Friday, September 29, 2006

Tíðindalaust á vesturvígstöðvunum

Ég er enn að kafna úr kvefi.

Ég fyrirlít meira en nokkuð annað sjómenn sem fara að rífa kjaft og hóta ofbeldi þegar einhver kveikir sér í sígó á kerti.

Mér finnst þetta meira en ógeðslega fyndið. Alveg rídikkílus.

Í hádeginu fékk ég lamb með bernesi og viðurstyggilega góða súpu. Hvað borðaðir þú?

Manstu eftir þessu?

Eyvindur gestaði hjá mér í gær, þegar ég var að missa röddina sökum kvefs. Það er í fyrsta skipti sem hann er minna rámur en ég. Kann ég honum þakkir.

Bið að heilsa.

Wednesday, September 27, 2006

Bull og vitleysa

Mikið er gaman að því hvað maður fær mörg komment. Mikið stuð.

Búinn að vera alltof veikur og asnalegur upp á síðkastið, kvefdrulla og hausverkur. Hor í lítravís daglega, grænna en Framsóknarflokkurinn í heild sinni og álíka gáfað.

Í Grapevine sorpritinu er ætíð (eða var allavega, ég er hættur að lesa þetta drasl) ein síða hvar fjallað er um íslenska stjórnmálaflokka. Gaman að sjá hvað þeir heita á ensku. Framsók er Progressive Party, sem fær mann enn betur til að sjá hvurslegs rangnefni það er. Samfylkingin er The Alliance. Ég kunni betur við samnefndan flokk í bíó. Sá hafði allavega einhverja stefnu.
Þó verð ég að taka fram að síðasta útspil Samfylkingarinnar, frumvarp um lækkun matarverðs, er ei svo vitlaust. Eitt af því sem þeir lögðu til var lækkun verndartolla á erlendar landbúnaðarafurðir. Eins og við var að búast urðu bændur gersamlega kreisí, enda ekki nóg að fá nærri tvo tugi milljarða árlega í styrki - sem talað er um að komi til með að hækka - frá ríkinu, heldur þarf að hækka verð á innfluttum vörum í sömu flokkum. Bévítans ofverndun.

Var annars að horfa á franska spennumynd, sem kom mér skemmtilega á óvart. Nefnist hún 36 og skarta bæði þarna Gerald Departure og hinni gullfallegu (svo vægt sé til orða tekið) Valeríu Golino. Skemmtileg löggumynd þrátt fyrir bévítans hrognamálið. Að sjálfsögðu er Kaninn að smíða endurgerð, sem hinn germanski Marc Foster á að leikstýra (Finding Neverland, Monster´s Ball). Talað er um De Niro og Clooney í aðal á spjallsíðum þar ytra. Hreint drullufín mynd og kemur á óvart fyrir allan peninginn.

Nú er í tækinu Pink Panther, nýja versjónin. Einu sinni var Steve Martin svakalega fyndinn, en nú er hann álíka fyndinn og risvandamál. Franski framburðurinn hans gæti ekki blekkt heyrnarlausan Texasbúa. Af hverju í ósköpunum er ég að horfa á þetta? Af hverju borgaði ég sexhundruðkall fyrir myndina á útsölu? Ég veit samt af hverju myndin var á útsölu, hún sýgur smokkfisk.

Ég er að hugsa um að drekka ekki brennivín í smástund. Ætli ég haldi út mánuðinn?

Tuesday, September 26, 2006

Ómar

Þessar fréttir komu mér gersamlega í opna skjöldu - Ómar Ragnarsson, sem hingað til segist hafa verið gersamlega hlutlaust (þarna öðlast orðið hlutlaust nýja merkingu) hefur nú lox tekið afstöðu í Kárahnjúkamálinu - hann er á móti virkjuninni! Þetta hefði mig aldrei grunað!

En svona spauglaust, þá hefði löngu átt að vera búið að reka hann með skít og skömm úr bæði starfi og blaðamannafélaginu fyrir grófa misnotkun á stöðu sinni sem fréttamaður. Ég hef aldrei, ekki einu sinni í hinum eldrauða Spegli hjá Rúv, orðið vitni að eins huglægri fréttamennsku. Ómar að fjalla um Kárahnjúka er eins og að fá Gunnar í Krossinum til að fjalla á hlutlægan hátt um Gay Pride. Eins mætti reka með skít og skömm kvenprestsófétið sem boðaði andstöðu við Kárahnjúkavirkjunina í predikunarstólnnum sl. sunnnudag. Það er einnig misnotkun á aðstöðu sem á sér fá, ef nokkur, fordæmi hérlendis.

