Tuesday, December 06, 2005

Lúkasarspjall

Áttaði mig á einu í dag varðandi hinn skemmtilega kvikmyndagerðarmann George Lucas. Hann hefur, eins og landsmenn allir með greindarvísitölu yfir frostmarki vita, gert allnokkrar bíómyndir sem gerast í fjarlægum sólkerfum fyrir margt löngu.

Þar líður ekki sú mynd að ekki missi menn, skepnur og vélmenni hendurnar.

Sem hljóðfæraleikari finnst mér alltaf frekar ógeðfelld tilhugsun að missa hönd - tala nú ekki um báðar - og fór því um mig hrollur þegar ég áttaði mig á því að nokkrar aðalpersónur Stjörnustríðsþríleiksins tvöfalda hafa orðið höndinni styttri á hvíta tjaldinu og plasmaskjám landsmanna.

Við munum öll þegar Svarthöfði hjó hönd sonar síns af við úlnlið (og var í framhaldi sviptur forræði og titlinum faðir ársins) í bestu mynd seríunnar. Færri muna að í sömu mynd missti samkynhneygt vélmenni að nafni C3PO handlegginn og í byrjun myndarinnar hjó sonurinn Logi handlegg af snæskrýmsi einu. Reyndar verður að taka fram honum til málsbóta að snæskrýmslið hafði hugsað sér að snæða hann skömmu síðar og flokkast þetta því sem sjálfsvörn.
Svarthöfði sjálfur missti flestalla útlimi í viðureign sinni við Óbí van Kannabiss í lok nýrri þríleiksins, en færri muna kannski að í myndinni þar á undan datt af honum höndin í slag. Sjálfur hafði hann höggvið báðar hendur af Sarúman (sem hét eitthvað annað í þessum myndum) í upphafi Revenge of the Sith. Í þeirri sömu mynd hjó hann svo ekki bara hönd heldur allan bévítans handlegginn af Samuel L. Jackson. Skemmtileg tilviljun, því þessi sami handleggur var einmitt allt sem var eftir af þeim ágæta leikara í Jurassic Park eftir að Raptorarnir höfðu snætt hann sælla minningar.
Einn aukaleikaranna í Klónamynd Stjörnustríðsseríunnar missti líka hönd (Sam Vessel minnir mig að nafn persónunnar hafi verið) og eflaust eru fleiri sem ég man ekki eftir á þriðjudagskvöldi.

Bara datt í hug að koma þessum hugleiðingum mínum á framfæri því ég hafði ekkert skárra að gera.

Man einhver eftir fleirum í Star Wars sem misstu hönd? Kannski bara fingur? Er einhver þarna úti?

6 Comments:

Anonymous kiddi said...

allmargir starfsmenn við Stjörnríðsmyndirnar misstu útlimi.. Harrison Ford missti eyra og Mark Hamill missti ferilinn. Carrie Fisher missti vitið og lék í myndum eins og Jay and Silent Bob Strike back.. sem er ömurleg mynd.

11:03 PM  
Anonymous Anonymous said...

þar sem ég var næstum búinn að missa hönd, haus og fleira í viðskiptum mínum við bláeygðan, grænlenskan úlfhund leyfi ég mér að senda litla ferðasögu hér inn, bróðurómynd sæl, enda hef ég ekki bloggsíðu sem vitnað er í í fjölmiðlum 365 miðla, vina þinna.

