Monday, July 31, 2006

Rafmagnsgluggar...

...gætu verið góð hugmynd. Annars rakst ég á þetta á ofurölvunarvafri mínu um netheima.

Eina lagið í sjö-takti sem náði inn á topp fjörtíu ´89. Gersovel.

Annars er ég blindfulllur í gríðargóðum fíling að horfa á sjónvarpið. Stafsetningin er furðugóð.

Til að vera hress... stavzetnig ýzlendýnga fer hragandi.

Náð undir þrýstingi

sagði Mangi nýverið í kommentunum. Takk fyrir það. Allt í réttri röð.

Ég er skemmtilega á rassagatinu mínu eftir spilerí á Döbb. Gaman að því.

Sit heima og horfi á Val Kilmer í sjónvarpinu. Frábær leikari. Hef fílað hann síðan ég sá Top Secret í bíó ´84.

Lag daxins.

Sunday, July 30, 2006

Merki...

...legt hvað sumt fólk er skrýtið, en nóg um það.

Afrekaði það að fara í bíó bæði í gær og í dag. Fór með Stóra-Svepp í gær og sá Stormbreaker, sem fjallar um fjórtán vetra spæjara sem heitir Alex. Skemmtileg tilviljun. Ewan McGregor, Mickey Rourke, Andy Serkis (betur þekktur sem Gollum og King Kong) ásamt einhverjum Alex sem leikur nafna sinn, gelgjuspæjarann. Damien Lewis, sem var t.d. í Band of Brothers og Dreamcatcher, er líka þarna eitthvað að þvælast, en hann er flottur. Hann er líka rauðhærður eins og Pétur.

Fór svo áðan með Litla-Svepp og sá myndina Over the Hedge með íslensku tali.Ég hélt alltaf að Limgerðið væri klámmynd, en jæja...
Hún er fyndin eins og teiknimyndir í sunnudagsbíói eiga að vera. Sé hana seinna á útlensku.

Sigur Rós eru að fara að spila niðri í bæ. Ég er líka að far að spila og ætla að veita þeim harða samkeppni á Dubliner. Ég vil halda fram að ég sé miklu skemmtilegri en þeir. Ég er með hressara prógram, lög sem allir þekkja, líflega framkomu, tek við óskalögum og svo fæst bjór á staðnum sem ég er að spila á. Engin spurning um hvar stuðið er, sko.

Annars, eitt fyndið - ég fór í Kringluna í dag að kaupa mér dvd og cd og éta hjá Rikka Chan. Tók með mér Litla-Svepp. Hitti þar Viktor, fyrrum gítarista Reggí on Æs. Hann var með konu og barn. Svo hitti ég Hössa, gítarleikara í Spoon, hvar hann var á vappi ásamt syni sínum. Þá labbaði Viggi í Írafár að, ásamt konu og börnum, skömmu áður en ég hitti Bjössa í Greifunum ásamt einhverju af hans börnum. Þetta gerðist á innan við fimm mínútum. Ekkert nema gítarleikarar með börn...

Mér fannst það fyndið, veit ekki með þig.

Saturday, July 29, 2006

Hreyfimyndir

Keypti mér nokkra titla á dvd í gær. Fyrsta þáttaröðin af Duckula (Brakúla á íslensku) var keypt, undir því yfirskyni að þetta væri fyrir barnið. Kerla þóttist trúa því og heimilisfriðurinn hélst áfram í góðu lagi. Svo keypti ég fyrir kerlu mína CSI:NY síson 2 og varð hún vissulega himinlifandi. Svo var fjárfest í áðurnefndri Edison Force, sem ég verð að klára sem fyrst.

Búinn að kaupa helling af myndum upp á síðkastið, man bara ekki hvaða... gamall kall ég.

Drullaðist lox til að horfa á Melinda and Melinda um daginn, en það er næstnýjasta Woody-myndin. Skrýtin og skemmtileg. Will Ferrel leikur Woody Allen-karakterinn og er hress að vanda. Fílaði hann ekki fyrst en friggins elska hann núna.

Kannski fer ég með Eldri-Svepp og kerlu í rafting á morgun. Skýrsla seinna.

