Thursday, November 30, 2006

Skattur, part II

Var að hringja niðrí skatt að spyrja um konuna, sem þar á að vera að sjá um að leiðrétta mín mál (á að vera að sjá um, nóta bene, hún er alveg pottþétt ekki að því). Eníhjú, fékk enn einu sinni það svar að hún væri ekki við og enginn annar gæti aðstoðað mig. Ég er farinn að hallast að því að þessi kona sé alls ekki til í alvörunni.

Wednesday, November 29, 2006

Voffi

Einmitt það sem við þurfum - fleiri útúrdópaða hálfvita með skotvopn.

Sjá nánar hér.

Skattur

Ég er fargings brjálaður útí skattinn núna. Of langt mál að fara út í, en óhætt að segja að ekkert af því fólki sem ég hef rætt við varðandi mín mál hjá skattinum hefur orð eins og "þjónustulund" eða "liðlegheit" í orðabókinni sinni. Jafnvel að í stöku tilfellum að "kurteisi" sé einnig gersamlega ókunnugt orð.

Leyfi ég mér að fullyrða að fæstir þeirra sem ég hef talað við þar í síma myndu spjara sig í einkageiranum.

Orð dagsins er AAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAAARRRRRRGGGGH!!!!

Setning dagsins er "Hún er ekki við í dag" (sem ég og endurskoðynjan höfum fengið að heyra í næstum því öll skiptin sem við hringjum að leita frétta af mínum málum hjá embættinu - spauglaust).

Lag dagsins er Taxman, hér í flutningi kviðmáganna Clapton og Harrison.

Tuesday, November 28, 2006

Eitís er yndislegt

Steve Möller er frábær eins og sjá má hér.

Herraþjóðin átti líka hittara sama árið, eins og t.d. þennan. Gott ef Pétur í Filmusi syngur ekki lagið.

1982 var gott ár.

Hef ekki meira um það að segja.

Síessæ

Hugsið ykkur... það hafa verið framleiddar 6 seríur af CSI. Það eru 144 þættir. Svo hafa verið gerðar 4 seríur af CSI:Miami. Það eru 96 þættir. Nýjasta frasjæsið er CSI:New York, en tvær seríur hafa verið gerðar af þeim ágæta þætti. Það eru 48 þættir. Samtals gera þetta 288 þættir af CSI í hinum ýmsu myndum.

Ég hef séð ALLA þessa þætti - nema einn. Ég kláraði ekki þáttinn þar sem kall dettur niður dauður við pylsustand í Las Vegas, með fullan maga af ómeltum mat. Á hann hinsvegar á dvd (eins og þetta allt saman) og horfi á hann í vikunni.

Sökum þess hve ég er vel að mér í þessu get ég upplýst ykkur um að spennandi hlutir eru að fara að gerast bæði í New York og Miami. Og, já, ég veit - þú þolir ekki Horatio Caine, en mér er alveg sama.

Eftir allt þetta sjónvarpsþáttagláp á ég enn óopnaðar myndir eins og Million Dollar Baby og Passion of the Christ í hillunni minni. Fer í það eftir næstu helgi, strax og ég er búinn með fimmtu seríuna af 24, hvar vinur minn, Kiefer Donaldsson, fer mikinn og drepur fólk um víðan völl svo það drepi ekki annað fólk.

Lifið heil.

Saturday, November 25, 2006

Kyrk

Stundum þarf ekki mikið til að gleðja mann. Þetta til dæmis gerði daginn betri. Þó tal ég að Kobbi Magg í Tappanum verði glaðari, þar sem hann er Stranglersaðdáandi númer eitt. Ég er líklega neðarlega á topp tíu-listanum.

Fyndið að eitt og sama bandið skyldi gera lög jafn ólík og þetta hér og svo þetta hér.

Eníhjú, sá Stranglers fyrir tveimur árum og þeir voru einkar skemmtilegir. Var reyndar svolítið svartur á konsertnum, en það var í lagi. Hlakka gríðarmikið til að sjá þá aftur og vona bara að þeir klikki ekki á því eins og þeir gerðu ´86, þegar þeir áttu að spila á listahátíð, en komu svo bara hreint ekki. Fengum við Íslendingar Fine Young Cannibals í staðinn, sem verða að teljast ein verstu skipti tónlistarsögunnar.

