Monday, September 04, 2006

Krókódílamaðurinn

Steve Irwin dauður. Ekki var hann étinn af krókódíl eða kraminn af kyrkislöngu, né bitinn af baneitraðri kónguló. Hann fékk gaddaskötugadd í hjartað, sem er greinilega ekki hollt. Eitur skötunnar er víst ekki hollt og ekkert mótefni til. Grey kallinn. Mér fannst hann skemmtilegur þó hann hafi augljóslega verið kexruglaður í höfðinu. Það er þó skiljanlegt, maður verður eflaust skrýtinn ef maður er alinn upp á skriðdýrabúi sem stendur við á sem er full af krókódílum.

Annars varð ég hlessa í gær er ég las pistil Davíðs Þórs Radíusbróður aftan á Fréttablaðrinu. Ég er nefnilega næstum aldrei sammála neinu sem hann segir, þó mér finnist hann æði oft mjög fyndinn. Ég var hinsvegar hjartanlega sammála honum þegar hann rakkaði niður unglingablaðið Reykjavík Grapevine, sem virðist hafa haft það á stefnnuskránni að rakka niður allt og alla upp á síðkastið á rætinn og ósanngjarnan hátt. Tók hann sem dæmi umfjöllun, ef umfjöllun skyldi kalla, blaðsins á frammistöðu Magna í Rockstar og hálfógeðfellda grein blaðsins um afmælistónleika Bubba Morthens.
Hann hefði einnig getað minnst á fáránlega grein um Ian Anderson-tónleikana og dóm Sindra Eldon um tónleika Honeyboy í fyrra. Sindra var nefnilega hent út af tónleikunum fyrir að stela bjór í baksviðsaðstöðunni, hvar hann hafði alið manninn það sem af var tónleikunum. Hindraði hann þó ekki í að skrifa dóm um þá.
Davíð Þór sagði í pistli sínum að blaðamenn Grapevine (sem hann kallaði Greip væl) sæu greinilega ekki muninn á háði og níði. Pistillinn í alla staði fínn og tékkið endilega á honum ef Fréttablaðið síðan í gær er ekki komið í ruslatunnuna.

Hvað um það, var að fjárfesta í Sentinel á dvd og þótti gáfulegt að kippa með tveimur diskum, troðfullum að þáttunum "Óvænt endalok", sem Rúv sýndi hér um og fyrir 1980. Þættirnir voru gerðir eftir smásögum eftir Roald Dahl, en hann skrifaði bæði söguna um Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna og handritið að Bond-myndinni You only live twice (sem reyndar markar upphafið af hnignum Bond-seríunnar). Hlakka mikið til að horfa á það og er ég einnig viss um að mamma mín, sú yndislega kona, er til í að fá þá lánaða.
Kom mér á óvart að þegar ég las aftan á hulstrið (sem ég geri reyndar helst ekki fyrr en að áhorfi loknu) mundi ég greinilega eftir nokkrum þáttanna. Man sérstaklega eftir þættinum "Poison" hvar eiturslanga kom við sögu. Svona er maður gamall, ég man þætti sem ég sá í imbanum fyrir hálfum þriðja áratug síðan og rúmlega það. Áttaði mig líka á því að þegar ég fékk bílpróf var ófætt sumt það fólk sem nú er búið að hafa bílpróf síðan í fyrra.

Pistli lokið, verið sæl, kjósið Magna.

9 Comments:

Anonymous Anonymous said...

var í bíói regnbogans í gær og í myndinni sagði einn dúddi við annan sem var eitthvað að barma sér:
"I´ve probably sleept longer than you´ve lived"
Þetta getur þú farið að segja bráðum við djammliðið.
Ekki bauna þessu á mig, væni, ég sef alltaf eins lítið og hægt er, enda ungur sem lambhrútspungur.
Arnmundur í ungliðahreyfingunni.

9:26 PM  
Anonymous Anonymous said...

...svo gleymdi ég að láta vita að ég hef eina bók í hillu sem þú átt. Heitir hún smakkarinn eftir hann Roald litla Dahl og stendur þétt við hlið "selected works of Mao Tsetung" sem er bundin inn í eldrauðan kjöl og er náttúrulega bara frábær í alla staði.

9:31 PM  
Anonymous Anonymous said...

