Tuesday, February 28, 2006

Bara að pæla...

Þegar myndir eru tilnefndar til verðlauna, t.d. Óskarsverðlauna, er það háð vissum skilyrðum. Má nefna sem dæmi að mynd má ekki koma út á myndbandi eða verða tekin til sýninga í sjónvarpi fyrir einhvern vissan tíma, annars dettur hún úr leik.
Myndir hinsvegar eiga það til að leka á netið. Til dæmis var Revenge of the Sith komin á net intersins sama dag og hún var frumsýnd í bíóhúsum heimsins. Ekki datt þó nokkrum manni í hug að útiloka hana frá tilnefningum til Óskarsverðlauna.

Bara datt í hug að skjóta þessu að vegna skeggjaðs skálds sem grenjar þessa dagana eins og nýlamin smástelpa. Gaman að því.

Dennis dauður

Dennis Weaver allur. Þið vitið ekkert hver það var.

Hann lék í fyrstu Spielberg-myndinni, Duel. Þar lék hann mann sem var ofsóttur af díseltrukki. Svo lék hann McLeod lögreglumann, en Rúv sýndi okkur ævintýri hans á sjötugnum. Mér frannst hann flottastur í myndinni "Ordeal of Patty Hearst", sem Bjarni Randver lánaði mér um árið. Hér er slóð á eilitla grein um hana:

http://imdb.com/title/tt0079675/

Annars er ég bara í stuði.

Búinn að fá mér saltkjöt og baunir í dag.

Saturday, February 25, 2006

Ashton Timberlake

Justin Timberlake (sem á íslensku útleggst "bara í Vatnaskógi") bregður sér hér í hlutverk Ashton Kutcher í SNL-þætti. Kópípeist.

http://www.devilducky.com/media/17487/

Gaman að því.

Wednesday, February 22, 2006

Verkalýðsfélagið mitt

Einhvern rekur kannski minni til skrifa minna hér fyrir nokkru um verkalýðsfélög. Það eru félögin sem sjá um að semja um kaup okkar launþega og kjör og standa vörð um rétt launþegans gagnvart vinnuveitanda, hlaupa undir bagga í veikindum eða öðru veseni og redda lögfræðingi ef launþeginn telur á sér brotið í starfi. Allt þetta er hið allrabesta mál og hrein nauðsyn, tala nú ekki um ef launþeginn missir vinnuna og þarf á atvinnuleysisbótum að halda og aðstoð við að fá vinnu. Ég held að flestir ef ekki allir séu sammála um að þarna sé verkalýðsfélagið hrein nauðsyn til að tryggja öryggi þeirra sem innan þess starfa.

Til að standa straum af kostnaði vegna þessa dregur verkalýðsfélagið dágóða summu af launum okkar launþega í hverjum mánuði. Það er í sjálfur sér skiljanlegt og jú hreinlega nauðsynlegt til að borga starfsfólki félagsins, eiga til fyrir sjúkrabótum, atvinnuleysisbótum og öðrum nauðsynlegum útgjöldum. Til þess að félagið geti starfað og staðið sig er ég fyllilega tilbúinn til að greiða nokkra þúsundkalla á mánuði úr launaumslaginu mínu. Ég skil að vísu ekki alveg að félögin greiði úr sjóðum sínum til ýmiskonar frístundaathæfis félagsmanna og gleraugnakaupa, en það er eflaust til einhver réttlæting á því, svo ég ætla ekki að fara að grenja yfir því hér. Græt ekki að sjóður, sem ég borga í, sé notaður til að gera örðum lífið eilítið skemmtilegra eða léttara.

Annað, sem ég skil síður, er árátta verkalýðsfélaganna til að fara út í hluti sem eru margar sjómílur utan þeirra verksviðs, að sjálfsögðu á kostnað launþegans, þ.e.a.s. mín og þín. Ég ritaði nokkur vel valin orð eitt sinn um orlofsávísanirnar, sem ég fæ árlega og hef aldrei notað. Hefði frekar verið til í að þeir drægju færri þúsundkalla af mér svo ég gæti eytt þeim þar sem mér sýnist. Einnig eiga verkalýðsfélögin hjólhýsi og sumarbústaði, sem ég sé ekki fram á að nota í nánustu framtíð. Borga samt fyrir það, án þess að hafa nokkru sinni beðið um þessa þjónustu.

