Thursday, August 31, 2006

Martröð Magna

Það er víst ófremdarástand í Rokkstjörnuhöllinni í Ell-Ei. Magni greyið vaknaði upp af hræðilegri martröð í nótt, svo Storm og Dilana eru ennþá að hugga hann. Hann dreymdi nefnilega að Farice-sæstrengurinn færi í sundur nk. þriðjudagskvöld.

Dilana er reyndar hálfsvekkt því Marge Simpson hringdi í hana og vildi fá röddina sína til baka.

Nýr íþróttafréttamaður hefur svo verið ráðinn til starfa hjá Útvarpinu. Hann er fyrsti blökkumaðurinn sem gegnir því starfi. Við bjóðum Samúel Örn Jackson velkominn til starfa.

Lag dagsins er Little Wing með einhverjum öðrum en Hendrixi.

Sítengd þjóð

Jú, við sáum í gær hvað er gott, sé maður staddur erlendis í raunveruleikaþætti, að vera frá litlu landi hvar allir hafa sítengdt internet og öll börn eldri en sjö eiga farsíma og kunna að senda sms. Magni, fulltrúi þessarar litlu þjóðar í sjónvarpsþættinum Rockstar, var stigahæstur keppenda. Gott mál.

En sjálfur er ég ekki í Rockstar, ég er bara að spila á Dubliner í kvöld, einn og yfirgefinn með kassagítarinn minn. Leik þar Bítlalög og önnur lög, bæði skemmtileg og leiðinleg. Fullt af lögum, næstum því öll...

Mætið sum hver.

Wednesday, August 30, 2006

Nú er ég kreisí!!!

Það eru hlutir eins og þessi sem eyðileggja fyrir manni daginn.

Nú er ég fokkings kolbrjálaður út í flokkinn. Ég reyndar held ennþá að hann sé illskásti kosturinn, en ég er samt gersamlega hundfúll.

Annars var Magni fínn í nótt. Hlakka til í kvöld að sjá hvernig fer.

Lag dagsins er Vægan fékk hann dóm með Egó.

Tuesday, August 29, 2006

Tóbak og annað dóp

Blaðið í dag er svolítið fyndið. Sagt er frá fangaverði (núna fyrrum) sem stóð í stórfelldu dópsmygli inn til fanga á Litla-Hrauni. Hann var böstaður með einhverja ólyfjan innvortis og tekinn fastur. Blaðið sagði að hann hefði verið sumarafleysingastarfsmaður og þetta hefði gerst á síðasta vinnudegi hans á Hrauninu. Því þyrfti hann "að dvelja lengur en hann upprunalega ætlaði sér". Gaman að því.

Svo vælir hann þessi ósköp, karlanginn sem var tekinn með tvö kíló af ólyfjan í Brasilíu og stungið í stein. Greyið karlinn. Hann segir að fangelsin þar í landi séu slæm. Aðbúnaður ógeðfelldur og allt í klessu. Jú, karlinn, mundu það bara næst þegar þú flytur tvö kíló af kókaíni milli landa. Hann ætlaði víst að flytja þetta heim á klakann og vil ég því þakka brasilískum yfirvöldum fyrir að spara Íslendingum stórfé í fangelsismálum og hýsa kvikindið fyrir oss. Fangelsin eru hvort eð er allt of góð hér, svo góð að menn koma aftur og aftur.

Annars er ég svolítið hvumsa að heyra að Tomma og Jenna-þættirnir eru á leið undir hnífinn og á að klippa burt allar þær senur hvar tóbak sést í notkun (nóta bene - ekki ofbeldið, bara reykingarnar). Væntanlega þarf þá einnig að breyta byrjunaratriðinu í Bleika Pardus-teiknimyndunum (hvar Bleiki sést með sígó með svaðalegu munnstykki).
Mér finnst þetta ógeðfelld aðför að listrænu frelsi svo ekki sé talað um skemmdarverk á listaverkum og menningarverðmætum. Ef ég hitti þann sem kýldi þetta í gegn skal ég lúberja hann Tomma og Jenna-stæl og fíra svo í vindli.

