Sunday, December 31, 2006

Völvuspá Sveins!!!

Sökum ekki einnar einustu áskorunar birtist hér VÖLVUSPÁ!!!

Árið 2007 mun þjóðin fagna, og það strax í ársbyrjun, aftöku Saddams Hússeins með flugeldsýningum, brennum og partýum í hverjum kofa. Mun gleðin standa fram á morgun.

Ingvar Valgeirsson mun verða ráðinn sem fimmti meðlimur Nælon til að peppa upp á kynþokka sveitarinnar.

Í ljós kemur strax á Þorranum að skalli Steingríms Joð er ekki ekta og munu Vinstri Grænir missa talsverðar vinsældir (eða eins og Sigmundir Ernir kallar það "gjalda afhroð") í kjölfarið.

Þátturinn Rockstar:Doors mun njóta gríðarlegra vinsælda hérlendir sem úti vegna þáttöku tveggja landa vorra; Geirs Ólafs og Friðriks Þórs Friðrikssonar. Völvan sér ekki fyrir hver úrslitin verða vegna þeirra óvissuþátta sem íslenskt sím-og netkerfi valda.

Miklar breytingar verða í íslenskri pólítík á vormánuðum. Völvan sér fyrir þingmannaskipti og breytingar í ríkisstjórn í sirka maí. Ekki er vitað hvers vegna, en þetta er alveg satt, sanniði bara til!

Íþróttamaður ársins lætur lífið er hann verður undir verðlaunabikarnum.

Sökum hræðslu við reiði múslimasamfélagsins verður áfengi og svínakjöt bannað og jól og páskar lögð niður. Ramadan verður tekin upp, skömmu áður en við ráðumst inn í Færeyjar.

Sylvía Nótt verður kjörin formaður Samfylkingarinnar með yfirburðum. Kristján Hreinsson gersamlega klikkast.

Hætti ég þá þessu bévítans bulli og segi bara

GLEÐILEGT ÁR

og takk fyrir rifrildin á árinu sem er að líða.

Saturday, December 30, 2006

Saddam

Á þessu myndbandi sést hvar Saddam Hússein (eigandi byggingafyrirtækisins Saddam Húseiningar í Kópavogi) er leiddur í gálgann. Þeir klippa hinsvegar af bláendann þegar annað tveggja gerist:

1. Karlanginn er hengdur fyrir að drepa tugi þúsunda saklausra borgara

2. Ashton Kutcher stekkur fram og gargar "You´ve been punk´d!!!"

Ykkar er valið, lesendur góðir.

Friday, December 29, 2006

Hvusslaxx

Margt á seyði milli jóla og nýárs. Tími sem allajafna er steindauður.

Fyrst finnst mér alveg hreint ógeðslega fyndið, en jafnframt sorglegt, að fjöldi fólks hafi orðið alveg dýrvitlaust af því þeu fengu sms-jólakveðju frá Dómínós á aðfangadagskvöld. Vodafone meira að segja búið að biðjast afsökunar opinberlega vegna tímasetningarinnar og alles. Persónulega sé ég ekkert athugavert við að fyrirtæki sendi kúnnunum jólakveðju.
Svo er jú fjöldi Hafnfirðinga alveg trítilóður vegna þess að Alcan vogaði sér að gefa þeim veglegan jólapakka sem innihélt nýja Bó-diskinn. Ég er nú svo vel upp alinn að ég hefði líklega þakkað fyrir mig, ekki hlaupið upp til handa og fóta og rifið kjaft. Menn tala mikið um að þarna sé verið að kaupa atkvæði, þetta fyrirtæki eigi skítnægan pening og því hægur leikur að ausa fé hægri-vinstri til að kaupa velvilja almennings. Mér sýnist heldur ekki vera vanþörf á, þar sem mér sýnist þorri fjölmiðlamanna vera á móti álverum. Sú auglýsing sem andstæðingar álvera fá í formi fréttaflutnings hlutdrægra fréttamanna er múltímilljarða virði og geta diskar með Bó og frímiðar á Haukaleiki ekki keppt við þessháttar. Og hananú.

Eníhjú, Eldri-Sveppur átti ammælífyrradag. Hann er orðinn fimmtán vetra gamall vandræðaunglingur og alveg gersamlega frábær.