Nú hefur hinsvegar VR, verkalýðsfélagið mitt, drullað svo herfilega upp á bak að leitun er að öðru eins. Verslunarmannafélag Reykjavíkur, VR, ákvað nýverið að skipta um nafn. Ástæðan var sú að félagið sinnir æði mörgum sem ekki vinna beinlínis við verslunarstörf.
Því var efnt til samkeppni um nýtt nafn á VR og vegleg verðlaun í boði, 300,000 krónur. Talsvert vatn hefur runnið til sjávar síðan samkeppnin var kynnt til sögunnar og eflaust allnokkrir sem sendu inn tillögur að nýju nafni, enda töluvert til vinnandi fyrir hugmyndaríkt fólk. 300,000-kall nefnilega vex ekki á trjánum.

Nú hefur nýtt nafn verið kynnt til sögunnar. Sá sem kom með nýtt nafn hefur örugglega drullað á sig af hlátri á leiðinni í bankann að ná í 300,000-kallinn sinn.

VR hefur skipt um nafn og heitir í dag VR. Spauglaust.

Tuesday, February 21, 2006

Kominn heim frá Hamletti

Að æði mörgu leyti var gríðarlega gaman í Danaveldi. Óskar og Prjónína eru frábærasta fólk í heimi. Sérstaklega var gaman þegar Óskar henti húsráðandi í partýi inní skáp og sagði "þú skalt bera virðingu fyrir mér í þínum húsum". Það var fullkomlega óborganlegt. Allt út af sígarettustubbi í snjóskafli í þarnæstu sýslu. Löng saga.

Jensens böfhus fer ekki á hausinn á næstunni. Reiknast svo til að við höfum étið þar eina belju.

Í Árhúsum fundum við hús, reyndar heilt umhverfi, sem er alveg eins og torgið í Back to the Future. Þegar við fórum á röltið á sunnudagskvöldinu fundum við líka heilan bæ sem var eins og mannlausa torgið í Vanilla Sky. Enginn á ferli á sunnudagskvöldi, engin lifandi tónlist og enginn neinsstaðar. Bær sem slagar hátt í allt Íslandi hvað varðar íbúafjölda en skemmtanalífið eins og á þriðjudegi á Raufahöfn.

Danskurinn er fyndinn. Þeir tala svolítið um áhyggjur sínar af sælgætisneyslu ungmenna, en ungmennin eru alltof upptekin við að reykja sígarettur og hass og drekka bjór til að kaupa sér snikkers. Allir reykja eins og vitlausir, enda kostar pakki af sígó innan við helming af því sem hann kostar hérlendis. Ef þú ert orðinn sextán máttu kaupa þér bjór í búðinni. Áfengi er ekki bara selt allsstaðar, því er hreinlega haldið að manni. Svolítið sjokk fyrir últrafrjálslyndissegginn mig.

Ég lærði meira í dönsku á laugardaginn en öll þau fimm ár sem ég lærði hana í skóla.

Í Danmörku sá ég Anchorman á dvd. Hún er ógeðslega fyndin. Þverflautuatriðið gerði börnin mín næstum föðurlaus. Glær snilld.

Ég fór yfir strikið í fríhöfninni, keypti mér viskí, osta, grafna nautalund, laxapaté, bjór, nammi, hálft svín, kavíar, meiri osta, meira nammi og meiri mat.
Morgunmaturinn minn í dag var kavíar, laxapaté, ristað brauð, grafin nautalund og bláberjajógúrt. Hvað fékkst þú þér?

Keypti helling af dvd-myndum, allt á 25-kall. Eye for an Eye með Kiefer og Eye of the Needle með pabba hans, Hellraiser, Villigæsirnar og fullt af einhverju drasli. Nokkra geisladiska líka, Deep Purple, Queensryche og fleira rokk og ról.

