Wednesday, May 31, 2006

Stuð á feðgum

Hér sé stuð. Er að býtta fína, fína AC-30 Voxinum mínum upp í þennan líka fína AC-30... bara öðruvísi AC-30. Haus og box með svakafínum bláum Celestion-hátölurum. Já, Einar Valur, minn er flottari en þinn. Svo, af því þetta er besta gítarbox í gervallri sköpuninni get ég bara átt nokkra hausa, t.d. Voxana mína og Marshallinn minn gamla,og notað ætíð sama boxið. Stuð. Tími samt ekki að selja hin boxin mín, en, hey, svona er að vera strákur. Strákar hætta aldrei að kaupa dót, það verður bara dýrara og rafmagns.

Kerla er að fara á fyllerí (kallar það námsferð) til Spánar. Því er ég búinn að aflýsa spileríi næstu vikuna og ætla að liggja heima með Litla-Sveppi og góna á bíómyndir sem mamma hans nennir ekki að horfa á, elda mat sem mömmu hans finnst ekki góður og sofa tíu tíma á sólarhring. Af hverju - því ég á það skilið því ég er frábært eintak af kalli. Woody Allen verður sko á fóninum daglega, auk þess sem japanskar og kóreanskar hrollvekjur verða á dagskránni.

Annars setti ég, af ástæðum sem ég kann ekki að nefna, Fantastic four í tækið í gær. Gamla sofnaði yfir henni (hélt reyndar að hún hefði dáið úr leiðindum) en ég hélt út. Ekki sérlega vandað eintak af mynd. Líka arfavitlaus. Svona fyrir utan að fólk breytist í grjót og málm, flýgur meðan það brennur og getur teygt sig tugi mílna meðan kerlingin gerir sig ósýnilega, þá er líka gjaldþrota einstaklingur sem á ca. 68,482,857,677,548 fermetra íbúð á Manhattan. Svoleiðis íbúð kostar sirka jafnmikið og Baugur Group. Fíflið úr Nip/Tuck leikur vonda kallinn og hann fer alveg gríðarlega í taugarnar á mér. Sá eitt sinn einn þátt úr seríunni og tel það eitt versta sjónvarpsefni síðan Jón Gústafsson var með SPK í fyrndinni. Jessica Alba var líka í F4, hún er sæt og fín. Ekki samt mjög sannfærandi að fá tvítuga horrenglu til að leika vísindamann. Minna sannfærandi en Denise Richards í World is not enough eða Tara Reid í Alone in the Dark (sem er bæ ðö vei ein versta mynd í sögunni).

Litli-Sveppur er farinn að hluta á Iron Maiden fyrir svefninn og finnst það bara fínt. Hlustar líka mikið á Ladda og segist oft vera afi sinn, auk þess sem hann syngur oft, gersamlega upp úr þurru "HÚN ER ALLT OF FEIT!!!"
Svo á hann líka einhvern safndisk með Beatles sem honum finnst voða gaman að setja á fyrir svefninn. Ringo er hans uppáhalds, því nafnið minnir hann á Ingó frænda hans.

Annars - Jói Bjarnabróðir á ammæli í dag, Hróar Magnússon átti ammæli fyrir fáum dögum og Tómas Júlíusson, frændi minn, um svipað leyti. Allir bjuggum við í sömu blokkinni sem börn. Núna hitti ég þessa eðaldrengi gríðarlega sjaldan. Djö...

Tuesday, May 30, 2006

Í fréttum er þetta helst

Paul Bettany, svar við síðustu bíógetraun, er víst að fara að leika með kerlu sinni í Slóð fiðrildanna. Það er nú aldeilis gott.

Paul Gleason dojur úr krabba. Það var ekki jafn gott. Hann lék t.d. skólastjórann í Breakfast club og vitlausu lögguna í Die Hard.

Svo eru Wham! að fara að koma saman aftur, ef marka má fréttir. Bað einhver um það?

Svo var Kim Woo-Choong stungið í steininn.Hann stofnaði víst Daewoo, en það er ekki það sem hann var dæmdur fyrir. Hann var víst dæmdur fyrir fjárglæfra og 1600 milljarðar gerðir upptækir til ríkissjóðs... það eru 1,600,000,000,000 krónur. Eitt þúsund og sexhundruð milljarðar... ég skil ekki svona háar upphæðir, þetta eru tíu milljón Vox AC 30, dýrasta týpan, með bláu hátölurunum. Milljón Fólksvagen Golf.

Farinn í vinnuna.