Mér finnst þessi Kárahnjúkamúgæsing vera komin gersamlega út í öfgar og hefur fundist það frá því kennarar við skóla nokkurn í borginni gáfu krökkum, ca. 10 vetra, frí til að fara í bæinn og mótmæla virkjuninni.

Ég vil taka fram að ég, sem slíkur, er ekki að fella nein tár þó svo þessu landssvæði (sem Hjörleifur Guttormsson sagði í blaði Ferðafélagsins að ferðamenn hefðu ekkert að sækja til) verði breytt í gullfallegt uppistöðulón. Þó svo að skoðun fréttamanns og prests skarist eilítið á við mína eigin, er það ekki málið. Það er þessi hlutdrægni, sem enginn fréttamaður ætti að sýna, sem pirrrar mig óendanlega og ætti aldrei að líðast í neinum fjölmiðli.

Saturday, September 23, 2006

JFK

Hver drap JFK?

Búmm

Mér finnst þessi auglýsing nokkuð skemmtileg. Til að valda engum misskiningi er engin tenging milli þessa myndkeiðs og síðustu færslu minnar.

Ég er ekkert að spila um helgina, bara snýta mér og horfa á fyrstu seríu af Monk með konunni. Börnin liggja vonandi sem mest frammi og éta nammi (þetta rímaði).

Tuesday, September 19, 2006

Páfinn

Fyndið þetta með páfann. Hann vitnar í gömul ummæli löngu dauðs kalls, sem hafði sagt að Íslam væri ofbeldisfull trú. Múslimar bregðast við með hótunum um ofbeldi í allar áttir og eru meira að segja búnir að stúta allavega einni nunnu. Gæti mögulega verið að kannski væri eitthvað sannleikskorn einhversstaðar í þeim texta sem páfinn vitnaði í?

Nú er árið 1384 hjá Múslimum og þeir haga sér jafnvel verr en kaþólskir gerðu þegar þeir höfðu sama ártal. Hér á vesturlöndum er æði margt farið að snúast um að stíga varlega til jarðar kringum Múslimana, því annars gætu þeir farið í fýlu og gert okkur eitthvað, samanber hina feykimálefnalegu meðferð sem danska þjóðin (og í sumum tilfellum noðurlöndin í heild sinni) fengu þegar einhverjir sárafáir aðilar ákváðu að birta skopmynd af spámanninum. Á sama tíma og elliær páfinn vitnar í einhvern annan - og enginn virðist einu sinni vita í hvaða samhengi það var - hvetja Íranir til til árása á aðra trúflokka (Gyðinga) og aðrir "sanntrúaðir" sömu trúar hvetja til morða og óeirða. Svo verða þeir brjálaðir ef elliært gamalmenni segir eitthvað sem fer í taugarnar á þeim eða einhver teiknar skrípó sem er þeim ekki að skapi.

Ég efast ekkert um að flestir Múslimar eru friðsamir og velviljaðir, en þeir mættu hafa aðeins hærra þegar trúbræður þeirra hvetja til fjöldamorða og aðeins lægra þegar einhver teiknar skrípó. Eins mættu líka fréttamenn leita álits formanns félags Múslima á Íslandi þegar trúbræður hans hvetja til morða, ekki bara þegar vesturlandabúar nýta sér málfrelsi það sem hér er til að birta myndir af Allah.

Þetta var ég að nýta mér málfrelsi mitt. Á morgun verð ég væntanlega að leita að sprengum áður en ég starta bílnum mínum.

Friday, September 15, 2006

Já, nú er gaman

Í gær, meðan ég lék og söng lagið Karma Police á Dubliner, steytti gamall maður hnefann að mér og gargaði. Svo kom hann og lét gamminn geysa um hvað þetta væri ógeðslegt lag og ekki mönnum bjóðandi. Spurði mig hvort ég héldi virkilega að einhver hefði gaman af þessu helvíti. Hélt að lagið væri eftir mig. Ég tjáði honum að lagið væri erlent og hefði selst í milljónaupplagi, því blessunarlega væri smekkur manna mismunandi og margir hefðu bara voða gaman af svona tónlist (var aldrei þessu vant voða dipló og kurteis). Þá sagði hann mig ljúga, lagið væri viðbjóður og enginn hefði gaman af þessu. Enginn.

