skjóta fram nafninu. Koddu nú, Bjaddni minn. Kem með nánari upplýsingar þegar strákurinn hefur formlega komið með nafn leikarans.

Ný getraun, sama ruglið.

Spurt er um leikara.

Hann er þrígiftur. Á eitt barn.

Hann á tvo bræður, eldri og yngri. Lék með þeim yngri í mynd sem gerðist í New Orleans. Hefur oftar en einu sinni leikið á móti þeim eldri. Allavega tvisvar hafa þeir leikið bræður.

Hann lék frægan tónlistarmann hér eitt sinn í bíó. Hann er einnig músíkant sjálfur og hefur samið músík fyrir myndir.

Hann tók eitt sinn mikið af kókaíni í nebbann sinn. Svo fattaði hann að það er óhollt svo hann hætti því.

Í upphafi ferilsins lék hann í frægum lögguþætti. Aðalleikari þeirra þátta var sýknaður nýverið af alvarlegum glæp.

Hann hefur flugmannspróf. Hefur einnig leikið flugmann.

Hann rétt missti af hlutverki í frægri hryllingsmyndaseríu í upphafi ferilsins vegna fyrri skuldbindinga. Seinna lék hann í annarri hryllingsmyndaseríu.

Þetta er feykinóg af upplýsingum. Hver er kallinn?

Annars er allt fínt að frétta af mér. En ykkur?

Bíógetraun númer milljón

Það var enginn annar en Jói Sigurviss sem malaði síðust getraun, hvar spurt var um Lee Van Cleef. Hann þarfnast ekki nánari kynningar nema þið séuð ómenningarlega sinnaðir plebbar.

Getraunin að þessu sinni er hress.

Hver er leikarinn?

Hann lést fyrir allnokkrum árum og lét þá eftir sig níu börn. NÍU BÖRN! Til að bæta gráu ofan á svart var eitt fósturbarn ofan á það.

Hann var giftur leikkonu sem drap sig með ólifnaði. Sú hafði leikið á móti Clintaranum.

Okkar maður lék oftar en ekki vondakallinn.

Eitt sinn í bíómynd, sem er ekki af verri endanum, drakk hann rauðvín með fiski. Skömmu seinna var hann allur (þ.e.a.s. karakterinn).

Mamma mín var skotin í honum.

Hver var kallinn? Jósi?

Thursday, September 01, 2005

Bíógetraun enn eina helv... ferðina

Nú, jæja, fyrst Jósi gat ráðið síðustu getraun, hvar spurt var um Joss Ackland (ekkert skyldur Joss Stone) kemur hér önnur.

Leikarinn sem spurt er um er látinn fyrir allnokkru.

Hann barðist með Bandaríkjaher í sinni heimsstyrjöld.

Hann lék aðallega í einni tegund bíómynda, þó hann ætti vissulega spretti í öðrum greinum.

Hann hafði mislit augu, eitt blátt og hitt grænt. Þau voru stingandi.

Í einni mynd átti hann í útistöðum við hnífakastara og germanskan málaliða.

Hver var kallinn?

Annars er ég bara hress, hvað með ykkur?