Annars var ég að hugsa um gamalt uppáhaldsband, sem voru að kafna úr hallærisheitum hér í denn. Við Hansi kínverji hlustuðum mikið á það band, ef ég man rétt. Fann víddjó meððeim á jútúbi og hér er það.

Nú eru einhverjir krakkafífl á vegum Disney með koverband. Hér er tóndæmi.

Bylgjur til frambúðar...

sagði Mangi tannlæknissonur. Það var hárétt hjá honum og kom hann mér verulega á óvart.

Umræddar bylgjur höfðu veruleg áhrif á mig þegar ég var seytján vetra, kannski rétt rúmlega.

Annars er ég hress, sofnaði yfir mynd í gær. Hún heitir Edison Force og skartar LL Cool J., Justin Timberlake, Morgan Freeman og Kevin Spacey í aðal. Dylan McDermont er þarna líka og er ógeðslega góður. Justin Timberlake er líka flottur, ég er alltaf að fíla hann betur og betur. Ég á dvd þar sem hann er að spila á tónleikum í Toronto og hann er drullugóður með ógeðslega gott band, þó lögin séu þrautleiðinleg. Á sömu tónleikum komu fram Rolling Stones og tók Justin lagið með þeim. SNL-þátturinn hans var líka schnilld.
Svo hefur hann líka dúndrað Britney. Það eru nokkur stig.

Mig langar í hamborgara með bernessósu og sússjí með ómældur magni af wasabí í eftirmat. Best að gera vel við sig í fæði nú í hádeginu.

Friday, July 28, 2006

Hvolf

Fór á hvolf í gær. Það sé stuð. Lá svo andvaka til klukkan fullseint fyrir minn smekk, horfandi á Samuel L. Jackson í sjónvarpinu.

Nú er þraut í gangi á blogginu mínu. Hver er þrautin? Addi bró, Kiddi trymbill og mögulega Pési pylsa gætu fattað. Ekki merkilegt, en sjáum til.

Gleymdi símanum mínum heima í dag og mér hefur aldrei liðið betur.

Góða Helgi Björns.

Thursday, July 27, 2006

Vinka bless í konunga

Þá er nokkuð útséð með að Magni okkar verður ekki á Þjóðhátíð Vestumeyja. Gott hjá stráknum.

Sjálfur er ég að leika og syngja á Dubliner í kvöld og sunnudaxkvöld. Mætið kannski einhver.

Hvernig líður þér annars?

Wednesday, July 26, 2006

Tólf mínútur yfir níu eftir hádegi

Furðulegt hvað starfsmenn búðar Tóna eru alltaf syfjaðir á miðvikudögum nú upp á síðkastið. Það er svona að vaka frameftir og horfa á landa vorn syngja úr sér lungun. Gaman að því.

Meðan á Rock Star-þættinum stendur koma reglulega auglýsingar frá KFT (Kenntökkí fræd tjikken). Þar tjáir fólk sig um hver þeirra uppáhaldsréttur á staðnum sé. Svo kemur brot úr lagi, hvar einhver syngur "Nothing but a heartache every day". Skemmtilegt, því verkur í hjartað er einmitt óumflýjanlegur ef maður borðar of mikið á KFT.

Annað, sem við Pézi Pylza vorum að tala um nýverið. Auðunn Blöndal er á ferð um landið með einleikinn Typpatal, sem ég hlakka mikið til að missa af. Auðunn þessi er væntanlega borgarbarn að upplagi, enda linmæltur mjög (skemmtilegt að vera linmæltur þegar maður er að tala um typpi). Hann segir okkur í auglýsingunni að sýningin sé styrkt af Fluff-félagi Íslands. Gaman að því. Ég hélt að Viagra hefði gengið að stéttinni dauðri...