Mér finnst svo gaman hvað fólk verður víðsýnt og skilningsríkt með aldrinum.

Ég er annars hress sem Hemmi, er að fara að leika með strákunum á Dubliner á eftir. Lofa að vera í svakastuði.

Thursday, September 14, 2006

Stuð að afloknu Rokkstari

Syfjaður eftir að hafa horft á fyrirsjáanlegustu úrslit sjónvarpssögunnar í nótt, hvar sá versti fór með sigur af hólmi. Hef ég margoft sagt opinberlega í ræðu og riti að Skúnkurinn væri fyrirfram ákveðinn sigurvegari, enda ekki annað mögulegt þegar menn hrósa honum í hástert hvað eftir annað fyrir frammistöðu sem myndi ekki landa honum stöðu bakraddasöngvara í upphitunarhljómsveit hérlendis. En hvað um það, við megum vera ánægð með Magna, hann var drullugóður og hagaði sér alltaf vel og fallega og var aldrei með stæla eða leiðindi (nema eitt sinn við einhverja ljósku, sem var með stæla sjálf hvort eð er).
Prýðislandkynning.

Eníhjú, ég er, sem slíkur, að leika á Bar Satans (Djöflíner) í kvöld og lofa því að vera í megastuði. Já, mega segi ég og skrifa.

Má til með að deila með ykkur fimmaurabrandara sem varð til í gær. Ég var farþegi í bíl sem rakst eilítið utan í annan bíl á allnokkurri ferð. Varð úr því allnokkuð högg, en þó nokkuð minni skemmdir. Kári, vinur minn og fyrrum vinnufélagi, var einnig farþegi í bílnum og kvaðst hafa verið dauðhræddur. Hann sagði eitthvað í áttina að "Ég sá bara allt lífið á einu andartaki renna fyrir augum mér, en svo áttaði ég mig á því að þetta var bara rúðuþurrkan".

En þá að alvarlegri málum úr umferðinni - ég sá auglýsingu í blaðinu í dag, hvar birtar eru myndir af þeim sem hafa látist í umferðinni nú það sem af er árinu. Ekki bara það að ég kannaðist, og það af góðu einu, við eitt andlitanna. Það var líka fjöldi andlitsmyndanna sem sló mig aðeins utanundir. Ég hugsaði með mér að það eina sem ég gæti gert væri að reyna að keyra sjálfur eins og maður. Gefa stefnuljós, taka eilítið meira tillit til annara ökumanna og aka á stundum aðeins hægar og sýna meiri aðgát.

Svo kannski að biðja ykkur um að gera slíkt hið sama.

Vonandi verða myndirnar ekki fleiri á árinu. Þetta er ekki sjálfsagður kostnaður.

Wednesday, September 13, 2006

Mannréttindi

Mannréttindanefnd borgarinnar er í fréttum í dag. Fyrir skemmstu var nefndin í fréttum vegna úttektar hennar á svokölluðum nektarstöðum og var tilgangur úttektarinnar að reyna að finna út hvernig mætti finna einhvern flöt á að loka stöðunum og koma í veg fyrir starfsemi staðanna. Kom reyndar hvergi fram að nokkur mannréttindi hefðu verið brotin neinsstaðar, en stöðunum skal samt lokað.
Nú í Fréttablaðinu í dag er sagt frá fulltrúa VG í Mannréttindanefnd, Sóley Tómasdóttur, sem setur út á auglýsingu Orkuveitunnar, sem angraði landsmenn nýverið. Ekki var sett út á það hversu auglýsingin var einstaklega leiðinleg, heldur það að í henni voru fullklæddir karlmenn, en fáklæddar konur.

Er ekki einhverskonar brot á mannréttindum að skattfé okkar almennings skuli vera brúkað til að halda uppi nefndum, sem virðast ekkert skárra hafa fyrir stafni en að koma fram með svona bévítans kjaftæði?

Uppáhaldssetningin mín í andartakinu er úr lagi með Bó og Baggalút. "Femínistabeljur súpa sjálfsagt kveljur". Hrein snilld.