Lag dagsins er Smokin´in the Boys Room.

Monday, August 28, 2006

Tommí Lí

Einn þrælgóður hér:

Aðalsponsor Rockstarþáttanna hérlendis er KFT (Kentucky Fried Tjikken). Þeir meira að segja eru búnir að lofa Hauki frænda að bjóða honum til L.A. bráðlega að vera viðstaddur lokakvöld þáttaraðarinnar. Þá verður alheimi tilkynnt hver verði söngvari Súpernóvunnar. Trommari sveitarinnar er enginn annar en Tommy Lee. Hann er mikill stuðningsmaður PETA. Hann hefur meira að segja gefið PETA fullt af peningum til að styrkja þá í málaferlum gegn KFT vegna meintrar ómannúðlegrar meðferðar á fiðurfénaði.

Svona er nú heimurinn lítill.

Lög daxins eru tvö - Dr. Feelgood með Mötley Crue og Milk and Alcohol með Dr. Feelgood.

Góðar stundir.

Saturday, August 26, 2006

Stuð og læti

Haldiði ekki bara að hreinlega bæði Jón Spæjó, yfirstrumpur í Reykjavíkurútibúi Tónabúðarinnar og Sean Connery, Óskarsverðlaunaeigandi, hafi átt ammæli í gær. Jón náði þeim merka áfanga að verða fertugur og óska ég honum hér með allþokkalega til hamingju með það. Connery er eitthvað eldri.

Fríhelgi frá spilamennsku, var bara að spila miðvikudag og fimmtudag og er svo annað kvöld líka. Róleg vika.

White Chicks er í sjónvarpinu. Hún fer ekki á topp tíu.

Lag daxins.

Thursday, August 24, 2006

Það er nú ekkert - frændi minn...

Jú, mikið varð ég hissa og glaður er ég fletti málgagninu í morgun. Haldiði bara hreinlega ekki að það hafi verið mynd af Patreki litla frænda mínum frá Húsavík á bls. 19 í tilefni þess að hann og Ármann, eldri bróðir hans, hlupu hálfmaraþon nýverið. Þess má geta að þeir bræður eru 11 og 15 vetra gamlir.
Þó mér finnist svona sprikl vera fullmikið af því góða er ég glaður yfir þessu framtaki frændanna, enda góðir drengir og standa sig vel í gítarnáminu.

Áfram frændur!!!

Ég er samt svolítið svekktur að þeir hafi gert hlé á gítaræfingum til að hlaupa tugi kílómetra, en svona er það víst...

Að öðru - Magni í botn þremur í gær og Patrice send heim. Ég fílaði hana nú alltaf svolítið og hefði mun frekar viljað sjá bévítans Kanadaskunkinn pakka saman og drulla sér heim til Tórontó. Nú er þetta orðið spennandi mjög og vel þess virði að vaka fram á morgun til að horfa.

Lag dagsins er þetta hér lag í einhverri lævútgáfu sem er súrari en allt þorraslátrið í Svarfaðardal.
Þetta band var stofnað í Hollandi í lok sjöunda áratugarins af This Van Der Leer (vonandi stafsett rétt), flautuleikara og píanista. Skömmu seinna kom Jan Akkerman gítaristi til samstarfs og gerðu þeir nokkrar hörkufínar plötur. Ein þeirra hét Moving Waves, sem er fyndið í ljósi þess að seinna gáfu Rush út Permanent Waves og Moving Pictures...
Eníhjú, Akkerman hætti nokkrum árum seinna og hljómsveitin lagði upp laupana ´78. Van Der Leer kom henni saman aftur í einhverri mynd seinni part níunda áratugarins og hefur sveitin verið starfandi með mismunandi mannskap on og off síðan. Ég vil halda fram að Þursaflokkurinn hafi sótt talsvert til þeirra, ef þið hlustið á Þursabit og svo fyrstu Fókusplöturnar getið þið heyrt hví ég held þetta.

