Thursday, October 26, 2006

Einar ammæli - Andy hættur!

Til hamingju með ammælið, Einar minn. Dröslaðu þínum rauða haus og öllu sem honum fylgir á Döbb í kvöld og ég skal gefa þér Guinness í ammælisgjöf.

Að öðru leyti er dagurinn ónýtur, því ég var að fá þær fréttir að Andy Taylor væri hættur í Duran Duran sökum ágreinings. Hann var t.d. aldrei fyllilega sáttur við að fara í samstarf við Justin Timberlake og hefur líka verið voða mikið veikur eitthvað. En þar sem ég náði að sjá "Fab Five" tvisvar, bæði í Egilshöll og Wembley, er ég nokkuð sáttur við það. Sjá nánar á heimasíðu Duran Duran.

Lög dagsins eru tvö, annarsvegar með Duran og hinsvegar með Power Station.

Lifið heil.

Tuesday, October 24, 2006

Hútters

Mér sýnist vart nokkur kjaftur hafa klikkað á linkinn í síðustu færzlu. Kíkið endilega og gægist einnig á þetta hér og þetta hér.

Þess má geta að sveitin heitir ekki í hausinn á veitingastöðunum, heldur hljóðfæri.

Svo er minns að spila á Döbb í kvöld. Það verður eflaust ágætt.

Að lokum vil ég biðjast vélmyrðingar á að ekki hef ég gefið mér tíma til að setja inn slóð á alla vini mína í blogglandi, en það datt allt saman út er ég fór "back in black", eins og Gauti orðaði það. Kemur að´essu, samt...

Hvalalosti

Áfram hvalveiðimenn! Mér er sko sama þótt við vitum ekki hvort einhver, og þá hver, kaupi afurðirnar, veiðum draslið. Þó svo feitir Ameríkanar kalli okkur morðingja, með kjaftinn fullan af hamborgurum og sendandi börnin sín til Írak, er mér sama. Þó svo einhver sænskur ráðherra sé brjálaður er mér sama - hann verður búinn að segja af sér von bráðar sökum spillingar ef ég þekki þessa bévítans Svía rétt. Þó svo, eins og segir í Fréttablaðinu í dag, þetta geti haft áhrif á gott gegni Nylon-flokksins, þá er það bara sár fórn á altari sjálfstæðisins.

Tímasetningin var kannski röng. Við hefðum auðvitað átt að hefja hvalveiðar daginn sem Kaninn ruddist inn í Írak. Nú, eða 11. september 2001. Einhverntíma þegar heimurinn hafði um annað að hugsa en hvort við veiddum okkur í matinn. Einhverjir segjast ekki vilja kaupa af okkur fisk því við drepum hvali - hvað með fiskinn? Drápum við hann ekki líka? Bévítans slefandi Grænfriðungs-Ingjaldsfíflin hafa greinilega siglt of nálægt einhverjum þeim kjarnorkutilraunum sem þeir voru að mótmæla.

Annars er ég bara hress, svona fyrir utan hausverkinn. Er að hlusta á nýju Iron Maiden-plötuna. Smá progg í henni, hljómar á smáköflum eins og þeir hafi verið að hlusta á gamlar Rush-plötur meðan þeir sömdu efnið á þessa. Mér finnst það ekki leiðinlegt.

Lag dagsins er ekki með Maiden.

Saturday, October 21, 2006

Getraun og Da Vinci röfl með spojlerum

Ég vil byrja á að óska Pésa Buffpylsu til lukku með að vera orðinn hálfsjötugur. Hann lengi lifi!!!

Vindum oss svo í getraun. Spurt er um poppara.

Hans rétta eftirnafn er O´Brien, en hann kallaði sig öðru nafni.

Hann átti megahitt ´93, en hefur ekki náð sama árangri síðan, þó hann hafi gefið út nokkrar plötur.

Hann er frá Kanada.

Hann sat inni fyrir líkamsárás hér í eina tíð. Hann var handtekinn og dæmdur aþþí að einhver kjaftaði í lögguna. Fyrsta og aðal hittið hans sótti innblástur í þann atburð.

Hver er kallinn?

Hugsið vel og kíkið svo á þetta...

