Tuesday, December 06, 2005

Oft er fjör í Eyjum

Gott ef maður skellti sér ekki bara með félögunum í Swiss til Vestmannaeyja sl. laugardag að leika í prívatsamkvæmi. Herjólfur á hádegi, lagt af stað fullsnemma fyrir minn smekk og dagurinn tekinn í gott sándtest, kaupa snyrtilegan klæðnað á þá sem gleymdu honum og ofát almennt. Smakkaði á veitingastað, sem ég man ei nafnið á, einn þann besta kjúkling sem ég hef ekki eldað sjálfur. Eyjar eru skemmtilegar og til að toppa þetta var meira að segja hægt að hlæja að Spaugstofunni þennan daginn, en það gerist ekki oft.
Ballið var skrýtið, eins og gerist með svona einkasamkvæmi æði oft. Eftir mat, drykk og skemmtiatriði fer oft helmingur samkomugesta heim að lulla eða annað að djamma, en ekki þarna - allir á gólfið og svakastuð. Svo, eðli málsins samkvæmt, týndist eldra fólk út fyrst, svo þeir sem mest höfðu skolað niður af áfengi og að lokum svo þeir sem fannst við ekkert skemmtilegir og fóru annað. Við byrjuðum á gömlu dönsunum og enduðum á Cream og Hendrix! Gaman að því.
Skelltum okkur svo stundarkorn á Lundann, hvar hljómsveitin Tríkot var að trylla lýðinn, og tókum nokkur lög. Þar buðu tveir karlmenn mér upp í dans - hvor í sínu lagi. Verð að muna að láta ekki sjá mig snyrtilegan til fara í Eyjum aftur, það veldur bara misskilningi.
Má einnig til með að minnast á löggumanninn sem var á ballinu. Bauð okkur mjög í glas, en ég kvaðst ekki vilja drekka mikið, því ég þyrfti að keyra rokkmóbílinn niður í Herjólf um morguninn. Þá reddaði hann bara bílstjóra og sagði mér að drekka bjórinn minn! Uppáhaldslöggan mín þann daginn (fyrir utan tengdapabba, sem var að passa Litlasvepp).

Og þá að allt öðru - Roger Moore á klakanum. Versti Bondinn, en langbesti Dýrlingurinn.

Fimm hlutverk Moore sem ég man eftir;

1. James Bond. Moore breytti Bond í trúð. Ég hata trúða. Fílaði hann samt mjög vel þegar ég var barn og unglingur.

2. Dýrlingurinn. Bý svo vel að eiga eitthvað af gömlum Dýrlingsþáttum á VHS og hef haft gaman af. Moore var miklu mun betri þarna en arftaki hans, Ian Ogilvy.

3. Ottó Hect Majór í Flóttanum til Aþenu - getið þið ímyndað ykkur Roger Moore sem þýskan majór í seinniheimsstyrjaldarmynd? Ó, nei. Ég hef séð myndina og ég get samt ekki ímyndað mér það. Gríðarlega fyndið. Þó er ekki hægt að skrifa mistökin á Moore sjálfan, meira á leikstjórann. Þetta er svipað og að fá undirritaðan til að leika risa eða Randver Þorláks til að leika Sölku Völku.

4. Lloyd í Boat Trip - Moore leikur gamlan homma á skemmtiferðaskipi. Fínt. Mjög að gera grín að Bond, en samt alveg anti-Bond.

5. Finn í Villigæsunum. Ein besta leikframmistaða Moore, en Richard Burton og Richard Harris skyggja þó verulega á hann án þess að blása úr nös. Ljómandi fín mynd. Ef þú hefur ekki séð hana þá kostar hún þúsundkall í 2001 á Hverfisgötu.

Vil einnig benda á Moore-brandarann á Baggalút. Sjá link hér til hliðar.

Nú skal farið með bílinn í jólabónið og svo í vinnuna. Veriði sæl.

2 Comments:

Blogger Gauti said...

Ég er kannski einn umða en Roger Moore hefur alltaf verið uppáhalds bondinn minn . . og já ef karlmenn eru snyrtilegir til fara í vestmannaeyjum geta þeir ekki verið annað en hommar hehehe . . þeir hafa bara verið hrifnir af þýnu þreytta suðræna útliti ;)

7:16 PM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Jú, hið þreytta suðræna sem hrjáir okkur Villa Goða.
Moore fannst mér hundvondur Bond, sá lakasti af þeim öllum. Ég var hinsvegar um tíma, eins og sagði hér að ofan, talsverður Saint-aðdáandi og fjárfesti í nokkrum þáttum og full-length-myndum á VHS. Það er skemmtilegt. Eldist alveg svakalega illa, en er skemmtilegt.

9:28 PM  

Post a Comment

<< Home