Góðar stundir.

Wednesday, August 23, 2006

Mamma mín

Mamma mín á ammæli í dag. Hún er besta og fallegasta og dásamlegasta konan í öllum heiminum og jafnvel þótt víðar væri leitað. Í dag er hún 29 ára.
Til hamingju, mamma mín.

Lag dagsins er Mamma með Halla og Ladda.

En þá beint í röflið.

Einhver auglýsing var í imbanum áðan hvar landlæknir segir ráðið við beinþynningu vera neyslu á mjólkurvörum.
Því finnst mér skrýtið að í Austurlöndum fjær eru tveir hlutir sem fyrirfinnast bara hreinlega alls ekki - beinþynning og mjólkurneysla.
Margir, með betri menntun en ég, hafa haldið fram að mjólkurneysla geri ekkert til að hamla beinþynningu því mannslíkaminnn geti ekki unnið kalkið úr beljumjólkinni. En meðan bændastéttin fær af einhverjum óskiljanlegum ástæðum sautján milljarða í styrk árlega frá okkur skattgreiðendum skal ég alveg trúa því að við séum göbbuð til að leggja niðurgreiddar afurðirnar þeirra okkur til munns með öllum tiltækum ráðum. Eða hvað?

Að öðru - fyrir fáum árum síðan fengu þeir frændur okkar hjá BMW þá snilldarhugmynd að gera rándýrar auglýsingar og fá rándýra erlenda leikstjóra til að leikstýra.
Þar lék Clive Owen bílstjóra sem kemst í hann krappan. Hér er hann t.d. að skutla Thomas Milian á áfangastað. Milian þessi lék hér í denn í vestra að nafni Big Gundown með Lee Van Cleaf, en þá mynd horfðum við Jói Sigurviss á æði oft eftir skóla hér í gamla daga.

Guy Ritchie gerði líka eina svona auglýsingu, ekki síður skemmtilega. Ekki er allt drasl sem Madonna leikur í, eins og sjá má hér.

Fleiri getið þið fundið sjálf, ef áhugi er fyrir hendi.

Monday, August 21, 2006

Sveinssssssssss.....

Kræst. Var að spila á Kaffi Amsterdam á menningarnótt, frá kl. 1 til kl. 6. Leyfi ég mér að fullyrða að sjaldan hefur nokkur hljómsveit í sögu landsins verið jafnuppgefin að afloknum skyldustörfum. Ingi Valur Rockstardropout var með okkur drengjunum og er ljóst að ekki var vanþörf á.
Tveggja metra há kona dansaði "eggjandi" fyrir framan okkur strákana um tíma og var það uppspretta óteljandi brandara. Rúnar í Sixtís, sem tók með oss nokkur lög, fullyrti reyndar að hann hefði séð barkakýli á dansaranum. En, jæja...

Svo lék ég á Döbb í gær. Aleinn og yfirgefinn. Óskar tók reyndar nokkur lög svo ég skiti ekki í buxurnar og Svavar Knútur labbakútur tók eitt gullfallegt frumsamið. Gaman að því, enda kann maðurinn alveg að smíða lög og flytja þau.

Myndir helgarinnar:

The Great Raid. Sannsöguleg stríðsmynd sem segir frá björgunaraðgerðum Bandaríkjamanna sem miðuðu að því að bjarga rúmlega 500 bandarískum stríðsföngum úr fangabúðum Japana á Filipseyjum. Benjamin Bratt og James Franco (besti óvinur Spædermans) í aðal. Fín. Tvær og hálf drullukaka.

Syriana. Yfirhæpuð samsæris/drama/njósnamynd með heilum haug af úrvalsleikurum. Nett eitthvað, ekki beint langdregin heldur eitthvað, æi...
Fínir punktar í plottinu og alles, bara hittir ekki alveg í mark. Meira en vel þess virði að sjá samt vegna þess hvað hún er vel leikin. Tvær og hálf hasskaka.