Annars er ég bara í stuði. Best að fara í skápinn og tékka aðeins á fríhafnarkræsingunum...

Sunday, February 19, 2006

Land Hamlets

Sit hér fyrir framan skjáinn hjá Óskari og Prjónínu í smábænum Trige, úthverfi Árhúsa í Baunverjalandi. Gaman að því.

Við Swissarar vorum að spila á þorrablóti í gær með Birki gítarhetju sem liðsauka. Gaman að því. Lögðum af stað klukkan 6 á föstudagsmorgun út á Kebblavíkurflugvöll með eigufíl. Bjór í Leifsstöð og út í vél. Þar borðaði ég heimsmethafa í verstu ommilettu í heimi-keppninni. Með eggjaköku helvítis fylgdi kjötsneið sem var svo gömul að ég held hún hafi verið úr mammút.

Lentum í Köben og stukkum um borð í lest. Í henni mátti ekki tala saman. Sætin voru þess utan svo vond að mér leið eins og Páll Óskar hefði haldið partý í rassgatinu á mér á leiðinni. Það lagaðist þegar ég komst í bað hjá Óskari og Nínu. Óskar kom ekki með í baðið, öfugt við þegar Bergur fékk að baða sig á hótelherberginu hans. Það er önnur saga...
Þá var klukkan orðin margt. Við fórum á Jensesn Böffhús og átum á mig gat. Skelltum okkur svo á pöbbarölt en vorum komnir í hátt um miðnætti, gersamlega búnir á því.

Lördagur byrjaði á barnafatainnkaupum í H&M og pizzahlaðborði Satans á einhverjum stað sem ég ætla aldrei á aftur. Svo var rótað og farið yfir græjurnar, fékk þennan forláta Peavey-magnara og komst í svakastuð. Gauti kom frá Sundaborg og drakk allt rommið á barnum. Gestaði svo á Gibsoninn hans Bibba og það var svakastuð. Hitti Hjört í Spoon (alveg á rassgatinu), Þór í Deep Jimi og Dadda frá Akureyri ásamt fleira fólki. Þorrablót, bjór, spilað, svakastuð og gleði. Um það bil tylft manna gestaði með bandinu. Fórum svo í partý hvar öllum gestum var hent á hurð af því trymbillinn minn henti sígarettu í snjóskafl. Öll hersingin hélt því í annað hús. Vorum við þá orðnir heldur uppgefnir og héldum í hátt, þrátt fyrir að Berti partýhaldari væri höfðingi heim að sækja.

Í dag gekk illa að komast á lappir, en við komumst á Jensens buffhúsið og átum á okkur göt. Þurfti reyndar að draga Bibba að landi, enda er hann bara níu ára. Löbbuðum svo fyrir allan peninginn og fundum danska bróðir Skippersins, hvar við settumst inn og fengum okkur einn svallkaldan. Litum einnig inn í sérhæfða verslun sem selur hjálpartæki ástarlífsins og svarbláar myndir. Þeir eru einnig með sérherbergi sem má fara inn í, læsa á eftir sér og horfa á vídeó. Þeir reikna víst með að menn séu kvefaðir, því þarna var mikið magn af tissjúklútum. Við ákváðum að notfæra okkur ekki þessa þjónustu, heldur stunduðum innkaup í nærliggjandi plötubúð.

Óskar hótar að berja mig ef ég segi ekki að hann sé frábær. Hann er það.

Nánar síðar, farinn að éta meira. Mikið svakalega er maður alltaf svangur í útlöndum.

Nei, bjór...

Wednesday, February 15, 2006

Steinaldardrottningarnar

Hér er svo það fyndnasta sem ég hef séð í dag. Ef þið hafið séð "more cowbell"-sketsinn...


http://gorillamask.net/morecowbell2.shtml

Njótið vel.

Tuesday, February 14, 2006

Kúrt Kúbein

Það fyndnasta sem ég hef séð í dag:

www.helgin.is/v83.asp

Hvað finnst ykkur?

Land Hamlets

Gaman að spila á Amster um síðustu helgi. Endaði í einhverri óreglu. Fullt af góðu fólki mætti... en ekki Olga Orgel.

