Thursday, January 25, 2007

Kalifornía, partur 1

Best að skipta ferðasögunni í tvo kafla, hún er eflaust löng.

Eníhjú, við Haukur frændi lögðum af stað til fyrirheitna landsins sl. þriðjudag klukkan rétt rúmlega hádegi. Gunnar, verðandi biskup landsins, skutlaði oss á völlinn, hvar ég keypti íslenskt brennivín, og svo fórum við upp í flugvél. Flugum til Boston með Icelandair, en þar var stoppað. Eftir það sem virtist vera endalaus bið vegna bilunar (flapsa VANTAÐI á vélina sem átti að fljúga með okkur og því sátum við hálftímunum saman á vellinum) var flogið með gamalli Lufthansa-hakkavél í eigu Air Satan til Las Vegas. Þar áttum við pantað flug með vél sem var löngu farin, sökum þeirra tafa sem verið höfðu. Því var okkur komið fyrir á hóteli og græddum við því tvo bíltúra gegnum Las Vegas. Sáum öll helstu spilavítin og Las Vegas Strip og ég fjárfesti í CSI-bolum á flugvellinum fyrir allt of mikið af peningum. Nú, svo var flogið með einhverri DC-3 prótótýpu til Los Angeles. Þangað mættum við alltof seint, ósofnir, grautfúlir og samt í stuði.
Nú, við tékkuðum okkur inn á hótelið og kíktum upp í ráðstefnuhöll hvar NAMM-sýningin var að fara í gang. Þá sá ég Sammy Hagar á labbinu. Sýningarsvæðið sjálft var á stærð við hálfa tylft amerískra fótboltavalla og gestir og sýningaraðilar voru eitthvað um áttatíu þúsund, ef marka má einhvern aldurhniginn starfsmann á svæðinu. Svolítið yfirþyrmandi, en bara gaman.
Nú, svo tóku við almenn skyldustörf, fundir og fikt. Skoðaðar nýjustu græjur frá hinum ýmsu vörumerkjum, bæði þeim sem við flytjum inn og svo einnig græjur frá þeim sem samkeppnisaðilar vorir hérlendis flytja inn. Nokkrir hlutir, utan þeirra sem minnst er á í fyrri færzlu, eru vel þess virði að minnast á. Hér eru nokkrir;

Boss Fender Deluxe Reverb amp fetill. Roland og Fender hafa í sameiningu búið til fetil sem hermir eftir þessum magnara, sem frægur er fyrir frábært reverb. Hljómar alveg hreint býsna vel. Heyrði líka, þó ekki jafn mikið eða vel, í Bassman-fetlinum frá Boss. Virkar alveg á mig. Líklegt að allavega annar þessara fetla endi í töskunni minni þegar þetta kemur á almennan markað ívor.

Sá, skoðaði og fiktaði í fullt af Washburn-gíturum. Þessi, þrátt fyrir að vera gamall og með Floyd Rose, fer í safnið mitt á árinu. Besti gítar í heimi að spila á. Reyndar var fullt á þssum bás sem heillaði mig, eins og Parker-gítararnir, sem nú eru bæði kassa og rafmagns, sem og er hann Parker kominn með línu af bössum. Gaman að því. Svo var Joe Satriani að kynna nýjan Peavey-magnara, pínkulítinn lampakút. John Taylor kom svo daginn eftir að kynna nýja bassann sinn, sem hann hannaði sjálfur. Hann er kominn með rafgítar í stíl líka, en ég náði hvorugan að prófa. Náði hinsvegar að taka í spaðann á kallinum og hann bað að heilsa þér. Þó var mesta stuðið á Peavey-básnum þegar feðgarnir úr American Chopper komu á svæðið og settu nýja Peavey-mótorhjólið í gang. Það var mesti hávaðinn á svæðinu, svona alveg spauglaust.

Á Ernie Ball-básnum var fjör og strafsmenn kompanísins klæddir sem rokkstjörnur frá ýmsum tímum. Þar mátti sjá glimmer-rokkara í seventís-stíl, Madonnu, metalmenn og bítil svona meðal annars. Þar mátti líka sjá nýju Family reserve-línuna frá þeim, örugglega geðveikislega dýrt ef verð er eitthvað í samræmi við gæði. Nýjir wah-wah-fetlar gripu einnig athyglina, feykifallegir. Prófaði þá reyndar ekkert, enda af nógu að taka á svæðinu. Steve Morse, Steve Lukather, Albert Lee og hvaðhannafturheitir úr Mr. Big héngu líka þarna daginn út og inn, gefandi eiginhandaráritanir og spjallandi við gesti og gangandi.