Annars er ég bara hress, búinn að fá nýja Steipleisjón 2 tölvu, þá þriðju sinnar tegunar í minni eigu. Spilaði Timesplitters 2 við Eldri-Svepp í dag og það er svakastuð.

Lifið heil.

Friday, November 24, 2006

Skrabbetí skrabbl

Var að spila í gær á Döbb og var það bara þó nokkuð gaman, sérstaklega þar sem úglendingar einhverjir gáfu mér fullt að drekka. Svo kom Ingi Valur og spilaði og söng, spilaði og söng. Ekki nóg með það, heldur kom sjálfur Eiríkur Haux og spilaði og söng heillengi. Verður það að teljast dýrasti pásutrúbadúr nóvembermánaðar.

Annars gaman að öllu þessu Michael Richards-veseni. Hann er varla skriðinn út úr bíógetrauninni minni þegar hann kemst í heimsfréttirnar fyrir æði misheppnað grín um einhvern blökkumann sem var að gjamma frammí hjá honum þegar hann var að skemmta. Einhver tók þetta upp á myndband og dreifir um öll sjónvörp og heimsbyggðin stendur á öndinni - úúúúú, hann kallaði einhvern niggara og sverti hans göfuga kynstofna. Jú, það er svosem rétt að þetta var æði ósmekklegt og allt það, en hefur engum dottið í hug að kæra þann sem tók þetta upp? Er ekki kolólöglegt að mynda án leyfis svona standöpp? Kramer er búinn að biðjast velvirðingar á þessum tæknilegu mistökum, en glæpóninn með kameruna telur pjéningana sem hann fékk fyrir að selja þessa ólöglegu upptöku til sjónvarpsstöðvanna. Má líka taka fram að þetta er ekki í fyrsta sinn sem uppistandari gerist sekur um rasisma, má nefna Chris Rock og Richard Pryor sem dæmi.

Hér er gott dæmi um rasismagrín af skástu sort. Og áður en einhver byrjar að benda mér á að þessu má ekki líkja við innanhúsmet Kramers í brjálæððiskasti, þá vil ég taka það fram að ég veit það vel, ég er ekki að líkja þessu saman, ég er ekki hálfviti. Eða jú, bara ekki svo mikill hálfviti.

Eníhjú, ég var að fjárfesta í CSI, seríu númer 6 og CSI:NY, seríu 2 seinni hluta. Hefst handa við gláp strax og ég er búinn með 24, seríu 5.

Allir hressir?

Thursday, November 23, 2006

David var það, heillin

Einhver Stefán réði gátuna mína, en rétt svar við henni var David McCallum. Rangt svar var hinsvegar Roger Moore, sem og William Shatner.

David þessi leikur t.d. í NCIS, en þar leikur hann Dr. Donald, sem er sami karakter og hann lék í JAG-þáttunum. Hann lék í Man from U.N.C.L.E. í gamla daga, feykiskemmtilegir sjónvarpsþættir og myndir.Þeir þættir/myndir voru eitt af svörum USA við Bond og gengu á tíðum aðeins of langt, rétt eins og Flint, ef menn þekkja þær myndir. Má geta þess að Bjarni, vinur minn, gaf mér hér í eina tíð U.N.C.L.E.-myndina Karate Killers og er ég honum eilíflega þakklátur.
McCallum lék einnig með Charles Bronson í Great Escape í gamla daga. Það var ótrúlega skömmu áður en Bronson stal Jill Ireland undan honum og lét sig hverfa. Ljótt af þeim, enda eru þau bæði steindauð, en McCallum hress.

