Monday, October 31, 2005

Quentin

Ég fjárfesti gáfulega á dögunum. Nældi mér í dvd með tveimur CSI-þáttum sem verðandi Íslandsvinurinn Quentin Tarantino bæði leikstýrði og samdi söguna fyrir. Þættirnir tveir eru sumsé "to be continued"-dæmi og eins og segir í ljóðinu "spennan var gífurleg og ég varð ær".
Þessir þættir verða víst lokaþættir í þeirri seríu sem nú er í gangi á Skjá einum og hvet ég landsmenn alla til að missa ekki af þeim.

Hvernig líður þér annars?

Thursday, October 27, 2005

Góðan dag

Timburmenn = fullaflensa.

Tuesday, October 25, 2005

Víva Grundarfjörður

Stuð og fjör. Ég, Guffi tromma og Binni bassi lögðum land undir dekk á laugardaginn og reykspóluðum til Grundarfjarðar, sem er menningarpláss úti á landi. Það er bíltúr sem við sjáum ekki eftir. Vorum að leika þar fyrir bæjarstarfsmenn (reyndar flestalla bæjarbúa í lokin) og er óhætt að segja að sjaldan, ef nokkurntíma, hafi verið jafngaman að þvælast upp fyrir Ártúnsbrekkuna.
Þó við mættum einum manni færri en búist hafði verið við og eilítil seinna í þokkabót var fólk ekki að stressa sig yfir því, heldur bauð okkur þegar í stað upp á drykk og svo að loknu róti var sest að snæðingi.
Ekki var fæðið af verri endanum, saltfiskur og sússjílúða, svínakjöt og lamb með tilheyrandi sósum og brúnuðum sykurkartöflum og súkkulaðikaka með rjóma á eftir. Hvítvín með sjávarréttunum, rauðvín með ketinu og koníak með kaffinu á eftir. Síst er ég að ýkja þegar ég segi að við höfum vart verið spilahæfir sökum ofáts þegar við hófum leikinn. Einnig var hljómsveitin í heild sinni komin með harðsperrur af hlátri yfir sögum séra Karls, sem sá um veislustjórn og er óhætt að segja að þar fari maður blessunarlega laus við leiðindi.
Eddi, okkar maður á svæðinu, var venju samkvæmt innan handar og reddaði því sem redda þurfti, tengingum og græjumálum og svo snerilskinni þegar Guffi sló í gegn seinni part dansleiksins.
Eftir sneriltrommuskinnsskiptin (langt orð) kom Siggeir, öðru nafni Zúcka Pjé, bassaeigandi Vina vors og blóma á svið og tók nokkur lög ásamt fleirum. Varð mikið djamm og gleðin við völd.
Svo var haldið í partý, en þau eru yfirleitt ekkert sérlega leiðinleg á Grundarfirði.
Var því hálfþreytulegur hópurinn sem lagði af stað til Reykjavíkur daginn eftir.
Takk fyrir okkur og sjáumst sem fyrst.

Friday, October 21, 2005

Topp tíu plötur

Pétur í Filmusi er með skemmtilegt blogg sem linkur er á hér til hliðar (og í sumum tölvum lengst fyrir neðan). Hann bað dygga hlustendur að setja inn tíu uppáhalds plöturnar sínar og kennir þar ýmissa grasa. Hér er listinn minn, tíu uppáhalds plöturnar mínar eru reyndar ellefu talsins. Gat ekki skilið Exodus með Bob Marley útundan, því hvert einasta lag á henni er snilld. Platan frábær í gegn.
Uppáhalds platan mín er þó alltaf 2112 með Rush. Tók hanan einu sinni upp á spólu og var það eina spólan í bílnum mínum í meira en ár. Alltaf sama spólan,aftur og aftur og aftur... tær snilld.
Þegar ég gerði þennan lista mundi ég að ég týndi Wired-disknum mínum með Jeff Beck fyrir tíu árum og þarf endilega að fjárfesta í öðru eintaki.
Hér er listinn:

1. Rush - 2112
2. Beatles - Abbey Road
3. Pink Floyd - Dark Side
4. Stevie Ray Vaughan - Couldn´t stand the weather
5. Steve Vai - Flexable
6. Frank Zappa - Joe´s Garage
7. Þursaflokkurinn - Gæti eins verið
8. Radiohead - O.K. Computer
9. Bob Marley - Exodus
10. Deep Purple - Burn
11. Jeff Beck - Wired

Airwaves er í fullum gangi og hlakka ég gríðarlega til að missa af öllu þessu artí fartí drasli sem er leikið af úlpuklæddu pakki sem þekkir ekki muninn á fís og moll.
Ég er farinn á kojufyllerí.