Eníhjú, horfði á og sofnaði yfir Da Vinci Code í gær. Þó hún sé ágæt að mörgu leiti er hún síður en svo gallalaus. Til dæmis (Varúð - MEGASPOJLERAR!!!)er albínóinn furðu góð skytta miðað við að albínóar eru allir sem einn alveg obboslega nærsýnir (má benda á Cold Maountain í þessu samhengi líka). Svo er skrýtið - ef Jesú var bara maður og ekki Guð, sonur hans eða fjarskyldur frændi, eins og Tebing orðaði það - hvað er þá svona merkilegt við hann og hans ætt? Hvers vegna er talað um konunglegt blóð í því samhengi? Hvers vegna var ekki búið að opinbera leyndarmálið fyrir löngu? Var leyndarmálið þess virði að opinbera, tveggja þúsalda gamalt lík, sem engin leið væri fyrir nokkurn mann að staðfesta hver þetta hefði verið í lifanda lífi? Af hverju skutu löggurnar Sílas, þegar morgunljóst var að hann var með galtóman frethólk (rennan aftur og skotraufin opin)? Af hverju flúði Langdon frá löggunni, þegar hann var með pottþétta fjarvistarsönnun, væntanlega umkringdur fólki allan daginn, auk þess sem hann var að tala fyrir fullum sal fólks er safnvörðurinn var myrtur? Maður bara smyr sig...

Friday, October 20, 2006

Bíó

Ég hef ekki verið nógu duglegur við að góna á bíó upp á síðkastið. Tókst þó í annari tilraun að klára Bleika Pardusinn með Steve Martin. Hún byrjar illa, en tekur sig ögn á seinnipartinn. Þegar öllu er á botninn hvolft er hún betri en sumt sem Sellers lék í, enda hætti hann að vera fyndinn á áttunda áratugnum. Einhver á eftir að berja mig fyrir að segja þetta, en ég minni þá á Return of the Pink Panther og Trail of the Pink Panther, sem voru hræðilegar.

Svo sá ég aðra endurgerð, Poseidon. Hún gefur orgínalnum ekki mikið eftir, er reyndar, þvert ofan í væntingar mínar, drullugóð. Fergie úr Black Eyed Pies fer með smáhlutverk í myndinni. Drepst reyndar áður en hún kemur fatalínnunni sinni á markaðinn.

Talandi um sjávarútveginn, keypti mér Jaws á dvd í einhverri bévítans viðhafnarútgáfu. Á hana reyndar á vídeó, en fannst bara svo asnalegt að hafa framhöldin í dvd-hillunni og engan orgínal. Endurnýjaði svo Bring me the Head of Alfredo Garcia eftir Sam Peckinpah. Warren Oates (þú veist ekkert hver það er) er aðal, Kris Kristofferson leikur nauðgara. Fín ræma og verulega ofbeldisfull.

Svo er maður búinn að marínerast í Monk og SNL-þáttum, gaman að því.

Lítið að frétta annars, allt í gúddí og flestir í fíling. Hvað er að frétta af þér?

Thursday, October 19, 2006

Gaggggrýnt

Eitt sinn var sagt að þeir sem ekki gætu, kenndu - þeir sem ekki gætu kennt, þeir gagnrýndu. Stundum hefur gagnrýni verið allnokkuð sérstök, miskunnarlaus, og jákvæð eða of neikvæð og svo framvegis. Starf gagnrýnandans er eflaust erfitt og æði oft sem menn drulla annaðhvort um of yfir það sem verið er að gagnrýna, nú eða bara upp á bak á sjálfum sér.

Í ljósi þess að vinur minn gaf út plötu nýverið, sem fékk ekkert svakalega góða dóma í einum fjölmiðlinum, langar mig að koma með nokkra punkta úr sögu gagnrýninnar. Reyndar bíógagnrýni mest, en það er af því ég er betur að mér í þeirri deild.

Usual Suspects fékk eina og hálfa stjörnu hjá Maltin. Hann breytti því seinna (einhver undirverktaki skrifaði rýnina).

Úlfhildur Dagsdóttir, bíórýnir hjá DV hér í eina tíð, valdi Saving Private Ryan eina af 10 VERSTU myndum ársins 1998. Armageddon var á topp 10 listanum yfir þær BESTU. Þetta var ekki það mest sjokkerandi sem hún skrifaði í gagnrýni sinni.

Sólóplata Jóns Jóseps fékk 5 stjörnur í Mogganum. Ég er ekki að reyna að segja neitt slæmt orð um Jónsa, dettur það ekki í hug, en fimm stjörnur eru toppurinn, fullkomnun, ekki hægt að gera betur, alger snilld.