Monday, May 29, 2006

Eldflug ehf.

Lá veikur í dag með magapínu og viðbjóð. Fékk söbb fyrir mig í gær á Dúbblíner og lá heima og horfði á Men of Honour með Robert De Niro, Cuba Gooding jr. og Charleze Theron. Hún er nú alltaf jafn sæt... nema kannski í Monster. Af hverju fengu þeir Theron til að leika ljóta og feita lessubrussu með skakkar tennur? Eru ekki til einhverjar ljótar leikkonur? Hvað er næst? Halle Berry að leika Hillary Clinton eða Scarlett Johanson sem Ingibjörg Sólrún?

Svaf svo meira og minna í allan dag milli þess sem ég kláraði Firefly-seríuna. Nú þarf ég bara að setja Serenity-myndina í tækið og ljúka þessu. Þá get ég skilað pakkanum á morgun.

Best að fá sér þurrt kex, vatn og prumpuvítamín svo ég komist í vinnuna á morgun.

Sunday, May 28, 2006

Kjötsósa og getraun

Ég skemmti mér feykivel í gær. Dró kerlu með mér í ammæli Gunnars Ólasonar, gítarleikara í Two Tricky. Hann fékk Gibson Les Paul í ammælisgjöf frá konunni sinni. Góð kona. Ég gaf honum bara bók, en mundi svo að hann er hvorki læs né skrifandi.
Þegar klukkan var að nálgast miðnætti fórum við yfir á Dub, enda átti ég að fara að spila. Þar krössuðum við annað ammæli, hvar Björk, kona Marons frænda, fagnaði því að hún var orðin þrítug. Rímar við skítug. Ég spilaði einmitt í brúðkaupinu þeirra fyrir hálfum mánuði. Gaman að því.
Pétur í Filmusi kom svo og gestaði. Tók með oss feitan blús, en kunni ekki Brown eyed girl svo við rákum hann. Unglingurinn Tryggvi trúbbi kom líka og tók nokkur lög, sem strákarnir í bandinu kunnu ekki. Tilraunastarfsemin í hávegum höfð þetta kvöldið. Stemmningin var samt gríðarleg og borðin dönsuðu ofan á fólkinu.
Núna er ég orðinn eitthvað lasinn, búinn að vera hálfskrýtinn í nokkra daga. Nenni ekki að vera veikur. Hundleiðinlegt.

Full-langt síðan ég var með leikaragetraun síðast. Bæti hér með úr því.

Spurt er um leikara. Það er líka vaninn í leikaragetraununum mínum.

Hann er jafngamall mér. Hann vann líka einu sinni sem trúbador.

Hann er giftur alveg hreint gullfallegri konu.

Hann lék eitt sinn aðalhlutverk í mynd, ásamt öðrum leikara. Þeir léku sama manninn.

Einu sinni var hann dóphaus. Nú er hann hættur því. Góður strákur.

Hann hefur leikið lækni, morðingja, íþróttamann, riddara og fleira. Mér finnst hann feykifínn.

Hann hefur leikið á móti Nicole Kidman.

Hver er kallinn?

Saturday, May 27, 2006

Vídeó

Allt nýtt efni á leigunum er dvd, spólurnar eru búnar að vera. Rétt eins og þegar vínillinn var látinn víkja fyrir geisladiskum. Svo voru diskarnir kallaðir geislaplötur af útgefendum. Hvað á maður þá að kalla dvd? Ekki er lengur hægt að segja að maður sé að fara að leigja spólu.
Mér þykir enn voða vænt um vídeóspóluformattið. Á líka örugglega þúsund stykki.

Er núna að horfa á Firefly, serían að verða búin. Þá verður Kiddi eflaust feginn að fá diskana sína aftur, sem ég er búinn að vera með í láni alltof lengi. Fyrirgefðu, Kiddi minn.

Fór og kaus áðan. Ætli ég hafi kosið rétt? Veit ei, kaus allavega ekki Framsókn.

Allir að fagna úrslitum (eða gráta þau, eða bara láta sér vera skítsama) á Döbb í kvöld, hvar ég lofa að vera í svakastuði. Í gær var stuð, í kvöld verður gríðarstuð. Já GRÍÐARSTUÐ!!! Aaaaaaaaarrrrrrgh!

