Wednesday, January 31, 2007

Getraun enn eina ferðina

Nú, jæja. Til að byrja með má benda á að þar sem allir hlekkirnir eru óskiljanlegir hér til hliðar skulið þið bara skoða þá alla. Takk fyrir.

Eníhjú, leikaragetraun. Samt varla, sökum þess að umræddur leikari lék bara í tveimur myndum (auk smáhlutverks í sjónvarpsmynd) og fór svo að gera eitthvað allt annað. Hann var sumsé staddur á bar þegar honum var boðið hlutverk í bíómynd. Hann þáði það og vakti gríðarlega athygli um víða veröld og má segja að hann hafi slegið í gegn. Hann lék tveimur árum seinna þetta aukahlutverk í sjónvarpsmynd og svo voru honum boðnir litlir milljón dollarar fyrir að leika geimveru í bíó. Hann þáði það, lék geimveruna, hirti gróðann og síðan hefur hann ekki nennt að leika neitt, enda á hann nóg af peningum og fæst bara við ráðgjöf og hönnun.

Hann heitir Alfred og pabbi hans er frá Afríku.

Hver er maðurinn?

Bíó

Var að huxa um að skella mér í bíó í sumar og sjá þessa, en mér sýnist sem svo hún sé allt of róleg. Gerist ekki rassgat í henni...

Saturday, January 27, 2007

Kalifornía, part 2

Nú, jæja, þegar NAMM-hljóðfærasýningunni lauk á sunnudaginn stukkum við Haukur upp í rútu, eða öllu heldur langferðabíl, og brunuðum ásamt fleirum til San Diego. Þar fórum við í partý, öllu heldur veislu, í boði Taylor gítara. Átum á oss gat og spjölluðum við allskonar fólk. Svo fór mánudagurinn í skoðunarferð um Taylor-verksmiðjuna, hvar stofnendurnir sögðu okkur sitthvað um sögu kompanísins og sýndu okkur nýjustu græjur. Kom mér skemmtilega á óvart hvað Bob Taylor, einn stofnendanna og prímusmótor Taylor, er sniðugur kall. Til dæmis þróuðu þeir lofthreinsibúnað til að koma í veg fyrir að lakkið, sem gítararnir eru sprautaðir með, berist út í andrúmsloftið. Núna eru fleiri fyrirtæki farin að nota sama búnað, til dæmis Toyota og fleiri stórfyrirtæki. Svo er hann Bob bara einkar lítillátur og indæll kall, svona að mér sýnist - fyrir utan hvað hann smíðar viðurstyggilega góða gítara. Byrjaði við þriðja mann í einhverjum bílskúr, smíðaði sárafáa gítara á ári, skítblankur. Núna er þetta stórfyrirtæki, en hann er sjálfur með eitt herbergi í húsinu hvar hann og vinir hans smíða fáeina gítara á viku undir nafninu R. Taylor - þeir kosta meira. Gaman að því.
Áður en við Haukur fórum aftur til L.A. fengum við brasilískan skiptinema á reiðhjóli með aftursæti til að skutla okkur eilítið um borgina og sáum t.d. tvíburaturna, sem ég er handviss um að eru turnarnir sem Tom Cruise, öðru nafni Messías, stökk á milli í Mission Impossible þrjú - en mér fannst hún nú síst þeirra þriggja.
Svo fengum við bíl með sjóför til að skutla okkur upp til L.A., hvar við fórum snemma í hátt. Lögðum svo af stað eldsnemma á miðvikudaxmorgun frá L.A. til Phoenix, þaðan til Boston og svo ósofnir, illa lyktandi og eldhressir til Klakans.

Frasar ferðarinnar;

"Ha? Tólf tegundir?"

"Engan hef ég nú heyrt segja það!"

"Leiðinlegur, maður!"

"Hvar er Bob Dylan?"