Er að fara með strákunum til Jótlands um helgina. Spilum á þorrablóti og skoðum höfuðstöðvar Jyllandsposten. Tökum Bibba í Ber með svo það sé háskólamenntaður gítarleikari í bandinu. Hann er líka svo skemmtilegur með víni... og jafnvel edrú líka. Kaupi svo Gammel Dansk í fríhöfninni. Það bragðast einmitt eins og gömul gólftuska.

Mamma mín er besta, yndislegasta og fallegasta konan í öllum heiminum, jafnvel þó víðar væri leitað. Hún ætlar nebblega að koma í bæinn alla leið frá Akureyri til að passa veika barnið mitt meðan ég er í útlandinu svo konan mín komist í vinnuna sína.

Pabbi minn er ekkert sérlega slæmur heldur. Drekkur bara fulllítið.

Fyrst ég verð í útlandinu er örugglega Hemmaþátturinn minn sýndur um helgina. Ef svo er, vill þá einhver taka hann upp fyrir mig?

Friday, February 10, 2006

Kaffi Andskotans

Við í Swiss erum að spila á Amsterdam annað kvöld, laugardagskvöldið 11. febrúar.

Skyldumæting alger. Merkt í kladda og allt. Olga - mættu!

Annars segi ég bara:

Hanni á ammælídag
Hanni á ammælídag
Hanni á ammæli Bachmann
Hanni á ammælídag.

Hanni Bachh er þrítugur. Allir í Skímó verða þrítugir á árinu og því er Mórallinn 120 vetra í ár. Gaman að því.

Minni á - skyldumæting. Eins og Pétur sagði eitt sinn - mættu þangað eða éttu þanghaf.

Tuesday, February 07, 2006

Glenn Hughes

Einn uppáhaldsrokkarinn minn er Glenn Hughes, sem var um tíma bassaleikari og söngvari Deep Purple. Hann var einnig í Black Sabbath og spilaði og/eða söng inn á plötur með mörgum rokkgoðum. Allir rokkarar vita hver Glenn Hughes er.

En vissuð þið að mótorhjólakallinn í Village People hét líka Glenn Hughes? Hann lést reyndar fyrir nokkrum árum, rétt fimmtugur, úr lungnakrabba.

Svo er líka atvinnupókerspilari sem heitir Glenn Hughes.

Svona er heimurinn lítill...

Monday, February 06, 2006

Ef einhver getur þetta...

Spurt er um skáldsagnapersónu.

Persónan er lauslega byggð á annarri persónu úr bók eftir Victor Hugo.

Persónan hefur bæði verið í sjónvarpsþáttum og bíó. Hann er þó upprunninn í teiknimyndasögum.

Hann er á leið á hvíta tjaldið að nýju, ef allt fer að óskum. Mikið hefur verið reynt að fá Johnny Depp eða Adrien Brody til að fara með hlutverkið að þessu sinni. Áður hefur leikari, sem lék t.d. í Star Wars, farið með hlutverk hans.

Hann kom fyrst fram á prenti fyrir meira en hálfri öld síðan.

Hann hefur margoft verið drepinn, bæði á blaði og filmu.

Í teiknimynd lenti hann í útistöðum við Drakúla.

Ein bíóútgáfa af okkar manni er á mörgum listum yfir bestu vondukalla bíósögunnar.

Persónan kom fram í þáttum sem sýndir voru til skamms tíma á Skjá einum.

Hann er vondur - mjög vondur. Fullkomlega siðblindur.

Hann hefur enga ofurkrafta, þrátt fyrir að hafa upphaflega komið fram í teiknimyndasögu.

Hver er persónan? Verðlaun eru feitur Guinness á Döbb nk. fimmtudag.

Ædól

Er að horfa á American Idol... veit ekki alveg af hverju. Svo er komin Idol-búð í Kringlunni. Mikið svakalega er verið að reyna að græða á þessu - Idol-nammi, Idol-bolir, Idol-þetta og hitt. Nú er tækifærið að hætta að horfa, þar sem ég þekki engan sem er eftir í íslensku keppninni.