Annars var ég að semja um kaup á Fender Stratocaster plus-gítar, en hann er fagurblár að lit. Átti hann einu sinni, en seldi og sá alltaf eftir því. Nú hef ég eignast hann á ný, en á einum mixer minna en í gær. Svo keypti ég aftur um daginn heimasmíðaðan Telecaster sem ég hafði eitt sinn selt og lét upp í hann forláta tape-echo frá sjöunda áratug síðustu aldar. Samt er alveg sama hvað ég á af gíturum, ég nota alltaf Music Man-inn minn, sem er áberandi langbesti gítar í gervöllum heiminum, og þótt víðar væri leitað. Hér er mynd af svipuðum gítar í faðmi skapara síns.

Enn eitt getrauna

Fyrst José tók síðustu getraunina í nebbann sinn er hér önnur.

Spurt er um leikara.

Hann hefur leikið í fullt af stríðsmyndum.

Hann lék fyrir mörgum árum í gríðarvinsælum sjónvarpsmyndaflokki.

Nú leikur hann í sjónvarpsþáttum sem sýndir eru hérlendis. Þar leikur hann sama karakter og hann lék í öðrum sjónvarpsþáttum. Gaman að því.

Hann var eitt sinn giftur leikkonu. Sú skildi við okkar mann og giftist öðrum leikara, sem leikið hafði með okkar manni í gríðarvinsælli mynd. Hún og seinni maður hennar eru bæði látin, en okkar maður er hress, eftir því sem ég best veit.

Okkar maður hefur leikið á móti Donald Pleasence, Jane Seymour og Richard Harris.

Hver er kallinn?

Annars er ég á Döbb í kvöld, mætið sum.

Wednesday, November 22, 2006

Djétrauhn

Bévítans. Var að spila í gær á Döbb, gaman að því. Villi Goði kíkti við, sem og Denni hinn ísfirski og voru þeir að sjálfsögðu látnir taka gítar í hönd og leika og syngja meðan ég snýtti mér. Stoppkvefaður og viðurstyggilegur. Fór því ekki í vinnu í dag, við lágum bara heima feðgarnir, báðir með smá hita og ég með Nezeril í annari nösinni og hor í hinni. Algert ógeð. Ööööö. Vonast þó til að drullast í vinnuna á morgun, enda nóg að gera í búð Tóna. Svo tekur við gítarkennslan og að því loknu gigg á Döbb. Gaman að því.

Jæja, þá er verst að skjóta fram bíógetraun, enda ekkert skárra að gera.

Spurt er um leikara. Hvað annað?

Hann var atvinnuíþróttamaður og fatamódel.þegar honum bauðst eitt aðalhlutverkið í ódýrri spennumynd sem heldur betur sló í gegn. Í þeirri mynd lék gríðarfrægur poppari lítið hlutverk.

Hann hefur leikið í myndum með Tom Cruise, Jean Reno, Donald Sutherland og mörgum fleirum.

Hann hefur leikið í geimmynd.

Hann hefur leikið glæpamenn, bæði stór- og smáglæpamenn auk þess að leika bæði gerspilltar og strangheiðarlegar löggur.

Hann samdi nýverið um að leika í mynd, byggða á gríðarlega vinsælli bók úr gríðarlega vinsælum bókaflokki.

Hver er karlanginn?

Tuesday, November 21, 2006

Stuð

Tékkið á þessu. Þetta er úr Phantom of the Paradise, útúrsúrri bíómynd eftir Brian De Palma. Brilljant mússík eftir Paul Williams, sem samdi m.a. lögin í Bugsy Malone. Myndin er gríðarlega lauslega byggð á Phantom of the Opera. Fyrra lagið, Somebody super like You, var íslenskað af Eika Haux hér um árið og kom út á vínilplötunni Skot í myrkri. Hét þá ef ég man rétt Súperhetjan.

Eníhjú, Gauti danskirass er að snæða bíógetraunina mína. Svar við síðustu getraun var jú Michael Richards, betur þekktur sem Kramer í Seinfeld. Bara gaman að því.

Til lukku, Gauti, þú ert afbragð.

Ný getraun ögn síðar.

Bíógetraunin síðan í gær

Menn eru að drulla upp á þak í bíógetrauninni minni.

Hér er aukavísbending - hann lék eitt sinn hálfþroskaheftan húsvörð hjá sjónvarpsstöð einni. Húsvörður þessi reyndist betri en enginn þegar á reyndi.