Ammælis

Hann á ammælídag
Hann á ammælídag
Hann á ammælann Pétur Jesús
Hann á ammælídag

Veeeeeiiiiii!
Til hamingju!
Jibbí!

Thursday, October 20, 2005

Til lukku, Brynka!!!

Brynhildur Skrymbrildur Stefánsdótir af Skaganum var að eignast krakka!!! Hún gaut strákpjakki fyrr í dag og óska ég henni og Daníel, manninum hennar, sem þykist eitthvað eiga í þessu líka, hjartanlega til hamingju! Ég er svo kátur að það hálfa væri nóg!

Til hamingju bæði. Megi strákurinn heita Ingvar og verða snillingur á sviði heilaskurðlækninga og tombólusvindls, rauðvínsbruggs og kökubaksturs, rallökumennsku og banjóleiks.

Reunion

Jú, ágætu gestir, þá er komið að því að ég og Stebbi Stuðbolti, dúettinn Nasistamellurnar, komum fram á ný. Langt er um liðið og skuldirnar hafa hrannast upp á Amsterdam og því skal reynt að klóra í bunkann meðan aðrir spila fyrir ekki neitt á Airwaves. Við ætlum ekki að spila einhver leiðinleg frumsamin lög, heldur þrautreynt efni eftir aðra, með áralanga reynslu í að gera fólk glatt. Einnig segjum við gamla og margreynda brandara milli atriða. Miklu skemmtilegri en nokkuð sem komið hefur fram í Klink og Bank.
Mætið endilega öll. Annars drep ég ykkur!

Annars er ég frægur núna, síðasta bloggfærsla var lesin í Íslandi í býtið í morgun og birt í Blaðinu í dag, enda er ég afspyrnuskemmtilegur þó ég segi sjálfur frá. Gaman að því.

Hvað segiði annars gott?

Tuesday, October 18, 2005

New York

Ligg veikur heima og horfði í gær á rírönn af CSI: NewYork. Hló gríðarlega þegar þátturinn var að verða búinn. Þá, þegar búið var að berja einn í spað og skjóta hann svo í hausinn, einn var dauður úr heróínnotkun, ein stúlka á spítala eftir óverdós, einn var étinn af bjarndýri, einn með skotsár í fangelsi og ég veit ekki hvað og hvað - þá kom auglýsing:

New York-ferðir frá 40,900 krónum!!!

Þrír dauðir og tveir á spítala og svo þarf ég að borga fyrir að fara þangað - ég held nú ekki!

Svo er fuglaflensan mikið í fréttum. Ég vil ekki deyja úr einhverju sem heitir fuglaflensa. Það er karlmannlegt að deyja úr krabbameini eða af völdum svartadauða en ef ég ligg fyrir dauðanum vegna veiki sem heitir í höfuðið á fiðurfénaði skýt ég mig bara í hausinn og spara mér niðurlæginguna. Því ekki fálkaflensan? Það er ögn skárra.

Sá áðan beina útsendingu frá alþingisumræðum þegar ég var að skipta um mynd í tækinu. Þar var Mörður að tala um prósentuhlutfall endurgreiðslu á umbúðaskatti fiskafurða í pappaöskjum til útflutnings, en hann var ekki alveg sammála þingmanni stjórnarflokkanna um þetta endurgreiðslu og afsláttarhlutfall - gott að vita að þeir sóa ekki tímanum í kjaftæði á hinu háa alþingi, heldur taka bara á stóru málunum. Hvernig væri að taka fyrir næst frekari tekjuskattslækkanir og lækkun virðisaukaskatts? Mér finnst mikilvægt að lækka verð á i-Pod og vil að það mál verði tekið fyrir á alþingi strax!