Meira var það ekki í dag. Lifið heil eða ekki, ykkar er valið.

Saturday, August 19, 2006

Skriðdýr í háloftunum

Sá Snakes on a Plane í gær. Hún vinnur seint Óskarinn sem besta mynd, er snælduvitlaus, sumir leikaranna út úr kú og alles, en mikið svakalega er hún skemmtileg. Ætla sko að sjá hana aftur sem fyrst og taka Eldri-Svepp með. Sérlega skemmtilegt þótti mér þegar kattarófétið var myrt af skriðkvikindi. Hata ketti meira en eiturslöngur.

Nú heitir Haukur frændi ekki lengur Haukur frændi. Hann heitir nebblega Hábeinn frændi, bévaður melurinn. Hann vann nebblega ferð til L.A. á lokakvöld Rockstar-keppninnar með því einu að kaupa sér KFT djúpsteiktan kjúkling, kransæðarstíflandi og hjartakrampavaldandi. Það skal sko enginn halda því fram að KFT sé slæmt fyrir hjartað því ég veit í hjarta mínu að þessi vinningur sem Hábeinn fékk gladdi hans litla hjarta. Getur maður unnið eitthvað með kaupum á sushibakka hjá Nings?

Amsterdam í nótt. Ætla að nota Marshallinn minn og talkboxið nýja delay-ið mitt. Trymbillinn minn á að koma til landsins í dag frá Germaníu. Þar var hann að skoða í sögulegu samhengi áhrif kynvillu á nasistastjórnina fyrir sjötíu árum. Eða ekki.
Vona að hann komi heim í tíma, annars verður þetta tómlegt.

Sjáumst vonandi í kvöld. Ókeibæ.

Friday, August 18, 2006

Jæja, Snorri minn...

Hreint ótrúlegt að heyra fullorðið fólk og skólagengið láta út úr sér viðlíka vitleysu og Snorri í Betel gubbaði út úr sér í fréttunum í gær. Að halda því fram að samkynhneygðir hafi eitthvað haft að gera með þýska nasistaflokkinn á sínum tíma er eins og að segja að McCarthy hafi stofnað kommúnistaflokkinn í Rússlandi.
Ég man bara eftir einum frammámanni í hinum germanska þjóðernisjafnaðarmannaflokki sem var samkynhneygður, Ernst Rohm. Klikkið á nafnið hans og lesið hvernig fór fyrir honum.
Snorri ætti að vita að það var mun betra að vera gyðingur í Þýskalandi nasismans en samkynhneygður.

Þó segi í Biblíunni að karlmenn skuli ekki sænga hjá öðrum karlmönnum er ekki þar með sagt að seinni heimsstyrjöldin sé þeim að kenna, né heldur Víetnem-stríðið, móðuharðindin, frostaveturinn mikli, þjóðarmorðin í Rwanda eða Geir Ólafsson.

Talandi um þetta þá er Wycleaf Jean nú í sjónvarpinu að taka Wish You were here eftir Pink Floyd í óæðri endann gersamlega ósmurt.

Annars var ég að horfa á Inside Man. Hún er fín.

Annars varðandi mat... það eru alltaf einhverjir að segja manni að allt sem maður étur sé svo óhollt. Menn greinir á um gæði mjólkur og hollustu hennar, sumir éta bara gras og segja að allt kjöt og fiskur sé vont fyrir heilsu manns og sumir sem éta ket og fisk segja að unnar kjötvörur séu bráðdrepandi. Egg eiga að vera full af kólesteróli og þ.a.l. óholl og sykur á náttúrulega að vera jafn hættulegur og Jeffrey Dahmer. Svo var viðtal við einhvern erlendan sérfræðing í Mogganum um daginn (erlendur sérfræðingur reyndar þýðir í mínum huga núna útlenskur hálfviti sem slapp í gegnum háskóla) sem sagði brauð vera fíkniefni. Fíkniefni! Hveiti er víst svo bráðóhollt að brauð drepur mann jafn örugglega og haglaskot í hnakkann. Þar með er jú allt pastað og spaghettíið líka orðið bannvara. Svo maður tali nú ekki um allt sem inniheldur áfengi, það er jú bara eins og að drekka hreinsilög blandaðan í smjörsýru.