Sammála umm þetta volæðis barn Bjarkar. Þessir dómar eru honum ansi mikið til skammar svo ekki sé talað um skömmina sem hann gefur móður sinni fyrir þetta barnalega hjal.
Hefði talið að foreldrar viðkomandi kjána ættu að hafa vit fyrir barninu.

11:07 PM  
Anonymous Eyvindur said...

Já, eru ekki einmitt allar þessar greinar sem þú nefndir þarna eftir Sindra? (Ég er ekki búinn að komast í Fréttablaðið... Fæ það ekki heim til mín) Allavega skrifaði hann um Bubbatónleikana og gott ef hann skrifaði ekki líka um Magna (þori samt ekki að fullyrða um það).

Skrif Sindra hafa einmitt farið mikið í taugarnar á mér, ekki síst í ljósi þess að þau koma miklu óorði á Grapevine, sem hefur annars oft verið mér mjög að skapi. Það er eins og Sindri hafi einsett sér að gefa engu jákvæða gagnrýni nema Ghostigital... Semsagt: Sindra finnst tónlist leiðinleg.

1:18 AM  
Blogger Olga Bj� said...

Alveg sammála þér með þessa grein Davíðs Þórs. Kominn tími til að einhver rísi upp og segi svona ekki fyndið og að óalandi lið megi gera það sem því sýnist í blaðamennsku.

Sindri og Hjálmar Hjálmarsson voru í viðtali í Kastljóssþætti rétt fyrir verslunarmannahelgi og það var hreint leiðinlegt að hlusta á Sindra því hann var eins og fúli föndrarinn allan tímann. Kannski átti það að vera kúl og ég orðin gömul...

Eitt fyndið þó sem hann sagði þegar hann var spurður að því hvað hann ætlaði að gera um helgina fyrst hann þolir ekki fólk. Hann svaraði: "Ég ætla bara bara með vini mínum út á land og ef við sjáum fólk þá förum við í hina áttina". Sem var kannski best fyrir alla.....

6:11 AM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Veit ei hvort Sindri skrifaði Magna-pistla Grapevine. Þeir eru allavega tveir, annar mjög barnalega orðaður og ósmekklegur í alla staði (sagt að flutningur Magna á Nirvana-lagi hafi fengið Cobain til að rísa upp úr gröf sinni og skjóta sig aftur í maðkétið höfuðið)og hinn meira og minna hrein og klár lygi (umfjöllun um Rockstar-partý á Gauknum, hvar ég var einmitt staddur og get því fullyrt að margt í greinnni var hreinn og klár uppspuni frá rótum).
En hrikalega vond "gagnrýni" um Ian Anderson-tónleikana var undirrituð af Helga Val. Þetta er þó langt frá því að vera það eina slæma við blaðið, sem virðist fulloft ekki láta sannleikann standa í vegi fyrir umfjöllunum sínum.

8:35 AM  
Anonymous Pétur Örn said...

Magnað að Davíð skuli skrifa þessa grein því ég var einmitt að ræða þetta um daginn við fólk og komst að því daginn eftir þær umræður, mér til mikillar gleði, að Bart Cameron ritstjóri Grapevine er hættur og farinn aftur til USA.
Vonandi hættir þetta listahommapakk þá að skrifa greinar um "rétta" fólkið til að komast fram fyrir á Sirkus og Kaffibarnum.

9:57 PM  
Anonymous Eyvindur said...

Fyrst og fremst finnst mér Grapevine bara vera gott mótvægi við hina fjölmiðlana á Íslandi. Þarna fáum við hálfan sannleika sem vegur upp á hinum hálfa sannleikanum. Svo er hins vegar spurning hvað gerist ef maður les blöð sem eru hálffull af lygum í aðra áttina og blandar því svo saman við blað sem er hálffullt af lygum í hina áttina. Fær maður þá allan sannleikann, eða verður allt lygi? Og ef maður vill bara fá þessar lygar og sætta sig við þær, skiptir þá einhverju máli hvort það er logið í mann frá hægri eða vinstri?

2:48 AM  
Anonymous Anonymous said...

Lygin kemur öll frá hægri, aldrei frá vinstri, eyvindur og þið hin.
And that´s the truth, Ruth...
Lifi sannleikurinn frá vinstri.

10:30 AM  

Post a Comment

<< Home