Wednesday, October 12, 2005

I like to move it, move it

Búð Tóna er formlega flutt frá og með gærdeginum. Tel ég enga haugalygi að halda frama að það hafi verið erfitt, en hafðist. Nú geta aðrar hljóðfæraverslanir pakkað saman og farið heim.

Annars, þess utan, er lítið að frétta.Litli Sveppur er veikur og því sit ég heima til hádegis, en fer svo niður í hina spánýju búð Tóna og sel fyrir milljónir. MILLJÓNIR!!!

Saturday, October 08, 2005

Ólyfjan

Sæl veriði.
Nú nýverið gerðu vart við sig leiðindi hjá mér, jafnvel meiri en venjulega. Röddin mín, atvinnuinstrúmentið, fór að gefa sig og var svo að maður gat vart klárað stutt trúbbkvöld án þess að hljóma eins og róni með hálsbólgu. Þegar ljóst var orðið að þetta var meira en slæmt dagsform vikum saman ákvað ég að heilsa upp á lækni og láta hann líta á hálsinn. Það var, svo ekki sé meira sagt, athyglisverð lífsreynsla.
Doktorinn tók nebblega upp einhverja slöngu sem leit út eins og eitthvað gismó úr Star Wars-mynd og beyglaði það fram og aftur. Á þessu gismói er örmjó sveigjanleg pípa, u.þ.b. fet að lengd. Þeirri pípu tróð doksi upp í nebbann minn og þaðan niður í háls til að skoða hann að innan. Það var ekki gott.
Svo skrifaði hann upp á einhverskonar steratöflur til að koma röddinni í gott horf. Með töflunum fylgdi leiðavísir hvar taldar voru upp aukaverkanir eins og aukin matarlyst (sem er ekki hægt því ég er alltaf að éta) og fleira smávægilegt. Þar hefði einnig átt að standa "reyndu ekki að sofa og ekki tala við fólk". Það er nefnilega skemmst frá því að segja að ég byrjaði að éta þessa ólyfjan fyrir tveimur dögum og hef varla sofnað síðan. Ég er eins og kanína á spítti, bara hressari.
Strax við fyrsta skammt fékk ég svo herfilega í magann að ég hreinlega meig með rassinum (ókei, óþarfa upplýsingar kannski) og át svo allt í heiminum sem ekki var frosið í gegn. Svo fór ég í ljós að reyna að róa mig niður - því ég var farinn að skjálfa - og brann svoleiðis að ég varð ekki brúnn heldur rauður eins og karfi. Ekki var það til að bæta skap mitt, sem var orðið vont.
Svo fór ég að spila og er skemmst frá því að segja að röddin var komin í samt lag. Var jafnvel skárri en fyrr. Gaman að því. Fór svo heim eftir gigg og lá andvaka fram á morgun. Svaf í tvo tíma í mesta lagi.
Í gær át ég svo annan skammt af þessari ólyfjan og hélt að dagur eitt hefði nú bara verið svona byrjendavesen. Aldeilis ekki.
Ákvað að éta skammtinn fyrr um daginn, eins og læknirinn minn sagði mér að gera. Það gerði það að verkum að ég var í vinnunni jafn glaður í bragði og Tony Montana í lokin á Scarface, svona rétt áður en hann deyr (já, hann deyr í endann!). Ég, sem alla jafnan er hinn glaðlyndasti maður, mikill mannvinur og álíka mikið til vandræða og meðal appelsína varð alveg stórklikkaður í skapinu. Gersamlega kreisí muða.
Sem dæmi um áhrif lyfjanna var ég að reyna að gera við bassamagnara fyrir Binna bassaleikara. Var að reyna að skrúfa hátalarann, sem var sprunginn, úr magnaranum þegar ég með offorsi braut skrúfuna og beygði skrúfjárnið. Hélt fyrst að skrúfan hefði bara verið gölluð eða lúin, en svo sá ég að það blæddi úr annari höndinni minni. Frábært.
Eftir allt þetta fór ég svo að spila með áðurnefndum Binna og Guffa trommara á hinum rómantíska veitingastað Dubliner.
Þar komst miðaldra feit kerling að því að það er ekki gáfulegt að angra gítarleikara á sterum. Meðan hún var að nöldra í mér spurði ég hana hvort hún röflaði svona í manninum sínum heima við líka. Kvaðst hún þá ógift. Ég svaraði að það kæmi mér nú ekki á óvart. Þess má geta að þessi sama kona gerði í því að rífa sígarettur úr munnum allra karlmanna á svæðinu og sulla óvart niður bjórnum þeirra. Alveg skemmtileg.
Hún endaði gleðina grenjandi uppi við vegg.
Hinsvegar var alveg gaman þegar Jón Frímann sjóari kom og gaf öllu bandinu bjór. Að launum fékk hann að syngja "fiskinn minn" og er óhætt að segja að aldrei hefur verið sungið verr á Íslandi. Skemmtanagildið var hinsvegar ótvírætt.
Eftir vel heppnað spilerí (hvar röddin var í fantaformi) ákvað ég að ég væri of hress til að fara heim að sofa og kíkti því við á Amsterdam. Þar sá ég að einn ónefndur vinur minn í Buff hafði fundið ráð við svefnleysi. Fékk ég mér því eitt glas af því sama og hann og fór heim, hvar ég lá andvaka lengi. Vaknaði svo alltof snemma. Svaf í tvo tíma. Fór svo í vinnuna.
Búðin er að flytja og því verður megarót (gaman) í allan dag. Ég verð sumsé útúrlyfjaður, rauður eins og karfi, kexbilaður í skapinu að flytja hljóðfæri upp í Skipholt. Má geta þess að sjoppan opnar í Skipholti 21 á þriðjudaginn - vegleg opnunartilboð.
Er svo að spila á Döb í kvöld, sami mannskapur, sömu sæti, ný lög en sömu sóló.
Ég verð pottþétt bilaður í skapinu og til í slagsmál ef einhver er minni en ég!

