Tuesday, January 31, 2006

Getraun

Nóg af leikaragetraunnum í bili - nú er rithöfundagetraun. Engin verðlaun.

Rithöfundurinn sem spurt er um er dáinn fyrir allnokkru. Hann var fæddur í Wales, en familían kom annarsstaðar frá. Hann var nefndur í hausinn á frægum landkönnuði frá heimalandi foreldranna.

Hann var kvaddur í herinn í seinna stríði, meðan hann vann fyrir Shell í Kongó. Lenti þar í æði mörgum lygilegum uppákomum. Hann var t.d. einn af sextán manna flugsveit og var hent í orrustu eftir aðeins nokkurra tíma flugþjálfun. Þrettán af þessum sextán féllu í orrustu - ekki okkar maður.

Hann var tvígiftur og átti nokkur börn, sem ekki öll komust á kné. Okkar maður og fyrri kona hans vöktu mikla athygli á sjúkdóm þeim er hrjáði eitt barna þeirra.

Hann skrifaði ljóð, barnabækur, kvikmyndahandrit, sjálfsævisögur, leikrit, skáldsögur fyrir hina eldri og einnig smásögur, sem sumar hverjar voru á mörkum þess að teljast hrollvekjur.

Allnokkrar bækur hans hafa verið kvikmyndaðar. Í það minnsta ein hefur verið kvikmynduð tvisvar, en þó ekki undir sama nafninu. Báðar útgáfurnar eru í miklu uppáhaldi hjá mér.

Ríkissjónvarpið sýndi fyrir allnokkrum árum síðan framhaldsmyndaflokk, byggðan á sögum okkar manns.

Sá er spurt er um var ásakaður um júðahatur. Bévítans melurinn.

Hver var kappinn?

Annars er ég í fíling. Var að snæða danska skinku til að sýna frændum okkar samhug í verki. Fæ mér líklegast ískaldan Túborg á eftir og horfi á I Kina spiser de Hunde, sem Jói Sigurviss ljáði mér um daginn.

Veriði hress. Borðiði skinku. Drekkiði Túborg.

Sunday, January 29, 2006

Helst í fréttum

Var að horfa á fréttir og þar var eitt og annað sem fór í mínar fínustu. Eitt það ógeðfelldasta sem ég hef heyrt af átti sér stað í Suður-Ameríku, ef ég man rétt. Þar sáu tveir menn plastpoka á floti. Úr pokanum heyrðust hljóð og héldu mennirnir að einhver hefði ætlað sér að drekkja kettlingi eða hvolpi. Svo var ekki því í pokanum var nýfætt barn. Hvað í ósköpunum ætli hafi gengið á í höfði þess aðila sem henti pokanum í vatnið?

Svo hrundi hús í Póllandi og tugir manna létust. Heimurinn á leið til heljar í innkaupakerru. Kirkjan fær á sig dóm vegna þess að þeir réðu ekki konu sem sendiráðsprest. Einhvernveginn fær maður á tilfinnnguna að ef kona fær ekki þá vinnu sem hún vill sé hún með unnið mál í höndunum. Strandsiglingar að leggjast af á Íslandi og farmenn kenna stjórnvöldum um. Hvað eiga stjórnvöld að gera í því að fólk kýs frekar að senda vörur með bíl en skipi? En þeir vilja styrki og skattaafslátt svo þessi útdauði atvinnuvegur geti haldið áfram. Ég, sem landkönnuður, er að hugsa um að fara fram á styrk til að halda vinnunni. Að sjálfsögðu á kostnað skattgreiðenda.

Svo segja þeir að múslimar um heim allan ætli að hætta að kaupa danskar vörur vegna skopmyndanna frægu í Jótlandspóstinum. Ég ætla að kaupa meira af dönskum vörum núna og sniðganga allt frá múslimalöndunum. Meira að segja labba meira svo ég þurfi minna bensín á bílinn, því það er jú frá löndum Íslams. Íhuga að kaupa Toyota Prius, sem er að hálfu rafmagns. Veit einhver um vetnisbíl til sölu á góðu verði? Verður að taka Escort Station ´98 uppí.

Ég er að fara að spila á Jótlandi eftir 3 vikur. Ég ætla að eyða fullt af peningum þar í innlendan bjór og pölser. Jafnvel gerast áskrifandi að Jótlandspóstinum ef þeir taka til baka afsökunarbeiðnina til múslima.