Tuesday, July 25, 2006

Knús úr stáli

Við Swiss-menn rokkuðum allnokkuð á Döbb um helgina. Það fannst mér allavega. Hjalti, áður í Urmul, kom á föstudaginn og gestaði með oss, nýklipptur og fínn. Ívar mágur var á gólfinu það sama kvöld. Ég hélt að hann vissi ekki einu sinni hvernig dansgólf liti út! Haffi og Þórhallur litli stoppuðu líka við á gólfinu og var það tær unaður á að horfa. Svo dustaði ég rykið af Heil Talk-boxinu mínu og vakti það mikla lukku.
Helgin var semsagt bara skemmtileg, fyrir utan eitt atvik. Það var þegar risastór maður sá ástæðu til þess að ráðast á mig aftanfrá á Amsterdam. Það var samt allt í lagi því ég var með Binna litla með mér. Hann, þrátt fyrir að ná varla niður á gólf sökum smæðar, leynir á sér og sá enga ástæðu til að halda aftur af sér þegar einhver var að reyna að berja gítarleikarann hans. Já, reyna - þrátt fyrir að vera stærri og ráðast á litla strákinn aftanfrá tókst honum það ekki. Skrifa það á ölvun geranda en ekki endilega styrk minn.

Á sunnudaginn spilaði ég svo fóbbolt. Já, ég spilaði fóbbolt. Skoraði meira að segja mark. Reyndar var ég næstum búinn að fækka aðeins í ætt kerlu í leiðinni, vegna þess að þrumuskotið fór ca. 20 cm. frá höfði tveggja ára frænda kerlu. En mark er jú mark.
Sólbrann í leiðinni, enda fótbolti stórhættuleg íþrótt.

Ekkert meira að frétta, nema þá að Magni syngur Heroes með Bowie í kvöld í Rockstar-þættinum. Ekkert sérstaklega skemmtilegt lag, en vonandi verður það alveg friggins svít.

Lag dagsins.

Friday, July 21, 2006

Næturflug

Algerlega óvænt, af óviðráðanlegum orsökum og ekki okkur að kenna, erum við félagarnir í Swiss að leika og syngja í kvöld og annað kvöld. Öllum að óvörum er það félagsheimilið Dubliner sem hýsir okkur um helgina. Ég er í gríðarlegu stuði og ef þið mætið skal ég knúsa ykkur. Tvisvar.

Við spilum í alla nótt. Ef þú mætir ekki skal ég hringja heim til þín þegar við erum búnir klukkan hálffimm og vekja þig og börnin þín ef þú átt einhver.

Rush

Nú er mál að setja inn eitt lag með Rush. Hér er það. Njótið.

Annars er líka hið besta mál að kíkja eilítið á þessa síðu og vera memm.

Lítið að frétta, svosem, var að spila á Döbb í gær og þú komst ekki. Bara útlendingar eiginlega, sem voru örlátir á ölið. Tók Plush, virkaði fínt. Ekki spilað það síðan ´94 og aldrei fyrr bara með kassagítainn, en þetta er fínt trúbblag.

Yfir og út.

Thursday, July 20, 2006

Flúbblíner

Er að spila á Dubb í kvöld. Mætið sum.

Lag daxins.

Wednesday, July 19, 2006

Súpernóva

Gaman að einu - mig minnti að hljómsveit að nafni Supernova hefði átt lag í bíómyndinni Clerks eftir Kevin Smith. Það reyndist rétt, pönktríóið Supernova átti lagið "Chewbacca" í myndinni. Fann svo við nánari athugun á neti inters nánari upplýsingar um bandið, sem er enn starfandi. Störf þess núna felast aðallega í málaferlum við Mark Burnett og hans fólk, sem er ábyrgt fyrir sjónvarpsþættinum sem heillar mig og mína mest um þessar mundir. Gaman að því.

Hér er heimasíða tríósins.

Annars bíð ég nú spenntur eftir úrslitum Rokkstjörnuþáttarins, sem eiga að hefjast eftir smá stund. Áfram Magni!

Meðan á biðinni stendur býður Skjár einn upp á hina æsispennandi þátaröð"The L-word". Ég þekki ekki nokkurn mann sem horfir á þetta, hvorki streit né gei. Hreint sorp, eftir því sem ég best fæ séð.

Er strax komminn miðvikudagur?

Í tilefni Kiss-umræðunnar set ég hér inn uppáhaldslagið mitt með Kiss. Lagið inniheldur, öfugt við flest önnur Kiss-lög, laglínu.

Hér er svo óskalag fyrir Miss Brynky.

