Tuesday, January 03, 2006

Pirr

Fátt fer meira í mínar fínustu en vond bíómynd. Það er ef hún er bæði vond og leiðinleg. Sumar vondar myndir eru bráðskemmtilegar, annaðhvort af því þær taka sig ekki mjög alvarlega eða of alvarlega. Svo eru það myndirnar sem eru bara þráðbeint hrein og klár drulla og moka yfir mann leiðindum.
Ég horfði á eina slíka í gær og það er myndin Marksman með Wesley vini mínum Snipes í aðalhlutverki. Vonandi hefur hann fengið jafnmikið eða meira en Flugleiðaforstjóri við starfslok fyrir að leika í þessu helv...

Myndin nær því betur en flestar aðrar að vera bæði vond og leiðinleg, að viðbættu illa leikin, óspennandi, asnalega tekin og flestallt annað sem hægt er að finna bíómyndum til lasta. Verri en Beverly Hills Cop 3.

Ég hafði eitt sinn þann háttinn á að ef ég byrjaði að horfa á mynd þá hætti ég ekki fyrr en hún var búin. Ef ég sá byrjun á mynd, t.d. í sjónvarpi, og gat ekki horft á hana alla varð ég að leigja myndina eða kaupa til að geta klárað hana. Sama hvað hún var lítið spennandi. Ég til dæmis leigði Runaway Bride og keypti My best Friends Wedding af því ég sá byrjunina á þeim í sjónvarpi og gat ekki klárað. Svo reyndar sökum þessarar geðveilu hef ég séð nokkrar góðar sem ég aldrei hefði séð annars, eins og t.d. Finding Forrester með Sean Connery. Hún var fín.

Seinna komst ég að því að lífið er of stutt fyrir vondar bíómyndir - og alltof stutt fyrir vonda gítarmagnara.

Ég samt kláraði Marksman í gær og er að hugsa um að kæra framleiðanda til þess að fá þennan klukkutíma og hálfan til baka.

Þegar myndin var búin var klukkan rétt rúmlega tólf og tilvalið að halda í háttinn. Heyrðust þá inn um svefnherbergisgluggann minn einhverjir hvellir utan úr garði og svo einn býsna hár, alveg uppi við gluggann minn.

Þá var unglingsdruslan á efri hæðinni að henda kínverjum út um gluggann sinn!!! Klukkan rúmlega tólf á miðnætti! Einn sprakk sumsé alveg uppi við gluggann minn, á leið sinni niður í garðinn og fannst mér það ekkert fyndið. Ég hljóp út í garð (var á þessum tímapunkti ekki alveg búinn að átta mig á hvaðan bomburnar komu) og sá gerpið með logandi asíubúa (kínverja) í lúkunum. Eftir að hafa kurteisislega beðið hann um að hætta þessu henti hann fleirum. Þá ítrekaði ég ósk mína um að hann hætti á öllu hvassari hátt, jafnvel hótaði að rífa aðeins í hnakkadrambið á honum. Hann hélt áfram, svo ég hljóp inn og knúði dyra hjá honum. Var svo pirraður að ef pabbi hans væri ekki miklu stærri en ég hefði ég örugglega ruðst inn og troðið þessum kínverjum upp í óæðri endann á honum, fírað í og fleygt kvikindinu út um gluggann. En pabbinn var til staðar og mamman líka, örugglega jafn ósátt við að ég hafði hótað unglingnum þeirra tukti eins og að hann hafi verið að grýta logandi knallettum út í garð klukkan að ganga eitt að nóttu. Ég klagaði bara í þau að hann hefði verið að leika sér með knöll um nótt og hann klagaði að ég hefði hótað sér lexíu. Hvellirnir hættu og ég á ósáttari nágranna.
Þeim að kenna að hafa ekki hemil á sprengigleði óknittakrakkans.

Ég kominn á sjittlistann hjá nágrönnunum og krakkinn þeirra kominn á sjittlistann minn.