Þar hafiði það og komið nú með rétt svar.

Monday, November 20, 2006

Bíógetraun #3 í dag

Ákvað að lúberja eigið persónulegt met og henda inn þriðju bíógetrauninni í dag.
Spurt er um leikara, sem endranær.

Leikari þessi hefur leikið ýmis hlutverk, en hefur helst sést í gamanmyndum og gamanþáttum í sjónvarpi.

Hann lék feykiúrræðagóðan leigumorðingja í eitís-mynd, hvar kjarnorkuváin og kalda stríðið voru í algleymingi.

Hann lék einnig lítið hlutverk í mynd, sem byggð var á sketsum úr Saturday Night Live.

Hann lék einnig í Miami Vice-þætti.

Þekktastur er hann fyrir að leika eitt aðalhlutverkið í einum vinsælasta gamanþætti sjónvarpssögunnar.

Hver er kallinn?

Verðlaun eru einn svellkaldur á Dubliner annað kvöld.

Stop calling me Shirley

Fyrst ég er í Bond-fíling er tilvalið að henda þessu lagi inn. Þetta eru Propellerheads (sem rímixuðu hér í eina tíð titillagið úr On her Majesty´s Secret Service) ásamt Shirley Bassey (sem söng lögin í Goldfinger, Diamonds are forever og Moonraker).

Svo er tilvalið að henda inn annari getraun, fyrst Bjarni malaði síðustu.

Í þessu myndbandi leika tveir leikarar, sem voru óþekktir með öllu þegar myndbandið var gert. Ótrúlega skömmu síðar urðu þeir svolítið frægir. Hvað heita þeir?

Ég þakka þeim sem hlýddu, veriði sæl.

Bjarni malaði þetta

Meðan aðrir skildu varla getraunina tók Bjarni Randver sig til og rótburstaði dæmið, enda ekki við öðru að búast af fræðimanni og fjölmiðlastjörnu (hann er sumsé Guðfræðingur og átti nærri heila opnu í síðasta DV í feykimálefnalegri umræðu um séra Moon).

Leikarinn, sem ég spurði um, er sumsé Edward Fox. Hann lék í Bond-myndinni Never say never again. Hann lék líka hinn spregióða Dusty Miller í Force 10 from Navarone, en í Guns of Navarone var það einmitt David Niven sem lék sama mann - Niven lék Bond í ´67-útgáfunni af Casino Royale. Force 10 er mjög náskynd Bond-seríunni, því leikstjóri hennar er Guy Hamilton, sem leikstýrði Goldfinger, og í henni léku, auk Fox, Barbara Bach (Spy who loved Me), Richard Keel (Spy who loved Me og Moonraker) og Robert Shaw (From Russia with Love).

Má svo geta þess að Richard Keel lék leigumorðingja, sem gekk undir nafninu Jaws, en Robert Shaw var étinn í mynd sem hét Jaws.

Edward þessi lék svo í Wild Geese 2, sem er alvond mynd. Þar lék hann bróður mannsins sem Richard Burton lék í Wild Geese, hinni upphaflegu.

Svo á hann líka bróður að nafni James (reyndar fleiri, en James er frægastur).

Persónulega fannst mér Fox flottastur í Day of the Jackal, sem er talsvert betri en "endurgerðin" með Bruce Willis.

Annars er ég bara hress. Hvað með þig?