Eníhjú, tókst að vakna in tæm fyrir Rokkstar í gær. Þó svo þátturinn sé hin besta skemmtun sem slíkur er Magnavakan einhvernveginn ekki alveg að gera sig. Gaman af þessu samt.

Þessi frétt er annars skemmtileg.

Tékkið endilega á treilerunum hér í lok fyrri pistils. Þeir eru grúví.

Lag dagsins.

Tuesday, September 12, 2006

Áfram Magni!

Nú er alveg stranglega bannað að gleyma að muna eftir Rokkstar í kvöld. Kjósa Magna svo alveg út í eitt. Munið að það er stranglega bannað að kjósa þarna kanadíska grenjuskunkinn.

Haukur frændi farinn út að horfa á þáttinn annað kvöld, því þátturinn í kvöld var tekinn upp á sunnudaginn eins og allir vita. Það á samt að kjósa og allir að vera memm.

Fyrir skemmstu setti ég inn nokkur orð varðandi baksíðuþanka Davíðs Radíusbróður í Fréttablaðinu. Grein hans hefur dregið eilítinn dilk á eftir sér eins og sjá má hér.

Má annars til með að benda á eitt í þarsíðasta tölublaði Grapevine sem mér finnst slá flestallt annað út í smekkleysu. Það er eilítil umfjöllun um Súperman-myndina nýju. Þar segir að myndin fjalli um endurkomu Súpermanns "after two decades of being a lazy, paralyzed bitch". Einkar smekklegt.

Davíð Þór setti eilítið út á umfjöllun Grapevine um Rockstar-þáttinn, enda full ástæða til. Í nýjasta Grapevine er grein eftir Bart Cameron undir yfirskriftinni "Reality check - Iceland goes nutty for a flop". Þar segir hann frá því að hann hafi nýverið skroppið til Bandaríkjanna. Þar spurði hann föður sinn um þáttinn og kom í ljós að faðirinn (sem ég geri ráð fyrir að sé allavega um miðjan aldur) kannaðist ekki við sjónvarpsþáttinn Rock Star. Af þessu dregur maðurinn eftirfararandi ályktun: "It turns out nobody in America is watching Magni..."

Má geta þess að í Bandaríkjunum horfðu u.þ.b. sjö milljónir á síðasta þátt, sem er óneitanlega u.þ.b. sjö milljónum fleiri en lesa Grapevine. Eru þá ótaldir áhorfendur utan USA, en víða annarsstaðar er þátturinn gríðarvinsæll.
Sama þó þetta sé ekki vinælasti þátturinn sem sýndur er í heiminum, Magni er óneitanlega sá Íslendingur sem mest er í fréttum erlendis, eins og sjá má ef hann er "gúgglaður".
Í sömu grein fjallar Bart þessi um árásir "tweaked-out former editor of a porn magazine" á blaðið. Einkar skemmtilegt alltsaman.

En yfir í annað skemmtilegra - hann Hansi á ammæli í dag. Hann getur meira að segja lesið þetta núna, því kommúnistastjórnin í Kína er hætt að blokkera netið í jafnmiklum mæli og áður var. Því getur hann Hansi lesið bloggið mitt. Jibbí.

Til lukku, gamli hestur.

Dóttir hans átti einnig ammæli í gær og varð fjögurra vetra. Því verða væntanlega leifar í ammælinu hans Hans í dag... eða í gær, því núna er 13. sept að smella á í Kína, því þeir eru litlum 8 tímum á undan. Samt eru þeir einhvernveginn langt á eftir. Bévítans kommúnistar.

Kannski er ég að selja Fernandesinn minn - ég er ekki viss. Lét Marshall-magnarann minn nýverið, en hann notaði ég aldrei. Sé samt eftir honum. Nota Fernandesinn svo til aldrei, en hann er samt frábær. Kem pottþétt til með að sjá mikið eftir honum ef í það fer. Mikið svakalega er maður geðveikur...

Annars sýnist mér á öllu að þessi mynd verði síður en svo líkleg til að drepa mann úr leiðindum. Hlakka mikið til. Svo er þessi örugglega hress líka.

