Monday, November 13, 2006

Jarðaför

Á föstudaginn var tengdapabbi jarðaður frá Fella og Hólakirkju, sem var einmitt troðfull af fólki. Bæði vinir og ættingjar, en líka svolítið magn af löggum, enda hef ég sjaldan haft jafn litlar áhyggjur af því að skilja jakkann minn eftir frammi í fatahengi.

Athöfnin var falleg, en þó eins laus við hátíðleik eins og svona athafnir geta helst orðið. Tókst séra Svavari (sem var talsvert miklu mun betri en enginn meðan gamli lá á spítalanum) meira að segja að fá tengdamömmu til að skella upp úr í miðri athöfn.

Hinsvegar tel ég prestinn hafa hagrætt sannleikanum allnokkuð á allavega einum stað. Hann sagði að tengdapabba hafi þótt gaman að fá sér snúning, sem er rétt, en hann sagði líka að hann hefði verið "lipur og áhugasamur dansari". Samkvæmt því sem ég sá var hann bara áhugasamur. Mjög áhugasamur reyndar, en ekkert sérstaklega lipur. Ber þó að geta þess að ég kynntist honum fyrst fyrir aðeins fimm árum síðan, en þá var hann búinn að ganga gegn um allnokkur veikindi, sem væntanlega hafa tekið sinn toll af lipurðinni.

Eníhjú, verð að minnast á músíkina - lögreglukórinn söng og það var voða fínt. Svo söng Friðrik Ómar tvö lög. Hann hefur skrópað í söngtímana hvar farið var í fölsku og óhreinu nóturnar. Hreint viðurstyggilega góður söngvari. Stebbi Stuð lék undir og hann er jú alltaf langflottastur, eins og lýðnum á að vera löngu orðið ljóst.

Tvær sögur af tengdapabba að lokum.

Félagar Edda úr löggunni, sem og vinir hans og fjölskylda hafa oft sagt mér sögur af honum og ein er sú sem sat fast í mér. Hann sumsagt stóð einhverntíma og horfði á krakka leika sér á skautum þegar ísinn brast og lítil stelpa datt niður um vökina og barst með straumnum undir ísinn. Eddi að sjálfsögðu stökk til og náði í krakkagemlinginn og þurfti þá eðli málsins samkvæmt að kafa allnokkuð frá vökinni og koma sér og stúlkukindinni til baka, sem er jú meira en að segja það.
Ég hef alltaf, þar til í gær, staðið í þeirri meiningu að þetta hafa hann gert sem lögregluþjónn á vakt. En í gær fékk ég loks að vita að þetta gerði hann þegar hann var fjórtán ára.

Svo er það sagan af mótorhjólinu hans Ívars mágs. Hann keypti einhverntíma hjól og karlinn var jú ólmur í að fá að grípa í, enda eyddi hann einhverjum parti lögguferilsins sitjandi á sama Harley og nú prýðir lögreglustöðina við Hverfisgötu. Stökk karlinn á bak og þeysti af stað á þvílíkum ógnarhraða að Ívar saup kveljur og óttaðist mjög um líf karlsins og mótorhjólsins (ekki viss um samt í hvaða röð). Nú, gamli rýkur um hóla og hæðir (og veggi og súlur)eins og Evil Knievel og kemur loks til baka. Kveður hjólið algera druslu, hann hafi rétt skroppið yfir hundrað og hjólið skolfið eins og hrísla. Hefði mátt halda að hann væri á miklu meiri hraða. Var voða hissa þegar Ívar tjáði honum að þetta væri mílumælir.

4 Comments:

Anonymous Kiddi said...

góðar sögur. Ég fór í jarðaför fyrrum tengdapabba míns í sumar og þar voru margar góðar sagðar sem ég vissi ekki.

samúðarkveðjur kæri vinur.

1:27 AM  
Blogger Magnús said...

Þú ert heppinn að hafa átt þennan mæta mann að og geta minnst hans á svona jákvæðan hátt. Um það snýst þetta allt saman.

9:19 AM  
Anonymous Anonymous said...

Ég votta þér innilega samúð mína og Helgu þinni einnig.
Ég hitti Tengdapabba aðeins einu sinni, það var þegar þið voruð gefin saman, hann virkaði á mig sem vænsti og besti karl og ég trúi því að þannig menn fari á góðann stað hinum megin.
En það breytir því ekki að það er sárt að missa þá úr lifanda lífi.
Megi Guð gefa ykkur stirk í sorginni og æðruleysi til að finna innri frið.

Brynhildur.

1:20 PM  
Anonymous Anonymous said...

Virkilega fallegar sögur og gaman að lesa þær. Það eru forréttindi að eiga og hafa átt svona tengdapabba. Greinilega líka forréttindi að eiga tengdason eins og þig.

Haldið áfram að tala og hugsa svona fallega um minningu hans, kæra fjölskylda, það er mikill styrkur í því og hefði pottþétt verið ósk karlsins.

Olga Björt

5:53 PM  

Post a Comment

<< Home