Saturday, January 28, 2006

Laugardax

Átti að vera að spila í gær, sem og alla þessa helgi, á Döbb. Það frestaðist um viku. Því var síminn minn glóandi annað veifið í alla nótt. Sumir félagarnir lögðu leið sína á Döbb og sáu þar og heyrðu kolvitlausa hljómsveit. Er svo að leika í einhverju prívatsamkvæmi í kvöld.

Litli-Sveppur var veikur í gær. Við fórum með hann á spítalann og þar tók á móti okkur fyrrum Ungfrú Ísland, gott ef ekki Skandinavía líka. Hún gegnir þarna hlutverki öryggisvarðar. Miklu sætari en flestir aðrir dyraverðir, allavega strákarnir á Döbblíner. Vegna þessa vesens komst ég ekki í framboðspartí Sigrúnar, konu Villa Goða. Hún er skásta Samfylkingarkona sem ég þekki.

http://sigrunelsa.is/

Litli er annars orðinn hressari og kominn í stuð.Annars grillaði ég á mér hægri handlegginn í síðustu viku. Sullaði yfir hann feiti af pönnu og var allur í blöðrum. Fer skánandi. Grillaði fyrir nokkrum vikum á mér vinstri úlnliðinn þegar ég var með svín í ofninum. Grillaði rangan grís á framhandlegg. Maturinn var hinsvegar í báðum tilfellum hreinn og tær guðdómlegur unaður. Ég er nebblega alger moðerfokker við eldavélina.

Hér sé uppskrift, sem ég hef mikið dálæti á.

Það sem þarf:

3-4 kjúklingabringur

Parmesanostur

Venjulegur ostur

Leifar af einhverjum snobbosti úr ísskápnum

TORO kjúklingasúpupakki

1-2 pakkar af beikoni

Salt

Rjómi

Pottar, pönnur og vatn

Hrísgrjón

Svona gerum við er við eldum okkar mat:

Sjóðið kjúklingasúpuna. Notið minna vatn en ráðlagt er og rjóma í stað mjólkur - í meira magni en ráðlagt er.

Sullið leifum af snobbostum úr ísskápnum út í pottinn og látið bráðna saman við.

Steikið allt beikonið uns það lítur út eins og brennt kolefni. Klippið það á niður í ca. tommulanga bita (eða myljið) og sullið út í súpuna (sem núna heitir sósa). Saltið oggolítið - ég er að tala um salt á hnífsoddi. Þetta er ekki einu sinni stór hnífur.

Sullið sósunni (áður þekkt sem súpa) í eldfast mót og leggið kjúklingabringurnar í mótið, svo þær hyljist gersamlega í sullinu.

Setjið inn í ofn við 190-200 gráður í þrjú korter. Byrjið þá að sjóða hrísgrjónin. Takið eldfasta mótið út úr ofninum og stráið parmesanosti yfir, sem og eilitlu af venjulegum osti, sem þið hafið á þessum tímapunkti rifið í þar til gerðu apparati. Hendið eldfasta mótinu aftur inn í ofninn (sem þið slökktuð ekki á) þangað til hrísgrjónin eru soðin.

Ef þið endilega viljið þá getið þið svo sem haft eitthvað hvítlauksbrauð með þessu eða eitthvað annað, sjálfur læt ég kjúllann í sósunni (sem áður hét súpa) og grjónin nægja. Skemmir ekkert sérlega að hafa oggotsjillað hvítvín af betri sortinni með, nú eða bara kóla við frostmark.

Restina af saltinu takið þið svo í nefið inni á klósetti á Vegamótum.

Bon Jovi Appetít.

Annars datt ég óvart inn á Rúv áðan hvar Heiða í Unun var með spurningaþátt um Evróvisjón (hryllilega ljótt hálfþýtt orðskrýpisógeð) - skemmtilegur þáttur. Miklu skemmtilegri en undanúrslitin. Þar keppti Geir Ólafs, syngjandi lag eftir Friðrik Ómar. Hvern andsk... varstu að pæla, Friðrik?

Thursday, January 26, 2006

Grín

Eitt það fyndnasta sem ég hef séð í dag...

http://www.dailyhaha.com/_vids/pamela_Anderson.htm

...njótið.

Wednesday, January 25, 2006

Penn

Chris Penn dojur. Ekki gaman. Hann var nebblega frábær.

Tuesday, January 24, 2006

Úbartið

Mesta furða hvað menn geta látið út úr sér í útvarpinu. Hannes Heimir segir, og ég trúi því fullkomlega, að einhver útvarpsþulur hafi spilað lagið "Another brick in the wall" og kynnt það aðeins sem "The Wall". Kvað þulurinn lagið hafa setið árum saman á Billboardlistanum - það var jú náttúrulega platan, ekki lagið.
Annar útvarpseymingi, sem vonandi hefur fundið aðra vinnu, kynnti þetta sama lag sem gamlan Scorpions-smell - hvernig sem honum datt það í hug.