Saturday, September 09, 2006

Börn, fólk í útlöndum, Storm og eitthvað fleira

Í dag er gott að eiga svona ungling. Ég í vinnunni, kerlingin í vinnunni sinni og unglingurinn minn heima hjá mér að passa litla bróður sinn í veikri von um borgun. Þar sem kerla er að vinna fram á kvöld og svo að fara í partý erum við mjög hamingjusamir, því nú ráðum við alveg hvað er í sjónvarpinu og hvað er í matinn. Óhollusta í matinn og ógeð í sjónvarpinu (allavega eftir að litli sofnar).

Enn er ég í eilitlu svekkelsi yfir því að Storm hafi verið send heim úr sjónvarpsþætti allra landsmanna hér um kvöldið. Agalegt hjá strákunum að gera svona. Bæði skunkurinn og marglita Afríkuskessan máttu fara, bara ekki Storm, því hún er svo sæt og fín. Því ákvað ég að linka á frumsamda lagið, sem hún söng í síðasta þætti. Það er hér.


Haukur frændi minn er að fara í boði KFT til Ameríku að sjá Magna í úrslitaþættinum. Mikið svakalega er hann heppinn, karlpungurinn. Ég verð bara að sjá þetta í sjónvarpinu mínu. Samt borða ég miklu oftar en Haukur á KFT. Agalega ósanngjarnt. En það er samt gott að hann vann ferðina en ekki einhver leiðinlegur, það hefði verið óþolandi ef Leoncie og Geir Ólafs hefðu unnið.

Myndir kvöldsins eru ein sería af Tales of the Unexpected (óvænt endalok) og Sentinel, sem ég sofnaði yfir í gær.

Friday, September 08, 2006

Föstudaxvælið

Arg! Þegar ég kom heim úr vinnunni í nótt - var sumsé að spila á Döbblíner - vaknaði stákurinn minn og harðneitaði að fara aftur að sofa. Ég held ég hafi sofnað svona sirka klukkan sex. Því lít ég út eins og nýaðgerður þorskur og geispa ótt og títt - þó ekki golunni. Geispandi golþorskur.

Var að heyra nýverið af nýja hljóðmannaskólanum í Sándtékklandi. Ég þekki bara tvo staði þar í landi, en það eru Balalækur og Fídbakki. Þar er örugglega gott að búa.

Nú, helsta fréttin er sú að Einar stóri og Magga stóra eignuðust barn í gær og var það tæpar 20 merkur að þyngd. Já, TUTTUGU MERKUR!!! Svona um það bil eins og að fæða veghefil. Ég hef þegar lofað Einari fimmþúsundkalli ef strákurinn verður nefndur Ingvar.

Magni á leið í úrslitaþáttinn í keppninni um söngvarastöðuna í Súpernóvu. Ég er alveg hundrað prósent viss um að það er löngu búið að ákveða að Lúkas Njúmetaldvergur hreppir hnossið. Magni kemur bara heim og meikar milljónir og hefur það gott undir nýju dúnsænginni sem einhver búð var að gefa honum. Hann á það líka fyllilega skilið, prýðisdrengur. Samt, fyrst Magni vann mig í Hemma Gunn ætti hann að fara létt með að vinna kanadískan væluskunk, sem málar sig meira en hollensk mella. Demitt. En ef ekki, þá hefur hann allavega spilað með þremur heimsfrægum rokkurum og það er meira en ég get sagt.

Hvað um það, ég er farinn heim að góna á sjónvarpið með börnunum mínum. Dettið hægt út um gleðinnar dyr.

Wednesday, September 06, 2006

Heillahamingjuóskir

Mig langar að óska Adda Fannari, hinum rauðhærða gítarleikara Skítamórals, og konu hans, Jesmine, til lukku með stúlkuna sem kom í heiminn fyrir fáum dögum. Þau öll lengi lifi.

Annars er þetta fyndið. Áfram Magni.

Monday, September 04, 2006

Krókódílamaðurinn

Steve Irwin dauður. Ekki var hann étinn af krókódíl eða kraminn af kyrkislöngu, né bitinn af baneitraðri kónguló. Hann fékk gaddaskötugadd í hjartað, sem er greinilega ekki hollt. Eitur skötunnar er víst ekki hollt og ekkert mótefni til. Grey kallinn. Mér fannst hann skemmtilegur þó hann hafi augljóslega verið kexruglaður í höfðinu. Það er þó skiljanlegt, maður verður eflaust skrýtinn ef maður er alinn upp á skriðdýrabúi sem stendur við á sem er full af krókódílum.