Thursday, May 25, 2006

Ég lofa

Þegar ég flutti suður og byrjaði að trúbadúrast hér fyrir sunnan kenndi núverandi yfirmaður minn, Jón, eitt sem hefur komið að góðum notum. Hann sagði að ef maður væri að bóka sig einhverstaðar í spilerí og nefndi þóknun í hærri kantinum væri vertinn jafnvel varhugaverður ef hann samþykkti upphæðina strax og án þess að reyna að prútta. Það gæti mögulega bent til þess að hann ætlaði jafnvel aldrei að borga.

Seinna lærði ég af reynslunni að það er margt til í þessu.

Ef menn lofa og lofa sí og æ er vel líklegt að þeir hafi engan hug á að standa við loforðin eða jafnvel enga hugmynd um hvernig eigi að fara að því að standa við þau.

Mér bara flaug þetta í hug þegar ég las loforðarunu Samfylkingarinnar. Því langar mig að benda á gömul loforð þeirra, meðan R-listinn var og hét. Þau lofuðu eitt sinna að lækka skatta (seinna breytt í loforð um að hækka ekki skatta). Svo var lagt á holræsagjald og útsvar hækkað upp að hámarki hins löglega. Því trúi ég engan veginn að þau muni loforðin þegar og ef borgarstjórastóllinn verður þeirra.

Annars horði ég á Meistarann áðan. Það var úrslitaþáttur hvar einhver stráklingur bætti fimm millum við fermingarpeninga sína. Gaman að því. Svo fékk hann líka aukapening fyrir að vita svar við valspurningu. Gott að vera unglingur í dag.

Var að spila á Döbb í gær, líkt og ég verð að gera á morgun, hinn og daginn eftir það. Olga Orgel mætti með nýju lögguhúfuna sína (stúdent) og var í svo miklu stuði að ég hef sjaldan séð annað eins. Svo datt einhver bévítans fyllibytta ofan af borði og skemmdi stilliskrúfu á Mjúsikkmaninum mínum. Þá fór ég í fýlu. Sú fýla minnkaði umtalsvert þegar ég hitti Eystein, Bjögga, Jómba í Brain Police og fleiri góða menn. Þá komst ég í skárra skap og Svenni á Amster skutlaði mér heim þegar fyrstu blaðberarnir voru komnir á stjá. Náði svo að sofa til tvö og hentist þá í þriggja vetra afmæli Nadíu litlu, hvar ég át súkkulaðiköku af miklum móð. Nú er ég í stuði að horfa á CSI:Miami og skrifa ei meir að þessu sinni. Hasta la vista.

Wednesday, May 24, 2006

Góðir lesendur -

- klikkið hér.

Tuesday, May 23, 2006

Allir prúðir

Datt í hug að henda hér inn link á Prúðuleikarana. Hér má sjá Dýra keppa í trommusólókeppni innanhúss án atrennu.

Hér er svo kleinuhringjauppskrift.

Annars er ég hress og á leið í bíó að sjá Da Vinci-lyklakippuna. Þeir segja að bókin sé betri. Það sama sagði Gunnar í Krossinum þegar hann var spurður hvernig honum hefði líkað Passion of the Christ.

Lifið hálf.

Monday, May 22, 2006

Möppets

Ég er gríðarlegur Prúðuleikaraaðdáandi og hef verið frá því þættirnir voru fyrst sýndir í Ríkissjónvarpinu á áttunda áratug síðustu aldar. Á eitthvað af þáttunum á dvd og hef gaman af að horfa á það með Yngri-Svepp (eða án hans jafnvel).

Þó fékk ég nábít og hóstakast, bráðakláða og útbrot um daginn þegar ég sá Körmí sjálfan hjá Mörtu Stjúart.

Hann var að auglýsa Ford.

Alveg glataðast í öllum heiminum að sjá hálfs meters háan tuskufrosk að lýsa yfir ágæti Ford-bifreiða. Hann talaði mest um einhvern stóran blendingsjeppa, kvað það sinn uppáhaldsbíl og fór mikinn þegar hann lýsti hvað það væri nú gott fyrir umhverfið að aka svona blendingsbílum.

Jeppinn, sem græni sokkurinn talaði um, er stór og mikill. Þó hann sé blendingsbíll - og þeir eyða óneitanlega minna bensíni en jafnstórir bílar sem eru ekki blendings - þá eyðir risinn talsvert miklu meira en t.d. litli Fordinn minn, Escort Station. Sá hefur jafnstórt farangursrými og jeppinn. Jeppinn góði eyðir svo talsvert mun miklu meira en litlir blendingar, eins og til dæmis Toyota Prius.