Svo sá ég í fréttum að Guðlaugur Þór hafði brennst illa á baki. Leiðinlegt að hægrimenn brenni, en ég hugga mig við þá staðreynd að vinstrimennirnir brenna seinna.

Svo minni ég á Völvuspá síðunnar sem birtist seinna í dag, á morgun eða hinn, fer eftir sambandi völvunnar. Hún hefur sagt mér frá ótrúlegustu hlutum varðandi eitt og annað. Bíðið spennt. Völva þessi hefur margsannað sig, sagði til dæmis fyrir um dauða Gerald Ford, fall kommúnismans, myntbreytinguna ´80 og útgáfutónleika Lay Low.

Lag dagsins er í tilefni áróðurseinvígis Alcan og Sólar í straumi (lesist: bévítans kommúnistapakk sem ætti að drulla sér aftur heim til Kremlar).

Lagið er Duel með Propaganda. Yfirpródúserað af Trevor Horn.

Tuesday, December 26, 2006

Jólin

Er í gríðarlegu jólaskapi að horfa á rírönn af jólatónleikum Fíladelfíukirkjunnar. Ákaflega gott tónlistarfólk þar á bæ. Sérstaklega gaman, að öðrum fullkomlega ólöstuðum, að sjá hana Söru litlu (linkur hér til hliðar) syngja af grimmilegri tilfinningu. Þess má til gamans geta að sonur minn, Alexander, gubbaði á hana þegar hann var pínulítill. Hreint dásamleg minning sem oft yljar mér um hjartaræturnar.

Annars eru margir þarna úti sem ekki hafa haft tækifæri til að knúsa mig og kyssa gleðileg jól. Örvæntið ekki - ég er að leika og syngja á "morgunvaktinni" á Dubliner í kvöld, milli kl. hálfellefu og eitt. Kjörið tækifæri fyrir fólk að byrja að ná af sér jólaspikinu með því að labba á pöbbinn og vera í jólafíling. Hvet þó menn til að halda sönsum og sýna stillingu á hátíð ljóss og friðar. Stranglega bannað að berja hvern annan og vera með almenn leiðindi.

Nú, ég verð að monta mig, því ég fékk svo margt fallegt í jólagjöf. Bindi, sokka, náttslopp (kerla mín orðin leið á því að ég steli alltaf bleika sloppnum hennar), bækur og myndir um heimsstyrjöldina síðari frá bróðursonum mínum (pakkanum fylgdi reyndar eitt fallegasta kort sem ég hef fengið um ævina, hjemmelavet með teiknaðri mynd af mér) og svo fékk ég frá familíunni pakka úr stáli með stóru "S"-i framaná. Það eru sumsé allar Súpermann-myndirnar í bauk. Myndirnar eru fimm, en tvær útgáfur af tveimur þeirra. Súpermann eitt er í ögn lengri versjón og Súpermann tvö er í nýrri útgáfu, klipptri af Richard Donner. Doner þessi leikstýrði fyrstu myndinni og átti að gera númer tvö einnig. Hann var hinsvegar rekinn áður en myndin var öll tekin upp og var henni breytt í gamanmynd. Svo fyrir skemmstu fékk Donner að klára hana eins og hann vildi hafa hana, svona eftir því sem hægt var. Hlakka mikið til að sjá hana.
Má geta þess að Donner þessi er kannski frægastur fyrir Lethal Weapon-myndirnar, sem og Omen hina eldri. Gerði síðast 16 Blocks.

Hvað um það, sjáumst á Döbb í kvöld - eða ekki.

Saturday, December 23, 2006

Jóla

Í gær komst ég offissjallí í jólaskap. Var svo stálheppinn að rekast á - og kaupa - fjórar gamlar Bond-bækur í íslenskri þýðingu, Þrumufleyg, Náttfara (besta bókin - versta myndin), Í þjónustu hennar hátignar og Þú lifir aðeins tvisvar. Með kápum og allt, voða vel farnar og svakastuð.