Annars varð ég hlessa í gær er ég las pistil Davíðs Þórs Radíusbróður aftan á Fréttablaðrinu. Ég er nefnilega næstum aldrei sammála neinu sem hann segir, þó mér finnist hann æði oft mjög fyndinn. Ég var hinsvegar hjartanlega sammála honum þegar hann rakkaði niður unglingablaðið Reykjavík Grapevine, sem virðist hafa haft það á stefnnuskránni að rakka niður allt og alla upp á síðkastið á rætinn og ósanngjarnan hátt. Tók hann sem dæmi umfjöllun, ef umfjöllun skyldi kalla, blaðsins á frammistöðu Magna í Rockstar og hálfógeðfellda grein blaðsins um afmælistónleika Bubba Morthens.
Hann hefði einnig getað minnst á fáránlega grein um Ian Anderson-tónleikana og dóm Sindra Eldon um tónleika Honeyboy í fyrra. Sindra var nefnilega hent út af tónleikunum fyrir að stela bjór í baksviðsaðstöðunni, hvar hann hafði alið manninn það sem af var tónleikunum. Hindraði hann þó ekki í að skrifa dóm um þá.
Davíð Þór sagði í pistli sínum að blaðamenn Grapevine (sem hann kallaði Greip væl) sæu greinilega ekki muninn á háði og níði. Pistillinn í alla staði fínn og tékkið endilega á honum ef Fréttablaðið síðan í gær er ekki komið í ruslatunnuna.

Hvað um það, var að fjárfesta í Sentinel á dvd og þótti gáfulegt að kippa með tveimur diskum, troðfullum að þáttunum "Óvænt endalok", sem Rúv sýndi hér um og fyrir 1980. Þættirnir voru gerðir eftir smásögum eftir Roald Dahl, en hann skrifaði bæði söguna um Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna og handritið að Bond-myndinni You only live twice (sem reyndar markar upphafið af hnignum Bond-seríunnar). Hlakka mikið til að horfa á það og er ég einnig viss um að mamma mín, sú yndislega kona, er til í að fá þá lánaða.
Kom mér á óvart að þegar ég las aftan á hulstrið (sem ég geri reyndar helst ekki fyrr en að áhorfi loknu) mundi ég greinilega eftir nokkrum þáttanna. Man sérstaklega eftir þættinum "Poison" hvar eiturslanga kom við sögu. Svona er maður gamall, ég man þætti sem ég sá í imbanum fyrir hálfum þriðja áratug síðan og rúmlega það. Áttaði mig líka á því að þegar ég fékk bílpróf var ófætt sumt það fólk sem nú er búið að hafa bílpróf síðan í fyrra.

Pistli lokið, verið sæl, kjósið Magna.

Ha?

Mikið svakalega var gaman í gær. Við Swiss-menn spiluðum í brúðkaupi Svandísar frænku minnar frá Hauganesi, en hún er einmitt - eins og mín ætt öll - eðalpersóna.
Alveg hreint svakalega sæt og fín í brúðarkjólnum og karlinn hennar hrein snilld. Guffi trommari var vant við látinn svo við fengum Odd nokkurn rafvirkja til að hlaupa í skarðið, en hann er nú svo frægur að hafa verið í Tappa Tíkarrrassi með Björk og Eyþóri Arnalds. Hann mætti með spilunkunýtt Pearl Reference-sett úr búð Tóna og er það eitt fallegasta trommusett sem ég hef séð og heyrt í. Oddur stóð sig í alla staði vel og var í fullri vinnu við að draga úr hraðanum í mér, en undanfarið hef ég spilað öll lög á Skímóhraða. Verð að vinna í því.
Eníhjú, ég fékk fullt að éta og drekka í veislunni og var gaman að hitta ættingja sem ég hef ekki hitt lengi og eiga gott og uppbyggjandi spjall (sem sagt, drekka brennivín með þeim). Brúðguminn lék eitt Bubbalag fyrir frænkuna á Garrisoninn minn, sem er besti gítar í heiminum. Hef heyrt betri flutning, en aldrei einlægari.
Svo kíkti ég ögn í bæinn og gestaði með Inga Val, Rúnari, Bergi og Jómba á Amsterdam. Mér er sagt ég hefi verið fínn. Kom heim mjög snemma samt - í morgun.