Skipti yfir á Cartoon Network - NÚNA!

Hvað er að frétta?

Jú, það er helst í fréttum að íranskt dagblað hefur efnt til samkeppni um bestu skopmyndina. Viðfangsefnið er helför nasista gegn gyðingum.
Þess má geta að þeir eru enn að fara fram á afsökunarbeiðni frænda okkar Dana.
Annars eru þeir með viskustykkin farnir að troða hvern annan til bana í mótmælum vegna dönsku myndanna...

Sá einnig að dagbækur Parísar Hilton eru til sölu. Eruð þið að reyna að segja mér að glyðran kunni allt í einu að lesa og skrifa? Í sjónvarpsþætti einum kom í ljós að hún vissi ekki að mjólk kemur úr kúm - ég reikna með að Tinkerbell hafi ritað bækurnar.

Rolling Stones ritskoðaðir á Superbowl - hvað er það? Í landi frelsisins mega rokkarar með fjögurra áratuga reynslu ekki segja það sem þeir vilja? Ekki það að ég sé mikill stónsari, en Mick Jagger má bara segja og syngja það sem hann vill án þess að yfir hann sé pípað. Það pakk sem ekki þolir eitt tvírætt orð í rokkslagara á ekki skilið að horfa á sjónvarp.

Joe Pesci og David Beckham hafa nú báðir verið ásakaðir um að lumbra á papparössum. Gott hjá þeim.

Annars horfði ég á frönsku spennumyndina "Crimson Rivers 2 - angels of the apocalypse" í gær. Veit ekkert hvað hún heitir á frönsku. Chrisopher Lee leikur í henni, en hún er samt sorp. Núll stjörnur, hauskúpa og illa þefjandi drasl, þrátt fyrir nærveru Lee.

Veriði sæl.

Sunday, February 05, 2006

Meira getraunasull

Spurt er um rithöfund - eins og síðast. Það er samt ekki sami rithöfundur og síðast. Það er annar.

Þegar hann var tveggja vetra fór pabbi hans út í sjoppu að kaupa sígó. Pabbi hefur ekki skilað sér ennþá heim. Skíthæll.

Okkar maður byrjaði að skrifa sögur í menntó. Hann er enn að.

Fjölmargar sögur eftir okkar mann hafa endað á hvíta tjaldinu eða sem sjónvarpsmyndir eða seríur. Stundum bæði sem bíómyndir og seríur. Myndirnar ná frá því að vera snilld niður í algert bévítans sorp.

Rithöfundurinn var alveg konstant fullur, skakkur og kólaður í áratug. Þar sem það er óhollt hætti hann því alveg. Gott hjá honum. Duglegur strákur.

Hann er mikill AC/DC aðdáandi. Spilar líka sjálfur á gítar.

Hver er karlinn?

Annars ein skemmtileg júsless staðreynd - vissuð þið að Gary Numan er nokkrum dögum eldri en Gary Oldman?

Saturday, February 04, 2006

Blogg Sveins

Sit hér heima að horfa á Möppets með Litla-Svepp. Lítt sofinn, var að spila í nótt ásamt þeim Binna og Guffa á Dubliner. Eysteinn kom og gestaði og það var svakastuð. Einnig kom samkeppnisaðili minn, Arnar í Hljóðfærahúsinu, og söng tvö eða þrjú lög. Hann vann, eins og fæstir muna, seinni látúnsbarkakeppnina og stofnaði svo hljómsveit með þeim sem vann hana fyrst. Pétur í Filmusi var líka í þeirri sveit
.

Fékk mér rándýrt 2x12" box frá Vox frænda. Kostaði næstum jafnikið og AC30-magnarinn minn. Notaði það ekki um helgina, nennti ekki að róta því. Ætlaði að taka voða gott sándtest en við spilafélagarnir vorum alltof upptekinn við að drekka Guinness með Bergi og Eysteini. Nennti því ekki að setja upp mónítör eða neitt, en við vorum samt æðislegir. Fargings frábærir. Gríðarskemmtilegt band.