Svo má benda á bíórýnina sem birtist í New Yorker þann 22. maí á því Herrans ári (demon of the Lord) 1977:

"An unbelievable story, no political or social commentary, lousy acting, prepostureous dialogue and a ridiculously simplistic morality. In other words, A BAD MOVIE!"

Þið verðið að geta hvaða mynd er verið að tala um í þessari gagnrýni, en ég skal gefa ykkur hint - leikstjórinn ber sama fornafn og núverandi forseti Bandaríkjanna. Eftirnafnið má tengja einni bók Nýja Testamentisins.

Að lokum vil ég benda á að ég er að leika fyrir þyrsta á Dubliner í kvöld. Sleppið öllu bévítans artí fartí búllsjittinu á Erveivs og kíkið bara í öl.

Lifið hálf.

Wednesday, October 18, 2006

Túrkmenistan

Þjóðhátíðardagur Túrkmeninstan nálgast. Þjóðhöfðingi þess ágæta lands var víst að senda frá sér ljóðabók, svo indæla að menn tóku andvarp við hvert orð og klöppuðu mjög er hann las eilítið upp úr skruddunni. Svo er hann að vígja byggingu í bókarlíki, segja mér fréttir. Hann hefur það fínt, reyndar eilítið á kostnað málfrelsis almennings og mannréttinda, en einhverjar fórnir verður að færa til að umheimurinn fái svona skemmtilegar fréttir af þessum hressa einræðisherra, Túrkmenbasí.

Þjóðhátíðardagur Túrkmena er einmitt sami dagur og þessi mynd kemur í bíó, allavega í henni Ameríku. Vonandi þurfum við ekki að bíða lengi hér, enda fyrirrennarar myndarinnar í seríunni skemmtilegar mjög.

Er þjóðhátíðardagur Túrkmena, sem einmitt er einnig afmælisdagur Simon Le Bon, rennir í hlað væri ég til í að einhver gæfi mér svona, bara af því James Bond átti svona lengi vel. Hvað ætli hann sé með í nýju myndinni?

Eru menn ekki hressir annars?

Tuesday, October 17, 2006

Madonna

Grey Guy Ritchie og spúsa hans. Þegar þau ætla að vera góð og almennileg og ættleiða blökkudreng úr moldarkofum Malaví er bara farið í mál við þau og allt sett í háaloft. Mér finnst flott þegar fólk gerir svona og ættleiðir einhverja krakkagemlinga frá bláfátækum ríkjum svo þau geti fengið að borða, búið í húsi en ekki moldarkofa og komist í háskólann og orðið eitthvað annað en geitahirðar eða stríðsherrar. Mest gaman held ég sé að vera litli strákurinn sem Angelina Jolie ættleiddi, hann Maddox. "Er þetta mamma mín, ókei, ég er sáttur við það, strýk aldrei að heiman - ha, á ég pabba núna? Brad Pitt - ókei, það er í lagi mín vegna!"
Ættleiðingar fræga fólksins eru ljómandi. Einhver sem hefði heitið Múkabe M´Gúmmí og unnið sem perlukafari allt sitt líf (í besta falli) er núna með síns eigins hárgreiðslumann og býr í Beverly Hills eða flottasta hverfi Lundúnahrepps, fer í góðan skóla og étur humar í morgunmat. Þarf ekki einu sinni fræga fólkið til. Sjáið bara fólk hér, ættleiðandi litla gemlinga frá Kína og öðrum fjarlægum stöðum, krakka hvers lífsgæði stökkva upp um einhver ljósár við það eitt að fara frá heimalandi sínu, sjóðheitu og fullu af eitruðum meindýrum og koma hingað. Það er náttúrulega hægt að missa sig eins og Mia Farrow og ættleiða hálfa Paragvæ, en þegar einhver sem vart veit aura sinna tal tekur að sér einn munaðarleysingja frá fjarlægu landi finnst mér það frábært.

Ég veðja á að litli blökkudrengurinn frá Malaví verði samt meiri pabbastrákur en mömmustrákur. Sjáið þetta fyrir ykkur, hann hlustar á Vogue, True Blue og Like a virgin og fussar og sveiar. Svo sér hann Snatch og dýrkar pabba sinn um aldur og ævi. Fyrirgefur mömmu sinni aldrei að hafa dregið pabbann út í gerð Swept Away.

Lag dagsins er með Rainbow, eftir að Graham Bonnet yfirgaf sveitina. Joe Lynn Turner þenur þarna raddbönd. Lagið er Street of Dreams af bestu plötu sveitarinnar, Bent out of Shape.