Ef mönnum er virkilega umhugað um umhverfið og bensínsparnað þá kaupa þeir að sjálfsögðu ekki risastóra jeppa, þó þeir séu blendings. Þeir sætta sig við minna. Ég er samt ekki að reyna að halda því fram að umhverfisvernd hafi eitthvað haft með það að gera að ég keypti á sínum tíma lítinn steisjón. Ég hafði bara hreinlega ekki efni á Hömmer.

Nú langar mig til að einhver orkugjafi leysi bensín og dísil endanlega af hólmi. Vetni, til dæmis, skilst mér að sé gáfulegur valkostur, ef mönnum tekst að koma því í öruggara form. Það væri gott, því eftir því sem ég best veit þarf bara vatn og rafmagn til að smíða vetni og af því höfum við Íslendingar nóg (Ítreka, mér skilst, ég eit í sjálfu sér ekki rassgat um málið). Þá gætum við líka hætt að kaupa bensín af einhverjum aröbum og viðskiptahallinn lagast um múltímargar sprilljónir.

Þá væri stuð.

Annars... það nýjasta í fréttum - síðbúið íslenskt Watergate? Er það? Við bíðum spennt eftir nánari fréttum...

Saturday, May 20, 2006

Laugardagur

Vinnan búin í dag og helgin þá byrjuð og endar ekki fyrr en ég þarf að fara að spila á morgun. Demitt.

Skilaboð til fjölmiðla - það er vika síðan fullur frambjóðandi klessti á staur. Fokkings vika. Síðan þá hafa aðrir frambjóðendur logið hver um annan þveran, Ísland tapað í Júró og fuglaflensan drepið nokkra. Það er kominn tími til að hætta að eyða blaðsíðum í "Stóra Eyþórsmálið". Þetta er orðið ágætt.

Annars er ég hress. Horfði á Villigæsirnar í gær með Eldri-Svepp. Gaman að því. Ekkert að spila og notanlegt að liggja heima og sofna yfir sjónvarpinu. Ekki alveg jafn notanlegt að vakna á sófanum klukkan fimm, allur beyglaður.

Annars er þetta svolítið fyndið. Rokkarinn alltaf hress.

Verið hress - ekkert stress - bæjó.

Friday, May 19, 2006

Djévaff

Alltaf jafn skemmtilegar fyrirsagnirnar hjá DV. Í dag er flennistór fyrirsögn sem segir að móðir Ágústu Evu gangist ekki við Sylvíu Nótt. Næstu helgi segja þeir okkur eflaust frá því að móðir Anthony Hopkins gangist ekki við Hannibal Lecter.
Annars á stúlkan heiður skilinn fyrir að halda sér í karakter í meira en viku. Það er örugglega Íslandsmet.

Ég fékk í gær staðfestingu á því að ég er Djövullinn. Gaman að því. Eftir að hafa fengið viðurnefnið Satan í vissum hópi, einhverra hluta vegna, var mér í gær tjáð af tveimur góðum mönnum að ég væri einmitt hann. Ég ,sem hef hingað til talið mig góðan mann, meira að segja trúaðan líka, verð víst að bíta í þetta gallsúra aldin. Breyti hér með nafni eldri sonar míns í Nicky.

Stuð og stemma á Döbb í gær. Tómir útlendingar, fyrir utan nokkra galtóma Íslendinga. Hálfgerð sitjaoghlusta-stemning, sem er alveg míns eigins uppáhald. Þá get ég nebblega bara spilað lög eftir mig og Bítlana. Sé stuð.

Youtube er málið. Tékkið til dæmis á þessu. Þetta var uppáhaldshljómsveitin mín þegar ég var tíu ára.

Thursday, May 18, 2006

Da Vinsjí og kó.

Kvikmyndahátíðin í Kannesi byrjuð. Mig langar svakamikið að fara þangað einhverntíma.

Da Vinci-myndin var frumsýnd, en fékk víst ekkert svakalega dóma. Bókin var ekki slæm, en það fer stundum svona þegar bækur eru kvikmyndaðar. Vonandi er hún samt skárri en fyrstu dómar segja, því gagnrýnendur eru nú oft svo skrýtnir, bæði þeir sem gagnrýna fyrir ljósvakamiðla og prentmiðla, svo og þeir sem tuða á síns eigins bloggsíðum (eins og t.d. ég).