Danmörk vs. Arabar enn í fréttum. Ég ætla að kaupa mér fleiri T-Rex effektafetla til að velja danskt... og af því mig langar til þess.
Ég var að pæla hvort þetta sé lýsandi fyrir múslima í heild - pælið í því aðeins:
Eitthvað blað birtir teiknimynd af Múhameð. Viskustykkishausar um heim allan verða brjálaðir og brenna þjóðfána þess lands hvar blaðið kemur út. Það er tvímælalaust móðgun við land og þjóð. Á fánanum er kross, sem brennur jú líka. Það ætti því að vera móðgun við allan hinn kristna heim. Svo heimta þeir afsökunarbeiðni af því þeir eru svo móðgaðir. Svona er heimurinn skrýtinn.

Spurning dagsins - í hvaða bíómynd var Morone sendur til Svíþjóðar?

Wednesday, February 01, 2006

Og vódafónn

Ég hef átt viðskipti við Símann í einhver 5 ár, að ég held. Hef haft sama gemsanúmerið þann tíma. Hef ekki haft neina sérstaka löngun til að skipta um fyrirtæki þótt kerlingin sé hjá Vodafone, sem og margir aðrir. Heimasíminn minn er hjá Vodafone, sem og adsl-ið mitt, enda sá kerla um að koma því í gang.
Einhver gríðarleg þrjóska í mér, hef ekki viljað flytja mig yfir til Voda. En í dag fékk ég mig fullsaddan af Símanum.
Ég hringdi í þjónustunúmer Símans til að spyrjast eilítið fyrir. Fyrst slitnaði eftir smástund. Svo svaraði einhver eftir fáeinar mínútur og skellti á. Svo hlustaði ég, meðan ég beið í símanum, á nokkur popplög - líklegast hálfa "worst of Kinks" - áður en mér var tjáð að ég væri númer níu. Tuttugu mínútna bið varð til þess að ég hringdi í 1414. Þar var mér svarað eftir u.þ.b. hálfa mínútu og beðinn afsökunar á hversu lengi ég hefði þurft að bíða. Bað ég stúlkuna í símanum góðfúslega að taka við mér sem kúnna í snarhasti.
Til að fá að halda númerinu mínu þurfti ég þó að gera upp ógreidda reikninga við Símann. Ekki gat ég með góðu móti komist frá í vinnunni svo ég sendi Árna, vin minn, til að ganga frá því í næstu Símabúð - nennti sko ekki að hringja aftur í þjónustuleysissímann. Hann skokkaði í næsta útibú og beið þar í tæpan hálftíma til að borga nokkra þúsundkalla meðan staffið spilaði tölvuleiki og slóraði.

Síminn getur tekið sína þriggjakorterabið, leiðindi og þjónustuskort og troðið upp í blautt og illa þefjandi bakopið á sér - ég er farinn.

Vísundakirkjan

South Park-þáttur einn fjallaði um Vísindakirkjuna og gerði rætið grín að Thomas Cruise Mapother IV, sem er betur þekktur sem Tom Cruise. Hann hóaði í lögfræðinga sína og kirkjunnar og fékk bann á þáttinn. Þátturinn var því ekki sýndur í sjónvarpi.

Hinsvegar er internetið yndislegt og þátturinn er hér:

http://www.youtube.com/w/Scientomogy:-South-Park-Trapped-In-the-Closet-Scientology?v=RRVlUuI89cQ&eurl=

Gersovel.

Fur únd zwanzíg

Sá fyrsta þáttinn af 24 áðan á Stöð 2. Er óhætt að segja að Kiefer, stórvinur minn, sé í óviðjafnanlegu stuði á skjánum og fer mikinn við að murka lífið úr vondu köllunum. Vil þó meina að rasisminn sé mikill, því blökkumaður er myrtur í þættinum snemma. Agalegt.

Hvað um það, Bjarni Randver malaði rithöfundagetraunina áðan. Spurt var um Roald Dahl. Hann er dojur.

Nú er Nip/Tuck á skjánum. Hundlélegur klámviðbjóður og státar af verri leik en slæm germönsk klámmynd. Hlakka til að missa af þessu sorpi í framtíðinni.