Svo er það málfarið. Minn yfirstrumpur, Jón, kveður þá Spegilsmenn hafa sagt fyrr í kveld "kjör leikskólakennara þurfa að hækka".

Einhver kerling, sem náði því að vinna bæði á FM og X-inu, sagði eitt sinn að við myndum bráðum heyra í honum "Marínói Rúnarsson". Hafi Marínó lamið hana fyrir vikið telst það eflaust andleg sjálfsvörn.

Eitt sinn lá ég í ljósabekk, verandi semíhnakki, og heyrði þá þulinn segja "korter gengin í sex vantar klukkuna". Hún var 18.15. Sýnir að systkin eiga ekki að eignast börn saman.

Sumt þetta útvarpspakk virðist ekki vita neitt í sinn haus nema þá hvað síðasta lag hét, hvað næsta lag heitir, hvaða stöð við erum að hlusta á og hvað þeir sjálfir heita - sem ég myndi í þeirra sporum halda leyndu.

Uppáhaldsútvarpsstöðin mín er Pandóra. Farið á pandora.com og kynnið ykkur málið, þið sem ekki þekkið fyrirbærið.

Þessi pistill var laus við pólítískt röfl.

Nenni ekki að skrifa meir. Þið skrifið bara eitthvað í kommentakerfið. NÚNA!

Monday, January 23, 2006

Ferðalag Sveins

Haldiði að maður hefi ekki hreinlega brugðið sér norður í land á laugardag - kíkja ögn á mömmu, sem er dásamlegasta konan í gervallri veröldinni. Kerlingin mín kíkti á föstudag ásamt Yngri-Sveppi og ég fór á lau ásamt þeim eldri. Keyrandi. Í fokkings stórsjó og byl. Versta veður sem ég hafði augum barið. Bíllinn, á nýjum nagladekkjum, flaug um víðan völl og fauk tvist og bast. Bílar fuku yfir mig og undir, sá ekki út úr augum vegna hríðarbyls og allt var eins og verst varð á kosið. Náðum samt á mettíma norður. Met í meiningunni að ég hef aldrei verið svona lengi. Fólk hafði nú einhverjar áhyggjur af mér með unglinginn minn í bílnum, þar sem ökuferill minn, sérstaklega í upphafi, var ekki glæsilegur. Ber að geta þess að byrjunaratriðið í Saving Private Ryan er lauslega byggt á fyrstu árum mínum með bílpróf.
Eníhjú, ég náði á staðinn og fékk upphitað lamb hjá mömmu. Fór svo að sofa. Vaknaði á hádegi eftir vel verðskuldaðan svefn, át, kíkti í heimsókn til Jóa og Kötu og svo, pakksaddur af vöffluáti, heim til Rvk aftur með alla familíuna í steisjoninum. Í verra veðri en á norðurleiðinni. Er óhætt að fullyrða að það var tær viðurstyggð og óblönduð. Sá ekki rassgat fram fyrir bílinn á tíðum og fauk alveg langt til og frá. Sá fyrir mér blaðafyrirsagnirnar "fjögurra manna fjölskylda fýkur til Færeyja" eða "gáleysi gítarleikara veldur geðveiki familíunnar". Komumst samt í bæinn og var ég aðeins oggopons of seinn á giggið á Döbblíner. Þar spiluðu á móti mér tveir gersamlega óskiljanlegir Skotaskrattar, annar með sekkjapípu og hinn með midi-harmonikku. Svo kom Eysteinn og við fengum okkur koníjakk og Guinness.
Þar með lýkur þessari frásögn og hafiði það. Ég er hvað glaðastur með að hafa misst af Evróvisjón (ógeðfellt hálfþýtt orðskrýpi), það sem ég heyrði var óblandaður viðbjóður. Meira að segja framburður kynnanna var ógeðslegur.
Takkobless.