Annars vakti ég frameftir að fylgjast með honum Magna "okkar". Hann stóð sig bara drulluvel, enda sagði Tommy Lee að hann væri "Magni-ficent". Sumir aðrir voru líka góðir, sumir alveg glataðir, en þannig eru víst svona þættir. Ég sem ætlaði alveg að hætta að horfa á raunveruleikasjónvarp - það verður að bíða fyrst Magni er í fíling.

Mér fannst gaman þegar Jason úr Flotsam and Jetsam steig á stokk með einum keppandanum og lék á bassann. Stráklingurinn í keppninni varð eðlilega voða kátur.

En af sjálfum mér er það að frétta að ég var að hita hafragraut í fyrsta sinn á ævinni. Ég kann að búa til gúrmé-kjúklingarétt og alles, en hef aldrei smítt hafragraut fyrr. Gaman að því.

Lifið hálf.

Tuesday, July 18, 2006

Lúalegt bragð og Skál!

Var að fatta að ég þarf að fara í bað,því það er táfýla af mér. Fyrst vil ég benda ykkur á þetta, sem er frábært. Þetta band var stofnað fyrir 1970,en gaf ekki út plötu fyrr en ´77. Urðu voða frægir, en eru ekki frægir í dag. Starfa samt enn að einhverju marki. Hituðu upp fyrir Kiss á tónleikunum sem voru hljóðritaðir og urðu Alive II-platan. Peter Criss var þá svo dauðadrukkinn að litlu munaði að trommarinn í upphitunarbandinu fengi framan í sig málningu og væri látinn spila ballið. Til þess kom ekki, en hann beið á varamannabekknum tilbúinn.

Þetta er ekki sem verst heldur. Fyndið, að þessi dúett gaf bara út tvær plötur. Sú fyrri hét Upstairs at Eric´s, en þegar dúettinn hætti stofnaði Clarke hljómsveit með þessum Eric og Fergal Sharkey, sem átti hittarann A good heart is hard to find nokkrum vetrum seinna. Clark stofnaði þennan dúett eftir að hann hætti í Depeche Mode, sem voru einmitt alveg að fara að meikaða. Honum fannst bara ekkert gaman. Stofnaði seinna Erasure og allir héldu að hann væri hommi, en svo er víst ekki. Söngkonan fór að syngja popp, blús og djass og leikur núna í leikhúsum, auk þess að vera eitthvað að syngja enn.

Ammælis og eitthvað

Haukur frændi minn á ammælídag. Til lukku.
Ingi Valur á líka ammæli. Til lukku líka. Ekki jafngamall samt og Haukur.

Á ég að fara á tónleikana með Morrisey? Fannst Smiths aldrei skemmtilegir, en sumt af þessu sólóstöffi Morriseyjar er mjög flott. Beygist ekki Morrissey eins og Hrísey? Hér er Morrissey um Morrisey frá Morriseyju til Morriseyjar...

Í fréttum áðan kom, eins og alltaf, alltof langt íþróttahorn. Þar kom setning sem mér fannst fyndin. Íþróttafréttabjáninn sagði "Glæsilegur skalli hjá Arnari Gunnlaugssyni". Ég hló.

Monday, July 17, 2006

Það er fallegt a Stokkseyrarbakka

Hæ.

Ég spilaði á veitingastaðnum Við Fjöruborðið á Stokkseyri á laugardaginn. Gaman að renna svona í plássið og hitta Jökul litlafrænda og horfa með honum á Punisher fyrir gigg. Svo fékk ég líka nokkuð gott að snæða, humarsúpu og grillaðan humar í massavís ásamt ísköldum Leffe. Gaman að því. Hvað var í matinn hjá ykkur á laugardaginn?

Staðurinn var hinsvegar fremur tómlegur fram til eitt, en þá átti ég einmitt að hætta að spila, en vegna gríðargóðs trítments staðarhaldara lék ég og söng fram eftir nóttu, eða alveg þangað til að röddin var löngu farin. Þá gerðu vertarnir, eðalmennin Robbi og Oddi, vel við mig í drykk og skutluðu mér í bæinn, hvar ég stökk í partý á Bergsstöðum.