Monday, October 16, 2006

Hlerað

Svar við síðustu gátu var John Woo. Gaman að því.

Skrýtið með þessar hleranir allar. Einn Baldwin-bræðranna, Jón Baldwin, segir sinn síma hafa verið hleraðan. Svo berast fréttir af því að menn hafi dottið niður á samtöl lykilmanna í Sjálfstæðisflokknum - bendir það ekki til þess að sjallarnir hafi verið fórnarlömb frekar en gerendur? Bendir það kannski ekki til neins - ég man að í gamla daga datt maður stundum inn á samtöl fóks.
Nú er þó enginn maður með mönnum nema hafa verið hleraður af leyniþjónustunni, menn keppast við að bjalla í blöðin og segja frá meintum hlerunum fyrir áratugum síðan. Hví sögðu þeir ekki frá þessu þegar þetta gerðist? Vöruðu þeir engan við? Ef Jón Baldwin var hleraður, því varaði hann ekki þingheim við? Segja allavega Alec, Stephen og William frá þessu.

Hvað um það, var að leika um helgina á Döbb. Á fös kíkti ég á Gauk fyrir gigg og sá Binna bössung leika þar með hinni sveitinni sinni, Múgsefjun. Skemmtileg músík og gott band. Svo fór ég yfir á Amster og sá Árna ungling með sveit sinni, Ebríetas. Ekki jafn skemmtileg músík, en drulluþétt rokk í dítjúni og hávaða. Gaman að því. Það var líka gaman hjá oss í Swiss. Við lékum bæði á Döbb og tókum svo nokkur lög í ammæli Tónabúðarinnar. Er óhætt að segja að Binni bössungur hafi einhverntíma verið hressari en þá, enda ómannúðlegt að vekja hann uppúr hádegi á laugardegi þegar hann er nýfarinn að sofa.

Jæja, meiri bíógetraun. Í tilefni allrar málefnalegu umræðunnar um leyniþjónustu hérlendis er spurt um mann sem lék nokkrum sinnum fræga leynilöggu sem var oft önderkover. Roger Moore lék þessa leynilöggu á eftir honum ásamt fleirum.

Hver er leikarinn?

Thursday, October 12, 2006

Hann á ammælídag

Binni á ammælídag og er 26 vetra gamall. Fyrir þá sem ekki vita sér hann um bössun í hljómsveitinni minni, Swiss (sem er að leika á Döbb um helgina og í búð Tóna á laugardaginn í ammæli sjoppunnar). Til lukku.

Að öðru - mér finnst agalegt að sjá helstu lykilmenn lands og borgar sleikja rassgatið á Yoko í fréttunum, hvað þá að vita til þess að borgin og hennar fyrirtæki séu að eyða þremur tugum milljóna í þessa bévítans frygðarsúlu (sjá ágætisgrein Manga um málið - klikka bara á linkinn á bloggið hans hér til hliðar).

Sem ég hef margoft áður sagt, þá veit ég nákvæmlega hvert hún getur troðið þessari blessuðu súlu sinni!

Hvað um það - bíógetraun. Spurt er um frægan mann úr kvikmyndageiranum.

Hann og hans familía flúðu heimaland sitt er hann var aðeins fimm vetra gamall. Ástæðan var sú að þau voru kristinnar trúar og urðu að flýja ofsóknir stjórnvalda. Flúðu í næsta land, hvar okkar maður varð frægur leikstjóri þegar hann varð stór.

Eftir að hafa haslað sér völl sem gamanmyndaleikstjóri við góðan orðstýr komu nokkur mögur ár. Svo ákvað hann að breyta eilítið um stíl og fór að leikstýra allt öðruvísi myndum. Hann átti það til að stela þónokkuð úr öðrum myndum - eða fá lánað til að votta þeim virðingu sína - og ein hans vinsælasta mynd var nk. endurgerð franskrar bíómyndar.

Nú, svo flutti hann til Bandaríkjanna og hefur gert ákaflega misgóðar myndir. Hann kveðst voðalega trúaður þó svo myndir hans beri þess kannski ekki merki. Samt á hann það til að lauma inn ákveðnu Jesútákni og hefur það verið svolítið hans treidmark.

Hver er maðurinn?

Lag dagsins er að sjálfsögðu með Graham Bonnet. Hér er hann í Rainbow ásamt gítargoðinu Ritchie Blackmore, bössungnum Roger Glover, Cozy heitnum Powell, sem lemur húðir, og Don Airey, sem sér um Hammondinn.