Sem sagt, þú mátt bara éta speltbrauð, gulrætur og sojamjólk. Hev a næs rest off jor læf.

Thursday, August 17, 2006

FImmtudaxröflið

Jú, Magni er enn inni eftir að hafa lent í botn-3. Djös.

Hér sé getraun. Hér er lag eitt ásamt viðtali við bandið. Gamall smellur, býsna vinsælt og hefur haldið sér allþokkalega. Í bíómynd einni var lagið notað sem undirleikur meðan raðmorðingi gekk berserksgang með haglabyssu. Bíómyndin er merkileg fyrir það helst að þar lék aðalhlutverk í fyrsta sinn leikari sem er orðinn gríðarvinsæll, aðallega sem sjónvarpsþáttaleikari.

Hver er myndin og hver er leikarinn?

Annars er ég sjálfur, sem slíkur, að leika og syngja einn míns liðs á Dubliner í kvöld. Svo verðum við bræðurnir í Swiss að leika á hinum rómaða veitingastað Café Amsterdam á menningarnótt og fram á morgun. Þar getið þið fengið að sjá nýja trommusettið sem Guðbjartur trymbill ákvað að fjárfesta í. Gullfallegt Pearl Masters trommusett, blóðrautt að lit.

Bið að heilsa eftir Inga T.

Wednesday, August 16, 2006

Mótmælendadruslur

Nokkur stykki hálfvitar fyrir austan eru víst búnir að príla upp í byggingarkrana á byggingarsvæði álversins á Reyðarfirði. Svo hlekkjuðu þeir sig fasta og hafa hangið þarna síðan hálfsex í morgun.
Réttast væri að þykjast ekki taka eftir þeim og halda framkvæmdum áfram. Ef einhver slitnar í sundur eða frýs í hel í fimmtíu metra hæð er nokkuð gulltryggt að ekki munu fleiri leika þennan asnaskap eftir. Ef ekki á að sjálfsögðu að hirða aleiguna af hyskinu upp í það fjárhagstjón sem það veldur. Reyndar ekki líklegt að þetta bévítans undirmálspakk eigi nokkuð, ekki sýnist mér þetta hyski vera í vinnu fyrst það getur hangið sumarlangt uppi á öræfum, sem það hefði aldrei heimsótt ef ekki hefði verið fyrir álverssmíði og virkjanaframkvæmdir.

Svo var einnig í fréttum að fjórtán vetra strákpjakkur hefði reynt að keyra á tvo lögregluþjóna. Útvarpsmaðurinn sem fjallaði um málið heyrðist mér helst vilja kenna bíómyndum og tölvuleikjum um. Voða einfalt að skella skuldinni á Hollywood alltaf.

Annars steinsofnaði ég meðan ég beið eftir Rokkstarinu í gær. Vaknaði í miðju Magnalaginu. Sé þetta á eftir á netinu.

Monday, August 14, 2006

Allt kreisí

Allt að verða vitlaust. Fréttafalsanir frá átökum í Mið-Austurlöndum, rafmagnslaust í Breiðholtinu og Mel Gibson fullur á bílnum. Mér finnst fyndið að Gibson small á það og fór í bíltúr. Löggan stoppaði hann og í ofurölvunarfýlukasti sagði hann eitthvað ljótt um afkomendur Ísraels. Þá varð allt vitlaust og menn eru alveg brjálaðir. Allir kreisí yfir ummælum hans um Gyðinga, en enginn minnist á að hann var sauðölvaður á tveggja tonna jeppa, sem er jú stórhættulegt. Ekki það að mér finnist í lagi að tala illa um einhverja þjoðfélagshópa sem slíka, það er bara alvarlegra að leggja líf vegfarenda í stórhættu með ofurölvunarakstri.