Varla þurfa framleiðendur myndarinnar að eyða miklu í auglýsingar, því eins og þegar myndir með umdeildum trúarstefjum koma á markaðinn sjá kirkjunnar menn alveg um að auglýsa myndirnar fyrir allan peninginn. Það er örugglega búið að skrifa sjö milljón bækur um Da Vinci-lykilinn, sem er að mörgu leyti ágætt, en er þetta ekki aðeins of mikið? Menn vilja stundum gleyma því að þetta er bara skáldsaga - reyndar ekki svo slæm sem slík.

Annars langar mig mest að sjá Inside man núna. Strákarnir á barnum segja að hún sé fín. Ég missti líka af Lucky Number Slevin (eða Á bláþræði) og flestöllu öðru sem hefur komið í bíó síðustu árin. Sem er kannski í lagi, því í bíó er tvennt sem ég þoli ekki. Annað fólk og hlé.
Mér finnst ekki gaman að sitja innan um fólk sem ég þekki ekki og horfa á bíó. Þoli enn verr þegar spennan er gífurleg og ég verð ær (eins og segir í kvæðinu) hættir allt í einu myndin, ljósin kvikna og ég á að fara fram að kaupa mér popp. Alveg glatað.is eins og verst verður.
Bíóið hefur samt einn stóran kost. Það er nefnilega bíó.

Wednesday, May 17, 2006

Gor

Al Gore sem 43. forseti BNA hérna. Njótið.

Ómöguleg trúboðsstöð 3 o.fl.

Var að koma úr bíó, hvar ég sá Mission Impossible 3. Fín hasarræma, grútvitlaus á stundum, en - hey - þetta er jú bara bíó.
Svakafínir leikarar í myndinni, Cruise er flottur og Fishburne er alltaf ofurkaldur. Hoffman, eins fínn leikari og hann er, nær samt engum hæðum að mér finnst. Nýbúinn að fá Óskarsstyttu fyrir að vera besti leikarinn í aðalhlutverki fyrir Kapótí og svo bara sullast hann um frekar ósannfærandi í hlutverki vonda kallsins. Að vísu býður rullan ekki upp á mikið. En ég er kátur með ræmuna. Tvær og hálf stjarna, sem er oggopons yfir meðallagi.

Fór með Bjarna Randver í bíóhúsið, en hann gaf mér einmitt áðan eintak af myndinni Inglorious Bastards á dvd. Kann ég honum langbestu þakkir fyrir. Sú mynd er ódýr, ítölsk stríðsmynd síðan sjötíuogeitthvað, með Bo Svenson í aðalrullu. Hann lék prestinn í Kill Bill eftir Tarantino, sem er einmitt að fara að gera stríðsmynd sem heitir Inglorious Bastards með Bo Svenson og Michael Madsen. Gaman að því.

Blaðrandi um bíó, þá er ég orðinn voðalega spenntur að sjá nýju Bond. Þeir ætla víst að byrja alveg upp á nýtt, a la Batman Begins, og fjallar myndin, Casino Royale, um fyrsta verkefni Bonds. Casino Royale var líka fyrsta bókin ´53 og ári seinna fyrsta myndin. Bond kom nefnilega fyrst fram í bandarískri sjónvarpsmynd ´54, þá leikinn af Barry Nelson.

Klukkan er orðin korter gengin í síðdegis og ég er farinn að sofa.

Monday, May 15, 2006

Eyþór

Æææææ... hvað varstu að pæla? Maðurinn sem söng Ég vil fá að lifa lengur, sem var styrkt af Umferðarráði, fullur og klessir á staur. Klúðraði pakkanum eftir að hafa u.þ.b. tvöfaldað fylgi Sjálfstæðisflokksins í Árborg.

Sjá blogg Villa Goða, hvar er málefnalega tekið á hlutunum. Linkur hér til hliðar.

Annars fyndið... VG segjast vilja vernda umhverfið og eru voða á móti virkjunum. Þau vilja samt flytja flugvöllinn í Reykjavík. Nýi völlurinn á að vera ofan í vatnsbólum borgarinnar. Umhverfis-hvað?

Saturday, May 13, 2006

Krús

Sá fyrirsögnina "Tom Cruise segist elska Holmes" nýverið. Vona að hann sé að meina heitkonu sína Katie, en ekki John, sem einnig var leikari. Vona að hann meini þar kvinnu sína, þar sem Katie er óneitanlega sætari og auk þess á lífi, sem er ótvíræður kostur í ástarsamböndum.

Vil nota bloggið mitt og þakka Adda bróður fyrir að passa litla frænda sinn í dag svo ég kæmist í vinnuna. Hann er ágætur, greyið.