Saturday, January 21, 2006

Ducknose

Andanefja ein, villuráfandi mjög, synti upp í Thames-á í gær. Sá það í fréttunum í sjónvarpinu í gær. Það þykir víst voða merkilegt að einhver syndandi belja festist í skítugri lækjarsprænu í Lundúnahreppi. Það sem mér þykir merkilegra er að nú hafa menn hafið aðgerðir til að bjarga sæbeljunni aftur á haf út. Alveg hreint stórmerkilegt að meðan 500 börn svelta í hel úti í hinum stóra heim á hverjum klukkutíma, 12,000 á dag, 84,000 á viku og svo mætti lengi telja, er verið að eyða stórfé í að bjarga einhverju hvalræksni, sem er meira að segja ekki gáfaðri en það að hann synti upp í miðja London! Má ekki bara hafa skepnuna þarna, syndandi í læknum?
Mesta furða að Keikó sé að endurtaka sig, þó blessunarlega með minni tilkostnaði. Hugsið ykkur alla Keikó-vitleysuna. Hálfellidauður háhyrningur sendur með herflugvél frá US of A til Vestmannayja - sem hefur nú kostað eitthvað - settur þar ofan í rándýra flotkví og settur í endurhæfingu til þess eins að drepast í Noregi. NOREGI!
Á meðan erlendir milljónerar og íslenskir athyglissjúklingar hentu milljónum á milljónir ofan til að bjarga dýri - sem var m.a.s. svo gamalt að það var orðið óætt - hefði verið hægt að bjarga heilu þorpunum frá bráðum bana með aðeins broti af þessu fé öllu. Fólk, það er að segja dýr af sömu tegund og við sjálf, er einhvernveginn mikilvægara en einhverjir hvalir. Mér finnst eiginlega hálfógeðslegt að eyða pening í einhver "bjargið dýrunum" verkefni meðan svo mikið sem einn homo sapiens sveltur einhversstaðar. Fólk fyrst - dýrin svo. Allir að finna "brauð handa hungruðum heimi"-bauk og setja pening ofaní, svo hungraða fólkið geti keypt sér hvalkjöt.

Friday, January 20, 2006

Bóndadagurinn

Kerlingin mín gaf mér blóm í morgun í tilefni bóndadagsins. Hafði reyndar beðið hana um blow, en hún virðist vita heyrnarlaus.
Fyrir utan blómin gaf hún mér það í bóndadagsgjöf að drífa sig norður í land. Þvæi sit ég núna heima með Eldri-Svepp og við erum í fullri vinnu við að reyna að bræða úr sjónvarpinu. Þegar Simpsons eru búnir fer Transporter 2 í tækið og svo kannski eitthvað ögn menningarlegra. Eldaði kjúkling áðan og innihélt sósan svo mikinn rjóma að ég heyri okkur feðga fitna núna.

Leiter, dúds.

Thursday, January 19, 2006

Poe

Hann á ammælídag
Hann á ammælídag
Hann á ammæl´ann Edgar
Hann á ammælídag

Edgar Allan Poe á ammælídag. Hann hefði orðið 197 ára ef hann hefði ekki drukkið sig í hel fyrir mörgum árum.

Hann reit hryllingssögur og er almennt talinn faðir, ef ekki afi, nútíma sakamálasagna. Sögur hans hafa elst alveg hreint ógeðslega vel. Einnig finnst mér alltaf ljóðið hans um krumma voðalega sætt.

Hann reit eitt sinn sögu sem hét "Morðin við Líkhússtræti". Sir Arthur Conan Doyle stal henni svo og lét aðalsöguhetjuna heita Sherlock Holmes og hlaut heimsfrægð fyrir þann viðurstyggilega ritstuld. Plebbi og glæpón.

Morðin við Líkhússtræti er ein fjölmargra sagna hans sem náðu á hvíta tjaldið. Vincent Price var fastagestur í hrollvekjunum sem gerðar voru in the sixties (ekki hljómsveitin) og þá ætíð sem vondi kallinn. Stundum sem ógeðslega vondi kallinn.

http://mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1180146

Spurningar dagsins - hvernig tengist Edgar Allan Poe hljómsveitinni Iron Maiden og Simpson-fjölskyldunni?

Wednesday, January 18, 2006

Gaukur á stöng...

Einu sinni átti ég kyrkislöngu. Hún gat ekki gert svona -

http://www.flass.net/fullfrettir.php?page=11&p=1

og verði ykkur að góðu. Ætli þetta hafi nokkuð verið Gary Numan?

Tuesday, January 17, 2006

og gera í buxan sín...

Jú, Pamela Anderson fer mikinn um þessar mundir og vill ólm að brjóstmynd af Sanders ofursta verði fjarlægð úr opinberri byggingu í Kentucky. Hún kveður hann hafa staðið fyrir slæmri meðferð á fiðurfénaði. Jú, það er rétt að hann stóð fyrir því að hænsn eru drepin ogétin um heim allan - verri verður meðferðin varla. Því verður að fjarlægja allar styttur af kjötætum. Áfram KFT (Kenntökkí fræd tjikken).