Í dag sá ég svo í Mogganum fréttir þess efnis að Rush eru búnir að taka upp plötu og gefa hana út á næsta ári. Á sömu síðu, aðeins neðar var sagt frá því að Duran Duran vinni nú að nýrri plötu einnig. Semsagt, lífið leikur við mig og ég er hress með það.

Ef einhvern langar óstjórnlega að gefa mér jólagjöf langar mig í:

Sjálfvirka Colt 45, Steinberger-gítarinn sem stolið var af mér ´98, Vox Ac15 magnara ellegar gott konfekt og gott rauðvín.

Skrifa ei meir fyrir jól sökum anna og vil því biðja þann Guð sem þið trúið á, hafið þið á annað borð valið að trúa á einhvern, gefa ykkur

GLEÐILEG JÓL!!!

Friday, December 22, 2006

Hva...

Getur einhver sagt mér hvurn andsk... þetta á að þýða? Er bókum bara kippt af almennum markaði ef einhver bévítans gagnrýnandi er ósáttur við hana, eða er þetta eitthvað súrt grín?

Eitt gamalt uppáhaldslag.

Líður að jólum

Hey - jólin eru að koma! Vei!

Af því tilefni vil ég kynna jólamatseðil Nings:

Satai-rjúpa með bambus og rauðkáli

Hangikjöt í súrsætri sósu með nan-laufabrauði

Wok-núðlur með uppstúf og grænum baunum

Skötu-sushi með soðnum eplum

Hamborgarhryggur í drekasósu með hýðishrísgrjónum og beibímaís


Hvað um það, hér má sjá viðtal við stúlku sem segir farir sínar ekki sléttar eftir samskipti hennar og Byrgis-Guðmundar. Lítið á.

Hér má svo sjá hvað mig langar að fá í jólagjöf.

Meira seinna.

Thursday, December 21, 2006

Kallíhei!

Stuð. Allt að springa úr kommentum við síðustu færzlu, sem þó var bara linkur. Gaman að því, nema hvað þeir sem leggja mér orð í munn mættu gjarnan skrifa undir rangfæzlur sínar, takk.

Eníhjú, horfði á Scoop í gær, en hún er nýjasta mynd Woody Allen. Sultuskemmtileg og hressandi. Byrjunin sérlega góð. Fæst í 2001 hjá honum Sigga litla, tryggið ykkur eintak.

Nú er maður á kafi í vinnu, er til kl. 10 í kvöld í búð Tóna og get því ekkert fylgst með fréttum frekar en síðustu daga. Sé bara mbl.is og ekkert sjónvarp. Því bið ég fólk, hafi það síðustu fréttir af Byrgismálinu (eða öðru sem það telur að ég telji áhugavert) að henda link hér í kommentakerfið.

Munið svo að Jesú sér ykkur.

Tuesday, December 19, 2006

Meira um Byrgis-Guðmund

Rakst á þetta og datt í hug að skella á það hlekk.

Monday, December 18, 2006

Perri eða fórnarlamb?

Sláandi fréttir af Guðmundi í Byrginu, þ.e.a.s. ef fréttir skal kalla. Veit ei hvort rétt er eður ei, en má benda á nokkur atriði:

1. Það er lítið mála að senda dónalega tölvupósta í annars manns nafni ef maður kemst í annars manns tölvu. Eins lítið mál að senda dónó sms ef maður kemst í annars manns síma. Ekki laust við að maður hafi gert slíkt sjálfur einu sinni eða tvisvar hér í den.

2. Sú sem sér um fréttina (ásamt öðrum reyndar) er Lára Ómarsdóttir, dóttir Ómars Þorfinns Ragnarssonar. Sú, líkt og faðir hennar, er ekki hlutlaus í fréttaflutningi eins og talað er um hér.

3. Góður maður sagði eitt sinn að skoðanir væru aldrei merkilegri en þeir sem skrifuðu undir þær. Mætti kannski líka segja þetta um fréttir. Ég hef engan séð ásaka forstöðumann Byrgisins um pervertisma nema í skjóli nafnleyndar.

Datt í hug að henda þessu inn að gamni. Hef reyndar ekki séð allar fréttirnar af málinu - kannski er kallinn urrandi perri, kannski fórnarlamb rógburðar og tölvufalsana af svívirðilegu gerðinni. Hve veit? Ekki ég. Hef þó heyrt fleiri góða hluti en slæma um karlinn.