Svo renndi ég ásamt Litla-Svepp á Stokkseyri í gær að ná í græjurnar og hitta litlafrænda. Hitti einnig mjög óvænt Snorra nokkurn Kristjánsson, gamlan vin frá Akureyri, sem býr nú í Finnlandi. Gaman að því einnig. Lék svo á Dubliner í gærkveldi fyrir nokkra vini og allnokkuð af ofurölvi grænlendingum.

Eníhjú, ef þið hafið ei étið á Fjöruborðinu á Stokkseyri eruð þið óheppin mjög. Fara þangað - núna. Langbesti humar í heiminum og þótt víðar væri leitað.

Friday, July 14, 2006

Jú. Kannski. Nei.

Ég á aukabarn í andartakinu, en ég rak kerlu út áðan og sagði henni að koma ekki heim fyrr en klukkan fimm í nótt og alls ekki edrú. Fékk lánaðan son vinkonu hennar á meðan, fimm vetra gamlan, og er því með þrjá pjakka á heimilinu núna. Fínt.

Bíð eftir að tveir yngstu sofni og þá ætlum við Eldri-Sveppur að horfa á 16 blocks. Henni leikstýrir Richard Donner, sem gerði gömlu Omen, gömlu Superman og ef ég man rétt allar Lethal Weapon. Bruce Willis og Mos Def eru aðal. Skýrsla seinna.

Elvar, fyrrum vinnufélagi minn úr Búð Tóna, sagði mér einn góðan sem ég læt hér með flakka:

Ríkisstarfsmenn eru margir hverjir óánægðir með nýtt netfangakerfi hjá ríkinu. Það er víst þannig að notaðir eru 9 stafir, svo att-merkið og nafn viðeigandi stofnunar. Stafirnir 9 eru þrír fyrstu úr fornafni starfsmanns, svo þrír fyrstu úr föðurnafni/eftirnafni og svo þrír fyrstu stafirnir úr starfsheiti.

Rúnar Karlsson, sérfræðingur, er víst hættur.

Annars er ég að fara til Stokkseyrarbakka á morfun að leika á bryggjufestivali einhverju. Þar er staðsettur einn besti restaurant landsins og ætla ég að éta humarinn þar allan.

Áfram Lukku-Láki og allir hressir!

Thursday, July 13, 2006

Magnað

Jú, Magni hefur lifað af tvo þætti í Rockstar-seríunni og er það vel. Sá þáttinn í gær og fannst hann standa sig bara hreint ógeðslega vel.

Ég gerði mikið grín að INXS-þáttunum í fyrra, hvað þessir úr sér gengnu poppdruslur væru hlægilegar og hvað þetta INXS-dæmi allt væri búið að vera. Stend reyndar við það enn, INXS var búin að vera þegar söngvarinn hengdi sig við sjálfsfróun. Munurinn á INXS og Súpernóvu er sá að INXS átti smá fortíð, en Súpernóva gæti mögulega átt einhverja framtíð. Kannski. Vona það.
En mikið svakalega er Tommy Lee sjúskaður. Þarf að hætta að drekka og byrja að taka lýsi ef hann ætlar sér ekki að líta út eins og Keith eftir áratug eða svo. Jóni Boss fannst þríeykið reyndar minna sig á Spinal Tap, en ég vil ei ganga svo langt. Svolítið hallærislegt, en svolítið rokkað líka. Áfram Magni (sem er íþróttafélagið á Grenivík).

Fór í sumarbústað á mánudaginn. Geri það aldrei aftur. Fór að veiða á þriðjudaginn. Geri það aldrei aftur. Fór ekki í pottinn, enda búinn að prófa það og geri það aldrei aftur. Ógeðslegt fyrirbæri, þessi heiti pottur í sumarbústöðum.

Annars er ég bara hress.

Tvær myndir, sem ég gleymdi á síðasta lista:

Black Cadillac - spennueitthvað með Randy Quaid og fleirum. Ekkert merkilg.

City Slickers - var að sjá hana í fyrsta skipti um daginn og skil ekkert í mér að hafa ei séð hana fyrr. Alveg skemmtileg og Jack Palance flottur í alltof litlu hlutverki. Vissuð þið að hann var fyrirmynd Langa Láka?