Vonbrigði ferðarinnar;

Missa af Eddie Van Halen. Hann var að kynna einhvern signature gítar frá Charvel, sem er ÞRIÐJA fyrirtækið sem framleiðir fyrir hann sérstaklega, örugglega sístur þeirra þriggja. Mætti klæddur, lyktandi og bullandi eins og róni og varð sér víst allverulega til skammar. Kveikti sér svo bara í sígó á sviðinu, en eins og allir vita eru reykingar vægast sagt illa séðar í opinberum byggingum á stór Los Angeles-svæðinnu. Svona sem dæmi um hversu mjög hann er búinn að missa það er Van Halen búinn að bóka túr með engan söngvara enn og sextán vetra gamlan son sinn sem bassaleikara. Sammy og Michel Anthony úr Van Halen eru hinsvegar í fínum fíling bara að spila saman á klúbbum um USA og finnst gaman.

Svo var líka fúlt að komast ekki í sleik við John Taylor. Það hefði verið stuð.

Ekki orð um það meir!

Thursday, January 25, 2007

Kalifornía, partur 1

Best að skipta ferðasögunni í tvo kafla, hún er eflaust löng.

Eníhjú, við Haukur frændi lögðum af stað til fyrirheitna landsins sl. þriðjudag klukkan rétt rúmlega hádegi. Gunnar, verðandi biskup landsins, skutlaði oss á völlinn, hvar ég keypti íslenskt brennivín, og svo fórum við upp í flugvél. Flugum til Boston með Icelandair, en þar var stoppað. Eftir það sem virtist vera endalaus bið vegna bilunar (flapsa VANTAÐI á vélina sem átti að fljúga með okkur og því sátum við hálftímunum saman á vellinum) var flogið með gamalli Lufthansa-hakkavél í eigu Air Satan til Las Vegas. Þar áttum við pantað flug með vél sem var löngu farin, sökum þeirra tafa sem verið höfðu. Því var okkur komið fyrir á hóteli og græddum við því tvo bíltúra gegnum Las Vegas. Sáum öll helstu spilavítin og Las Vegas Strip og ég fjárfesti í CSI-bolum á flugvellinum fyrir allt of mikið af peningum. Nú, svo var flogið með einhverri DC-3 prótótýpu til Los Angeles. Þangað mættum við alltof seint, ósofnir, grautfúlir og samt í stuði.
Nú, við tékkuðum okkur inn á hótelið og kíktum upp í ráðstefnuhöll hvar NAMM-sýningin var að fara í gang. Þá sá ég Sammy Hagar á labbinu. Sýningarsvæðið sjálft var á stærð við hálfa tylft amerískra fótboltavalla og gestir og sýningaraðilar voru eitthvað um áttatíu þúsund, ef marka má einhvern aldurhniginn starfsmann á svæðinu. Svolítið yfirþyrmandi, en bara gaman.
Nú, svo tóku við almenn skyldustörf, fundir og fikt. Skoðaðar nýjustu græjur frá hinum ýmsu vörumerkjum, bæði þeim sem við flytjum inn og svo einnig græjur frá þeim sem samkeppnisaðilar vorir hérlendis flytja inn. Nokkrir hlutir, utan þeirra sem minnst er á í fyrri færzlu, eru vel þess virði að minnast á. Hér eru nokkrir;

Boss Fender Deluxe Reverb amp fetill. Roland og Fender hafa í sameiningu búið til fetil sem hermir eftir þessum magnara, sem frægur er fyrir frábært reverb. Hljómar alveg hreint býsna vel. Heyrði líka, þó ekki jafn mikið eða vel, í Bassman-fetlinum frá Boss. Virkar alveg á mig. Líklegt að allavega annar þessara fetla endi í töskunni minni þegar þetta kemur á almennan markað ívor.