Hvað um það, nú er klukkan orðin miðnætti, kominn tími til að fara að sofa og síðast en ekki síst - kominn nítjándi desember og Fúsi Óttars hljóðfærasali og trommuálfur og Ingimundur Óskarsson bassastrumpur eiga báðir afmaul (afmæli í feirtölu fyrir málhalta) í dag! VEI! Hann á ammaulídag, hann á ammaulídag, hann á ammaul alveg báðir, hann á ammaulídag.

Þeir lengi lifi, rétt eins og Gunnar Kveðst, sem átti ammæli í gær. Hann er sko fínn kall, Guðfræðimenntaður og allt - enda perri.

Lag dagsins er Pervert með Buff. Enginn linkur á það, kaupið bara diskinn, eymingjarnir ykkar - nú, eða biðjið um hann í jólagjöf frá Jólasveininum.

Jólalag dagsins er Ég sá mömmu kyssa Jón og Sveins. Þess vegna "kemur" Jólasveinninn í kvöld.

Sunday, December 17, 2006

Maður ársins

Ég var valinn maður ársins af Time! Jibbí! Kom mér reyndar ekki svo á óvart þegar ég heyrði þetta í fréttunum í útvarpinu í morgun, þar sem ég hef löngum verið meðvitaður um eigið ágæti. En ég vil þakka Time fyrir skarpskyggni sína og smekkvísi. Eðaltímarit greinilega.

Má samt taka það fram að á fjórða áratug síðustu aldar var Adolf nokkur Hitler (ekki rugla honum saman við Adolf Rickenbacker) valinn maður ársins af sama blaði.

Hvað um það, ég er í fíling og er hress. Eitt spilerí eftir fram að jólum, nóg til af hangiketi, búinn að kaupa eitthvað af gjöfum, blablablabla.

Lag dagsins er fyrsta jólalagið hér á þessari bloggsíðu. Kíkið hér.

Nánar síðar.

Saturday, December 16, 2006

Ammæli Framsóknar

Framsóknarflokkurinn er 90 ára í dag.

Ég held að hann hafi alltaf verið 90 ára.

Friday, December 15, 2006

Sprellar á lofti

Lék og söng með Stebba litla Stuð í gær. Einkar gaman, sérstaklega af því að Eysteinn í Syntax Error mætti á svæðið með hristur og gjöll og lék með oss af miklum móð. Siðrekur glæpón mætti á svæðið og héldum við til veislu á ónefndum stað eftir gigg. Þar var margt um manninn og hápunkturinn var eflaust þegar landsfrægur grínisti steig á stokk og sveiflaði sprellanum framan í fólk. Gersamlega unpayable.

Ekkert spil um helgina, svo legið verður í víddjói og verzalaðar jólagjafir. Í þessum skrifuðu orðum er Sveppur hinn eldri að kveikja á Lock, Stock o.s.frv.

Jibbíkóla.

Lag dagsins er Drumbone með Blue man group.

Thursday, December 14, 2006

Ju

Gott ef ég og Stebbi Stuð erum ekki að spila á Q-bar í kvöld. Mætið öll, annars sker ég af ykkur ennið.

Hvað um það, hér er getraun. Poppgetraun.

Hver er hljómsveitin?

Bassaleikaranum var boðin staða í Toto og seinna í hljómsveitinni Chicago. Hafnaði þvi, því hann vildi einbeita sér að hljómsveitinni sem spurt er um. Eftir að sveitin hætti spilaði annar meðlimur hennar með Whitesnake og enn annar með King Crimson.

Hljómsveitin var voða vinsæl in ðí eitís.

Vinsælasta lagið þeirra var rólegt lag með fullt af syntamottum.

Þeir fengu nafnið sitt af ístegund.

Verðlaun eru einn bjor í kvöld á Kúbarnum.

Wednesday, December 13, 2006

Leikkonugetraun

Væri ekki mál, eftir langa bið, að hafa leikkonugetraun? Hér er ein...