Hér er mynd af honum ásamt mömmu hennar Gwyneth Paltrow.

Monday, July 10, 2006

Hvað er á skjánum?

Ég horfði á smá eitthvað af fótboltaleik í gær. Illa lyktandi Frakkadruslur að etja kappi við bévítans Ítali. Þar tók sig til fyrirliði (hvað sem það er) franska liðsins og skallaði einhvern Ítalann í bringuna. Fransmaðurinn var rekinn af velli en í dag er forseti Frakklands hellandi yfir hann lofi og kveður þjóðina elska hann. Ég veit ekki margt um fóbbolt, en ég veit að ef einhver landi okkar myndi gera svona yrði hann hýddur opinberlega.

Ég hélt enda skýlaust með Ítölum eftir að hafa hitt franska sjóliða á fimmtudaginn. Þeir voru nokkrir, ásamt skipstjóra sínum, á Dubliner þegar ég var að spila. Hegðuðu sér flestir illa, með almenn leiðindi og síblaðrandi eitthvað á frönsku við mann. Einn þeirra var sínu verstur, fiktandi í græjunum mínum, sullandi kertavaxi - viljandi - á klæðnað fólks og endaði á því að lækka í öðrum hátalaranum mínum. Þá kallaði ég á dyravörð og lét grýta fíflinu á dyr. Hann var ekki sáttur við það og vildi fá að vera áfram inni. Fannst ekkert athugavert við hegðan sína. Skipstjórinn hans, sem einn sjómauranna talaði ensku, kom til mín og bað mig um að leyfa kvikindinu að koma aftur inn. Ég var hinsvegar orðinn heldur pirraður og lét hann ögn heyra það. Sagði að ef franski herinn væri búinn til úr svona bévítans undirmálspakki væri engin furða að stríðsferill Frakka væri svona æðislegur síðustu öldina eða svo. Skipperinn rauk út og gargaði eitthvað á sjóliðann, sem beið eftir mér fyrir utan í rúman klukkutíma svo hann gæti beðist afsökunar á hegðan sinni.

Hvað um það, nóg um Frakka. Ég hef horft á nokkrar myndir upp á síðkastið og hér eru örfá orð um einhverjar þeirra:

Matador. Skemmtileg mynd hvar Pierce Brosnan leikur úr sér genginn leigumorðingja, sem er í leiðinni einn dónalegasti og óviðkunnanlegasti maður sem ég hef séð í bíómynd. Mjög fín, skemmtileg, tvær og hálf stjarna.

Match Point. Nýjasta Woody Allen-myndin er gerólík öllu sem hann hefur áður gert. Fjalla um tenniskennara sem kynnist mjög viðkunnanlegu efnafólki og misnotar traust þeirra. Beisikklí skíthæll. Frábær ræma og drulluspennandi seinnipartinn. Fínir leikarar og allt frábært. Eina sem mér fannst að er að tímarammi myndarinnar fannst mér ekki sannfærandi, þ.e.a.s. ótrúlega margt sem gerist hjá fólki á stuttum tíma.
Þrjár stjörnur.

Riddick. Lauk við hana áðan, en ég hef sofnað yfir henni oftar en öllum öðrum myndum til samans, held ég. Sá hana í tíu mínútna bútum og var í alvöru farinn að nota hana sem svefnmeðal, t.d. í nótt þegar ég lá andvaka á sófanum. Steinsofnaði strax. Hreint hryllileg í alla staði og lendir ofarlega á listanum yfir verstu myndir sem ég hef séð á ævi minni, og þar sem ég hef séð allt er það bara þó nokkuð.

Hackers. Var í sjónvarpinu áðan og hún er ögn skárri en Riddick, en þó ekki mikið. Bévítans krapp.

Hostel. Snilld. Þrjár og hálf stjarna. Segi ekki orð um hana meir, sjáðu hana bara ef þú ert ekki búinn að því.