Svo var einhver grábölvaður norsaraskratti að nafni Eskil að mótmæla loftárásum Bandaríkjamanna í Pakistan. Þessi maður, sem er svo óheppinn að bæði vera norskur og heita Eskil, er víst einhver jafnvægislistamaður og hefur hætt við að koma fram í Bandaríkjunum. Mér skilst að landsmenn þar séu gersamlega niðurbrotnir... eða nei.

Hvað er þetta með frægt fólk? Það heldur alltaf að ef það getur hjólað yfir gil á vír eins og þessi Eskil, verið með sílíkon eins og Pamela, samið lög eins og Mugison og Björk eða leikið í myndum eins og Sean Penn þá hafi það sjálfkrafa eitthvað vit á meðferð dýra, friðarferli erlendis eða virkjanaframkvæmdum á stórgrýttu hálendinu.

Fari þetta pakk allt og veri.

Lag dagsins er Grínverjinn með Ladda.

Monday, January 16, 2006

Bíó

Horfði í gærkvöldi á The Eagle has landed, extra langa versjón. Heilar átján mínútur til viðbótar við það sem ég sá í sjónvarpinu ´82 og átti á dvd þangað til ég gaf Eldri-Svepp þann disk. Viðbótin er ágæt þó hljóði sé ábótavant. Gaman að sjá Hitler í viðbótinni. Stórgóð mynd, sem fæst hjá honum Sigga í 2001 á Hverfis.

Núna er Tomb Raider í sjónvarpinu. Hún er gersamlega fokkings hræðileg. Verri en Charlie´s Angels. Það semmér líkaði verst við Engla Kalla var hin ætíð hroðalega nærvera Tom Green. Hann fer einna mest í taugarnar á mér, slagar langt upp í Geir Ólafs.

Sunday, January 15, 2006

Sögur af landi

Síðasta vika er búin að vera hundleiðinleg að mestu. Litli-Sveppur fárveikur, fór jafnvel á spítala, og við kerla lítið sem ekkert við í vinnunni, sem er slæmt hjá báðum. Tókst samt að drullast á tvö af þrem giggum helgarinnar. Gærkvöldið var ljómandi skemmtilegt, Viddi lillebró í bænum og hann fylgdi mér niður á Café Amsterdam hvar hljómveit mín, Swiss, lék fyrir almennri óreglu. Þar mætti meira og minna mitt óregluklan, Pétur Pylza ásamt breiðnefjunni, Eysteinn, Guðrún Gauksþjónka, Óli fuggli, Einar örvhenti og fleira gott fólk. Var að venju fjör á svæðinu og jafnvel enn meira fjör í koníaksstofu kjallarans. Viddi litli fór snemma heim, enda sauðölvaður. Óð í kerlingum framanaf, strákurinn, en klúðraði því með ofurölvun. Við Swissmenn lékum af okkur rassinn frá tvö til klukkan sex, Steini í Smack, Ingó bassakrulludýr og Atómstöðvartommarinn (man ekki í andartakinu hvað hann heitir, fínn kall samt) tóku lagið og allir í stuði. Tók æði langan tíma að koma sér heim, fyrst að ná að drulla sér út að reyna að ná í bíl og svo var sirka ófært í Breiðholtið. Örugglega ekki kominn heim fyrr en klukkan átta. Svaf til tvö og svo aftur í sirka tvo tíma. Vel hvíldur.

Annars eitt - það virðist sem svo að ef maður fær á kjaftinn í miðbæ Reykjavíkurborgar er sagt í fréttunum að það hafi verið fyrir utan Amsterdam. Á föstudaginn var einn laminn í götuna í Tryggvagötunni og að sjálfsögðu stóð í öllum blöðum að það hafi verið fyrir utan Amsterdam. Hvorki fórnarlambið né árásarmaðurinn voru gestir á staðnum, sem bæ ðö vei var löngu búið að loka þegar árásin átti sér stað. Ber að geta þess einnig að Gaukurinn er sirka jafnlangt frá þeim stað hvar atburðurinn gerðist. Svo fylgdi með í sömu frétt að önnur líkamsárás hafi átt sér stað sama kvöld á Lækjartorgi. Fyrir framan hvaða stað var það? Pravda? Vöffluvagninn? Héraðsdóm?

Mig langar í rauðvín. Líka krakk. Fæ mér annaðhvort.