Thursday, October 06, 2005

Spilerí

Mig langar að taka fram og gera ljóst að ég er að spila á Dubliner í kvöld, fimmtudag, alveg aleinn. Verð þar líka um helgina ásamt vinum og vandamönnum á efri hæðinni og enn og aftur á sunnudagskvöldið aleinn og yfirgefinn að trúbadúrast. Mætið öll.
Kvenslysafélagið Túban.

Jón og Hannes

Skemmtileg frétt þetta - Hannes Hólmsteinn, Íslendingur, skrifar á íslenska internetsíðu að annr Íslendingur, Jón Ólafsson, hafi auðgast í fyrndinni á ólöglegan hátt. Jón kærir Hannes í BRETLANDI, vinnur málið og eru dæmdar tólf millur í skaðabætur! Hvað er það?

Heyrst hefur að Jón sé á leiðinni til Íran að kæra Hannes fyrir kynvillu og er þá morgunljóst að Hannes verður tekinn af lífi.

Wednesday, October 05, 2005

Ungbyssurnar tvö

Búinn að horfa á nokkrar fínar uppá síðkastið. Rifjaði upp Trading Places með Eddie Murphy og Dan Aykroyd, sá Amityville Horror (gömlu, með James Brolin úr Hotel-þáttunum), Hitchhiker´s Guide to the Galaxy og fleira. En sú sem hefur vakið áhuga minn mest er Young Guns 2, sem ég hafði ei séð síðan í bíó fyrir 15 árum.
Ég mundi hreint ekkert eftir henni, nema rámaði í að Jon Bon Jovi hafði átt einhverja músík í henni og Billy the Kid hafði átt að vera lifandi eftir seinna stríð. Fannst þetta mesta bull og hafði gleymt ræmunni alveg. Keypti hana í 10-11 á 900-kall því Eldri-Sveppur var eitthvað að spurja um hana.
Eftir að hafa horft á hana var áhugi minn á þessum karakterum vakinn. Forvitnilegast fannst mér að Kiefer Sutherland-karakterinn, Doc Scurlock- sem var drepinn í mynd 2- var einmitt aldrei drepinn. Hann lifði þetta allt saman af, giftist einni nítján ára, eignaðist krakkasúpu (einn sonur hans hét William, eftir Billy the Kid) og dó 1929. Gaman að því.
Chavez, mexíkanski indíáninn, var einnig drepinn í mynd tvö, sem er skemmtilegt í ljósi þess að hann dó úr elli allnokkrum árum síðar, eftir að hafa drepið mann og annan, stolið öllu steini léttara, lent í fangelsi og verið náðaður og sleppt út þaðan rétt fyrir sextugt.
Arkansas-Dave, sem Christian Slater lék, hefur greinilega verið allforvitnilegur kall einnig. Sagt er, þó sumum þyki það ólíklegt, að hann hafi kennt Doc Holiday að skjóta gegn því að Holiday kenndi honum að spila póker í staðinn. Lenti þeim svo saman seinna, þar sem mögulegt er að Arkansas-Dave hafi verið í liði Kúrekanna í bardaganum þegar Holiday og Wyatt Earp drápu Curly Bill Brocious. Örlög hans eru einnig óljós og ber heimildum ekki saman.