Helgi Sveins

Stuð um helgina. Var að spila með Inga Val í einhverju partýi hjá Kögun í Þróttarheimilinu á föstudagskveldið, en það ágæta hús er einmmitt við hliðina á Laugardalshöllinni, hvar Molarnir spiluðu fyrir (er mér sagt) troðfullu húsi. Þeir fengu samt ekki jafn gott að borða og við Ingi - eða jafnmikið íslenskt brennivín. Ég þurfti reyndar að sjá alveg um brennivínið sjálfur, en fannst það ekkert leiðinlegt. Hitti þar Siggu vinkonu, sem ég hafði ekki hitt í ein seytján ár. Gaman að því.
Var sumsé blindfullur í lokin og svaf ekki rassgat aðfaranótt laugardags. Sem var allt í lagi, því á laugardaginn lögðum við Eldri-Sveppur af stað í leiðangur, eins og fílarnir hér í denn. Skutumst í bíó að sjá nýju Bond-myndina. Er skemmst frá því að segja að svona góð Bond-mynd hefur ekki verið smíðuð síðan nítjánhundruðsextíuogeitthvað. Nýji Bondinn tekur þessa Moore, Dalton, Brosnan beisikklí alla nema Connery í nefið.
Mér þótti líka vænt um að sjá setninguna "based on the novel by Ian Fleming" í byrjun myndarinnar, eitthvað sem hefur ekki sést í Bond-mynd síðan ég var enn í grunnskóla.
Eníhjú, myndin er sumsé drullugóð, fer reyndar stundum ögn fram úr sér á pörtum, en það er í lagi. Byrjunaratriðið er alveg svaðaflott og... æi, sjáiðanabara.

Hvernig finnst ykkur annars þetta:

Connery
Lazenby
Moore
Dalton
Brosnan
Craig
Valgeirsson

?

Þá er komið að kvikmyndagetrauninni, sem er hress í dag. Spurt er um leikara.

Hann á bróður, sem er líka leikari.

Hann lék eitt sinn í Bond-mynd. Svo lék hann eitt sinn í stríðsmynd, en í henni lék okkar maður karakter, sem áður hafði verið leikinn af Bond-leikara í annari mynd. Í þeirri mynd lék hann á móti frægum leikara, sem hafði leikið bófa í Bond-mynd.

Hann lék eitt sinn bróður Richard Burton.

Hver er kallinn?

Friday, November 17, 2006

Breiðholt

Þurfti að opna fyrir löggunni í nótt, þar sem einhver var með dóppartý í stigagangnum mínum. Ekki í fyrsta skipti og ekki fyrsta íbúðin. Djö. Löggubílar, merktir sem ómerktir fyrir utan og löggur, með og án einkennisklæða.

Ég er drullusvekktur yfir þessu. Dópistapartý allar næturog mér aldrei boðið.

Lag dagsins er þetta.

Thursday, November 16, 2006

Grúbbíur og aðrir aðdáendur athugið!!!

Í janúar fór hljómsveitin Swiss til Danmerkur í þeim tilgangi að spila á Þorrablóti og drekka bjór - þó ekki endilega í þessari röð. Ég þakka Almættinu fyrir þessa síðu, en á henni má, ef vel er að gáð, finna óræk sönnunargögn þess að við héldum uppi stuði. Endilega kíkið á.

Wednesday, November 15, 2006

Árni

Ég veit ekki með ykkur, en mér fannst Árni Nonsens ekki koma vel frá fréttatímanum í gær. Öll iðrun hans vegna afbrota þeirra sem hann var dæmdur fyrir virðist ímyndun ein. Þegar aðrir myndu tala um þjófnað, fjárdrátt og svik talar hann um "tæknileg mistök, sem enginn hafi tapað á". Bítur svo höfuðið af skömminni með því að taka vel og kyrfilega fram að fleiri hafi átt hlut að máli, en þó aðeins hann hafi fengið dóm.

Gunnar Örlygsson, í sama flokki og sama kjördæmi, fékk einnig á sig dóm hér í denn. Hann má þó eiga það, blessaður, að hann reynir ekki að moka skít sínum jafn klaufalega undir of lítið teppi, heldur segir hlutina eins og þeir eru - hann framdi afbrot, braut gegn lögum, gerði það sem ekki mátti.

Mér finnst verst að Árni er ekki í mínu kjördæmi, þá gæti ég kosið Flokkinn og strikað hann út, enda er Árni best geymdur í járni.

Sjá nánari umfjöllun hér.

Bauer, sería fimm

Tók til óspilltra málanna í gær og setti 24 í tækið. Búinn að bíða spenntur eftir nýjustu seríunni og hef þegar lokið fyrstu fjórum þáttunum. Jibbíkóla.