Wednesday, October 11, 2006

Jú, ég er víst í stuði!!!

Ef sonur minn spyr mig einhverntíma af hverju konur séu svona skrýtnar verður svarið eitthvað á þessa leið:

"Þú skilur það þegar þú verður fullorðinn. Þá máttu hringja í mig og segja mér svarið, því ekki skil ég neitt í því".

Hvað um það, ég er ekki bara að leika ásamt strákunum mínum í Swiss á Dubliner um helgina, heldur líka í fertuxammæli Tónabúðarinnar á laugardaginn. Þá verður partý, snittur og gos, afsláttur á einhverju og fullt af skemmtilegu fólki að spila á hljóðfæri og syngja í míkrafón. Mætið sum og kaupið fullt af dóti.

Eníhjú, síðasti linkur var Graham Bonnet ásamt Steve Vai í Alcatrazz. Hér er hann með germanskri gítarhetju, Michael Schenker (áður í Scorpions og UFO), skömmu áður en hann var rekinn úr Michael Schenker Group fyrir skapofsa og leiðindi. Eina vídeóið með honum, mér vitanlega, hvar hann skartar síðu hári. Eitísrokk af skástu gerð.

Jútjúbb og milljarðarnir

Fyrir stuttu síðan stofnuðu tveir menn youtube-síðuna. Fyrir fáum dögum seldu þeir síðuna til Google fyrir 115 milljarða. Eitthundrað og fimmtán þúsund milljónir króna.
Kom fram í fréttinni að stofnendurnir tveir halda samt vinnunni við fyrirtækið. Hver nennir að vinna þegar hann á tugi milljarða? Bévítans bjánar eru þetta. Ef ég ætti svona mikinn pjé myndi ég fara upp í sumarbústað í mánuð með kassagítar og haglabyssu, spila fyrir sjálfan mig og skjóta postulínsdúfur (ekki leirdúfur - of ódýrar).

Læt ég lag dagsins af youtube vera með Graham Bonnet, þeim eðalsöngvara. Hér er hann í fylgd Steve Vai og myndbandið er háguðfræðilegt, sem og lagið. Tileinkað Eyva og Van-ofsatrúarsöfnuðinum. Meira af Graham Bonnet seinna, en hann er í uppáhaldi hjá mér.

Tuesday, October 10, 2006

Grundarfjörður

Á laugardag var rennt á Grundarfjörð á nýjum hljómsveitarbíl. Sá kemst upp í 80 í mótvindi. Var vel tekið á móti oss, kjöt og fiskur á boðstólnum, humarsúpa og ég veit ekki hvað og hvað. Að sjálfsögðu þurfti Eddi greyið að hendast um víðan völl að redda öllu sem við höfðum gleymt, opna kofann fyrir oss og svo framvegis.
Veislan var skemmtileg sem slík, Róbert Marshall stýrði partýinu og fjöldasöng. Sagði marga brandara um Árna Johnsen og aðra frambjóðendur Sjallanna í suðurkjördæmi. Kom það lítt á óvart því hann er sjálfur í prófkjöri fyrir annan flokk í sama kjördæmi. Ég reyndar hló mjög þegar hann sagði að Sjallarnir leituðu víða fanga við að manna listann.

Ballið var fínt, svona geðklofaball eins og oft vill verða (þegar einn biður um Metallikku og annar samtímis um Önnu í Hlíð). Olli taxi kom með og lék á gítar oggopons við og við, millki þess sem hann hélt utan um sándið.
Eníhjú, við strákarnir skemmtum okkur vel og vorum kátir. Vonandi förum við aftur á staðinn sem fyrst.

Í kvöld leik ég og syng fyrir óreglufólk á Döbb. Gaman að því. Mættu.

Saturday, October 07, 2006

Sveppur og tígrisdýrið

Í gær var dótadagur á leikskóla Litla-Svepps. Þá mátti taka með sér eitt dót, nema einhverra hluta vegna mátti það ekki vera byssa og ekki sverð - bévítans leikfangafasistar eru í vinnu þarna. Örugglega kommúnistar.
Eníhjú, uppáhaldsleikfangið var tekið með. Það er tuskutígrisdýr á stærð við mig, en Guðbjartur trymbill splæsti þessu á strákinn minn er hann hreinsaði út úr geymslunni sinni. Seldi mér reyndar sjónvarp á spottprís í leiðinni. Kann ég honum bestu þakkir.
Klukkan alltofsnemma að morgni dröslast ég út í bláu þrumuna (sem ég klessti lítillega seinna um daginn), með barnið í annari og einnogsjötíu tígrisdýr í hinni. Barnið afturí í stól og rándýrið frammí hjá mér, í belti og alles.
Á leiðinni á leikskólann svona um það bil truflaðist ég úr hlátri. Fattaði að ég er pabbinn í Calvin og Hobbes, með lítinn strák og stórt tuskutígrisdýr. Gaman að því.