Korg voru einnig með ný upptökutæki og synta sem heilluðu mjög, Matchless-magnararnir þóttu mér sexý, Zemaitis-gítararnir voru flestum öðrum fegurri (enda kosta þeir tvær og hálfa fokkings milljón!), TC-effektarnir hljómuðu ákaflega fallega og reyndar var svo margt þarna sem mig langaði að eignast að ég held að Donald Trump hefði ekki efni á því öllu.

Svo var jú svolítið skemmtilegt að sjá og heyra Stevie Wonder leika og syngja á Yamaha-básnum. Hann sat bara einn við píanóið og var í fíling. Ég veifaði í hann, en hann sá mig ekki. Ekki var neitt sérlega leiðinlegt heldur þegar Marco Mendoza, sem hefur leikið með smápoppurum eins og Ted Nugent, Thin Lizzy, Whitesnake og fleirum, steig á stokk ásamt félögum í M-Audio partýi. Þéttara band hef ég bara hreinlega ekki heyrt, punktur - og var ég þó í Smack! Svo drap það mann heldur ekki úr leiðindum að fara út að éta með nokkrum starfsmönnum Hljóðfærahússins, þrátt fyrir að maturinn á svæðinu væri óætur með öllu. Staðurinn hét Alcatraz - myndi maður éta á veitingahúsi sem héti Litla-Hraun?

Læt þetta duga í bili, meira seinna.

14 Comments:

Blogger Villi said...

Vei vei L.A.! Svaka stuð Ameríku.

3:11 AM  
Anonymous elzti vinur þinn said...

Ég hefði nú frekar viljað sjá Sammy Hagar á Trans Am heldur en labbandi...

-j

8:43 AM  
Anonymous þórey Inga said...

Gaman að það sé stuð í bæ!!!!
Stevie alltaf hress...verst að hann skyldi ekki sjá þig!!!

8:49 AM  
Blogger Gauti said...

ekki ættlarru að fá þér nýjann Nuno-Washburn . . það er nóg til af þeim notuðum til sölu á klink af því þetta þykir ekki cool lengur . . Extreme voru alveg cool í 5min '92 . . mér finnst gítarinn samt töff.

2:58 PM  
Anonymous þórey Inga said...

PS. ætla að fylgjast með American Chopper....

3:29 PM  
Anonymous Pétur Örn said...

Nú verð ég límdur við Discovery til að sjá hvort þér bregði fyrir hjá Hakkara-feðgum.

3:32 PM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Mér bregður ekki fyrir í Peavey-þættinum, allavega efast um það. Var í hundrað metra fjarlægð - hundrað metrar af gargandi gítarmögnurum, gjallandi symbölum, þrumandi trommusettum, blásandi bössum og kynningum á hljóðkerfum - en ég heyrði samt ROSALEGAN hávaða gegnum það allt. Mesti hjólahávaði í gervallri veröldinni - og þótt víðar væri leitað!

Gauti - Núnóinn er nú framleiddur með krókódílaskinnsáferð og fullt af pikköppasamsetningum. Á eftir að ákveða hvaða týpu ég fæ.

5:46 PM  
Blogger Gauti said...

ok . . töff . . ef þú færð þér með krókódílaskinnsáferð þá færðu þér skó í stíl . . nema þú eigir þá fyrir :)

6:19 PM  
Anonymous Pétur Örn said...

Krókódílamaðurinn Ingvar.

9:07 PM  
Anonymous Anonymous said...

Er minn bara kominn með bloggræpu?! Gott hjá þér að vinka Stevie, þótt það hafi reyndar verið gert áður...

Eitthvað hefurðu nú ruglast í landafræðinni þó, enda heitir fyrirheitna landið Utah en ekki Kalifornía. Vel við hæfi að Air Satan fljúgi til Las Vegas, enda er sá staður helvíti.

Bíð spenntur eftir framhaldinu.

Il Doctore

PS. Hver er þessi Stefán Hnjúkaþeyr?

11:23 PM  
Anonymous þórey Inga said...

Þú ert nú svo hávaxinn Ingvar og mikið myndarmenni að þú munt örugglega skína í gegnum fjöldann og bregða fyrir!!!

11:28 AM  
Blogger Gauti said...

Il Doctore . . Ef að með Stefán Hnjúkaþeyr meinarru Steve Lukather þá er það gítarleikarinn í Toto

6:31 PM  
Anonymous Kiddi said...

Mr. Big gaurinn heitir Paul Gilbert

4:09 PM  
Blogger Ingvar Valgeirsson said...

Jú, einmitt, Paul Gilbert. Hann er örugglega tveir metrar á hæð. Búinn að klippa sig stutt og var með skegg - leit út eins og landafræðikennari í gagnfræðaskóla.

4:57 PM  

Post a Comment

<< Home