Svo vil ég biðja fólk um smá greiða. Næst þegar þið gangið yfir götu á ljósum, horfið á grænu, nú eða rauðu, myndina af mannverunni. Ímyndið ykkur svo að þetta sé kona í buxum (eins og flestar konur nú til dags) sem sé að horfa í áttina til ykkar.
Með þessu getið þið sparað borginni umtalsvert fé.

Tuesday, November 14, 2006

Molar

Sá frétt þess efis á mbl.is áðan að enn væru til miðar á tónleika Sykurmolanna í Laugardalshöll. Viðurstyggilega fyndið í ljósi þess að það seldist upp á Magna og félaga í Laugardalshöll á nótæm. Híhí.

Ernir og James-bræður

Þrátt fyrir að vera ágætishljómsveit eru Eagles hálfgerðar kerlingar. Sjáið hér hvað Joe Walsh var að gera sama ár og ég fæddist, og svo hér hvað gerist löngu seinna, þegar hann er í Eagles.

Þess má geta að á fyrri upptökunni er trymbill, óhugnarlega líkur Jómba í Brain Police.

Nú er ljóst að sökum vinnu kemst ég ei að sjá Bond á frumsýningardaginn. Bévítans.

Allir í bíó á laugardag.

Toni Jómfrú

Nú sé skammdegi. Þá er gott að lyfta sér upp svo vetrardrunginn nái ekki að kaffæra alla lífsgleði og jákvæðni sem býr innra með manni. Þá er annaðhvort hægt að hugsa fallegar hugsanir, nú eða bara kíkja HÉR!

Monday, November 13, 2006

Dóp

Það er greinilegt að það er ekki nóg með að fólk eyði sumt öllum sínum peningum í eiturlyf, eiturlyf geta líka eytt peningum fólks. Sjá nánar hér.

Jarðaför

Á föstudaginn var tengdapabbi jarðaður frá Fella og Hólakirkju, sem var einmitt troðfull af fólki. Bæði vinir og ættingjar, en líka svolítið magn af löggum, enda hef ég sjaldan haft jafn litlar áhyggjur af því að skilja jakkann minn eftir frammi í fatahengi.

Athöfnin var falleg, en þó eins laus við hátíðleik eins og svona athafnir geta helst orðið. Tókst séra Svavari (sem var talsvert miklu mun betri en enginn meðan gamli lá á spítalanum) meira að segja að fá tengdamömmu til að skella upp úr í miðri athöfn.

Hinsvegar tel ég prestinn hafa hagrætt sannleikanum allnokkuð á allavega einum stað. Hann sagði að tengdapabba hafi þótt gaman að fá sér snúning, sem er rétt, en hann sagði líka að hann hefði verið "lipur og áhugasamur dansari". Samkvæmt því sem ég sá var hann bara áhugasamur. Mjög áhugasamur reyndar, en ekkert sérstaklega lipur. Ber þó að geta þess að ég kynntist honum fyrst fyrir aðeins fimm árum síðan, en þá var hann búinn að ganga gegn um allnokkur veikindi, sem væntanlega hafa tekið sinn toll af lipurðinni.

Eníhjú, verð að minnast á músíkina - lögreglukórinn söng og það var voða fínt. Svo söng Friðrik Ómar tvö lög. Hann hefur skrópað í söngtímana hvar farið var í fölsku og óhreinu nóturnar. Hreint viðurstyggilega góður söngvari. Stebbi Stuð lék undir og hann er jú alltaf langflottastur, eins og lýðnum á að vera löngu orðið ljóst.

Tvær sögur af tengdapabba að lokum.

Félagar Edda úr löggunni, sem og vinir hans og fjölskylda hafa oft sagt mér sögur af honum og ein er sú sem sat fast í mér. Hann sumsagt stóð einhverntíma og horfði á krakka leika sér á skautum þegar ísinn brast og lítil stelpa datt niður um vökina og barst með straumnum undir ísinn. Eddi að sjálfsögðu stökk til og náði í krakkagemlinginn og þurfti þá eðli málsins samkvæmt að kafa allnokkuð frá vökinni og koma sér og stúlkukindinni til baka, sem er jú meira en að segja það.
Ég hef alltaf, þar til í gær, staðið í þeirri meiningu að þetta hafa hann gert sem lögregluþjónn á vakt. En í gær fékk ég loks að vita að þetta gerði hann þegar hann var fjórtán ára.