Annars er ég að spila í brúðkaupi Marons frænda á eftir (hef bæ ðö vei ekki glóru um hvernig hann er skyldur mér - fínn kall samt) og stíg svo á stokk ásamt Buffi niðri á Amsterdam um tvöleytið í nótt.. Þar verður eflaust ógæfa mikil. Mætið sum.
Kvenslysafélagið Túban.

Friday, May 12, 2006

Heddfónn

Fékk mér svona í gær til að nota við i-Podinn minn. Kostuðu reyndar svipað og i-Podinn, en mikið svakalega sánda Rush og Iron Maiden vel núna á labbinu um bæinn.

Annars er gaman að sveitarstjórnarkosninum. Loforðin jafnvel öflugri en í ríkisstjórnarkosningunum. Ég held að það sé svakalega gaman að vera sérhagsmunafólk í dag, því er lofað gulli og grænum skógum fyrir atkvæði. Sérstaklega er íþróttapakkinu lofað öllu sem það vill, að sjálfsögðu á kostnað okkar hinna. Íþróttafólk þarf ekki að skeina sig um þessar mundir, frambjóðendur sleikja svo á þeim rassgötin. Ég er mjög alvarlega að hugsa um að skila auðu. Þetta er allt hyski.

Getraun dagsins: Lagið Only You með Platters kom eitt sinn út á íslensku. Hvað hét það og hverjir fluttu?

Thursday, May 11, 2006

Mættu...

á Dubliner í kvöld, af því ég er að spila. Ég er svo frábærlega skemmtilegur.

Wednesday, May 10, 2006

Stuð!

Fór út að borða með vinnufélögum áðan, ásamt erlendum spesíalista. Gaman að því. Hitti svo Eyva og Þórhall Laddason, fórum á Döbb, hvar við lékum allnokkur lög af ýmsum týpum. Þá fór ég heim og ætlaði að fara að sofa, en nú er mynd um Clint í sjónvarpinu og það er svakagaman.
Frábært að fá Eyva til að taka Waits með mér þegar allir vildu heyra Brown eyed Girl.
Það var fínt fyrir allan peninginnn.

Lífið er gott.

Tuesday, May 09, 2006

Nú...

Ekkert bloggað í marga daga. Það er fínt.
Á fimmtudaginn kom blökkukonan með hvítvínið ekki. Hreimur úr Landi og sonum og Viggi í Írafári komu samt og gestuðu, ásamt Inga Val. Það var gaman. Mest var þó gaman að pissa við hliðina á Eiríki Hauks. Hann er gríðarkúl.
Á laugadaginn spilaði ég svo í fertugsafmæli hjá lesbískri vaxtarræktarkonu. Einkar gaman. Aldrei gert það áður.
Dró svo kerlinguna út á lífið. Verður að viðra hana annað veifið.

Í dag er erlendur spesíalisti að kynna M-Audio-dót í Búð Tóna. Það er klukkan fjögur og eflaust gaman. Það var það allavega þegar hann kom í fyrra. Mætið öll og kaupið helling.

Ókei bæ.

Thursday, May 04, 2006

Spila

Er að spila á Döbblíner í kvöld. Mættu. Drekktu.
Síðasta fimmtudag var blökkukona sem gaf okkur Óla bassaleikara þrjár hvítvín. Það var gaman. Ætli hún komi aftur í kvöld?

Ammæli

Guðbjartur, trommarinn minn, á ammæli.

Til hamingju. Nú ertu jafn gamall og ég. Híhí.

Bakureyri

Framsóknarflokkurinn, sem heitir ekki lengur Framsóknarflokkurinn heldur exbé, er víst með ljótasta veffang í geimnum. Framsóknarflokkurinn á Akureyri státar af veffanginu...

www.xbakureyri.is

og ekki nóg með það heldur kemur þá upp mynd af gamla leikfimikennaranum mínum. Hann var ágætur þrátt fyrir að einhver hafi sagt "þeir sem ekki geta, þeir kenna. Þeir sem ekki geta rassgat kenna leikfimi".

Þrátt fyrir að mælast nálægt andláti í skoðanakönnunum heldur Framsókn, afsakið exbé, áfram og lætur ekkert stoppa sig.

Og talandi um að láta ekkert stoppa sig, þá er Johnny Cash að koma með nýja plötu í sumar. Sumt fólk bara gefst ekki upp...

Wednesday, May 03, 2006

Húmmer

Ég ætla að kaupa mér happdrættismiða og vinna Hömmer. Svo keyri ég norður, bara til að far á rúntinn.