Saturday, January 14, 2006

Blóm og byssur

Man eftir að Villi Goði skrifaði eitt sinn um að hann hefði séð einhvurn "Behind the music" - þátt um Guns´n´Roses. Sá þáttur var einmitt á VH1 áðan og var hressandi áhorfs. Ég man að um það bil sem ég tók bílpróf, tryggingafélögum landsins til allnokkurar hrellingar, voru þessir illa klæddu og sjampólausu menn miklar hetjur hjá mér og mínum. Sá líf þeirra í hyllingum og vildi verða eins og þeir. Nú er ég alveg svakalega feginn að vera bara ég. Það er nefnilega fínt.

Var að pæla...

hvernig ætli Spaugstofan verði í kvöld?

Friday, January 13, 2006

Stuð

Mikael og Jónas hættir að ritsdtýra DV. Það er hið allrabesta mál og vonandi að blaðið verði betra - ekki getur það orðið verra.

Þeir segjast hafa hætt sjálfviljugir, þvi mikill ófriður hafi skapast kringum DV síðustu daga - voru það ekki þeir sem sköpuðu ófriðinn með viðurstyggilegri ritstjórnarstefnu og almennu ógeði?

Sénsinn Bensinn að þeir hafi hætt sjálfviljugir. Ef svo er gefur það ekki góða mynd af eigendum blaðsins. Ég er hinsvegar fullviss um að þeim hefur verið gert að taka pokann sinn og verið gefinn kostur á að segja upp. Sumsé, gamall karlskarfur (Jónas) og kjaftfor krakkafrekja (Mikki) að leita sér að vinnu. Hafa gríðarlega góða reynslu af mannorðsmorðum, hroka og skíthælshætti.

Wednesday, January 11, 2006

Bónussvínið

Jóhannes í Bónus, einn eigenda - og þar með einn af þeim sem eru ábyrgir fyrir - DV, sagði í viðtali í dag að honum þyki DV vera sorprit og hann sé síður en svo hrifinn af svona blaðamennsku. Hann hafi íhugað að selja sinn part í blaðinu og þvo þar með hendur sínar af þessari drullu.
Honum hefur ekki dottið í hug, blessuðum manninum, að fara fram á að skipt sé um ritstjórn hjá þessum grábölvaða klósettpappír sem hann á og gefur út? Hefur honum ekki, sem stórum hluthafa í þessum snepli, af eiga orð við ritstjórnina? Það er ekkert óeðlilegt að eigandi fyrirtækis skipti sér af rekstri þess ef honum finnst það ekki vera honum til sóma.

Sorrý, Jóhannes, þú ert ábyrgur og situr í skítnum - upp í háls. Þessi óþefur þvæst seint af.

Annars er ég bara hress. Er að spila neð hljómsveit minni á Amsterdam á laugadagskvöldið. Mætið sum.

Til hamingju...

DV, loksins tókst ykkur það!

Tuesday, January 10, 2006

Sharon

Sá í Blaðinu að Sharon sýnir merki um heilastarfsemi. Mikið vildi ég að Samfylkingarmenn gerðu það sama.

Monday, January 09, 2006

Tíví

Við hjónin fórum í búðir í gær að skoða sjónvörp. Kom mér stórkostlega á óvart að gamla var alveg til í að kaupa 42" plasma, en kom mér enn meira á óvart að ég sjálfur skildi stoppa það af! Miðaldra að verða, með græjufíkn á lokastigi þessa dagana, en tókst að stoppa þetta af. Mikið svakalega er maður skrýtinn... eða skynsamur stundum... sem er stundum það sama. Sit því heima með veikan, en hressan, strákinn og horfi á 29" Seleco-sjónvarpið mitt, sem ég fékk á útsölu fyrir hálfu þriðja ári síðan. Alltolítið.

Vil einnig setja inn link á ágæta grein öfgahægrimannanna hjá andriki.is í dag, er þar sérstaklega að meina orð þeirra um umhverfisverndartónleikana.


http://andriki.is/default.asp?art=09012006


Allir hressir?

Saturday, January 07, 2006

Fimm komma einn

Skrapp ásamt börnum niður í Heimilistæki í dag og átti þar gríðarlega ánægjuleg viðskipti. Frelsaði úr ánauð þetta líka fína sörrándkerfi á útsölu meðan sölumaður Heimilistækja frelsaði eitthvað af peningunum mínum úr veskinu mínu. Við feðgar notuðum tækifærið meðan kerlingin svaf.

Setti svo Rush-tónleika á fóninn er heim var komið og upphófst gríðarlegt stuð. Nú erum við Eldri-Sveppur að horfa á Great Escape, sem er einmitt í mónó. Brilljant ræma.