Holliwood Homicide. Ég er viss um að Harrison Ford hefur fengið herfilegan bakreikning frá skattinum fyrst hann leikur í svona bévítans sorpi. Hún er ekki einu sinni almennilega vond, heldur sullast rétt fyrir neðan meðalmennskuna í óspennandi ömurleika. Man ekki í fljótu bragði eftir verri mynd með Harrison Ford.Á að vera einhverskonar blanda af gamanmynd og spennumynd en er hvorki spennandi né fyndin.

Underworld 2 - Evolution. Ekki jafn góð og fyrri myndin, en alltílæ svosem. Tæpar tvær drullukökur.

Man ekki meira. Eru ekki annars allir hressir?

Friday, July 07, 2006

Tónabúðarbandið

Hér í eina tíð var til (og er kannski til enn) hljómsveit sem bar (nú, eða ber - sjá síðasta sviga) nafnið Búðarbandið... eða Búðabandið... eða eitthvað.

Nú í kvöld er bætt um betur á hinum rómaða veitingastað Dubliner, því þar mun Tónabúðarbandið leika fyrir dansi og öðrum djöfulgangi. Það eru sumsé yfirmaður minn, Jón, yfirmaður trommudeildar Reykjavíkurútibús, Sigfús Óttarsson og svo moi. Stuð og fjör. Við komum til með að taka Brown eyed Girl og fleiri lög.

Mættu og skemmtu þér.

Dubliner - rómantískur staður við höfnina.

Thursday, July 06, 2006

Óli grís

Skemmtileg frétt í Fréttablaðinu í dag. Einkar ánægjulegt hvað það blað er að verða betra en það var hér í eina tíð. Í dag er sagt frá mótmælum á Lækjartorgi fyrir 23 árum þegar George Bush, sá hinn sami og er staddur hér í boði Ólafs Ragnars forseta, kom hingað til lands í lax. Fyrir mótmælunum stóðu Alþýðubandalagsmenn og þar talaði maður að nafni Ólafur Ragnar Grímsson, sem er skemmtilegt nokk einmitt nafn mannsins sem er forseti lands vors nú.

Orð dagsins er "kommúnistalýðskrumari".

Monday, July 03, 2006

Helgin

Fór á ættarmót um helgina. Móðurætt mín, þ.e.a.s. mamma og hennar fjörtíu og sex systkin ásamt afkomendum, hittumst uppi í Staðarsveit og höfðum það gott. Grill og brennivín, kjaftatörn og blaður, bull og vitleysa. Missti að vísu af laugardeginum sökum þess að ég var kolstíflaður af kvefi og ekki hress. Lagaðist þegar Keli, staðarhaldarinn á hótelinu, gaf mér skot af íslensku brennivíni og volgan Guinness.

Allavega, mikið svakalega var og er þetta fólk allt saman fallegt og frábært í minni móðurætt. Konurnar öðrum konum fegurri og karlarnir gerðarlegir og góðir til undaneldis. Hananú.

Á heimleiðinni fékk ég svo þær óskemmtilegu fréttir að kunningi minn, Heiðar Jóhannsson, hefði látist í mótorhjólaslysi fyrr um daginn, þ.e.a.s. í gær. Reyndar þekkti ég hann ekki náið, en hafði kannast við hann í einhver 18 ár, allt frá því að hann - þá blindfullur - bauð mér í heimsókn að skoða plötusafnið sitt og afrita á spólur það sem ég vildi. Þá var ég á sautjánda ári, blautur bak við eyrun og asnalegur. Daginn eftir kom ég heim til hans með fullan haldapka af TDK-spólum og vakti hann. Fékk að taka upp músík eins og ég vildi. Svo fór hann út og bað mig vinsamlegast um að læsa á eftir mér ef ég færi áður en hann kæmi heim.
Eru einnig ófáir tugir lítra af drykkjum sem Heiddi bauð mér upp á gegnum tíðina. Ekki gat hann komið inn á öldurhús hvar maður var að spila án þess að bjóða öllu bandinu í glas og helst í partý á eftir. Hann var einn af ákaflega fáum sem tókst að vera töffari í gegn, en samt ljúfmenni um leið og það fyrir allan peninginn. Einhver skrýtnasti og skemmtilegasti karakter sem ég hef hitt.

Annars er ég á leið niður á Döbb að spila. Mætið.