Vonandi verðu kvöldið í kvöld betra svo það haldi áfram að vera jafngaman að vera ég.

Til að tryggja gleðina hef ég ákveðið að leigja mér Son of the Mask, Dumb and Dumberer, Speed tvö, Hitcher tvö og kaupa tólf lítra af Súkkó og sojahamborgara með dæetkokkteilsósu. Nú verður stuð!!!

13 Comments:

Blogger Olga Bj� said...

Ég hló hringinn. Takk.

8:50 AM  
Blogger Denni said...

bara rassskella svona nágranna!

10:04 AM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Olga - takk sjálf.

Steingrímur - nei, nei, ég er ekkert fyrir líkamlegt ofbeldi. Held að foreldrarnir hafi alveg séð um þetta, þó svo þau hafi kannski verið eitthvað fúl út í mig.
Það er í lagi.

10:11 AM  
Blogger Magnús said...

Það á að stofna nýlendu í Kolbeinsey fyrir svona úrkynjað hávaðapakk.

10:46 AM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Hvar er Kolbeinsey? Spurning um að flytja hávaðaseggi frekar til Kollafjarðar í Færeyjum...

11:59 AM  
Blogger Magnús said...

Ef Kollafjörður er nógu fúlt pleis er það fínt mín vegna. En þú veist alveg hvar Kolbeinsey er.

12:02 PM  
Blogger Olga Bj� said...

En er lítið eftir af Kolbeinseynni, aumur þyrlupallur eða eitthvað álíka?

Er það kannski meginpælingin á bak við það að hávaðaseggirnir fari þangað? ;)

12:35 PM  
Anonymous þórey Inga said...

Ég pant ekki koma að horfa á videó með þér!!!!

Ég er samt sammála að það eigi að setja alla leiðinlega nágranna út á einhverja eyju þar sem er vont að vera!!!

1:59 PM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Af þessum myndum hef ég bara séð Speed tvö, hún var ekki nærri eins slæm og menn sögðu - rosalega slæm samt. Stóðst bara gríðarilla samanburð við þá fyrri, sem var mjög viðunandi.
Hitcher tvö er ein af fáum sem ég hef gefist upp á í miðjum klíðum. Tær viðbjóður.
Son of the Mask og Dumb and Dumberer koma aldrei í mín afspilunartæki. Fremur gubba ég í skóinn minn.

3:34 PM  
Anonymous Kiddi said...

troddu banana í pústið á bílnum þeirra.. alltaf jafn gaman.

8:54 PM  
Blogger Jimy Maack said...

Ingvar minn, þú ert bara greinilega ekki nógu scary þegar þú ert pirraður.

Ég hef þurft að vakna nokkrum sinnum við iðnaðarmenn við vinnu eldsnemma að morgni (milli klukkan 9-11) reyndar gera þeir íbúðina mína óílifanlega, en ég hef náð að hoppa yfir, ber að ofan á náttbuxunum í 5 gráðu frosti og fá þá til þess að stoppa þangað til ég nenni að fara að vinna.

11:55 AM  
Anonymous Egill said...

Velkominn í Breiðholtið.

12:15 PM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Set enga banana í púströr, hef ekkert á móti foreldrunum. Held þau séu meira að segja ágæt.

Ástæðan fyrir að við keyptum íbúð í Breiðholtinu var sú að það var ódýrara og afborgun af svona stórri íbúð hér var allnokkrum þúsundköllum lægri á mánuði en á 105-svæðinu. Talsvert af þeim mismun hefur farið í rándýrt öryggiskerfi vegna tíðra innbrota í nágrenninu og tíðra ferða lögreglu í næstu íbúð vegna dauðadrukkinnar dópistadruslu sem er alltaf að láta berja sig og/eða brjótast inn til sín.
Ég hugga mig við að Hverfisgata 55 34 verri.

12:47 PM  

Post a Comment

<< Home