Sá, skoðaði og fiktaði í fullt af Washburn-gíturum. Þessi, þrátt fyrir að vera gamall og með Floyd Rose, fer í safnið mitt á árinu. Besti gítar í heimi að spila á. Reyndar var fullt á þssum bás sem heillaði mig, eins og Parker-gítararnir, sem nú eru bæði kassa og rafmagns, sem og er hann Parker kominn með línu af bössum. Gaman að því. Svo var Joe Satriani að kynna nýjan Peavey-magnara, pínkulítinn lampakút. John Taylor kom svo daginn eftir að kynna nýja bassann sinn, sem hann hannaði sjálfur. Hann er kominn með rafgítar í stíl líka, en ég náði hvorugan að prófa. Náði hinsvegar að taka í spaðann á kallinum og hann bað að heilsa þér. Þó var mesta stuðið á Peavey-básnum þegar feðgarnir úr American Chopper komu á svæðið og settu nýja Peavey-mótorhjólið í gang. Það var mesti hávaðinn á svæðinu, svona alveg spauglaust.

Á Ernie Ball-básnum var fjör og strafsmenn kompanísins klæddir sem rokkstjörnur frá ýmsum tímum. Þar mátti sjá glimmer-rokkara í seventís-stíl, Madonnu, metalmenn og bítil svona meðal annars. Þar mátti líka sjá nýju Family reserve-línuna frá þeim, örugglega geðveikislega dýrt ef verð er eitthvað í samræmi við gæði. Nýjir wah-wah-fetlar gripu einnig athyglina, feykifallegir. Prófaði þá reyndar ekkert, enda af nógu að taka á svæðinu. Steve Morse, Steve Lukather, Albert Lee og hvaðhannafturheitir úr Mr. Big héngu líka þarna daginn út og inn, gefandi eiginhandaráritanir og spjallandi við gesti og gangandi.

Korg voru einnig með ný upptökutæki og synta sem heilluðu mjög, Matchless-magnararnir þóttu mér sexý, Zemaitis-gítararnir voru flestum öðrum fegurri (enda kosta þeir tvær og hálfa fokkings milljón!), TC-effektarnir hljómuðu ákaflega fallega og reyndar var svo margt þarna sem mig langaði að eignast að ég held að Donald Trump hefði ekki efni á því öllu.

Svo var jú svolítið skemmtilegt að sjá og heyra Stevie Wonder leika og syngja á Yamaha-básnum. Hann sat bara einn við píanóið og var í fíling. Ég veifaði í hann, en hann sá mig ekki. Ekki var neitt sérlega leiðinlegt heldur þegar Marco Mendoza, sem hefur leikið með smápoppurum eins og Ted Nugent, Thin Lizzy, Whitesnake og fleirum, steig á stokk ásamt félögum í M-Audio partýi. Þéttara band hef ég bara hreinlega ekki heyrt, punktur - og var ég þó í Smack! Svo drap það mann heldur ekki úr leiðindum að fara út að éta með nokkrum starfsmönnum Hljóðfærahússins, þrátt fyrir að maturinn á svæðinu væri óætur með öllu. Staðurinn hét Alcatraz - myndi maður éta á veitingahúsi sem héti Litla-Hraun?

Læt þetta duga í bili, meira seinna.

Kominn heim í heiðardalinn

Var að skríða heim frá Ameríkunni, eftir að hafa eytt nokkrum dögum í L.A. og svo nokkrum í San Diego, sem þýðir einmitt hvalsköp. Skoðaði nýjustu græjur og skrifa nánari skýrslu í kvöld. Nú er ég farinn að sofa, enda ekki búinn að gera mikið af því síðustu vikuna.

Hér eru samt linkar á græjur sem eru verulega sexí. Vox-magnarinn til dæmis olli hreinlega standpínu á við það sem best gerðist í gagnfræðaskóla. Svo var annar Vox, ekki mikið síðri. Hann má skoða hér.

Meira síðar, góða nótt.

Tuesday, January 16, 2007

Bjarni rúlar!