Spurt er um leikkonu. Hún ber sama eftirnafn og gríðarlega frægur tónlistarmaður. Hún er gift öðrum gríðarlega frægum tónlistarmanni (með allt annað eftirnafn) og hefur leikið í bíómynd á móti honum. Sú mynd endaði á því að hann henti henni í stóran haug af skít.

Hún er Íslandsvinur.

Hver er hún?

Lag dagsins er I feel love með Blámannsbandinu.

Ekki fótur fyrir þessu

Ætli Heather Mills sé að fara á Amster á fyllerí? Fá sér í fótinn...

Sjá hér.

Annars er ég í fíling, þrátt fyrir að hafa verið vakandi í alla nótt með Litla-Svepp. Hann nebblega fékk 40 stiga hita og læknirinn kom og alles. En hann er miklu betri núna og er að hressast, sérstaklega eftir að hann fékk sápukúlubox í skóinn.

Nú blæs hann sápukúlur upp um alla veggi og súlur og hananú.

Tuesday, December 12, 2006

Jólaglöggskortur Sveins

Ætlaði að fara á jólaglögg Extons í gær og detta í það. Sofnaði kl.8 með Yngri-Svepp í fanginu í rúmi Eldri Svepps. Vaknaði þar kl. hálfníu í morgun, ÓGEÐSLEGA SVANGUR!

Þetta er í þriðja skiptið sem ég skrópa í jólaglöggið. Biðst afsökunar og lofa að gera þetta aldrei aftur.

Monday, December 11, 2006

Skítugir sokkar og rauðvínslegnar buxur

Hæ.

Hvað segiði gott? Ég er hress sem slíkur. Var að spila á Celtic Cross um helgina með honum Binna mínum. Skrapp svo niður á Arabar (Amsterdam) eftir gjugg á sunnudagsmorguninn og gestaði með Buffinu, sem er ávallt hreinn unaður. Sá þar einfættan mann, áfengisdauðan á stól með gerfilöppina liggjandi uppi á nærliggjandi borði. Sem sagt, ekki föst á hann, heldur bara liggjandi sem slík. Vissulega sárvorkenndi ég manninum að vera mínus ein löpp, eitthvað sem ég myndi ekki vilja lenda í, en fannst þetta samt líka svolítið skondið. Hitti fullt af skemmtilegu fólki, sem og bjartsýnu. Bjartsýnasta fólkið voru Ellen og Bengta, sem reyndu að fá mig til að dansa. Slíkt geri ég einfaldlega ekki.

Eníhjú, jólahlaðborð Tónabúðarinnar í gær og át ég á mig gat. Drakk samt varlega og sparlega. Át ógeðslega mikið af reyktu kjöti og prumpa sinnepsgasi.

Jólaglögg Exton í kvöld... á ég að fara? Frítt brennivín og skemmtilegt fólk, en á móti kemur að stundum er frítt áfengi dýru verði keypt og oft er gott að sitja heima og horfa á Law and Order.

Djamm eður ei, þar er efinn...

Bleh

Sá í fréttum fyrirsögn. Sú sagði mér að Solla stirða væri einhversstaðar í 4. sæti - ég vissi ekki einu sinni að hún hefði farið í prófkjör!

Jólagjöfin mín í ár.

Meira bull seinna.

Friday, December 08, 2006

Bryndreki Sveins

Hún á ammælídag o.s.frv. hún Dr. Brynhildur Skrymbrildur Stefánsdóttir Frölich. Til lukku með að vera orðin gömul kona í sveitinni, hjartans krúsíbollan okkar allra.

Og, já, ég veit Eyvindur að ég skrifaði ekki afmæliskveðju fyrir þig í gær, en þú ert bara ekki jafn sætur og hún Brynka. Sorrí. Mér finnst samt leiðinlegt að hafa ekki komist í ammælispartýið þitt. Kem bara næst, það er ekki nema 364 dagar þangað til. Svo er bara rétt rúmlega ár í ammælið mitt.

Annars, gott fólk, var ég að spila með Stebba Stuð í gær á Q-bar, sem er flottur staður. Við vorum í stuði og spiluðum fram á morgun við mikla hrifningu beggja gestanna. Svo er ég að spila í kvöld og annað kvöld á Celtic Cross. Verð þar með Binnanum mínum í kjallarahorninu fram á rauðan morgun. Við höfum í hyggju að vera skemmtilegir, spila bjór og drekka tónlist. Og, jú, reykja KRAKK!