Laugardaginn þriðja des. lögðum við sex kappar frá Reykjavíkurflugvelli til Kulusuk. Vorum kvaddir með virktum af forseta vorum, honum Ólafi Ragnari, Halldóri Blöndal og séra Gunnþóri presti í Hafnarfiri sem blessaði leiðangurinn. Frá Kulusuk sigldu þeir Henrik Danielsen, danski stórmeistarinn í skák, Hrafn Jökuls forseti Hróksin og Símon Birgisson, blaðamaðurinn alræmdi og liðsmaður Kátu Biskupanna til Kummiut með Sigga ísmanni sem frægur varð fyrir að drepa hákarl með berum höndum en ég og Stefán Herbertsson, formaður Kalak og leiðangursstjóri og Geir Þráinsson þyrluðumst til Tasiilaq og lentum beint á jólaskákmóti skákfélagsins í Tasiilaq sem var stofnað eftir heimsókn Hróksins í sumar. Nú hef ég diplóm um að hafa lent í 5. sæti á þessu fína móti sem fer auðvitað upp á vegg. Við förum í smáþorpin hér á Austur Grænlandi og gefum skáksett, jóladagatöl frá Lions og fleira dót en við Símon fórum einmitt með þyrlu í gær til Tiniteqilaaq og Isatoq í svoleiðis leiðangur. Það var flottasta flugferð sem ég hef farið en ekki vildi ég búa þarna í 200 manna þorpum sem eru alltaf einangruð en algjörlega yfir veturinn því ísinn leggur um alla firði. Skákkennsla hefur farið fram í grunnskólanum hér í Tasiilaq eða Angmagssalik (bærinn þar sem fullt af loðnu er) og mun standa yfir í viku. Öll börn fá skáksett og gjafir og til að ræða enn meira samstarf sem er á döfinni þá fórum við Stefán á fund bæjarstjóra og -stjórnar í dag og áttum fínan fund, gáfum auðvitað skák og ferst blóm sem sjást bara hér á sumrin.
Hótelið okkar er lengst upp í fjalli og ég fékk hjartaáfall í gærkvöldi þegar ég trítlaði uppeftir og stóóór úlfhundur með heiðblá augu snusaði af mér og fylgdi mér heim en þetta eru svakalegar skepnur sem yfirleitt eru tjóðraðar hér á lóðum og eru úti greyin alla nóttina og þá er virkilega verulega kalt.
Annars drifum við okkur þrír í messu á sunnudagsmorgun, hef ekki farið í messu í nokkur ár og aldrei á grænlenska. Það var hin mesta kyrrðarstund enda skildi ég ekki orð nema þegar nafnið á stúlkunni sem skírð var var borið fram, Marie Henrietta Holst Christiansen.
Annars hefur þetta verið góður dagur, 40 krakkar tóku þátt í skákmóti í kvöld og allir fengu verðlaun. Á morgun förum við Geir til Kulusuk, gefum skák og nammi og kennum krökkum mannganginn. Tökum svo á móti íslensku pressunni, fólki frá Barnaheillum og einhverjum skákgúrúum ef grænlenskar vættir og veður leyfir. Tek með brók, sokka og tannburstann ef maður yrði nú innlyksa þarna en Kulusuk er nú engin stórborg.
Annars má skoða bæði greinar og myndir á hrokurinn.is
af ferð þessari.
Kveðja, Arnar.

2:30 AM  
Blogger Olga Bj� said...

Þú ert með alveg magnaða minniskubba á harða disknum þínum (eða flakkaranum frekar). Það var stórskemmtilegt að rifja þessi atvik upp því ég hef alla tíð verið mikil Star Wars kona. Fékk alltaf að leika prinsessu í Star Wars plastkallaleikjum með bróður mínum og vinum hans (enda vildi enginn annar leika einu konuna).

Orgelið

8:30 AM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Skemmtilegt allt saman.

1. Kiddi - Carrie Fisher lék líka sálfræðinginn í Austin Powers og fyrirgefst þar með Jay og Silent Bob. Á þessum tíma hefði verið óráðlegt að hafna hlutverki í Kevin Smith-mynd, þótt hann hafi dalað síðan, kallinn.
Hún lék einnig morðótt háskakvendi í Blues Brothers, svo hún klúðraði þessu ekki alveg. Í dag skrifar Lilja prinsessa barnabækur.
Mark Hamill lék (frekar illa) í sænsku sjónvarpsmyndinni Hamilton með Peter Stormare og svo hefur hann leikið Jókerinn í Batman teiknimyndum. Hann á örugglega meiri peninga en ég og því vorkenni ég honum ekki rassgat.

2. Arnljótur bróðurómynd - gastu ekki fengið skárra fólk til að fylgja þér úr hlaði til Grænaveldis? Óli Grís og Halldór Blö! Gamall kommi og versta sjálfstæðiseintak klakans. Vona að þessi séra prestur sé fínn til að balansera dæmið.
Gott samt að vita að þú fórst til kirkju, þín heiðna kommasál hefur gott að því. Þá kannski færðu að kíkja í himnaríki í korter eða tuttugu mínútur áður en andskotinn fréttir að þú sért dauður.
Annars er ég hrifinn af þessu framtaki ykkar að kenna grænlenskum krökkum landganginn(mannganginn). Skák er nefnilega göfug íþrótt og falleg. Eins og box, bara engir blökkumenn.

3. Olga - ég mælist til þess að þú setjir snúða í hárið og hermir eftir Lilju prinsessu (fyrir utan það að þú ert tuttugu sentimetrum hærri en hún). Þá verður Gilli örugglega alveg dýrvitlaus!
Svo þarftu endilega að koma og sýna mér hann, ég man ekki eftir að hafa séð kagglinn.

9:07 AM  
Anonymous monsi said...

hér eru allir hressir til handa og fóta

1:13 PM  
Anonymous Anonymous said...

Bráðsnjöll hugmynd með snúðana í hárið. Prófa það.
Of seint að sýna þér Gilla þar sem ég er orðin oddatala með afbrigðum.

OB

9:53 AM  

Post a Comment

<< Home