Var svo að leika á Döbb áðan. Gaman að því. Einvalalið gesta og þetta var eitt af þessum skemmtilegu kvöldum þar sem maður getur gert sirka það sem manni sýnist.

Nú er Patrick Swayze í sjónvarpinu að leika Quatermain og leitar að námum Salómons konungs af miklum móð. Hann var fínn í Point Break og Donnie Darko, allt annað með honum sýgur golþorskastofninn í heild sinni.

Leikaragetraun...

Hver er kallinn?

Pabbi hans er bókmenntaprófessor og bróðir alveg rosalega frægs manns.

Leikarinn sem spurt er um var giftur mjög frægri kerlu eitt sinn. Var líka giftur konu sem mér finnst ein sú mest foxí í geimnum. Nú er hann giftur konu sem er ekkert fræg, nema fyrir að vera konan hans. Hvað er með þetta fólk, giftir það sig bara að gamni sínu? Fokkings heiðingjar.

Hann var drepinn í einni mynd - sem ungur frændi hans leikstýrði - með því að hausinn á honum var settur ofan í djúpsteikingarpott.

Hann er hálfur Þjóðverji og góður vinur Tom Waits.

Listamannsnafn hans er tekið frá teiknimyndasöguhetju. Hann á einnig son sem ber nafn úr sama geira.

Hann hefut leikið vampíru, hryðjuverkamann, slökkvikall, glæpamenn, alkóhólista, hermann og ég veit ekki hvað og hvað.

Jæja, hver er kallinn. Þessi á að vera auðveldur...

Saturday, September 02, 2006

Veiðiveislan, almennt röfl og getraun

Ligg hér á sófa Sveins og horfi á The Hunting Party á MGM-stöðinni. Alltílæ ræma.

Rifjaði svo upp Airport ´77 og er hún alltaf skemmtileg. Þarf að rifja upp allt safnið, en þær voru fjórar talsins. Síðasta, Airport ´79 - The Concorde, var samt síst þeirra. Mér finnst líka George Kennedy, sem var sá eini sem lék í þeim öllum, töffari. Sjáið endilega Thunderbolt and Lightfoot, hvar hann leikur á móti Jeff Bridges og Clint Eastwood. Kennedy var hermaður í USA í heimsstyrjöldinni síðari og lengi vel á eftir. Hann þjónaði í sveitum Pattons, sem hann lék seinna í Brass Target.

Annars var Litli-Sveppur með hita í dag og því komst ég ekki til vinnu. Leiðinlegt. Merkilegt samt að þegar hann er veikur er hann eins og raketta um alla íbúð, uppi á öllu, undir öllu, klifrandi eins og Tarzan og hlaupandi hraðar en Jesse Owens þegar hann niðurlægði Hitler. Ég held það séu spólför eftir krakkann á parketinu.

Litli sá mynd af Hitler í dag og sagði að hann væri með flott skegg. Ég var að hugsa um að segja að þetta væri Adolf frændi, en hætti við. Það gæti valdið misskilningi á leikskólanum.

Best að skjóta fram leikaragetraun.

Hver er karlinn?

Hann hefur leikið á móti Peter Sellers, O.J. Simpson, Laurence Oliver, James Mason, Sean Connery og Richard Burton.

Hann hefur farið með hlutverk í mörgum vinsælum sjónvarpsþáttaröðum, t.d. tveimur sem eru sýndir núna á Skjá einum og Stöð 2.

Hann var giftur frægri leikkonu - tvisvar. Svo dó hún óvart. Hafði ætlað að eyða deginum í annað.

Í frægri mynd lék hann mann sem var að halda framhjá. Það endaði á því að það kviknaði í honum.

Hann heitir sama eftirnafni og einn frægasti músíkant sögunnar.

Svör óskast, verðlaun gætu t.d. verið einn svellkaldur á Döbb eða út að borða fyrir tvo á Subway, með því skilyrði að hinn aðilinn sé ég.

Hvernig stendur annars á því að Húsavík er staður en Lúðvík er kall? Lúðvík í Mýrdal. Álverið á Lúðvík. Bæjarstjórn Lúðvíkur. Siglt er frá Lúðvík til Kyrrþeyjar.

Afsakið.