Fyrst verslunarmannahelgi. Svo Gay Pride. Svo nálgast menningarnótt. Lifur óskast.

Sunday, August 13, 2006

Sveppasúpa

Skrapp á tónleik með Morrissey í gær með Hauki frænda og Gunna frænku. Hann var fínn og þótti mér leiðinlegt að ég þurfti að fara áður en leiknum lauk. Hélt nebblega að ég væri orðinn eitthvað veikur, en var bara svona svakalega heitt.

Morrissey kom með sitt eigið upphitunarband og verða það að teljast einhver mestu mistök tónlistarsögunnar í öllum heiminum og þó víðar væri leitað. Einhver stelpudrusla á hljómborð og kall á trommur. Mikið playback líka. Einhver leiðinlegasta tónlist sem ég hef heyrt ever. Alveg fargings glatað. Alltof hátt líka og gerði ekkert nema koma mér í vont skap og láta mér bókstaflega líða illa. Haukur var svo heppinn að sofna meðan á ósköpunum stóð, en við Gunni sátum í eymd okkar og grétum. Eftir einhver fjögur lög fór ég bara fram til að þurfa ekki að sitja undir þessu sorpi. Alveg agalegt.

Var ég búinn að minnast á að mér líkaði ekki upphitunarbandið?

Fór svo og lék fyrir dansi á Dubliner. Þar var gömul kona voða mikið að tala við mig og reyna að kyssa mig. Leit út eins og Valgerður Sverrisdóttir, bara ljótari. Arg.

Orð dagsins er nafnorðið glerblásari.

Saturday, August 12, 2006

Óskalög geðsjúklinga

Einhverra hluta vegna var ég að hugsa um útvarpsþáttinn Óskalög sjúklinga áðan. Skrýtinn þáttur, sem var á dagskrá einu sinni í viku. Skilirði fyrir óskalagi var að maður væri á spítala, ef ég man rétt. Þetta var fyrir daga ímeilsins svo fárveikt fólk varð að skrifa bréf og senda í pósti til útvarpsins og bíða svo í heila viku eftir að fá að heyra Traustur vinur. Þá var líklegt að annaðhvort væri maður kominn him fullfrískur eða undir græna torfu. Eða grænt tófú.

Ég ætla að hafa samband við úbartið og fá að vera me þáttinn Óskalög geðsjúklinga. Lög eins og They´re coming to take me away og The lunatic is on the grass væru þar eflaust margumbeðin. Nú, eða óskalög áfengissjúklinga, Flaskan mín fríð, Tequila og öll Skriðjöklalögin. Nú, eða Óskalög þunglyndissjúklinga - eintómar b-hliðar með Modern Talking.

Annars er þetta fyndið - mér finnst það allavega. Eyva finnst það sjálfsagt alveg ömurlegt, en jæja...

Friday, August 11, 2006

Fídbakk

Nú, jæja. Hinsegin dagar í húrrandi svíngi. Það ætti að segja okkur strákunum, sem ekki eru hver aftran á öðrum, að standa fyrir Svoleiðis dögum á vori komanda. Straight Pride. Kröfuganga gagnkynhneygðra niður Hverfisgötuna eða Skipholtið. Flennistór kröfuspjöld með áletrunum eins og "Betri eru bleikir barmar en brúnir þarmar" og "Sonur minn er enginn hommi". Hafa gönguna að sjálfsögðu um helgi svo helgarpabbarnir geti komið í þynnkunni með krakkana og troðið þau út af rjómaís og öðru gúmmelaði.