Ég sá frétt á mbl um daginn, hvar sagði frá því að löggan í Mæamíhreppi Bandaríkjanna hefði bjargað nöktum manni frá krókódíl einhversstaðar úti í feni. Hann gat ekki útskýrt hvað hann var að gera berlæraður úti í mýri, og það syngjandi og öskrandi, en viðurkenndi að hafa verið að reykja krakk. Betri forvörn er ekki til - reyktu krakk og þú gætir verið étinn af syndandi og andfúlli risaeðlu.

Ég hef því ákveðið að fara aldrei til Mæamí.

Wednesday, December 06, 2006

Tielman-bræðurnir

Pjetur heitir maður og er Stefánsson (já, Pjetur, ekki Pétur) - sá hinn sami og samdi lagið Ung og rík. Skrýtinn og skemmtilegur karl.

Hann kom í verzlunina áðan og benti mér á þetta.

Alger schnilld, annar gítarinn tjúnaður langt niður (eitthvað sem þekkist ekki fyrr en löngu eftir að þetta var tekið upp) og stælarnir áratugum of snemma. Þessir rokkarar voru langt á undan sinni framtíð, beint úr indónesíska fátækrahverfinu í Haag. Þetta er nýtt uppáhaldsband hjá mér.

Njótið.

Monday, December 04, 2006

Síminn hans Guffa

inniheldur myndavél. Með henni náði hann þessari mynd.

Annars er ég að horfa á, einhverra óskiljanlegra hluta vegna, sjónvarpsmynd á Stöð 2. Hún heitir eitthvað eins og "Gröf Tútankamons konungs" og er held ég hreinlega versta Indiana Jones-kópía sem ég hef séð - og hef ég nú séð ýmislegt. Verri en "King Salomons Mines" með Richard Chamberlain og Sharon Stone, jafnvel mun verri en "Librarian" með Noah Wyle og Kyle Makklakklan.

Svo vond er myndin að tær unaður er á að horfa, enda er hinn rómaði Casper Van Diem í aðalhluttverki. Malcolm McDowell er vondi kallinn eins og venjulega. Hann hlýtur að vera með versta umboðsmann bíósögunnar, frábær leikari sem leikur undantekningarlítið í sorpi.

Það hefst með Todmó

"Bara taka sjénsinn út á yzta grensinn" - agalegt leirburðarstagl hjá annars frábærri hljómsveit.

Sunday, December 03, 2006

Sunnudagskjaftæði

Var að koma úr Húsasmiðjunni, hvar hálf þjóðin var að kaupa jóladrasl. Agalega leiðinlegt. Jólaundirbúningur er bara hreinlega eitt það leiðinlegasta sem ég veit, nema hvað mér finnst svaðastuð að kaupa jólagjafir handa mínum nánustu (mínum nánösum).

Hvað um það, drulluþreyttur eftir þriggja kvölda spilerí. Trúbb á fimmtudaginn og Swiss á efri hæð Dubliner í gær og fyrradag. Ansi hreint pakkað og mikið um gesti og að öðrum ólöstuðum var mest gaman þegar Magni kom með Dilönu, vinkonu sína og þau spiluðu og sungu með oss í miklu meira en klukkutíma. Staðurinn auðvitað stappfylltist og röðin náði, að sögn dyravarða, út að Einari Ben. Dyraverðirnir sögðu mér svo líka að Toby hinn ástralski hefði mætt, en hreinlega ekki komist upp á efri hæð sökum mannmergðar. En mikið svakalega var gaman að þessu og vil ég þakka Magna kærlega fyrir innlitið.

Eitt finnst mér þó agalegt - sökum einhverra reglna um hávaðamengun er nú bannað að hafa gluggana á Dubliner opna, sem stuðlar að gríðarlegri köfnunartilfinningu starfsfóks og pottþett talsvert aukinni hættu á lungnakrabba. Lagast þó örugglega eitthvað þegar reykingar verða bannaðar á sæsta ári, en ég held ég kafni pottþétt áður.

Ekki meira að sinni, veriði sæl og snæðiði snæri.