Ég taldi mig hafa sett upp öflugustu getraun mína frá upphafi, en Bjarni Randver saug hana í aðra nösina og fór létt með.

Sá sem spurt var um er Richard Burton, réttu nafni Richard Walter Jenkins Jr. Hann ólst upp á fátæku heimili í Pontrhydyfen-þorpinu í Wales, hvar welska var töluð.

Hann fékk aldrei Óskar, en 1970 var hann tilnefndur. John Wayne fékk styttuna, en rétti Burton hana með þeim orðum að hann ætti hana frekar skilda.

Eftir að sonur hans lýsti löngun sinni til að sjá pabba gamla leika byssuhetju var sjálfur Alistair MacLean fenginn til að skrifa Arnarborgina, Where Eagles dare, sérstaklega til þess að Burton gæti leikið Schaefer. Hann skrifaði bíóhandritið og bókina samtímis, en þetta var hans fyrsta kvikmyndahandrit, en þó langt frá því það síðasta. Titillinn var fenginn úr Ríkharði þriðja: "The world is grown so bad, that wrens make prey where eagles dare not perch". Grínið var að sjálfsögðu Richard III - Richard Burton. Skiljiði?

Ungi sölumaðurinn sem hann hitti í flugvél á leiðinni til Kaliforníu - Kevin Kostner.

En að öðru - ein af mínum uppáhaldsbíómyndum er Sunset Boulevard. Í dag eru einmitt 56 ár síðan hún fékk Golden Globe-verðlaunin, þau fyrstu sem veitt voru.
Við þá götu verð ég vonandi eftir tæpa tvo sólarhringa. Ætli húsið í myndinni standi enn - og ætli William Holden sé ennþá feis dán í sundlauginni?

Monday, January 15, 2007

Enn ein leikaragetraunin, demitt!

Nú skal spurt um ógisslega flottan leikara, sem drap sig á ólifnaði. Reykti allt að fimm pakka á dag og drakk eins og svampur - þó ekki Sveinsson.

Bræður hans og systur voru eitthvað á annan tug. Fjölskyldan, sem talaði annað tungumál en ensku, var skítblönk. Það bjargaði okkar manni svolítið að kennarinn hans ættleiddi hann.

Hann fékk aldrei Óskarsverðlaun, þó svo að við eina Óskarsverðlaunaafhendinguna rétti sigurvegarinn honum styttuna með þeim orðum að honum þætti okkar maður eiga að fá hana.

Hann var einn hæst launaði kvikmyndaleikari heims um tíma. Svo vinsæll var hann að geysivinæll rithöfundur skrifaði kvikmyndahandrit og bók samtímis, bara til að hægt væri að kvikmynda hana með okkar manni. Sonur okkar manns hafði nebblega beðið pabba sinn að leika hetju í byssubardagamynd. Bíómyndin og bókin eru bæði löngu orðin sígild. Nafn bókarinnar og myndarinnar eru fengin úr Shakespeare-leikriti.

Eitt sinn sat hann í flugvél á leið til Kaliforníu (sem ég er einmitt að fara til á morgun). Við hlið hans sat ungur bandarískur sölumaður, sem hafði áhuga á að hasla sér völl í Hollywood. Okkar maður gaf honum góð ráð og hvatti hann til dáða, sem varð til þess að ungi sölumaðurinn hætti í vinnunni og á núna tvær Óskarsstyttur til að prýða heimili sitt. Hvoruga þó fyrir leik.

Um hvern er spurt? Svariði nú.

Annars er ég jú að fara til Ameríku í morges. Jú, Kalifornía, hír æ komm, að skoða nýjustu græjur.

Sunday, January 14, 2007

Tónabandið rúlar!

Við strákarnir í Tónabúðinni lékum í gær á skemmtilegum tónleikum hjá Samhjálp. Valdi, félagi minn hjá Samhjálp, gabbaði okkur til að leika á styrktartónleikum fyrir foreldra tveggja ára stráks, sem er erlendis í krabbameinsmeðferð - mönnum er jú ekki siðferðilega stætt á að segja nei við slíkri beiðni, auk þess sem við bjuggumst fastlega við að þetta yrði bara gaman, sem og það var.