Annars er ég að fara á konsert með erlendum attaníossa að nafni Morrissey á morgun. Hann er víst svo mikið grænmeti að það má ekki sjást róstbíf í nágrenni Hallarinnar samkvæmt kröfulista. Ætli verði þá bara seldar pizzur með aspargus, brokkolí og sýrðum rjóma?
Skrýtið, ég þekki homma sem er mikið fyrir "kjötið". En þeir eru jú misjafnir eins og við kynvísa fólkið. Gefa lífinu lit.

Getraunin er á enda. Aðeins tveir gátu rétt, sem er þremur meira en ég bjóst við.

Ekki merkileg sem slík, en svo er að fyrirsagnirnar síðan 21. júlí (sem var tveggja ára afmæli síðunnar) hafa allar verið nöfn á Rush-plötum. Í réttri röð, m.a.s. Eins og ég segi, ekki merkilegt, en...

Góða Helgi P.

Óljós slóð

Fyrst ég fann þetta er mál að setja það inn. Eitt sinn var ég að horfa á þetta með Halla, vini mínum, og hann ekki bara gubbaði af hlátri heldur líka blánaði í framan og ég hélt hann myndi exjúllí deyja úr hlátri. Gersovel.

Arsenio er fínn. Ein færla eftir og svo er djetraunin búin og bara tveir með rétt svör.

Bergmálspróf

Nú er getraunin að á góðri leið með að líða undir lok. Vísbending Sveins - Kanada.

Datt í hug, svona meðan ég horfi á Frailty í sjónvarpinu, að setja inn meira Saga, svona fyrst þeir voru víst nemendur Rush. Kanada rúlar.

Klikkst hér. Saga-lögin eru tileinkuð Jóa Bjarnabróður og Kötumanni. Besti kall í heiminum.

Thursday, August 10, 2006

Mótstykki

Einu sinni voru tveir bræður í Quebec í Kanada (já, Kanadahljómsveitarfetissinn minn er í yfirvinnu). Þeir hétu Stefan og Ivan. Þeir stofnuðu hljómsveit og réðu til sín nokkra sessjónmenn, meðal annars litla bróður þeirra. Þeir gáfu út nokkrar plötur og kóveruðu meðal annars bítlalagið "I am the Walrus". Kanadamaðurinn Jim Carrey gaf það reyndar líka út á plötu, en það er önnur saga (hey - Saga, frá Kanada!).

Þeir áttu, þrátt fyrir að gefa út örugglega hálfa tylft platna, bara eitt almennilegt hitt.

Smellurinn kom m.a. við sögu í Simpsons-þætti og líka Futurama-þætti. Þið hafið oft heyrt smellinn. Hann er á harða disknum í hausnum ykkar.

Hugsið vel hvaða lag þetta gæti verið og klikkið svo hér.

Annars er ég að spila á Dubliner í kvöld á Dubliner ásamt Binna og bassastæðunni hans. Það verður stuð.

Wednesday, August 09, 2006

Teningunum er kastað

Í dag eiga ammæli:

1. Nakasagi-sprengingin

2. Whitney Houston

3. Bjarni Randver vinur minn.

Til hamingju, öllsömul.

Einnig átti Bergur Geirs ammælí fyrradag og hlýtur hann heillaóskir.

Annars er ég hress. Lag dagsins.

Langnæstbesta proggrokksveitin sem komið hefur frá Toronto í Kanada.

Tuesday, August 08, 2006

Hratt...

flýgur stund.

Hér er skýrsla helgarinnar:

Spilaði á Dubliner, sem nú er undir nýrri stjórn, á miðvikudaginn. Svo lagði familían af stað strax á fimmtudagsmorguninn norður til Akureyris. Reyundar seinna en upphaflega var planað, sökum þess að við sváfum yfir oss og svo var sprungið framdekk á Bláu þrumunni þegar við komum út. Létum bara gera við dekkið, náðum í Stóra-Svepp og svo flaug ég norður á mörghundruð kílómetra hraða.