Friday, January 06, 2006

Quentin, vinur minn

Hér má finna link á Quentin, vin minn, að lýsa áramótunum í spjallþætti hins bráðhressa Conan O´Brian. Njótið vel.

http://www.hi.is/~bjornbjo/

Prýðileg landkynning.

Einnig má finna í Blaðinu í dag grein um bændastyrki. Lesið endilega.

Thursday, January 05, 2006

Me-me

Ég var að sjá í sjónvarpinu (eða öllu heldur heyra fréttamanninn þar segja) að styrkir til bænda eru litlar 15,000,000,000 krónur á ári - LÁGMARK!
Þetta rokkar svona frá fimmtán til sautján milljarða á ársbasis. Veit einhver af hverju?
Mig langar bara til að vekja fólk til umhugsunar um að sú fjárhæð sem er tekin af skattfé okkar til að niðurgreiða atvinnugrein sem ætti að geta staðið undir sér eins og aðrar atvinnugreinar er nóg til að grafa tvenn Héðinsfjarðargöng. Á fjórum árum er þetta andvirði Símans. Þetta eru fimmtíuþúsund krónur - rúmlega - á hvern einasta Íslending á hverju einasta ári.
Kostnaðurinn er meiri en kostnaðurinn við ráðstefnu og tónlistarhús í Reykjavík, nema hvað er það er bara byggt einu sinni (fer reyndar pottþétt helming fram úr áætlun) en bændastyrkirnir eru á hverju ári.

Fyrir allnokkrum árum voru styrkir til bænda stórlega minnkaðir og að lokum (held ég fari rétt með) algjörlega lagðir af í Ástralíu. Síðan þá hefur bændum fjölgað og hafa það mun betra en þeir gerðu áður.

Er þetta vegna þess að pólítíkusar vita að bændur tilheyra fámennum kjördæmum og því er hvert atkvæði svo mikilvægt að þeir henda skattfé samborgara sinna í mútur til þeirra, eða er einhver eðlileg skýring á þessu?

Ef engin normal skýring fæst þætti mér eðlilegast að fara fram á samsvarandi styrk til trúbadúra og starfsfólks hljóðfæraverslana, veitingahúsaeiginda, leigubílstjóra, jólasveina og sjálfstætt starfandi múrara.

Annars var ég að horfa á Four brothers. Fín.

Tuesday, January 03, 2006

Pirr

Fátt fer meira í mínar fínustu en vond bíómynd. Það er ef hún er bæði vond og leiðinleg. Sumar vondar myndir eru bráðskemmtilegar, annaðhvort af því þær taka sig ekki mjög alvarlega eða of alvarlega. Svo eru það myndirnar sem eru bara þráðbeint hrein og klár drulla og moka yfir mann leiðindum.
Ég horfði á eina slíka í gær og það er myndin Marksman með Wesley vini mínum Snipes í aðalhlutverki. Vonandi hefur hann fengið jafnmikið eða meira en Flugleiðaforstjóri við starfslok fyrir að leika í þessu helv...

Myndin nær því betur en flestar aðrar að vera bæði vond og leiðinleg, að viðbættu illa leikin, óspennandi, asnalega tekin og flestallt annað sem hægt er að finna bíómyndum til lasta. Verri en Beverly Hills Cop 3.

Ég hafði eitt sinn þann háttinn á að ef ég byrjaði að horfa á mynd þá hætti ég ekki fyrr en hún var búin. Ef ég sá byrjun á mynd, t.d. í sjónvarpi, og gat ekki horft á hana alla varð ég að leigja myndina eða kaupa til að geta klárað hana. Sama hvað hún var lítið spennandi. Ég til dæmis leigði Runaway Bride og keypti My best Friends Wedding af því ég sá byrjunina á þeim í sjónvarpi og gat ekki klárað. Svo reyndar sökum þessarar geðveilu hef ég séð nokkrar góðar sem ég aldrei hefði séð annars, eins og t.d. Finding Forrester með Sean Connery. Hún var fín.

Seinna komst ég að því að lífið er of stutt fyrir vondar bíómyndir - og alltof stutt fyrir vonda gítarmagnara.

Ég samt kláraði Marksman í gær og er að hugsa um að kæra framleiðanda til þess að fá þennan klukkutíma og hálfan til baka.

Þegar myndin var búin var klukkan rétt rúmlega tólf og tilvalið að halda í háttinn. Heyrðust þá inn um svefnherbergisgluggann minn einhverjir hvellir utan úr garði og svo einn býsna hár, alveg uppi við gluggann minn.