Svo er það sagan af mótorhjólinu hans Ívars mágs. Hann keypti einhverntíma hjól og karlinn var jú ólmur í að fá að grípa í, enda eyddi hann einhverjum parti lögguferilsins sitjandi á sama Harley og nú prýðir lögreglustöðina við Hverfisgötu. Stökk karlinn á bak og þeysti af stað á þvílíkum ógnarhraða að Ívar saup kveljur og óttaðist mjög um líf karlsins og mótorhjólsins (ekki viss um samt í hvaða röð). Nú, gamli rýkur um hóla og hæðir (og veggi og súlur)eins og Evil Knievel og kemur loks til baka. Kveður hjólið algera druslu, hann hafi rétt skroppið yfir hundrað og hjólið skolfið eins og hrísla. Hefði mátt halda að hann væri á miklu meiri hraða. Var voða hissa þegar Ívar tjáði honum að þetta væri mílumælir.

Wednesday, November 08, 2006

Kántdán til þess seytjánda

Spenntur tel ég daga, stundir og mínútur fram að seytjánda degi nóvembermánaðar. Fyrir þá sem ekki vita hvað gerist þá er vísbending í söng og hljóðfæraslætti hér.

Annars væri stuð að kasta fram getraun. Spurt er um músíkant, sem einnig hefur leikið í bíómyndum og sjónvarpsmyndum - og þáttum.

Hann hóf ferilinn í leikhúsi. Svo lék hann í gríðarvinsælli bíómynd. Þrátt fyrir að hlutverk hans þar væri lítið - hann var stuttan tíma á skjánum áður en honum var bókstaflega slátrað - vakti hann þar gríðarlega athygli. Á sama tíma gaf hann út plötu í samstarfi við músíkant sem hann hafði kynnst í leikhúsinu. Það samstarf er óhætt að segja að hafi borgað sig, því þeir lögðu undir sig vinsældarlistana westanhafs.

Samstarfið var allbrösótt og okkar maður átti við verulegt áfengisvandamál að stríða. Er óhætt að segja að okkar maður hafi hreinlega drullað allverulega í brækurnar og allt fór í klessu og hann hætti störfum.

Seinna, þegar hann hafði tekið sig ögn saman í andlitinu, hóf hann að spila á ný. Nú var það ekki á íþróttaleikvöngum fyrir tugþúsundir manna, heldur á krám og skemmtistöðum. Smá saman byggði hann upp nýjan aðdáendahóp og fór að spila á stærri og stærri stöðum. Eftir mikið vesen og baráttu átti hann allsvaðalegt kombakk ríflega hálfum öðrum áratug eftir að hann fyrst sló í gegn.

Á hvíta tjaldinu hefur hann leikið fíkniefnasala, leigumorðingja og góða menn.

Hver er kallinn?

Spil

Var að spila í gær og var það gaman. Aðallega kannski af því að Ingi Valur og Pétur Önd spiluðu og sungu megnið af kvöldinu. Ég sat á blaðurtörn.

Tékkið svo á þessu til að stytta ykkur stundir.

Monday, November 06, 2006

Langt liðið

Þar sem ég sé að sumir eru farnir að hafa áhyggjur af mér vil ég láta vita af mér.

Ástæðan fyrir fjarveru minni frá bloggheimum er þó ekki skemmtileg. Tengdapabbi, Eddi Olsen, lést sl. þriðjudag á sextugsafmælisdaginn sinn, eins og eflaust sum ykkar vita. Því hefur margt annað verið ofar á forgangslistanum en nöldur og kvabb á vefnum, t.d. að sinna fjölskyldunni þar sem karlsins er sárt saknað.

Mig langar að þakka kærlega fyrir hlýlegar kveðjur og skeyti til litlu familíunnar minnar.

Sný aftur með kvabb og leiðindi á næstu dögum.