Kíktum aðeins út á fimmtudagskvellanum, við hjónin. Fórum á tónleika með Hvanndalsbræðrum ásamt Hauki frænda og var gaman að hitta gömlu félagana fyrir norðan. Hvanndalsbræður eru skemmtileg tónleikasveit og áttu allnokkra svaðafyndna punkta.

Föstudagurinn fór í að éta ma og pa út á gaddinn og horfa á V for Vendetta. Ágætismynd, en á engan veginn skilið allt þetta svaðahæp og ofurumtal.

Á laugardaginn átti kerlingin ammæli og því var anað út. Fórum á ball með Júróbandinu, hvar söngkonurnar Friðrik Ómar og Regína Ósk fóru á kostum. Hreint og beint ógeðfellt hvað þetta fólk getur sungið fyrir allan peninginn. Hef oft heyrt í Regínu og vissi vel að hún er schnillingur, en aldrei heyrt Friðrik Ómar áður á balli. Ég er þess fullviss að hann skrópaði í söngtímann þegar fölsku nóturnar voru kenndar. Þrátt fyrir að prógramm sveitarinnar, sem samanstóð eingöngu af Jóróvisjónlögum, væri mér lítt að skapi, fannst mér sveitin skemmtileg á að hlýða. Gaman líka að vita af því að trymbill, gítarleikari og hljómborðsleikari voru allir lausamenn, því meðlimir bandsins voru eihversstaðar uppteknir við önnur verkefni.

Svo kíktum við á Sixtís á Vélsmiðjunni. Á leiðinni þangað hittum við Davíð afleysingadreng og Friðrik Rush-mann, vin hans. Svo rákumst við á Ingó mág og fimmmenntum á ballið. Stuð og fjör. Steig á stokk og tók eitthvað Krídenslag áður en við kerla löbbuðum heim í bólið.

Á sunnudaginn átti Viddi bróðir ammæli og var þá aftur komið tilefni til að lyfta sér á kreik. Svo skemmtilega vill til að hann á ammæli sama dag og Hiroshima-sprengingin og sýnir það að dagur þessi er svartur í mannkynssögunni.
Við Viddi skelltum okkur á dansleik með Skímó eftir partýstand og smmákíkk á Júróbandið. Drógum Óskar félaga með, en hann er eitthvað á þriðja metra á hæð. Á Skímóballinu komst ég á ölvunarstigið þer sem ég ríf gítar af einhverjum og gestaði því aðeins fyrir framan þúsund ballgesti. Það var gaman. Djöflaðist svo mikið á sviðinu að ég missti uppáhaldsvasahnífinn minn upp úr lokuðum vasa og hef ekki séð hann síðan. Vona að rótararnir hafi fundið hann.

Svo staðfesti ég það vísindalega að ég get ekki hlaupið frá miðbæ Akureyrar, upp Brekkugötugilið, Brekkugötuna sjálfa, framhjá sundlauginni og upp í Víðilund í einum rykk. Ekki fargings séns.

Mánudagur - pakka saman og fara heim snemma til að losna við timbraða pakkið á stóru jeppunum. Það heppnaðist og því er ég lifandi í dag.

Áfram Magni!

Wednesday, August 02, 2006

Ekki skjóta!

Vissuð þið að Billy the Kid, eða Billi barnungi í lauslátri íslenskri þýðingu, var alltaf sagður örvhentur? Í öllum bíómyndum er hann örvhentur, rétt eins og ég og Leonardo da Vinci.
Engar samtímaheimildir segja hann örvhentan. Ástæðan fyrir þessari trú manna er líklega sú að aðeins er til ein ljósmynd af kvikindinu og á henni er hann með riffil í hendi og með skammbyssuna í belti vinstra megin. Þetta er eina heimildin fyrir örvhentu drengsins. Á myndinni er hleðslugatið á rifflinum vinstra megin, en á að vera hægra megin. Sumsé, myndin er spegilmynd. Gaman að því.