Þá var unglingsdruslan á efri hæðinni að henda kínverjum út um gluggann sinn!!! Klukkan rúmlega tólf á miðnætti! Einn sprakk sumsé alveg uppi við gluggann minn, á leið sinni niður í garðinn og fannst mér það ekkert fyndið. Ég hljóp út í garð (var á þessum tímapunkti ekki alveg búinn að átta mig á hvaðan bomburnar komu) og sá gerpið með logandi asíubúa (kínverja) í lúkunum. Eftir að hafa kurteisislega beðið hann um að hætta þessu henti hann fleirum. Þá ítrekaði ég ósk mína um að hann hætti á öllu hvassari hátt, jafnvel hótaði að rífa aðeins í hnakkadrambið á honum. Hann hélt áfram, svo ég hljóp inn og knúði dyra hjá honum. Var svo pirraður að ef pabbi hans væri ekki miklu stærri en ég hefði ég örugglega ruðst inn og troðið þessum kínverjum upp í óæðri endann á honum, fírað í og fleygt kvikindinu út um gluggann. En pabbinn var til staðar og mamman líka, örugglega jafn ósátt við að ég hafði hótað unglingnum þeirra tukti eins og að hann hafi verið að grýta logandi knallettum út í garð klukkan að ganga eitt að nóttu. Ég klagaði bara í þau að hann hefði verið að leika sér með knöll um nótt og hann klagaði að ég hefði hótað sér lexíu. Hvellirnir hættu og ég á ósáttari nágranna.
Þeim að kenna að hafa ekki hemil á sprengigleði óknittakrakkans.

Ég kominn á sjittlistann hjá nágrönnunum og krakkinn þeirra kominn á sjittlistann minn.

Vonandi verðu kvöldið í kvöld betra svo það haldi áfram að vera jafngaman að vera ég.

Til að tryggja gleðina hef ég ákveðið að leigja mér Son of the Mask, Dumb and Dumberer, Speed tvö, Hitcher tvö og kaupa tólf lítra af Súkkó og sojahamborgara með dæetkokkteilsósu. Nú verður stuð!!!

Sunday, January 01, 2006

Nú árið er liðið í aldraðra skaup

Gleðilegt ár og takk fyrir gamla. Nú byrjar röflið 2006.

Til að monta mig svolítið þá át ég í gær hvítlauksristaðan humar og steinasteiktar nautalundir. Ekki þú.

Skaupið - drasl fyrir utan Bubbagrínið, sem var reyndar ógeðslega fyndið, og Björgvin Frans, sem er óheyrilega góð eftirherma. Þótti mér ægilega gaman að því þegar hann hreinlega mokaði drullu yfir Geir Ólafs. Síðast voru konur með skaupið alveg sjálfar ´84 og það var glatað, þrátt fyrir að Catarpillar D7 með ribber-grínið hafi slegið í gegn. Karlar hafa hinsvegar séð alveg sjálfir um skaupið a.m.k. tvisvar, 1985 og 1994, sem voru tvö af bestu skaupum sem ég hef séð.

Freyr Eyjólfs á Rás 2 sagði í útvarpinu í gær að þetta yrði, fyrst konur sæu um skaupið, bara 65% skaup. Er óhætt að segja að konurnar tvær, sem sáu um þáttinn með honum, hafi ekki haft húmor fyrir þessu. Þrátt fyrir það eru konur voðalega fínar og vil ég taka fram að mér finnst þátturinn með Stelpunum á Stöð 2 voðalega fyndinn á stundum.

Annars vorum við familían í svakastuði í gær og skutum upp flugeðlum í massavís. Ég varð reyndar hundfúll þegar ég var búinn að skjóta upp fullt af svakarakettum og feykiflugeðlum og kominn í svakastuð, en þá kom nágranninn með ofurtertu og lýsti upp hverfið með svo miklum látum að rúður nötruðu frá Breiðholti og yfir í Garðabæ. Ég ætla sko að kaupa fimm svona fyrir næstu áramót og sýna nágrannanum hvar ónefndi maðurinn keypti ölið.

Ég sofnaði svo klukkan tvö yfir myndinni Sahara, bláedrú. Kláraði myndina í morgun og hún er alltílæ.

Er að spila á Döbb á eftir, mætið öll. Svo er Buff að spila eftir það á Apótekinu, mætið svo þangað.

Vörutalning í fyrramálið. Það er svo leiðinlegt að ég er að pæla í að skjóta mig í fótinn eftir gigg í kvöld til að hafa haldgóða ástæðu til að mæta ekki. Vera á spítala með löppina í fatla. Jafnvel, ef ég er búinn með veikindadagana, að hringja mig inn dauðan.

Verið hress, ekkert stress, bæbæ.