Einnig, samkvæmt heimildum netsins, er mjög vafasamt að Pat Garret hafi drepið Billy the Kid. Líklegt er að einhver alsaklaus maður hafi dáið í byssubardaga - mögulega af Pat Garret, fyrir mistök - og verið grafinn sem þessi frægasti útlagi westursins, til að breiða yfir klúðrið.
Hér eru nokkrar forvitnilegar síður til að lesa um þessa hressu sveina:


http://www.angelfire.com/mi2/billythekid

http://www.angelfire.com/mi2/billythekid/dave.html

http://www.legendsofamerica.com/WE-DaveRudabaugh.html

http://www.desertusa.com/mag99/dec/papr/chavez.html

http://www.activeboard.com/forum.spark?forumID=19704&subForumID=23561&action=viewTopic&commentID=898109&topicPage=

http://www.legendsofamerica.com/WE-BillyKid.html

Ef þið hafið ekkert skárra við tímann að gera er þetta alltsaman ákaflega skemmtilegt.
Gaman að því, og treysti ég því að Pétur Örn lesi allar þessar síður af áfergju.

Tuesday, October 04, 2005

Ball

Haldiði að manni hafi ekki verið bent á þessar fínu myndir af kallinum að leika með unglingahljómsveit utan af landi á dansiballi...

http://www.flass.net/myndir/skolar/borgo/borgobusa/images/DSC02714.JPG

og

http://www.mysa.stuff.is/gallery/albums/Busaball-BHS/aeq.jpg

og ekki orð um það meir. Svakalega var ég langelstur á ballinu... hananú!

Uppgjafaleikfimikennari

Ha? Er Jónína Ben hætt við framboð sitt í prófkjöri Sjálfstæðismanna? Af hverju?

Stór broskall.

Monday, October 03, 2005

Baugsstofan

Vilhjálmur Goði hitti naglann á hvert höfuðið á fætur öðru í bloggi sínu í síðustu viku, eins og sjá má á link hér til hliðar.
Ég kíkti á Baugsstofuna og lá við aað ég stytti mér höfðu eins og Kurt Kúbein um árið sökum leiðinda.
Eins og Pétur Örn (a.k.a. Gömul kona með Lúger) sagði: "Þetta er álíka fyndið og ungbarnadauði!"
Hinsvegar eru Stelpurnar dálítð fyndnar.

Babyshambles

Pete Doherty og félagar í Babyshambles koma ekki fram á Iceland Airwaves í ár. Æi, hvað það er hræðilegt.
Þeir hafa verið gríðarlega mikið í fréttunum vegna dópneyslu þessa Pete - sem ég veit ekki hvaða hlutverki gegnir í sveitinni - og sambandi hans við Kate Moss. Nú virðist sem það samband hafi ekki beint hjálpað henni í vinnunni.
Þrátt fyrir alla þessa fjölmiðlaumfjöllun hef ég aldrei heyrt lag með sveitinni. Ég reyndar þekki engan svo ég viti til sem hefur heyrt í sveitinni, hvað þá eignast plötu með þeim, hafi þeir á annað borð gefið eitthvað út.

Meðan Airwaves standa sem hæst mun ég verða að spila á Grundarfirði í góðum fíling.