Þarna kom fram slatti af góðum tónlistarmönnum úr Jesúgeiranum t.d. Edgar Smári og Erdna Varðardóttir, hvort tveggja eðalsöngfuglar. Verð þó að segja að hún Regína Ósk stóð upp úr, enda ekki hægt að keppa við svoleiðis. Hún er bara einfaldlega best í gervallri veröldinni og þó víðar væri leitað. Enda var ég feginn að lagið sem ég söng (Little Wing) var á dagskránni á undan hennar atriði.

Svo fór ég niður á Dubliner og lék þar ásamt strákunum mínum í Swiss. Er óhætt að segja að það var ekki jafngaman né jafngefandi, en það er engan veginn hljómsveitarfélögum mínum að kenna, þeir eru æði. Sumir gestanna voru það hinsvegar ekki. Sumt fólk á bara einfaldlega ekki að fá að drekka áfengi - eða ganga laust.

Annars var ég að hugsa um að gera stuttmynd. Han Elmar, félagi minn, er mikill Yatzy-spilari og er á leið á stórmót erlendis að keppa í þessari skemmtilegu íþrótt. Mun myndin fjalla um þáttöku Elmars á Yatzy-mótinu.

Titillinn - jú, Elmar í Yatzy.

Thursday, January 11, 2007

Mangi kallinn...

rótsaltaði getarunina í tilraun númer eitt. Britt Ekland var það, sú sem gift var Peter Sellers hér í eina tíð. Þau eru, eftir því sem ég best veit, einu hjónin sem leikið hafa í Bond-myndum, hún var í Man with the golden Gun og hann í Casino Royale ´67.

Svarið í næstu getraun er Jude Law. Hvernig hljóma vísbendingarnar?

Muna svo að mæta á Döbblíner í kvöld, það er ekki eins og þið hafið eitthvað annað að gera.

Leikkonugetraun

Nú er mál að standa fyrir leikkonugetraun, svona fyrir stelpurnar.

Spurt er um leikkonu, sem er altalandi á ensku, þýsku og frönsku - auk hennar eigin móðurmáls, sem er annað.

Hún giftist hér í denn rosalega frægum leikara og átti með honum dóttur, sem er í dag einskisnýt dópistadrusla og glæpamaður.

Eftir að hún skildi við leikarann tók hún saman við einn vinsælasta tónlistarmann heims (á þeim tíma).

Hún hefur leikið á móti Christopher Lee oftar en einu sinni.

Hún þótti ógeðslega djúsí belja hér í eina tíð. Nú er hún bara gömul og krumpuð.

Hver er kerlingin?

Tóní

Svar við síðustu djetraun er Anthony LaPaglia. Bobby DeNiro lamdi hann í Analize that og hann fílaði það vel. Svo lék hann eitt sinn í mynd með Mimi Rogers, en hún er einmitt fyrsta eiginkona Thomas Cruise Mapother III.

Er á Döbb í kvöld. Spurning dagsins er eftirfarandi - af hverju ætlar þú ekki að mæta?

Meira síðar.

Getraunin stendur enn...

Enginn með rétt enn í getrauninni. Því er nauðsynlegt að koma með frekari vísbendingar.

Hann er yfirleitt talinn ítalskur, þar sem hann ber ítalskt ættarnafn. Hann er þó fæddur og uppalinn í Ástralíu, en af ítölsku og hollensku bergi brotinn.

Tuesday, January 09, 2007

Enn ein getraunin

Nú eru leikaragetraunir bæði hjá Eyva og Kidda Snerli. Gaman að því.

Þar sem Bjarni Randver tók síðustu í nebbann kemur hér ný:

Spurt er um leikara einn ágætan.