Annars er ég að fara til Grundarfjarðar á eftir að leika þar á dansleik. Bibbi gítarleikari (áður í Ber - núna nóboddí) kemur með og er talið líklegt að spilastokkurinn verði í yfirvinnu alla ferðina og Ólseninn verði tekinn af kappi. Ég held að Bibbinn minn hafi ekki spilað með oss síðan í Danmerkurferðinni í janúar og er þá aldeilis kominn tími til. Hlakka til að hitta Edda og frú og hafa gleði.

Thursday, October 05, 2006

Fréttirnar

Allt verður að fréttum í dag. Mogginn birti t.d. í dag myndir af steinum með nöfnum þingmanna, en grjótinu var sökkt við Kárahnjúka. Á þá var einnig letrað að þessir þingmenn hefðu framið mesta glæp Íslandssögunnar. Þau ummæli dæma sig sjálf.
Eníhjú, einhvernvegin finnst mér engar fréttir að fólk sé að drekkja grjóti með svívirðingum. Ekki frekar en mér fannst frétt að ein rúta af athyglissjúkum kommúnistum ferðist upp á beis og þar veifi menn íslenska fánanum og syngi Ísland úr Nató. Sé ekki fréttina í því að míníböss af roðamaurum bregði sér af bæ. Mér fannst hinsvegar fyndið að sjá Birnu Þórðar hlaupandi eins og bjána og forstöðumann félags herstöðvarandstæðinga halda ræðu með aðstoð ónauðsynlegasta gjallarhorns Íslandssögunnar - menn þurfa ekki gjallarhorn til að tala við smáhóp af vinum sínum.
æI hópnum var einnig Steingrímur Joð og fagnaði hann ógurlega að herinn væri farinn. Má geta þess að hann sagði eitt sinn fyrir kosningar að atvinnumálin væru númer eitt - tíu prósent þeirra Íslendinga sem unnu á vellinum eru enn atvinnulausir, hundrað manns. Ég þekki einn sem vann þar, en vinnur núna hjá álverinu í Straumsvík. Hann væri semsagt enn atvinnulaus ef Skallagrímur fengi að ráða.

Sendum þessa roðamaura strax til Norður-Kóreu.

Annars sofnaði ég yfir X-Men 3 í gær. Ekki að hún væri leiðinleg, ég var bara svona sybbinn. Mér þótti gaman að sjá Wolverine í bardaga, hvar hann kveikti sér í vindli með eldi úr sprengjubroti. Kom svo í ljós að þetta var allt saman simulator, greinilega af bestu sort fyrst eldurinn í honum var nothæfur til að fíra í.

Farinn niður á Döbb að spila, adíoss.

Monday, October 02, 2006

Hver er þessi Jónas?

Jónas Kristjánsson, sem eitt sinn ritstýrði ásamt Mikael Torfasyni DV, hefur haldið úti vefsíðu. Ekki er hann lengur að skrifa í blöð eftir að hafa neyðst til að segja af sér, en menn muna eflaust hvers vegna það var. Hann heldur úti vefsíðu og fer mikinn. Eitt skrifaði hann í dag, sem fær mann til að gruna að kannski gangi hann ekki heill til skógar. Hér drep ég niður fæti:

"Ég get keypt skrá yfir símtöl milli þín og annarra númera og ég get keypt afrit af öllum þínum tölvupósti og bankafærslum. Líf okkar er opið sérfræðingum, sem selja þekkingu sína. Í ljósi þess er hlægilegt, að Persónuvernd bannar myndavélar á heimavistum. Betra er að opna þetta allt."

Sem sagt, fyrst glæpamenn geta komist yfir og selt upplýsingar um einkahagi þína áttu ekki að eiga neitt einkalíf lengur, eða hvað?

Annars kom Dilana í búðina til okkar áðan. Hún er dúlla.

Búinn að fá of mikið af kommentum