Hann var laminn af Robert De Niro í bíómynd.

Hann lék mafíumorðingja í "sannsögulegri" sjónvarpsmynd. Myndin bar nafn morðingjans og okkar maður lék titilhlutverkið.

Hann lék í mynd sem byggð var á sögu eftir John Grisham.

Hann hefur leikið í myndum með Val Kilmer, Woody Allen, Samuel L. Jackson og fyrrum eiginkonu Tom Cruise.

Svar óskast.

Sunday, January 07, 2007

Ég spyr eins og fávís kona...

Ertu ekki hress?

Friday, January 05, 2007

Bíógetraun og bleble

Komiði sæl. Mikið varð ég nú glaður að sjá þetta. Það minnkaði móralinn vegna síðasta fyllerís. By the way, ef einhver rekst á sjálfsvirðingu mína, góðfúslega komið henni til skila. Sást síðast á Hótel Íslandi 30.12.06.

Annars er kominn tími á bíógetraun og spurt er um leikara.

Hann hefur leikið skæðan óvin frægrar persónu úr bíóheiminum, sem og óvin frægrar teiknimyndasögupersónu í sjónvarpsþáttum. Svo átti hann að leika sjálfur eina teiknimyndapersónu í sjónvarpsþáttum, en var látinn fara á síðustu stundu.

Hann er ákaflega trúaður maður, kristinn, og er það honum mikið hjartans mál.

Hann hefur vakið athygli fyrir útlit sitt, sem er allsérstakt.

Hann hefur leikið á móti Clint Eastwood.

Hann hóf ferilinn í sjónvarpi upp úr 1960, en hefur lítið leikið síðustu ár vegna veikinda.

Hver er kallinn?

Þessi var nú skítlétt...

Vil benda á að skyldumæting er á Dubliner í kvöld, sem og annað kvöld, hvar við í Swiss munum rokka úr okkur miltað. Góðir gestir væntanlegir og velkomnir í hvívetna.

Skoðið svo niðurlag þessarar bloggfærzlu hjá einhverjum manni, mér ókunnugum. Síðasta málsgreinin er fyndin.

Wednesday, January 03, 2007

Áramótaheit

Nú sé komið að áramótaheitunum mínum. Hendi þeim hérna inn til að lesendur geti tekið til óspilltra málanna við að núa mér því um nasir ef (þegar) þau klikka.

Í alls engri sérstakri röð eru áramótaheitin þessi:

Drekka minna, reykja minna, éta minna og þá hollari mat, hreyfa mig meira, þ.e.a.s. eitthvað, æfa mig meira á gítarinn og reyna að drullast til að taka eitthvað af lögunum mínum upp svo fólk geti heyrt hvað ég er fokkings æðislegur.

Drekka minna-parturinn er þegar kominn í gang eftir að ég varð mér til skammar á síðasta fylleríi. Og því þarsíðasta. Tók alveg Stranglers á því. Hef ekki drukkið áfengi á þessu ári (fyndið að segja frá þessu eins og megaafreki á þriðja degi ársins 007), ekki reykt og meira að segja étið salat - og það sem meira er, fannst það bara svolítið gott. Ameríkan stæl-salat með beikoni og kjúklingi reyndar, en salat samt.

Svo er pælingin að jafnvel, ef maður sé í stuði, kaupa strigaskó og fara út að hlaupa. Koma blóðinu á hreyfingu og hressast. Í megnustu bjartsýnisköstunum, þegar maður missir algerlega sjónar á raunveruleikanum, sér maður fyrir sér einhvers konar líkamsrækt. Best er þó að reyna að halda löppunum á jörðinni og missa sig ekki.

Ef vel gengur verður kannski útúrhress Ingvar sem byrjar árið 008. Hver veit?

Skoðið svo þetta til að komast í gott skap.

Monday, January 01, 2007

Skaupið...

var fargings æðislegt.

Öfgahægriskaupið er líka fínt.